„Þetta kom okkur og auðvitað Arnaldi skemmtilega á óvart,“ segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins.
Nýr metsölulisti Eymundsson var kynntur í vikunni en þar vakti athygli að Arnaldur Indriðason situr í efsta sætinu í tveimur flokkum. Annars vegar á aðallistanum og yfir íslenskar bækur en hins vegar á lista yfir landkynningarbækur. Íslenskir aðdáendur Arnaldar kaupa nú nýjustu bókina, Petsamo, í gríð og erg en erlendir ferðamenn virðast afar spenntir fyrir bókinni Reykjavíkurnætur, sem flokkuð er með handbókum ýmiss konar.
„Ég held satt að segja að þetta hafi ekki sést áður á metsölulista svona skömmu fyrir jól, að sami höfundur sé í fyrsta sæti bæði aðallistans og svo í fyrsta sæti yfir landkynningarbækur. Það er ljóst að það eru ekki bara Íslendingar sem ætla að lesa Arnald yfir jólin, erlendir ferðamenn virðast hafa áttað sig á þessu og kaupa núna Reykjavíkurnætur á ensku í bílförmum,“ segir Egill Örn.
KOMMIK KON verður haldið í fyrsta sinn í Reykjavík á laugardag milli 14 og 18 á Hlemmi Square. Þar bjóða nokkrir af helstu myndasöguhöfundum landsins fram bækur sínar og árituð prent. Inn á milli verða höfundarnir teknir tali um verk þeirra.
Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir
„Við ætlum að hafa þetta létt og skemmtilegt,“ segir Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir, talsmaður hópsins, sem stendur að viðburðinum. „Möguleikarnir eru að aukast í þessu og höfundarnir eru með betri tækifæri til að gefa sín verk út sjálfir. Þetta er allt að verða auðveldara. Áhugi á myndasögum er að aukast og margir hæfileikaríkir teiknarar að koma fram. Umhverfið styrkist hægt og þétt, til dæmis er komin til teiknideild í Myndlistarskólanum í Reykjavík og svo hefur vinnustaður eins og CCP, sem er með marga teiknara á sínum snærum, líka áhrif.
Hugmyndin er að byrja smátt og hver veit nema eftir nokkur ár verði komin upp risastór KOMMIK KON ráðstefna í Reykjavík,“ segir Þórey Mjallhvít.
Fréttatíminn fékk að skoða myndir frá nokkrum höfundanna.
Andri Kjartan Andersen – „Draumóri“
„Tvískipt tilvist; Það eina sem getur slökkt eldana hennar Skaða, er róandi geðslag Alfjeders.“
Lóa Hjálmtýsdóttir
„Ég valdi þessa myndasögu því hún lýsir lífi mínu mjög nákvæmlega. Mér finnst svo fyndið hvað ég er miklu verra foreldri en ég ætlaði mér.“
Bjarni Hinriksson – „Hvað mælti Óðinn?“
„Í myndasögunni mætast jötunninn Vafþrúðnir og Óðinn í spurningaleik upp á líf og dauða. Á þessari síðu vildi ég undirbúa dauðann í lok sögunnar með endurtekningu ramma, einföldun lita og sterkri nærveru hvítra flata.“
Sunna Sigurðardóttir – „Saga“
„Úr algerlega textalausri bók. Í raun er ekki hægt að misskilja frásögnina því hver og einn skilur þráðinn út frá sjálfum sér. Ég vil skoða þær miklu víddir sem myndasögur hafa upp á að bjóða. Þroska, húmor, drama, einlægni; sögur ætlaðar jafn mismunandi markhópum og skáldsögur almennt. Það eru engar reglur, þetta er bara enn eitt listformið sem nota má til tjáningar.“
Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir – „Ormhildarsaga“
„Stundum er gott að líta á skrímsli úr fjarlægð og velta fyrir sér hvort þau séu ekki bara svoldið sæt.“
Hugleikur Dagsson – „Vélpáfi gegn skýhákörlum“
„Ég teiknaði einu sinni tólf bardaga fyrir dagatal. Fyrir hverja mynd reyndi ég að finna andstæðinga sem ég hafði ekki hugsað áður. Vélpáfinn er ágætur en ég er gífurlega stoltur af skýhákörlunum.“
Sandra Rós Björnsdóttir fékk heiðurinn að gera kynningarmynd KOMMIK KON 2016.
„Ég vildi gera mynd sem var innblásin af myndasögum án þess að vera of bókstafleg. Svo mér datt í hug að gera eitthvað aðeins meira „surréal“. Það var gaman að prófa eitthvað nýtt.“
Söngkonan, leikkonan, hönnuðurinn og flugfreyjan Jana hefur haft í nógu að snúast undanfarin misseri enda kann hún best við sig með mörg járn í eldinum – stundum jafnvel aðeins of mörg. Að jafnaði þýtur hún um háloftin með ferðaglöðum Íslendingum og áhugasömum túristum. Sumarfríinu eyddi hún ein í Buenos Aires og hún nýtur sín vel í erilsömum stórborgum þar sem sköpunargleðin og erillinn umlykur allt. En kyrrðina og friðinn finnur hún við bakka Langár á Mýrum. Þar er hennar staður. „Afi minn byggði bústað þar og ég er alin upp við að fara þangað öll sumur. Flestallt fólkið mitt á ættir að rekja á Mýrarnar, Valbjarnarvelli, Rauðamel og vestur á firði. Í litla kotinu á Mýrunum finn ég hleðsluna sem ég þarfnast stundum eftir mikið flakk og álag. Þegar ég fer þangað með vini mína hafa þeir haft á orði að þeir kynnist svolítið annarri hlið á mér – röggsömu, yfirveguðu sveitakonunni í tímalausum og notalegum heimi þar sem ég er öllum hnútum kunnug. Upptökustjórinn minn fór með mér þangað um daginn og sagði við mig að í stúdíóinu ætti ég að vera meira eins og ég er í sveitinni.
Upptökur á minni eigin tónlist og textum er mjög nýtt fyrir mér. Ég var aldrei á neinu hljómsveitarbrölti á yngri árum og mér fannst ég hreinlega ekki eiga erindi í stúdíó þegar ég hóf að taka upp EP plötuna. Upptökurnar voru ekki alltaf auðveldar því ég þurfti að kveða niður þennan ótta við að mistakast og að takast á við hið óþekkta – nokkuð sem ég finn hvergi í sveitinni. Tónlistin er því áskorun fyrir mig sjálfa og æfing í að vera sú sem ég er, sátt í eigin skinni og sátt við það sem ég skapa hverju sinni. En ég finn alltaf fyrir þessari miklu sköpunarþörf og í kotinu okkar á Mýrunum kviknaði hugmyndin að Hrútasmiðjunni okkar mömmu. Við bjuggum til litla fígúru úr birkinu sem féll til í nágrenninu og eftir fjölmargar skondnar tilraunatýpur var kominn fram á sjónarsviðið skapmikill hrútur úr birki og ull sem Kraum tók í sölu. Nú eru liðin fjögur ár frá stofnun Birch & Wool sem selur níu gerðir af hrútum, sem allir bera nöfn úr íslensku hrútaskránni, á 12 stöðum um allt land og áhuginn erlendis frá verður sífellt meiri.“
„Það gerðist eitthvað þegar ég fór að syngja orðin sem ég hafði skrifað við hljómana sem ég hafði sett saman,“ segir Jana María Guðmundsdóttir.
Poppaður sópran
Snemma varð öllum í kringum hana ljóst að hefðbundin rútínuvinna ætti ekki fyrir henna að liggja. Jana var feiminn krakki en notaði tímann til þess að drekka í sig alla tónlist sem hún heyrði, hvort sem var á plötum foreldra hennar, heima hjá afa og ömmu eða í útvarpinu þar sem hún tók tónlist upp á spólur og greindi niður í öreindir langt fram eftir nóttu.
„Það var samt ekki fyrr en á unglingsárunum þegar ég sá pabba spila tónlist og syngja inni í stofu að ég fór að taka eftir löngun hjá mér til þess að koma fram. Ég stefndi alltaf á að gera eitthvað skapandi þó svo að ég vissi ekki endilega á hvaða sviði það myndi vera. Mig langaði að verða listmálari eða arkitekt en fór svo í klassískt söngnám 16 ára og leiklistarnám 25 ára. Söngurinn og leikhúsið fer vel saman en í söngnum togast svolítið á tveir pólar, sá klassíski og poppaði. Ég upplifði vissulega að það skapaði ákveðna togstreitu að vera með hjartað á báðum stöðum og í söngheiminum er svolítil áhersla á að vera „annaðhvort“. Mér finnst að þú eigir ekki að þurfa að velja. Röddin mín er eins og hún er í dag vegna klassísku menntunarinnar minnar þó svo að ég kjósi að finna minni tónlistarsköpun farveg á öðrum vettvangi en þeim klassíska. Það var heilmikið átak að koma plötunni minni í heiminn sem fólst kannski einna helst í undirbúningsvinnunni hjá sjálfri mér. Undanfarin ár hef ég lagt mikla orku í að rækta sjálfa mig og það er ekki síst afrakstur þess sem gerir það að verkum að Master of Light lítur dagsins ljós núna. Lengi vel fannst mér ég ekki geta látið hluti eins og þetta gerast nema með því að fá viðurkenningu annarra, gráðu úr skóla eða einhvern rétt til að framkvæma. Óttinn við mistök getur líka haft svo ótrúlega hamlandi áhrif, ekki bara í sköpuninni heldur lífinu öllu. Í þessu öllu er ég búin að vinna og er tilbúin að leyfa öðrum að heyra afraksturinn. Það gerðist eitthvað þegar ég fór að syngja orðin sem ég hafði skrifað við hljómana sem ég hafði sett saman. Það jafnast ekkert á við þessa tilfinningu. Hún er alveg grjótmögnuð.“
Aldrei of seint að byrja á einhverju nýju
Til að fylla upp í takmarkaðan frítímann ákvað Jana að hefja nám í ítölsku við Háskóla Íslands. Þá ákvörðun tók hún í kjölfar þess að hafa heillast af Toscana-héraði og fengið að kynnast því eins og heimamaður. „Ítalskan hjálpar mér bæði í fluginu og klassíska söngnum fyrir utan það hvað þetta er gullfallegt tungumál svo það þarf í rauninni enga aðra ástæðu til að læra það! Það er mikill styrkur fólginn í því að læra eitthvað nýtt en það sem þú leggur í námið er það sem þú færð út úr því. Að sætta sig við að gera mistök, læra af þeim og átta sig á því að hlutir taka tíma. Oft fara þeir líka öðruvísi en maður sá fyrir. En það er aldrei of seint að byrja á einhverju nýju sem gleður mann og þroskar. Í vor ætla ég að gefa út LP plötu og fylgja henni eftir á meðan ég held áfram að æfa mig í hlutverki tónlistarkonu og lagahöfundar. Leikhúsið og kvikmyndirnar heilla mig líka alltaf og ég er með ótal hugmyndir og plön í kollinum. En við byrjum á þessu, sjáum hvert það leiðir,“ segir hún.
„Umbra er miðalda bílskúrsband sem vill helst færa gamla tónlist úr myrki fortíðar og inn í ljósið,“ segir Lilja Dögg Gunnarsdóttir söngkona. Lilja myndar ásamt tónlistarkonum Alexöndru Kjeld, Arngerði Maríu Árnadóttur og Guðbjörgu Hlín Guðmundsdóttur þessa forvitnilegu litlu hljómsveit. Arngerður leikur á keltneska hörpu og orgel, Alexandra á kontrabassa og Guðbjörg á barokkfiðlu. Allar syngja þær síðan þegar svo ber undir en Lilja tekur aðallega að sér sönginn auk þess sem hún leikur á slagverk.
Þær stöllur í Umbru byrjuðu að spila tónlist saman fyrir tveimur árum. „Við Guðbjörg vorum saman í meistaranámi í Listaháskóla Íslands sem að heitir Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf. Þar náðum við vel saman og uppgötvuðum að við deildum áhuga á því að vinna með gamla tónlist og færa hana til nútímans. Við fengum svo hinar tvær til liðs við okkur sem voru á nákvæmlega á sömu slóðum, þannig að þetta smellpassaði. Ætli við leggjum ekki stund á það sem kallast á ensku „medieval revival“ og mætti kalla endurlífgun á tónlistararfi miðalda. Þessu skeytum við síðan saman við nýrri tónlist sem getur gengið upp í okkar hljóðheimi.“
Lilja Dögg segir að það grúska og finna gamla tónlist sé góð skemmtun sem meðlimir Umbru deili. „Það er annað sem sameinar okkur, við höfum gaman af því að finna eitthvað nýtt en erum jafnframt óhræddar að gera tónlistina að okkar eigin. Við útsetjum þannig mikið sjálfar og síðan er spuninn líka mikilvægur. Við syngjum í röddum og þá er sungið frá hljóðfærunum. Þetta gerir flutninginn líflegri. Lykilatriðið er að við erum algjörlega óhræddar við að prófa eitthvað nýtt. “
Hljómsveitin Umbra veit hvað hún vill: Eigin blöndu af gamalli og nýrri tónlist. Hér eru þær meðlimir Umbru ásamt gestum sínum á jólatónleikunum. Á myndinni eru Þórdís Gerður Jónsdóttir, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir, Lilja Dögg Gunnarsdóttir, Kristófer Rodriguez Svönuson, Arngerður María Árnadóttir og Alexandra Kjeld. Myndir/Hari.
Ljós og skuggi
Umbra þýðir skuggi og Lilja Dögg segir að sú staðreynd hafi kannski litað eilítið fyrstu verkefni sveitarinnar. „Okkur finnst gaman að vinna út frá ákveðnu „konsepti“ og þannig höfum við sett saman tónleika sem hafa fjallað til dæmis um dauðann og uppgjör mannsins við lífið og fortíðina.“
Nú snúa Umbru konur sér að jólunum sem auðvitað eru hátíð á ljósaskilum. Þær fá góða gesti til liðs við sig á tónleikunum sem haldnir verða í Laugarneskirkju. Þórdís Gerður Jónsdóttir sellóleikari og Kristófer Rodriguez Svönuson slagverksleikari koma til liðs við sveitina. Á tónleikum verða flutt bæði bæði sjaldheyrð og velþekkt jólalög frá miðöldum og lög eftir tónskáldin Báru Grímsdóttur og Hreiðar Inga hljóma ásamt gömlum íslenskum jólalögum. „Jafnframt eru þarna lög sem teygja sig aftur í heiðni en hafa síðan verið kristnuð. Það eru oft lög sem tengjast árstímanum, vetrinum og stöðu himintunglanna um þetta leyti árs.“
En æfir miðalda-bílskúrsbandið Umbra í bílskúr? „Reyndar ekki í augnablikinu,“ segir Lilja Dögg og hlær. „Við æfum inn í stofu eins og er, en það stendur allt til bóta. Ég er að gera upp bílskúrinn minn og þá flytjum við æfingarnar þangað inn. Þá verðum við alvöru bílskúrsband með öðruvísi tónlist.“
Jólatónleikar Umbru og félaga eru í Laugarneskirkju á sunnudag, kl. 20.
Hvern dreymir ekki um fullkomna veröld þar sem einstaklingar fá að njóta sín í sátt og samlyndi? Þessi iðja, að hugsa sér hliðarveröld þar sem allt er eins og það á að vera, er yfirleitt kennd við útópíu, einhvers konar draumaland eða staðleysu þar sem allt er rétt.
Stundum notum við orðið líka í niðrandi eða kaldhæðinni merkingu, einhver er þannig ásakaður um að vera fullur af „útópískum hugmyndum“ og byggi þannig loftkastala í huga sér sem í mannlegu samfélagi eru dæmdir til að falla.
Útópía er hugtak sem Sir Tómas More (1478-1535) smíðaði í samnefndri bók en það merkir bæði „besti staður“ og staðleysa. Bókin kom út á latínu árið 1516 og átti eftir að hafa mikil áhrif á hugmyndasögu Vesturlanda.
„Bækur þurfa ekki endilega að vera þykkar og stórar til að hafa mikil áhrif,“ segir Viðar Pálsson, lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands, sem ritar inngang að útgáfunni en það er Eiríkur Gauti Kristjánsson sem þýddi verkið úr latínu. „Áhrif Útópíu hafa vitanlega verið langvarandi þegar kemur að þeirri tegund bókmennta sem hún hefur skapað, en útópískar bókmenntir, kvikmyndir og hugverk eru auðvitað út um allt. Auk þess hefur fæðst af þessu dystópísk sýn á heiminn, það er að segja hvernig menn gera sér í hugarlund heim eins og hann á alls ekki að vera.“
Margslungið rit
Viðar segir Útópíu Tómasar More vera margt í senn. „Þetta er auðvitað skáldverk og bæði ádeilu- og háðsrit um samtíma höfundarins. Í fimm aldir hafa menn dundað sér við að túlka þetta verk og túlkað það allt frá því að það sé sérvitringsleg gamansemi íhaldsams manns og yfir í að bókin sé einhvers konar upplegg að kommúnískri byltingu með afnámi eignaréttar og svo framvegis. Þarna er því hægt að finna margt.
Fljótlega fóru menn að gera tilraunir til að draga upp kort af Útópíu Tómasar More, þessari upprunalegu staðleysu sem kveikt hefur margar slíkar á þeim fimm öldum sem liðnar eru frá útkomu bókarinnar.
Hins vegar segir More aldrei í bókinni að sín Útópía, sem hann lýsir af nokkurri nákvæmni, sé fullkomið samfélag eða eitthvað sem henti löndum Evrópu. Hann færir þetta land sitt út á tilbúna eyju í Atlantshafi og það er þessi aðferð, eða hugarleikfimi, sem opnar fyrir ólíka túlkunarmöguleika á bókinni og hefur ýtt undir það hve áhrifamikil hún hefur verið. Útópía er utan við alla evrópska sögu, arfleifð og hefðir og þannig getur More talað frjálslega um það samfélag en ætlast síðan til að lesendur dragi sína lærdóma af því og máti við sinn veruleika.“
Dramatískt líf Tómasar
Tómas More lifði svo sannarlega stormasama tíma í Englandi Hinriks áttunda. Siðaskiptin sköpuðu titring í Evrópu allri. Hjúskaparmál enska konungsins voru líka snúin og lögðu grunn að því að England sagði skilið við Rómarkirkjuna.
Þegar Útópía kom út var More þingmaður á enska þinginu og starfandi lögfræðingur í London. Síðar meir reis hann til æðstu metorða við hirð Hinriks. Hann fékk alltaf valdameiri embætti og varð fyrir rest æðsti ráðgjafi konungs í veraldlegum og trúarlegum efnum.
Málverk Hans Holbein af Tómasi More sem í dag er, samkvæmt kaþólsku kirkjunni, verndardýrlingur stjórnmálamanna. Ekki veitir þeim af einum slíkum.
Að lokum fór að syrta í álinn enda var More ósáttur bæði við hjúskaparbrölt og valdagræði konungsins í trúarlegum efnum og það hvernig konungur sagði skilið við páfann í Róm. Á endanum var hann dæmdur fyrir drottinssvik og pyntaður með ægilegum aðferðum og fyrir rest gerður höfðinu styttri. Lýsingin af þeim atburðum er meira en lítið dramatísk en á höggstokknum sagðist More deyja sem „hollur þjónn hans hátignar en Guðs fremsti.“ Þetta þýddi að More taldi konung hafa farið langt fram úr sér í deilum við páfavaldið í Róm. Með þessari óhlýðni við konung uppskar More síðar að vera gerður að dýrlingi en þó ekki fyrr en árið 1935. Árið 2000 lýsti Jóhannes Páll páfi því yfir að Tómas Moore væri „himneskur verndari stjórnmálamanna.“
Landið góða
Þið sjáið því að engum gefst færi á að sóa tíma sínum til einskis og engin afsökun gefst fyrir iðjuleysi. Í Útópíu eru engar ölkrár eða vínstofur eða vændishús, ekkert tækifæri til spillingar, ekkert skálkaskjól eða leynifundastaður. Hvaðeina fer fram fyrir allra augum þannig að allir sinna sínu starfi eða njóta frístunda sinna á siðsamlegan hátt. Þessar venjur leiða óhjákvæmilega til þess að nóg er til af öllum lífsins gæðum. Og fyrst þau rata jafnt til allra, kemur ekki á óvart að enginn lendi á vonarvöl.
Í Útópíu er Útópus hershöfðingi sagður hafa stofnað þetta samfélag á fjarlægri eyju utan hins þekkta heims. Bókin var vitanlega skrifuð á tímum mikilla uppgötvana og landafunda og það litaði frásögnina. Aðal sögumaður bókarinnar, Rafael Hyþlódíus, er þannig skipsmaður á skipi landkönnuðarins Amerigo Vespucci og kemst þannig á þessa uppskálduðu eyju Útópíu. „Heimurinn var breytast og ekki bara á landakortinu heldur líka í hugum fólks,“ segir Viðar Pálsson. „Ný lönd og ný vitneskja knúðu evrópska menntamenn til að líta í eigin barm. Hefðir, uppbygging valdsins og aðrir þættir samfélagsins voru skoðaðir með nýjum og gagnrýnum hætti.“
Lýsingar á Útópíu og lífinu þar eru nákvæmar og margt forvitnilegt í þeim. Stærð eyjunnar er gefin upp og á henni er að finna 54 borgir sem hver skiptist í fjóra parta. Sex þúsund heimili eru í hverri borg en þar búa tíu til sextán fullorðnir einstaklingar.
Engar einkaeignir er að finna á Útópíu og heimili eru ólæst. Gæðum er deilt út til fólks úr sameiginlegum vöruhúsum. Landbúnaður er aðalstarf íbúanna en auk þess lærir hver og einn einhverja ákveðna iðngrein. Allir vinna og ganga til þeirra verka í áþekkum fatnaði. Velferðarkerfi er til staðar með ókeypis sjúkrahúsum og líknarmorð er leyft með samþykki yfirvalda.
Margt í lýsingunni tekur líka að af heimsmynd og hefðum ritunartímans, til dæmis er þrælahald á eyjunni og hvert heimili er með tvo þræla sem ýmist koma frá nærliggjandi löndum eða hafa gerst uppvísir um glæp.
„Samfélagssýnin sem Tómas More setur fram í Útópíu rímar að miklu leyti við hugmyndir manna á þeim tíma um frumkristið samfélag,“ segir Viðar Pálsson. „Miðstýring Rómarkirkjunnar var sums staðar litin hornauga og stéttskipting í Evrópu líka. Margir veltu því fyrir sér hvort meinlætalíf væri ekki í betri samhljómi við frumkristnina sem menn vildu endurlífga í hreinni mynd. Þetta vakir fyrir Tómasi með því að fella niður stéttskiptingu á Útópíu, leggja áherslu á að allir vinni jafnt og uppskeri. Þeir sem leiða samfélagið, að svo miklu leyti sem það er gert, veljast til þess vegna sinna persónulegu einkenna og hæfileika. Þeir einstaklingar eru skynsamir, rökvísir og dyggðum prýddir. Ætterni og hefðir hjálpa mönnum ekki.
Ég efast um að þetta sé draumaríki nokkurs manns. Þetta er einsleitt samfélag og einhvers konar staðalmynd, en það hefur samt knúið áfram svona hugarleikfimi í gegnum aldirnar fimm sem liðnar eru frá útkomu bókarinnar.“
Samfélagið sameiginlegt verkefni
„Tómas More lét sér ekki nægja að tyggja upp möntru heimspekinga á miðöldum um að allt sem þyrfti til að byggja upp samfélag væri dyggðugur valdhafi og réttlát stjórnskipan, heldur hafði hann aðrar og meiri hugmyndir um hlutverk mannsins,“ segir Viðar Pálsson. „Í Oxford komst hann ungur í kynni við róttæka hugmyndastrauma húmanismans sunnan úr Evrópu þar sem talið var að maðurinn væri í eðli sínu rökvís og skynsamur eða gæti að minnsta kosti verið það. Menn hefðu því skyldur til að rækta þá eiginleika sína og móta samfélagið. Þetta skín í gegn í Útópíu þegar More veltir því fyrir sér hvernig er hægt að byggja samfélög upp frá grunni með skynsemi, dyggðum og rökvísi.
Tómas More lagði áherslu á gagnrýna hugsun og hann gerir þá kröfu til lesenda sinna í Útópíu. Það er mikið svigrúm fyrir túlkun og þarna er ekkert brytjað niður í lesandann heldur verður lesandinn að tyggja og melta þetta sjálfur. Þetta gerir það að verkum að fimm alda túlkunarsaga verksins er mjög litrík.
Í Útópíu er rík áhersla á borgaralega köllun. Þeim sem mennta sig ber siðferðisleg skylda til að taka þátt í opinberri umræðu og vera virkir þátttakendur í stjórnmálum. Bókin fjallar þannig að stórum hluta um þessa skyldu og hvernig menntamenn verða að beita sér fyrir bættum heimi og gagnvart valdinu í samfélaginu. Menntunin hefur þannig samfélagslegu hlutverki að gegna. Vísindi, fræði og stjórnmál eiga að ganga í eina sæng. Þetta má telja aðalboðskap ritsins,“ segir Viðar Pálsson.
Það var í Tower of London sem Hinrik áttundi stakk Tómasi More þegar sá síðarnefndi vildi ekki styðja konunginn í deilum við páfann í Róm. Höfuðið var síðan höggvið af honum, soðið og stjaksett á Lundúnabrú. Búkur Tómasar er grafinn í ómerktri gröf í kapellu í kastalanum, en sagan segir að Margrét, dóttir Tómasar, hefði bjargað höfðinu frá því að vera fleygt í Thames og að það hvíli í hennar gröf.
Hlín Agnarsdóttir múltíkúnstner
Raddir úr húsi loftskeytamanns eftir Steinunni Helgadóttur: Uppgötvun ársins, nýr og nær óþekktur höfundur stígur fram með áhrifamikla og geysivel skrifaða skáldsögu. Sagan samanstendur af sjálfstæðum köflum og persónum sem allar tengjast innbyrðis. Virðist fyrirhafnarlítið verk á yfirborðinu en undir býr djúp hlustun og skynjun höfundar á mannlífinu.
Takk fyrir að láta mig vita eftir Friðgeir Einarsson: Smásagnasafn og fyrsta bók höfundar sem hefur getið sér gott orð sem sviðslistamaður og er einn af höfundunum í leikhópnum Kriðpleir. Friðgeir er launfyndinn maður sem fer ekki mikið fyrir en kann virkilega að horfa á mannlífið og skoða smáatriðin sem stundum verða svo stór.
Heiða – fjalldalabóndinn eftir Steinunni Sigurðardóttur: Höfundur bregður sér í hlutverk hins skapandi blaðamanns og þefar uppi stórmerkilega konu sem er einhleypur bóndi á Ljótarstöðum í Skaftártungu. Rödd Heiðu er einstök og tungutakið eins og þversnið af íslensku gegnum aldirnar og ekki er barátta hennar fyrir landi og náttúru síðri.
Langbylgja eftir Gyrði Elíasson: Þetta smáprósasafn hlakka ég verulega til að lesa. Ég hef orðið æ hrifnari af Gyrði eftir því sem ég hef lesið meira eftir hann og þar eru bækur eins og Sandárbókin og Suðurglugginn í miklu uppáhaldi. Rödd hans og stíll ná að hreyfa við hugsun og tilfinningum lesandans með einstökum hætti.
Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur: Hlakka til að lesa þessa nýju bók Auðar Övu en ég hef lesið flestar bækur hennar áður. Efni bókarinnar virðist tala beint inn í þá tíma sem við lifum og laskað heimsástandið. Hvernig getum við fundið tilgang og merkingu í stríðshrjáðum heimi og nýtt þekkingu okkar í þágu þeirra sem þurfa á henni að halda?
Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur
Sofðu ást mín, eftir Andra Snæ. Hún er einlæg, dimm og björt og fjallar um stóra og litla heiminn, Ísland og kynslóðina sem eldist. Þetta eru smásögur í samfelldu samhengi. Persónuleg bók og Andri skoðar nærheiminn meir en áður. Ég gef þessari bók fimmtíu lóuegg.
Svo eru afbragðs ljóðajól. Ljóð muna rödd eftir Sigurð Pálsson. Hún er yljandi og sönn, yfirfull af einstökum myndum og sækir á hugann lengi eftir lestur. Bókin er langt og djúpt ferðalag í kjarnann. Það er mikil jarðtenging í ljóðunum, en líka hátt flug eins og Sigurði er einum lagið.
Nýjasta ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur, Skin, stendur svo sannarlega undir væntingum. Hún er fáguð og nákvæm og skilaboðin tær í víða samhenginu. Mér finnst alltaf tilhlökkunarefni þegar Guðrún sendir frá sér ljóðabók. Hún á mikilvægt erindi við lesandann. Ljóðið læðist oftast hljóðlega í jólafárinu, en finnur sína.
Kött Grá Pé og Perurnar í íbúðinni minni. Hann er óvæntur, djúpur, bjartur og myrkur. Ég heyrði upplestur úr bókinni á dögunum. Aldeilis magnaður texti sem hreyfir við manni. Nýstárleg og fersk rödd í fjölbreyttum ljóðakórnum.
Elsku Drauma mín eftir Vigdísi Grímsdóttur. Saga Sigríðar Halldórsdóttur Laxness. Þarna hræra spennandi manneskjur saman í potti. Vigdís hefur sterka og listræna sögumannsrödd og Sigríður er sjálf mikill sagnameistari. Mér finnst báðar þessar konur hafa erindi sem mig langar að heyra og velta fyrir mér yfir konfektkassa.
Bjarni Harðarson, bókaútgefandi og bóksali í Bókakaffinu á Selfossi
Bókin Sá sem flýr undan dýri eftir Jón Daníelsson á að vera skyldulesning allra sem fylgjast með þjóðfélagsmálum á Íslandi. Bókin dregur hin svokölluðu Geirfinnsmál saman og jafnframt fram að íslenskt réttarkerfi stenst illa skoðun. Þegar saman eru borin dómskjöl og upplýsingar um hluti eins og færð og veður þá daga sem meintir glæpir eiga að hafa átt sér stað hrynur málið allt eins og spilaborg.
Um miðja 20. öld kom út bókin Saga smábýlis eftir Hákon á Borgum við Hornafjörð. Nú hafa afkomendur Hákonar endurútgefið þetta merka rit ásamt öðrum skrifum afans á Borgum sem legið höfðu í handritum. Merk lesning og þörf því hugsjón Hákonar um fegurð og hamingju í hinu smáa á alltaf erindi, sérstaklega við Íslendinga.
Land míns föður eftir Wibke Bruhns er afar forvitnileg nálgun á 20. aldar sögu Evrópu þar sem við kynnumst stríðsrekstri Þjóðverja frá sjónarhorni þeirra sjálfra, sögu þeirra og arfleifð. Höfundurinn er dóttir SS foringja sem gerði ásamt fleiri uppreisn gegn Hitler og var tekinn af lífi 1944.
Af íslenskum skáldsögum sem við í Bókaútgáfunni Sæmundi erum ekki að gefa út verð ég að nefna Fórnarleika eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur. Álfrún er einn af okkar snjöllustu höfundum og leikur sér lipurlega að því í þessari bók að segja sögu harms og fórna.
Önnur skáldsaga sem hreif mig er bók Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Skegg Raspútíns. Ég er yfirleitt ekki mjög ginnkeyptur fyrir sjálfsævisögulegum skáldsögum en hér tekst höfundi mjög vel að segja sögu sem tengist hennar eigin ævi og eigin upplifunum án þess að týnast í smásmugulegum naflaskoðunum. Skemmtilega skrifaður texti og athyglisverðar pælingar um fjölmenningarsamfélag í mínum gamla fæðingarbæ, Hveragerði.
Páll Baldvin Baldvinsson, blaðamaður og rithöfundur
Viðar Hreinsson, Jón lærði og náttúrur náttúrunnar. Feit og mikil ævi og aldarfarssaga unnin með tilstyrk margra sjóða. Eitt glæsilegasta bókverk ársins og gefið út af fallega fólkinu í Lesstofunni.
Tvær nýjar bækur Gyrðis Elíassonar skálds frá Dimmu eru möst. Langbylgja – smáprósar og Síðasta vegabréfið – ljóð. Hann er eini maðurinn sem réttlætanlegt er að safna nú um stundir. Hann er allra átta og allra tíma.
Hafbókin eftir Morten Ströksnes hinn norska. Hákerlingin eða hákarlinn eins og við köllum hann oftast í seinni tíð fær flotta bók um sig í glæsilegri þýðingu, sannkölluð hákarlalega á miðum sem við eigum nú aldeilis að þekkja eftir áttæringa okkar feðra og mæðra fyrir austan, vestan og norðan.
Nú vandast valið: Geirmundargeim eða Látra-Björg Hermanns? Hugsa ég halli mér bara að nýrri ljóðabók Guðrúnar frænku minnar Hannesdóttur: Skin.
Anna Gyða Sigurgísladóttir, útvarpskona á RÚV
Af ljóði ertu komin eftir Steinunni Sigurðardóttur. Uppáhalds ljóð mitt í bókinni byrjar á setningunum: „Af því að ekkert gerist um leið og það gerist, er lífið samsett úr andartökum sem við missum af“. Tilfinningaþrungnar heimspekilegar hugleiðingar Steinunnar eru eitthvað sem heillar mig ávallt í skrifum hennar. Ljóðin fjalla einhvern veginn alltaf um eitthvað miklu stærra og miklu meira en hana sjálfa – eins konar heimspekileg lögmál tilfinninganna.
Líkhamur eftir Vilborgu Bjarkadóttur. Örsögur eru form sem heillar mig mjög. Ég las þetta örsagnasafn fyrir stuttu og hugsa enn um það. Í nokkrum setningum skoðar höfundur hvernig líkaminn mótar skynjanir okkar, tilfinningar og minningar. Sögurnar ná að draga fram mynd af aðstæðum sem við könnumst við, tilfinningum sem við öll þekkjum og gott er að láta minna sig á.
Útsýnið úr fílabeinsturninum eftir Hrafn Jónsson.: Pistlasafn Hrafns Jónssonar. Samfélagsleg ádeila hans, satíran, er mannleg, viðkvæm og tengjanleg. Ég hef nú lesið fyrstu fimm og hlegið upphátt í hverjum einasta. Þetta er bók sem ég hef ákveðið að klára ekki í einum rykk en eiga þess í stað, eins lengi og mögulegt er, pistil inni til að minna mig á oft og tíðum fáránleikann í háalvarlegum og dramatískum kringumstæðum og stjórnmálaaðstæðum okkar Íslendinga.
Að heiman eftir Arngunni Árnadóttur. Ég hef aðeins heyrt góða hluti af þessu verki og því ákveðið að veita því alla mína athygli í jólafríinu. Ég veit í raun ekkert við hverju má búast en lýsingin „einstök kynslóðarsaga frá Íslandi ferðamennsku og eftirhruns“ gerir mig spennta.
Uppljómanir & Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud í þýðingu Sigurðar Pálssonar og Sölva Björns Sigurðssonar. Ég hef enn ekki kynnt mér ljóðlist Rimbauds en verið dolfallin af dullarfullu lífi hans sem tók því miður enda of fljótt. En ég er spennt að byrja Rimbaud tímabilið á helstu ljóðaverkum hans í þýðingu Sigurðar Pálssonar og Sölva Björns Sigurðssonar.
Ingi Björn Guðnason, bókmenntafræðingur og verkefnisstjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða
Hvítsvíta eftir Athena Farrokhzad (þýð. Eiríkur Örn Norðdahl). Magnaður ljóðabálkur sem talar beint inn til okkar tíma um leið og hann hefur sögulega dýpt og landfræðilega breidd. Bókverkið sjálft, hvítt letur á svörtum bakgrunni, skapar sérstaka lestarreynslu. Allt of lítið er gefið út af Norrænum samtímabókmenntum á Íslandi en hér er komin mikilvæg bók sem á erindi við okkur.
Blómið – saga um glæp eftir Sölva Björn Sigurðsson. Áhugaverð fjölskyldusaga með vísindaskáldskaparívafi. Sölva tekst að spinna saman á áreynslulausan hátt raunsæislegum þráðum fjölskyldusögunnar og fantastískum þráðum vísindaskáldskapar. Atvikið sem undirtitillinn vísar til drífur svo lesturinn áfram og gerir söguna spennandi.
Að heiman eftir Arngunni Árnadóttur. Ég er mjög spenntur fyrir þessari fyrstu skáldsögu Arngunnar Árnadóttur. Í fyrstu bók sinni Unglingum sýndi hún frábær tök á snörpum stíl smáprósa eða prósaljóðs. Það er því tilhlökkunarefni að lesa þessa nýju bók sem er gefin út af kröftugu grasrótarforlagi.
Fórnarleikar eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur. Ný bók eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur er alltaf stórviðburður í íslenskum bókmenntum. Álfrún er einfaldlega einn allra fremsti höfundur okkar og hefur einstök tök á bæði formi og stíl. Þessi bók verður geymd fram á aðfangadagskvöld.
Jón lærði og náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson. Þetta stórvirki, sem gefið er út af litlu grasrótarforlagi, hlýtur að sæta tíðindum. Ég hlakka til að kynnast Jóni lærða betur í gegnum verkið. Það sem gerir bókina mest spennandi er að fá betri innsýn í samtíma Jóns og heimsmynd hans, sérstaklega samband mannsins við náttúruna sem titillinn vísar til. Þetta síðastnefnda held ég að eigi fullt erindi við okkar tíma.
Eiríkur Guðmundsson, rithöfundur og útvarpsmaður
Uppljómanir & Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud í íslenskri þýðingu Sigurðar Pálssonar og Sölva Björns Sigurðssonar. Þessi verk eru mikilvæg. Stafróf vestrænnar nútímaljóðlistar. Að þau skuli birtast á íslensku nú með jafn fínum hætti, ómetanlegt.
Ismail Kadare: Hershöfðingi dauða hersins, í íslenskri þýðingu Hrafns E. Jónssonar. Stríðum er ekki lokið þótt þeim ljúki. Þeim lýkur aldrei. Þessi bók fjallar um það. Blautar grafir í Albaníu eiga hér stefnumót við tannlæknaskýrslur og drykkfelldan hershöfðingja sem bugast. Kadare loksins kominn á íslensku, reyndar 25 ára gömul þýðing sem ekki fékkst útgefin fyrr, það segir nokkuð um íslenskt bókmenntalíf almennt.
Steinunn Sigurðardóttir: Af ljóði ertu komin. Ný bók, og þá meina ég ný. Inniheldur besta ljóð ársins og þótt víðar væri leitað, og óstöðvandi gufuskipið Sorg leysir hér festar. Mjög vel heppnað.
Sjón: CoDex 1962. Þrjú verk í einu bindi. Verk sem þessi merki höfundur ætlaði sér áreiðanlega alltaf að skrifa. Sköpunarsaga, upprunasaga, og beitt ádeila á tilveru okkar í nýju lýðveldi, skrifuð með aðferðum skáldskaparins frá öllum tímum.
Þorsteinn frá Hamri: Núna. Og samt / er svo margt fallegt. / Þar á meðal / þessi orð. / Og þú / að segja þau.
„Ég held að maður þurfi að læra það sem maður hefur ástríðu fyrir. Það eru mikil forréttindi að geta farið í það nám sem mig langar í,“ segir Björg Brjánsdóttir, þverflautunemi í Tónlistarháskóla Noregs. Á Íslandi geta nemendur ekki sótt listnám á háskólastigi án þess að greiða skólagjöld. Björg hefur tekið framfærslulán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, LÍN, í sjö annir og ræðir framtíðarhorfur þverflautuleikara á Íslandi.
Fjárveitingar til háskólanema hafa mikið verið í deiglunni undanfarna mánuði. Frumvarp sem menntamálaráðherra lagði fram um breytingar á styrktar- og námslánakerfi LÍN fyrr á þessu ári, hlaut misjafnan hljómgrunn. Nemendur Listaháskóla Íslands bentu á að tillögur um nýtt kerfi kæmi sérstaklega niður á þeim nemendum sem þurfa að greiða skólagjöld eða læra erlendis.
Björg hefur búið í Noregi frá árinu 2012 en þar þurfa listnemar ekki að greiða skólagjöld. „Það var ákveðið áfall að flytja út og sjá þær aðstæður sem samnemendur mínir búa við. Námsmenn þar fá fastar greiðslur frá ríkinu mánaðarlega og mun betri lánakjör en íslenskir námsmenn. Ég held ég skuldi í kringum fimm milljónir. Það er erfitt að segja til um framtíð mína á vinnumarkaðnum. Ég gæti fengið fasta stöðu við flutning eða sem kennari eða kannski verð ég í verktakavinnu,“ útskýrir Björg.
Björg segist fá hroll við tilhugsunina um afborganir af námslánunum í framtíðinni enda séu kjörin ólík því sem norsk bekkjasystkini hennar sjái fram á. „Mín upplifun er að tónlistanám og list almennt sé metin hærra í samfélaginu á Norðurlöndunum. Mér finnst viðhorfið úti vera að list þurfi ekki alltaf að standa undir sér fjárhagslega. Þar er samfélagið vissulega stærra og meira úrval af styrkjum fyrir listamenn. Þar eru tækifæri tónlistarfólks fleiri en hér.“ Björg sér framtíðina fyrir sér á Íslandi. „Ég vil búa hér en það verður að koma í ljós hvort ég geti unnið sem þverflautuleikari.“
Ég hitti Guðjón á heimili hans til að ræða bókina og spegla stöðu jafnaðarmanna í dag við söguna.
Heill og sæll og innilega til hamingju með bókina. Þetta er ansi vegleg bók, tæplega 600 síður í stóru broti. Ef þú ættir að draga þessa sögu saman, um hvað fjallar saga Alþýðuflokksins?
„Takk fyrir það, þessi saga hefst í þeirri gríðarlegu breytingu sem á sér stað í upphafi síðustu aldar. Þá allt í einu hefst hér iðnvæðing og það verða gríðarlegar breytingar þegar samfélagið er að breytast úr frekar einsleitu bændasamfélagi yfir í bæjar- og borgarsamfélag.
Hingað streymir fólk á mölina til að vinna verkamannavinnu og sjómennsku á skútum og togurum. Svo gerist það í fyrri heimsstyrjöldinni að það verður gríðarleg verðbólga en kaupið lækkar á sama tíma enda var nóg framboð af vinnuafli. Við þessar aðstæður verður til gríðarlega stór hópur af fólki sem var í raun réttindalaus og búa margir við sárustu neyð. Það ríkir mikill húsnæðisvandi og fólk neyðist til að hírast í kjallaraholum, skúrum og hanabjálkum.
Menn fóru þá að sjá að það varð að gera eitthvað í þessu og að alþýðan yrði að beita sér á hinum pólitíska vettvangi. Það eru reyndar menntamenn sem beita sér að vissu leyti að stofnun flokksins. Jónas frá Hriflu, sem segja má að sé faðir íslenska flokkakerfisins, hafði sterka sýn á að flokkakerfið hér á landi ætti að vera eins og í öðrum löndum og skrifar hann grein þar sem hann lýsir því hvernig kerfið ætti að vera uppbyggt. Hann taldi að það ætti að vera einn flokkur atvinnurekenda og efnamanna, svo átti að vera flokkur alþýðunnar á mölinni, það er að segja flokkur sjómanna og verkamanna. Þriðji flokkurinn átti svo að vera flokkur alþýðumanna í sveitum. Jónas vindur sér í að setja þessa sýn í framkvæmd og á í raun mikinn þátt í stofnun Alþýðuflokksins árið 1916 og svo Framsóknarflokksins sama ár. Þetta er auðvitað fyrirmynd frá útlöndum en það höfðu margir Íslendingar kynnt sér fyrirkomulag sósíaldemókrataflokka á Norðurlöndunum en þar voru þeir orðnir sterkir og rótgrónir árið 1916.“
Klofnaði fimm sinnum
„Saga Alþýðuflokksins er síðan ofboðsleg átakasaga og má segja að oft hafi verið mikið hatur á milli fylkinga í flokknum sem klofnaði fimm sinnum alvarlega. Fyrst voru kommúnistarnir innan borðs en þeir mynduðu vinstri andstöðu í flokknum en síðan er Kommúnistaflokkur Íslands stofnaður árið 1930 og þá klofnar Alþýðuflokkurinn í fyrsta sinn.
Síðan gerist það að Kommúnistarnir verða ansi öflugir og verkalýðshreyfingin verður á kreppuárunum mjög hlynnt þeim. Einn af leiðtogum Alþýðuflokksins, verkalýðsforinginn Héðinn Valdimarsson, vildi sameina þessa flokka aftur og þar er talað um að mynda Samfylkingu. Héðinn var mjög ósáttur við það að Alþýðuflokksmenn vildu ekki sameiningu sem verður til þess að árið 1938 gengur hann úr flokknum með hópi fólks sem sameinast Kommunum og það er stofnaður Sósíalistaflokkurinn – Sameiningarflokkur alþýðu.
Þriðji klofningurinn kemur í kjölfarið á deilum um samstarf við Sjálfstæðisflokkinn en Alþýðuflokkurinn starfaði með Sjálfstæðisflokknum í Þjóðstjórninni 1939 og svo aftur eftir stríð. Það mynduðust í raun tvær fylkingar í flokkum, Reykvískir og hafnfirskir kratar á móti landsbyggðinni. Á landsbyggðinni vildu flestir ekkert samneyti við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta endar með því að árið 1952 er Stefáni Jóhanni Stefánssyni, sem var formaður flokksins, velt og Ísfirðingurinn Hannibal Valdimarsson kosinn formaður. Þetta verða alveg ofboðsleg átök og þeir sætta sig ekki við þetta Stefán og félagar svo Hannibal er velt aftur tveimur árum seinna, það er einfaldlega safnað liði. Þetta verður svo til þess Hannibal gengur til samstarfs við Sósíalistaflokkinn og stofnað er Alþýðubandalagið.
Fjórði klofningurinn er svo árið 1983 þegar Vilmundur Gylfason stofnar Bandalag jafnaðarmanna og sá fimmti var svo þegar Jóhanna Sigurðardóttir stofnar Þjóðvaka 1995.
Alþýðuflokkurinn gekk líka í gegnum miklar hugmyndafræðilegar breytingar og var það í anda sósíaldemókrataflokka annars staðar því upprunalega var þetta þjóðnýtingar flokkur og marxískur í hugsun. Það eru svo sænskir kratar sem fara að breyta þessu og telja að það geti alveg samrýmst stefnu jafnaðarmanna að einkaframtak sé við hliðina á opinberum rekstri. Á stríðsárunum er Marxisminn eiginlega tekinn út og menn fara leggja áherslu á blandað hagkerfi. Hugmyndafræðin fer þá eiginlega að verða meiri siðferðislegur boðskapur, að kratarnir eigi að sjá um að velferðarkerfið sé í lagi og að gæta hagsmuna almennings í samlífi með einkaframtakinu.
En það breyttist þó ekki að flokkar eins og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur voru með hagsmuni framleiðenda, bænda og sjávarútvegsins í forgrunni en Alþýðuflokkurinn gætti hagsmuna almennings. Það var alltaf meginhugmyndafræði Alþýðuflokksins að sjá til þess að hérna væri allt í lagi með almannatryggingakerfið og félagslega þjónustu hverskyns.“
Rofin tenging við verkafólk Ég má til með að spyrja þig hvenær eða hvernig það gerðist að flokkur jafnaðarmanna missti þessa sterku tengingu við verkafólk? En eins og kannanir sína þá eru helstu stuðningsmenn Samfylkingarinnar háskólamenntað fólk á miðjum aldri.
„Já, það er alveg rétt. Samfélagið hefur náttúrulega breyst svo gífurlega mikið. Það er komin hérna gríðarlega stór og vel menntuð millistétt og hópar ófaglærðs fólks er orðinn miklu fámennari. Mér finnst í raun Samfylkingin að mörgu leyti bara vera flokkur menntafólks. Það er mjög lítil og kannski enginn tenging við verkalýðshreyfinguna. Það má nú reyndar segja að kannski er verkalýðshreyfingunni líka stjórnað af menntafólki en ekki þeim sem eiga þar mest heima. Þannig að það er bara liðin tíð að hér sé sérstakur flokkur verkamanna og sjómanna í raun og veru.“
Er einhver tímapuktur í sögunni sem þetta breyttist eða breytist þetta hægt og rólega með samfélaginu?
„Kannski á nú Alþýðuflokkurinn mikinn þátt í þessari breytingu af því að á dögum Viðreisnarstjórnarinnar, þegar Alþýðuflokkurinn var í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, þá beitti Gylfi Þ. Gíslason, þáverandi formaður, sér fyrir gjörbreytingu á skólakerfinu. Gylfi beitti sér fyrir því að fjölga framhaldsskólum og að greiða fyrir því að sem flestir gætu farið í nám. Háskóli Íslands var stórefldur sem og Lánasjóður íslenskra námsmanna sem varð til þess að miklu fleiri gátu farið til útlanda og lært í erlendum háskólum. Það verður í raun bara menntabylting sem er ekki síst Alþýðuflokknum að þakka.“
Má þá í raun segja að Alþýðuflokkurinn geri þær breytingar á samfélaginu að hann verði óþarfur?
„Já, já, það má í raun segja það að vissu leyti. Og hann má bara vera ánægður með það. En Gylfi var líka mikill listunnandi, hann efldi allt listnám og t.d. var hann mikill áhugamaður um tónlist og á hans vegum eru sett lög 1963 um tónlistarskóla sem verða til þess að það spretta upp tónlistarskólar út um allt land. Hann lætur líka stofna kennaradeildir við Tónlistarskólann í Reykjavík til að útskrifa tónlistarkennara en þetta má segja að sé grunnur að allri þeirri grósku sem er í íslensku tónlistarlífi í dag.“
Myndir þú segja að þessi tími hafi verið mesta blómaskeið Alþýðuflokksins?
„Já, það má alveg segja það enda var Viðreisnarstjórnin mjög merkileg þó að hún hafi auðvitað verið með Sjálfstæðisflokknum. Ég myndi nú líka segja að það væri kannski Stjórn hinna vinnandi stétta sem var blómaskeið og beitti hún sér fyrir mjög mörgu en hún er við völd 1934-1937. Viðreisnarstjórnin stóð samt svo lengi að það var hægt að koma mörgu í verk. Þá kom til dæmis samkomulagið um uppbyggingu Breiðholtsins. Svo má líka segja að þriðja blómatíð Alþýðuflokksins sé 1987-1991 eða lengur jafnvel. Þá er Jón Baldvin orðinn formaður og Jón Sigurðsson líka kominn þarna inn en þeir eiginlega móta mjög mikið nýja efnahagsstefnu hér á landi, það kemur frá Alþýðuflokknum mjög mikið. Þeir eru þarna auðvitað fyrst í stjórn með Framsókn og Sjálfstæðisflokki sem síðan springur eftir eitt ár og þá kemur Alþýðubandalagið inn. Þá var farið í að losa um gjaldeyrishöft og afnema einokun á fiskútflutningi og fleira en þetta er meira og minna allt komið frá Alþýðuflokknum. Svo er auðvitað EES samningurinn sem er mjög stór hluti af þessu líka, að opna fyrir frjáls viðskipti.“
Guðjón Friðriksson og Guðmundur Ari Sigurjónsson
Jafnaðarstefna í mörgum flokkum En hvernig er það með þá stöðu sem er uppi í dag hjá okkur krötunum, á þessi staða sér hliðstæðu í sögunni?
„Nei, það er í raun ekki hægt að finna beint hliðstæðu en það væri þá helst eftir síðasta kjörtímabil Viðreisnarstjórinnar því þá kemur hér mikið atvinnuleysi og kreppa og Alþýðuflokkurinn fer mjög illa frá því en hann var verkamannaflokkurinn í þeirri stjórn. Í kosningunum 1971 fer hann alveg niður í tæplega 10% atkvæða. Svo heldur það áfram 1974, þá fer hann niður í 9,1% en það er það lægsta sem hann fór í. Síðan kemur Vilmundar bylgjan upp úr því en þá endurnýjast flokkurinn alveg og allir þessir gömlu kallar eru settir út. Það er mjög mikið lægðartímabil fyrir flokkinn en hann fór nú samt aldrei jafn langt niður og Samfylkingin fór núna.“
Hvað telur þú að valdi þessu? Á jafnaðarstefnan ekki jafn mikið erindi við íslenskt samfélag í dag?
„Ég held nú að jafnaðarstefnan lifi góðu lífi í mörgum flokkum í dag. Ég held að þessir nýju flokkar séu meira og minna mótaðir af jafnaðarstefnunni, svona eins og Píratar og hinir. Þetta eru í raun jafnaðarflokkar bara með öðrum formerkjum en áður eða mér finnst það allavega dálítið þannig. Og Vinstri græn eru náttúrulega jafnaðarmannaflokkur í raun og veru þó það séu líka öflug íhaldsöfl í flokknum.
Jafnaðarstefnan á auðvitað fullt erindi í dag þar sem bilið á milli auðmanna og alls þorra almennings er alltaf að stækka. Það þarf að jafna kjörin með tilteknum aðgerðum og maður sér það bara úti í heimi með menn eins og Bernie Sanders sem að kemur fram sem sósíalisti í Bandaríkjunum og fær rífandi fylgi. Það er sama þróun í Bretlandi með Jermey Corbyn, hann er mjög róttækur og ég held að það veiti ekki af svona til þess að jafna kjör manna og lyfta fólki. Þó það sé almenn velmegun hér á landi þá eru stórir hópar af fólki sem eiga bara mjög bágt og það er í raun til skammar að við skulum ekki sinna betur ýmsum hópum sem hafa það mjög slæmt.
Þetta þarf að gera með afdráttarlausum hætti en ekki einhverju klóri. Mér fannst það einmitt vera raunin í kosningabaráttunni hjá Samfylkingunni núna, það var bara eitthvert klór. Það þarf náttúrulega dálítið öfluga menn til að koma þessu fram af því leiðtogar eru ekki fæddir á hverju strái, menn sem geta náð með málflutningi til almennings.
Það er til dæmis hægt að nefna þegar Vilmundur Gylfason kemur fram eins og stormsveipur, hann hafði verið mikið að stjórna sjónvarpsþáttum og hann taldi að þetta samfélag væri gjörspillt, væri í raun alveg gegnsósa af spillingu. Alls konar hagsmunaárekstrar og pot sem hann setti sér bara eins og riddari að berjast gegn, alveg hreint af fullum krafti. Samt var hann með alls konar hugmyndir sem voru alveg á skjön við Alþýðuflokkinn í raun og veru. Hann taldi t.d. að verkalýðshreyfingin væri mjög spillt og vildi ekki hafa neitt samneyti við hana. Þetta skynjaði fólk að væri rétt hjá honum og hann sló í gegn þannig. Hann var líka með nægan sjarma til þess að ná í gegn. Svo það eru oft öflugir einstaklingar með sjarma og hugsjónir sem ná að laða fylgi til flokka.“
Ég þakka Guðjóni kærlega fyrir áhugavert spjall. Og hvet alla til að næla sér í eintak af bókinni. Saga Alþýðuflokksins er þróunarsaga íslensks samfélags á tuttugustu öldinni. Við jafnaðarmenn vonum svo að fram stígi öflugur leiðtogi til að leiða flokk jafnaðarmanna áfram. Kannski er það nýi formaðurinn.
Guðmundur Ari Sigurjónsson ritstjorn@frettatiminn.is
Disney kvikmyndafyrirtækið hefur tilkynnt um framhaldsmynd um Mary Poppins en gamla myndin, sem skartaði Julie Andrews í aðalhlutverkinu, kom út árið 1964.
Nýja myndin, sem verður frumsýnd á jóladag árið 2018, á víst að gerast 20 árum á eftir þeirri fyrri og börnin í Banks fjölskyldunni verða því orðin fullorðin.
Með Mary Poppins verður jafnvel skorsteinahreinsun leikur einn.
Bresku leikkonunni Emily Blunt er nú ætlað að sjarmera heiminn en hún mun fara með hlutverk barnapíunnar. Meryl Streep fær hlutverk og sjálfur Dick Van Dyke, sem lék nánasta vin frökenar Poppins um árið, mun víst fara með lítið hlutverk í myndinni. Hann er 91 árs í dag, geri aðrir betur.
Þá er bara spurning hvort nýja myndin um Poppins verði supercalifragilisticexpialidocious. Hver veit?
„Katalónskar fjölskyldur fagna jólunum annaðhvort með jólasveininum eða cagatíó, sem er gömul katalónsk hefð. Og svo eiga næstum allir einn lítinn caganér, eða kúkakarl,“ segir Xavier Rodriguéz, lögfræðingur og fararstjóri sem hefur búið hér á landi í tólf ár en heldur fast í gömlu jólahefðirnar.
Eitt vinsælasta jólaskraut Katalóníu er tengt hægðum, en það er lítil fígúra sem kallast el caganer, eða kúkakarlinn. Hefðbundinn kúkakarl er í katalónskum þjóðbúningi og situr á hækjum sér og gengur örna sinna við Betlehem-jötuna sem flestir skreyta heimili sín með.
Klassískur kúkakall. Í Katalóníu eru heimilin skreytt með Betlehem-uppstillingu eins og kaþólskra er siður. En þar er líka að finna litla fígúru við hlið Jesúbarnsins, Maríu, Jóseps og vitringanna sem ekki er að finna í öðrum löndum. Litla fígúran, sem situr á hækjum sér í þjóðbúningi og gengur örna sinna í guðsgrænni náttúrunni, kallast El caganer, eða kúkakarlinn
„Þessi hefð á rætur sínar að rekja til sautjándu aldar og snýst að einhverju leyti um að draga niður heilagleika Maríu, Jóseps, Jesúbarnsins og vitringanna, gera þau raunsærri,“ segir Xavier.
„Kirkjan var nú ekkert sérstaklega hrifin af þessari hefð til að byrja með en svona er lífið, allir þurfa að pissa og kúka, og hefðin hefur haldist. Flestir eiga einn kúkakall á sínu heimili og sumir safna þeim því á hverju ári eru gerðar nýjar fígúrur, oft einhverjar stjörnur, fótboltamenn eða pólitíkusar. Kúkamyndlíkingingin er mjög katalónsk og sést á mörgum stöðum, enda táknar hún ekkert nema hringrás lífsins,“ segir Xavier.
„Katalónar eru heldur alls ekkert feimnir við að tala um kúk og það er jafnvel gert við matarborðið. Það er talað um að þú þurfir að borða mikið til að kúka vel og það er til málsháttur eftir Joseph Pla, eitt helsta skáld Katalóna, sem segir: „Come mucho y caga fuerte y los angeles de darán suerte,“ eða: Borðaðu vel og kúkaðu eins og í keppni, þá munu englarnir færa þér heppni.“
Á hverju ári eru gerðar nýjar útgáfur El cagener, eða kúkakallinum, sem vísa í stjörnur ársins. Hér sjást páfinn, Hillary Clinton, Obama og Trump á hækjum sér en Trump er langvinsælasti kúkakarlinn í ár.
Önnur klassísk katalónsk jólahefð er að klæða trjádrumb upp með jólahúfu og teppi.
„Cagatío, sem væri hægt að þýða á íslensku sem „kúkafrændi“, er trjádrumbur sem er klæddur upp og látinn standa inni á heimilinu í desember. Börnin á heimilinu gefa drumbnum svo vatn að drekka og eitthvað smá að borða alla daga til jóla og á sumum metnaðarfullum heimilum fer drumburinn stækkandi, en hann hélt nú bara sinni stærð á mínu heimili.
Cagatíó. Í Katalóníu er það Cagatíó, uppdressaður trjádrumbur, sem færir börnunum gjafirnar en ekki jólasveinninn, þó jólasveinninn hafi þó tekið hans sess á sumum heimilum. Cagatíó kúkar gjöfum og nammi eftir að hafa verið laminn með priki.
En málið er semsagt að börnin þurfa að hugsa vel um cagatíó svo hann kúki nammi og gjöfum á aðfangadag,“ segir Xavier en á aðfangadag fá börnin tréprik sem þau lemja drumbinn með á meðan þau syngja lagið um cagatíó. Foreldrarnir senda börnin svo inn í öll herbergi hússins að syngja lög og á meðan börnin sjá ekki til lauma foreldrarnir nammi og gjöfum undir teppið sem hylur aftari hluta drumbsins. Þegar börnin eru svo búin að lemja drumbinn rækilega þá er teppið dregið í burtu og þá kúkar hann loks gjöfunum.
Cagatíó, eða kúkafrændi, kemur inn á heimilin í byrjun desember og börnin gefa honum mat og vatn svo hann geti kúkað gjöfum og nammi á aðfangadag.
Það eru engin jól án þess að jólaplötunni hans Stevie Wonder sé snúið nokkrum sinnum. Fátt er betra til að koma manni í rétta gírinn.
Ella Fitzgerald – Ella wishes you a swinging Christmas.
Það er ekki á allra færi að setja „swing“ í jólin og teygja og lengja snyrtilega í nótunum. Í þessum efnum getur Ella, drottning djasssöngsins, gert betur en aðrir.
Sufijan Stevens – Songs for Christmas.
Íslandsvinurinn geðþekki frá Michgan býður okkur hér að raula með í mörgum þekktum jólalögum. Syngjum saman um jólin.
Sigurður Guðmundsson – Nú stendur mikið til.
Einhver best heppnaða íslenska jólaplata síðari ára. Alveg rétti tóninn, vel útsett og flutt.
Carpenters – Christmas Collection.
Karen Carpenter getur dimmu í dagsljós breytt. Þegar hún syngur um sleðabjöllurnar verða jólin rómó. Hljómurinn er líka hæfilega hallærislegur.
Frank Sinatra – A jolly Christmas from Frank Sinatra.
Eðal amerísk jólaplata. Jólin höfðu mikil áhrif á feril Franks þegar hann var að byrja um miðjan fimmta áratuginn og áttu þátt í að gera hann að súperstjörnu, skiljanlega.
Eddukórinn – Jól yfir borg og bæ.
Þessi plata er löngu orðin klassík. Hver vill ekki smá lummóheit um jólin?
Vince Guaraldi – A Charlie Brown Christmas.
Kalli Bjarna er svo sannarlega djassgeggjari og Vince Guaraldi gerir stemninguna þægilega.
Bob Dylan – Christmas in the Heart.
Það eiga ekki allir Nóbelsverðlaunahafar jólaplötu í safninu. Hér er herra Zimmerman með grófa sandpappírinn í hálsinum og Dylan áhugamenn elska að rífast um plötuna.
Svanhildur Jakobsdóttir – Jólin jólin.
Þessi brosmilda og glaðlega dægurlagadrottning kann svo sannarlega að syngja mann í jólaskap. Takk fyrir það.
Destiny’s Child – 8 Days of Christmas.
Meðan allt lék í lyndi gerðu Beyoncé og stöllur hennar í Destiny’s Child atlögu að því að hrista aðeins upp í jólunum. Árangurinn var ágætur.
Elly og Vilhjálmur syngja jólalög.
Þessi tvö eiga alltaf við, ekki síst um jólin. Elly og Villi eru jólasystkin Íslands, án nokkurs vafa.
A Christmas Gift For You From Phil Spector
Óheillakrákan og glæpamaðurinn Phil Spector var eitt sinn stórkostlegur upptökustjóri. Þessi frábæra jólaplata hans er meðal þess sem mun gera hann eilífan. The Ronettes, The Crystals og fleiri listamenn hljóma frábærlega í hinum fræga „vegghljómi“ Spectors.
Elvis Presley – Elvis’ Christmas Album
Kóngurinn er alltaf við hæfi og hann er nauðsynlegur um jól. Þarf maður að nefna fleira en „Blue Christmas“?
Beach Boys – The Beach Boys’ Christmas Album.
Við minnumst allra þeirra sem halda jólin í steikjandi hita og sól, verði þeim að því. Þá er best að setja Beach Boys á fóninn og sveifla sér í lendunum.
Brunaliðið – Með eld í hjarta.
Það er mikilvægt að fara varlega með eld yfir hátíðirnar. Ef illa fer má alltaf hringja í Brunaliðið. Það reddar þessu.
She & Him – A very She & Him Christmas.
Zooey Deschanel og M. Ward blanda hér í aldeilis dásamlegan jólakokteil. Þetta er platan til að setja réttu stemninguna og skapa fyrirtaks hippsterajól.
Í hátíðarskapi
Þessi safnplata er perla og síðan er umslagið svo hrikalega flott! Hvern langar ekki í svona jólapartí?
Jólaóratóría Bachs
Þegar kemur að þessu meistaraverki gefur Spotify manni tækifæri á að verja jólunum í samanburð á upptökum. Til dæmis er hægt að hlusta á fína upptöku undir stjórn hljómsveitarstjórans Nikolausar Harnoncourt.
Jólin á Íslandi árið 2016 eru haldin í friði og spekt, þó að óvissa ríki víða og barist sé í fjarlægum löndum. Aðfangadagur er laugardagur en aðföngin eru löngu komin í hús, í mörgum tilfellum eru allsnægtirnar meiri en þörf er á. Þorláksmessa er nýtt til að ná í það sem út af stendur.
Það er nóg rafmagn og rafmagnsleysi heyrir nokkurn veginn sögunni til á aðfangadag, jafnvel þó að ofnar séu kynntir í botn út um allt land fyrir veglegar jólasteikur af ýmsum sortum, innlendum og erlendum.
Jólaveislur á aðfangadag eru oftast fyrir nánustu fjölskylduna þó að stærri veislur komi líka greina. Eftir mikið kauphlaup dagana fyrir jól standa litríkir pakkar af ýmsum stærðum upp við rafmagnslýst jólatré. Það sem inn í pökkunum leynist er keypt í úttroðnum verslunum eða á netinu úr risastórum vöruhúsum.
Könnun MMR sýnir að færri og færri senda jólakort í föstu formi en þeim fjölgar eilítið sem senda rafræna útgáfu. Tölvur og snjallsímar þykja nauðsyn og nýtast til að breiða út jólaandann milli fólks og hafa samband yfir höf og land. Við vitum í hvað stefnir, bökkum því 50 ár aftur í tímann.
Jólin 1966
Það geisar kalt stríð og í Víetnam er barist á banaspjótum. Á Íslandi er kalt og snjór yfir mestöllu landinu. Tjörnin í Reykjavík er frosin á jólum en aðfangadagur jóla er laugardagur, rétt eins og núna. Á Vestfjörðum fer jólahaldið fram í rafmagnsleysi vegna ísingar á línum.
Jón Páll Björnsson og Sigurlaugur Ingólfsson eru fyrir löngu komnir í jólaskap enda hafa þeir verið að tala um jólin á árum áður við gesti Borgarsögusafns alla aðventuna. Mynd: Hari.
Jón Páll Björnsson, hjá fræðsludeild Borgarsögusafns, segir að jólin fyrir fimmtíu árum hafi verið komin nokkuð vel í þær föstu skorður sem við þekkjum nú, þó vitanlega hafi þau verið fábreyttari um margt. „Margar hefðir dagsins í dag voru komnar til sögunnar. Flestir skreyttu á Þorláksmessu og langflest heimili voru með innflutt jólatré en færri með gervitré. Kertaljós voru kveikt um jól en þau voru ekki í nærri jafn almennri notkun alla hina daga ársins og nú.
Varðandi skreytingarnar eru það helst aðventuljós og -kransar sem vantar árið 1966 miðað við daginn í dag. Þær skreytingar eru sænskættaðar, ólíkt mörgum af þeim dönsku hefðum sem við höfum tekið upp, og þær koma ekki til fyrr en um og eftir 1970.
Rétt eins og nú var svínakjöt algengt á borðum á aðfangadag og þá einkum hamborgarhryggur, en enginn kalkúnn var í boði. Hægt var að útvega sér alifugla, endur og hænur en villibráð var yfirleitt ekki sparimatur eins og nú til dags. Rjúpur voru sjaldgæfar en það var samt hægt að kaupa þær hjá SS. Meðlæti var að miklu leyti niðursoðið úr dós enda stóð íslensk niðursuða í blóma á þessum tíma. Á Þorláksmessu var skata ekki komin mikið á dagskrá í Reykjavík, hún var algengari fyrir vestan, en fólk borðaði þá gjarnan fisk.“
Árið 1966 var algengt að fólk keypti goskassa fyrir jólin, auðvitað í glerjum. „Margar fjölskyldur keyptu malt, appelsín og kók og blönduðu þessu jafnvel öllu þrennu saman. Eins voru kassar af appelsínum og eplum algengir enda tengja margir enn eplalyktina við jólin, þó að mörg okkar séu hætt að gefa þeirri lykt gaum.“
Verslanir voru harðlokaðar á jóladag og annan í jólum en nokkuð var um tónleika- og skemmtanahald. Um þetta leyti stendur unglingabyltingin sem hæst og milli jóla og nýárs halda hljómsveitir sem heita til dæmis Sfinx, Pops og Pónik og Einar dansleiki fyrir æskulýðinn á meðan Haukur Morthens og Vilhjálmur Vilhjálmsson syngja fyrir ráðsettari gesti á öðrum veitingastöðum. Annað er exótískara. „Á Hótel Loftleiðum er boðið upp á skemmtun með egypska sjónhverfingamanninum Gally Gally sem býður upp á atriði með sex lifandi kjúklingum. Ekki er tilgreint í auglýsingu hvað hann gerir við þá og í kvikmyndahúsum má sjá My fair Lady og Sigurð Fáfnisbana sem að hluta var tekin upp hér á landi.“
Stærsta nýjungin í jólahaldi margra landsmanna árið 1966 er tilkoma Sjónvarpsins sem þá hefur nýhafið göngu sína. Dagskráin á aðfangadagskvöld er hins vegar stutt. Sr. Sigurbjörn Einarsson biskup þjónar fyrir altari í guðsþjónustu klukkan 22 og síðan er boðið upp á Jólaóratoríu Bachs. „Á jóladag var síðan fyrsta jólastundin okkar í boði fyrir börnin. Hún var í umsjón Hinriks Bjarnasonar og þá var sjónvarpsdagskrá fyrir börnin upptalin.“
Árið 1966 eru jólin orðin tími nokkurs munaðar hjá þeim sem geta leyft sér slíkt. Smákökur eru bakaðar og jafnvel hægt að kaupa þær innfluttar og tilbúnar hjá Silla og Valda. „Konfekt og vindlar eru líka auglýstir og seldir en vínmenningin er fátækleg. Það er ekki sérlega algengt að vín sé drukkið með jólamat, það var einkum keypt á veitingastöðum,“ segir Jón Páll.
Í blöðum er nákvæmlega útlistað, jafnvel með teikningu, hvar íslensk skip og flugvélar eru stödd í veröldinni þegar jólin ganga í garð og Velvakandi Morgunblaðsins veltir fyrir sér jafnvæginu milli andlegra og veraldlegra gæða þegar jólin koma:
Við segjum stundum, að allt skrautið, allt góðgætið – öll hin ytri gleði skyggi á jólin. En er þetta að öllu leyti rétt? Af hverju leggja menn á sig meira en alltaf endra nær – einmitt um jólin? Nútímafólk sem vill gera sér og sínum verulega hátíðleg og gleðileg jól, notar tæki samtíðarinnar til þess að lýsa upp hýbýli sín og gera hátíðina eftirminnilega að öðru leyti, t.d. í mat og drykk. Er nokkuð eðlilegra? Þarf það endilega að sýna, að við séum rofin úr tengslum við sögu og fortíð, höfum gleymt helgisögunni og þýðingu hennar? Mundum við leggja jafnmikið á okkur ef við hefðum í rauninni gleymt þessu öllu?
Í Alþýðublaðinu segir í leiðara:
Hlutskipti Íslendinga hefur hin síðustu ár verið mjög gott, ef borið er saman við allan þorra mannkynsins. Óvíða eru lífskjör eins góð og jöfn. Óvíða er frelsi einstaklingsins eins mikið. Óvíða býr fólk við meira öryggi frá vöggu til grafar. Leit er að svo miklum gróanda í menningarlífi, sem hér er að finna.
Jólin 1916
Árið 1916 geisar heimsstyrjöld sem er byrjuð að setja mark sitt á aðflutning til Íslands sem auðvitað er fábreyttari en í dag, ekki síst þegar kemur að vörum sem sérstaklega eru ætlaðar fyrir jól. Aðfangadagur 1916 er á sunnudegi og það er áfengisbann í gildi á Íslandi, algjört bann við neyslu þess hefur verið í gildi frá upphafi árs 1915.
„Margt í matarvali kemur okkur kannski spánskt fyrir sjónir þegar við færum okkur aftar í tímann,“ segir Sigurlaugur Ingólfsson, starfsmaður Borgarsögusafns. „Árið 1916 örlar til dæmis enn á þeim gamla sið að menn slátri jólaá, eins og það var kallað. Þetta lifir kannski lengst á Vestfjörðum en líka víðar. Kjötið var soðið í spað og haft í súpu á aðfangadag. Annað kjötmeti er líka algengt á aðfangadag, kálfakjöt, saltkjöt, magálar og sperðlar. Sumir borða heitt hangikjöt á aðfangadag og kalt á jóladag. Þetta virðist manni mjög misjafnt, til dæmis ef litið er í þjóðháttasafn Þjóðminjasafnsins. Meðlætið á þessum tíma er líka farið að vera kunnuglegt, til dæmis voru hveitijafningurinn og brúnuðu kartöflunnar komnar.“
Sigurlaugur segir að hinn rómaði epla innflutningur sé hafinn 1916. „Hann kemur til undir lok 19. aldar og er frekar fyrr á ferðinni í kaupstöðum, eins og gefur að skilja. Fyrir norðan er laufabrauðið aðallega bakað en hafði verið algengara víðar um land áður. Það er því ekkert endilega norðlenskur siður þó það lifi þar lengur og jafnar en annars staðar á landinu.“
Árið 1916 voru komin upp jólatré í stofum landsins. „Þá erum við að tala um smíðuð tré sem við köllum stundum „þessi gömlu íslensku“. Þau koma fyrst í kaupstöðum svona um 1890 og dreifast síðan víðar. Menn smíða trén sjálfir og því eru útgáfurnar með ýmsum hætti. Trén voru jafnvel vafin með lyngi og sett á þau marglit og snúin kerti. Það eru líka komnar stjörnur úr pappa og álpappír, hjörtu og einnig eru hengd á trén kramarhús með kandís og rúsínum.“
Jólin kalla auðvitað á böð og spariföt og um þetta leyti eru jólaböll að færast í aukana, ekki síst í félagsheimilum sem komin eru til sögunnar víða um land. Þar er dansað í kringum jólatré en þegar jólin ganga í garð er guðsorð lesið fyrir heimilisfólkið. „Húslesturinn fór þá fram klukkan sex á aðfangadag, en hann átti síðan eftir að dofna þegar Ríkisútvarpið hóf göngu sína árið 1930. Ásamt rímum og kvöldvökum var jólahúslesturinn fórnarlamb þeirrar nýju tækni.“
Jólagjafnirnar eru komnar til sögunnar árið 1916 og jólakötturinn lifði góðu lífi í hugum fólks. „Íslensku jólasveinarnir kveikja hins vegar ekki mikinn áhuga, virðist manni, á þessum tíma. Þeir ná ekki flugi fyrr en bókin Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum kemur út árið 1932. Í byrjun aldarinnar birtir Æskan hins vegar greinar um erlenda jólasveina, skandinavíska „Nissa“ og engilsaxneska „Santa Clausa“.
Fólk er líka farið að skjóta jólakortum á milli sín en það virðist aukast eftir 1920. Í gjafir fá margir föt og sokka og bækur eru líka vinsælar. Umbúðirnar eru hins vegar ekki orðnar litríkar, gjöfum er til dæmis oft pakkað inn í maskínu- eða dagblaðapappír, ef þeim er þá pakkað inn yfir höfuð.“
Jólin 1866
Það er friðsamt í Evrópu en eyjan Ísland fær fréttir af erlendum viðburðum seint og illa. Aðfangadagur er á mánudegi.
„Kerti eru látin lýsa á jólanótt, þannig að fólk vaknar í björtu á jóladag, en síðar er þeim skipt út fyrir olíulampann,“ segir Sigurlaugur Ingólfsson. „Fyrr á aðfangadagskvöldi hefur húslesturinn auðvitað verið fluttur en maturinn er ekkert svo frábrugðin því sem hann er 50 árum síðar. Jólaærin er í öndvegi og hún er soðin í súpu. Á fátækari heimilum til sveita er víða brugðið á það ráð að veiða rjúpur, sem skýtur kannski skökku við í augum okkar í dag þegar rjúpur eru rándýrar.
Matur um jól var skammtaður til heimilismanna ýmist á aðfangadag eða jóladag. Þá var talað um svokallaðan „jólaref“. Sá skammtur átti að duga manni út jólin, fram á þrettánda. Í skammtinum var kjöt- og fiskmeti, pottbrauð og laufabrauð og viðbit, smjör og flot. Það var yfirleitt húsfreyjan sem skammtaði matinn en stundum kom það í hlut húsbóndans. Á aðfangadag fékk heimilisfólk síðan eftirrétt sem yfirleitt var grjónagrautur og kaffi haft með.“
Árið 1866 eru híbýli þrifin fyrir jól hátt og lágt en skreytingar eru ekki til staðar. Jólatré eru ekki komin til sögunnar. „Föt voru þvegin og þá treyst á að það kæmi „fátækraþerrir“ svo hægt væri að hengja þau út. Það gat auðvitað brugðist um þetta leyti árs. Askurinn, matarílát hvers manns, var síðan þrifinn fyrir jól, en fólk var ekkert að stressa sig á því aðra daga ársins, enda var askurinn yfirleitt látinn fyrir hund og kött.“
Jólagjafir eru fyrst auglýstar sérstaklega árið 1866 en yfirleitt eru þær ekki komnar til sögunnar. „Hins vegar fær allt heimilisfólk tólgarkerti og það er algengur siður. Það er líka hefð að börn fái skó sem þá voru kallaðir jólaskór. Spil eru ekki gefin hverjum og einum en oft er farið í kaupstað og ný spil keypt fyrir hátíðina. Áfengisdrykkja var víða bönnuð um jól, á meðan aðrir fóru í kaupstað og náðu í jólakútinn svokallaða.“
Sigurlaugur nefnir að lokum mikla vinnuhörku sem viðgekkst fyrir jól. „Síðasta vikan fyrir jól var kölluð stauravikan og óljósar sögur gengu um að „staurar“ eins og brotnar eldspýtur hefðu verið nýttir til að spenna upp augun til halda þeim opnum við tóvinnuna. Fyrir þá vinnu var hægt að útvega vörur úr kaupstað.“
Jólin síðustu 150 ár.
1866 – Auglýsingar um jólagjafir, aðrar en kerti, eru nýjung. Þær koma til á seinni hluta 19. aldar.
1876 – Fyrsta jólatréskemmtun sem vitað er um fer fram í Reykjavík.
Seint á 19. öld – Jólatré koma til sögunnar og jólaskraut verður algengt.
1890 – Fyrstu erlendu jólakortin koma á markað.
1930 – Jóhannes úr Kötlum gefur út Jólin koma. Ríkisútvarpið er stofnað og jólakveðjur hefjast tveimur árum síðar.
1945 – Aðventukransar ná útbreiðslu eftir stríð.
Um miðja 20. öld – Jólasveinar fara að verða gjafmildir.
1952 – Fyrsta jólatréð kemur á Austurvöll frá Osló.
1955 – Egils appelsín kemur á markað. Þykir blandast vel við malt.
1964 – Fyrstu aðventuljósin koma á markað. Haukur Morthens gefur út hátíð í bæ.
1982 – Clariol fótanuddtæki er vinsælasta jólagjöfin.
1996 – Jólalest Coca-Cola fer af stað.
1996 – Jólagarðurinn í Eyjafirði er opnaður að vori.
2000 – Vefir eins og ismennt.is og skolavefur.is bjóða upp á rafræn jólakort.
2007 – Í góðærinu er GPS tæki álitið jólagjöf ársins. Þjóðin tapar áttum.
Í ríflega tvö þúsund ár hafa vestrænir hugsuðir verið að velta fyrir sér tímanum, eðli hans og spurningum sem honum tengjast. Um það vitna skráðu heimildirnar, á sögulegum tíma, en líklega eru vangaveltur um tímann enn eldri og hafa fylgt manninum frá upphafi vitsmunalífsins. Er tíminn óendanlegur eða nálgumst við endalok hans? Flæðir hann áfram eins og straumur árinnar eða „tikkar“ hann áfram, eins og eitt sandkorn í einu sem kemst í gegnum nálarauga stundaglassins. Er hægt að upplifa nútíðina eða er hún yfirleitt til?
Hugsuðir með töluverða reiknigetu í kollinum, á borð við Aristóteles og Newton, litu svo á tíminn væri algildur og það var ekki fyrr en árið 1905 að Einstein skaut niður þær hugmyndir með afstæðiskenningunni sem blandar saman rúmvíddum og tímavíddinni. Nýjar útgáfur af tíma urðu til og undirstaða lögð fyrir heillandi framtíðarskáldskap þar sem tíminn í óravíddum geimsins sniglast áfram með öðrum hætti en við erum vön.
Egyptar til forna notuðu broddsúlur til að segja til um gang tímans. Þær voru höggnar úr einni granítblokk og reistar með ærnu erfiði og tilfæringum. Letur á hliðum þeirra sagði til um gang himintungla og tímans. Sumar voru á fjórða tug metra og fleiri hundruð tonn á þyngd.
Hugmyndir manna um tímann snúast í grunninn um það eitt að koma skipulagi á kaosið og lífið. Öll vitum við að án tímavitundar gengu samfélög manna tæplega upp. Hvert samfélag aðlagar líka hugmyndir um tímann og gerir að sínum eigin. Þetta kenna ferðalög um nálæg og fjarlæg lönd okkur. Strangur línulegur framgangur tímans er ekkert endilega meginlögmál alls staðar. Sum samfélög eru gjarnari á að hugsa tímann í hringformi frekar en sem línu. Hugmyndir um stundvísi eru líka mjög ólíkar milli landa og jafnvel einstaklinga. Hver á ekki vin sem alltaf er seinn án þess að átta sig á því?
Sól og himintungl ganga sinn vanagang en kerfið sem búið er til um tímann er smíð okkar mannanna. Þannig er 28. janúar næstkomandi nýársdagur í Kína og þá tekur ár hanans við af ári apans. Við notum hins vegar gregoríanskt tímatal sem á uppruna sinn á 16. öld og smíðum ofurnákvæmar atóm-klukkur til þess að fanga tímann með sem mestri nákvæmni.
Framrás tímans er mælanleg eftir þessum kerfum en samt er tíminn svo innilega persónulegur. Við erum líklega um fjögurra ára gömul þegar við byrjum fyrst að átta okkur á honum og geta greint það sem kemur á undan frá því sem kemur á eftir.
Tíminn er sleipur eins og áll og furðulega afstæður og abstrakt þrátt fyrir að við getum mælt hann með nákvæmri tækni. Við upplifum hann á eigin skinni og hann er alltaf tilbúningur hugans þrátt fyrir gang himintunglanna. Gráu hárunum og hrukkunum fjölgar, börn vaxa úr grasi og ástvinir kveðja. Ár og áratugir virðast þjappast saman og svo gengur hvorki né rekur og tíminn ætlar nærri því að standa í stað. Það er þessi einkennilega teygja í tímanum, hann hleypur á undan manni eða hægir á sér á víxl, oft án sýnilegrar ástæðu.
Frá árinu 1961 hafa atómklukkur verið notaðar til að ákvarða samræmdan heimstíma sem svo er kallaður. Samræmdur heimstími er leiðréttur um eina sekúndu, venjulega í lok júní eða í lok desember á nokkurra ára fresti. Atómklukkur er allar heldur óvenjulegar en hér er fyrsta slíka klukkan sem gerð var árið 1955.
Tíminn og breytingar
Við verðum tímans helst vör þegar við hugleiðum breytingar. Ísland er þannig fjölbreyttara land en það var fyrir nokkrum árum, hér eru fleiri ferðamenn, atvinnuvegirnir eru fjölbreyttari, áhugamál fólks líka og við sem hér búum erum fjölbreyttari sem hópur. Breytingar virðast þannig flæða áfram og gefa okkur tilfinningu fyrir tímanum. Sömu breytingar geta verið uppspretta ánægju eða angistar.
Ný tækni getur haft áhrif á það hvernig við upplifum tíma. Það er ekkert svo langt síðan að farsímar voru ekki í vasa nánast allra eins og nú er. Nettenging þeirra gefur okkur djúpa tilfinningu fyrir hraða og rauntíma atburða og breytinga, jafnvel í fjarlægum löndum.
Ef horft er aftar í sögu tækninýjunga má nefna áhrif kvikmyndatækninnar sem lagði mikið til þess hvernig hugsað er um tímann því að þar má líka nema framvindu hans og spila hann síðan aftur og aftur. Enski ljósmyndarinn Eadweard Muybridge þótti til dæmis hálfgerður galdramaður þegar hann sýndi fram á með ljósmyndatækni að á fleygiferð virðist hestur á hlaupum svífa í lausu lofti. Framvindu augnabliksins var þannig hægt að deila niður með æ nákvæmari hætti.
Skáldleg tök á tímanum
Tíminn er þannig skapaður að við grípum oftar en ekki til skáldskaparins til að átta okkur á honum, sama hvað vísindamenn rannsaka hann mikið og upplifun okkar af honum. „Tíminn líður áfram og teymir mig á eftir sér“ segir eitt skáldið, Megas, á meðan þjóðin tengir við texta Bjartmars um að „þannig týnist tíminn“ og metur sem sitt uppáhaldslag.
Alveg sama hvað við reynum þá getum ekki hugsað um tímann nema út frá einum tímapunkti. Það er nútíðin, okkar eigin athygli í núinu sem býr jafnframt yfir okkar eigin minni og okkar eigin væntingum um framtíðina. Þessi tenging okkar við núið gerir það jafnframt að verkum að við eigum erfitt með að upplifa hreint andartak og þess vegna, líklega, eru núvitundaræfingar svo eftirsóknarverðar, núinu verður aldrei fyllilega náð, það rennur okkur úr greipum. Rétt eins og við áttum okkur illa á fjarlægðum þegar við horfum upp í heiðan himin án nokkurra viðmiða, reynist okkur ómögulegt að öðlast hreina upplifun af tímanum og framrás hans. Sú framrás er alltaf bundin breytingum í ytra umhverfi okkar. Við getum ekki skilið sjálf okkur frá tímanum, hjartað heldur áfram að slá og blóðið að renna og nútíðina smíðum við á hverju augnabliki. Að baki okkar byggist fortíðin upp, lag fyrir lag, og framtíðin er óskrifað blað. Aftur og aftur reynist best að grípa til meðala skáldskaparins, myndlíkinga. Tíminn er bara þannig.
Óhugnanleg framrás tímans. Breytingar eru einn mælikvarði á tímann, bæði breytingar í persónulegu lífi hvers einstaklings og breytingar á umhverfi og náttúrunni. Hér sést Mendenhall jökullinn í Alaska. Fyrri myndin er tekin um 1940 en hin er nýleg.
Glíma við tímann
Hraðinn í samfélaginu er mikið ræddur og hann hefur áhrif á mörg okkar. Sumir þrífast á honum en aðrir upplifa sig úr takti við samtíðina. Krafan um að gera marga hluti í einu er hávær en slíkt „fjölverkavinnsla“ er mýta, mannshugurinn þarf að deila athyglinni frá einu verkefni til annars.
Um áramót koma dagbækur á markað. Bæði dagbækur til að skipuleggja tímann sem bíður okkar á næsta ári, færa þar samviskusamlega inn fundi og verkefni, og bækur til að skrá það hvernig við verjum tíma okkar. Sú iðja að skrifa dagbók virðist alltaf verða sjaldgæfari og sjaldgæfari á tímum samfélagsmiðla. Við skráum atburði í lífi okkar inn í gagnabanka sem stórfyrirtæki úti í hinum stóra heimi hafa umsjón með. Hvernig það þróast verður að koma í ljós með tíð og tíma.
Við tölum um tímamót í lífi okkar sem einstaklinga eða í samvistum hópsins sem við tilheyrum. Samt áttum við okkur aldrei fyllilega á mikilvægi tímamóta í lífi okkar fyrr en þau eru um garð gengin. Breytingarnar mynda þannig tímamótin en í tímann sjálfan koma engin skil, hann heldur bara áfram. Sekúndurnar í kringum áramót eru ekkert merkilegri en aðrar í árinu. Það er menning okkar og tímatalskerfi sem upphefja þær í hugum okkar.
Æðsti páfi tímans
Gregor páfi þrettándi ríkti á páfastóli í þrettán ár á síðari hluta 16. aldar. Áhugasvið hans náðu yfir bæði tíma og rúm. Gregor vildi stækka heimsmynd samtímamanna sína og gerði sendiboða sína út af örkinni til Asíu til að átta sig betur á löndum eins og Filipseyjum og Japan.
Gregors er hins vegar helst minnst fyrir tímatalið sitt sem við notum enn. Það var hins vegar ekki þannig að guðsmaðurinn væri sjálfur að finna upp á breytingunum um hvernig menn sáu framgang tímans fyrir sér, hann fékk sérfræðinga í verkið.
Það var ítalski stjörnufræðingurinn Alosius Lilius sem fyrstur lagði drög að nýja tímatalinu en jesúítapresturinn Christopher Clavius tók við keflinu og kláraði verkið, en samt ekki alveg því að á síðari tímum hafa smávægilegar lagfæringar átt sér stað.
Ástæðan fyrir tímatalsbreytingu Gregors sem átti sér stað árið 1582 var að fyrra tímatal, það júlíanska, var ekki nógu nákvæmt og hafði safnað upp skekkju allt frá árinu 45 f.Kr. þegar það var tekið í notkun. Í gamla tímatalinu var litið svo á að árið væri 365 dagar og sex klukkustundir en nýir útreikningar sýndu að það var í raun 365 dagar, fimm klukkustundir og 49 mínútur. Því var komin upp skekkja sem páfi lagfærði með einu pennastriki. Á eftir fjórða október 1582 kom því ekki fimmti október heldur 15. október.
Breytingin náði vel til kaþólskra landa Evrópu en mótmælendaríki þurftu mörg hver meira en öld til að breyta tímatalinu. Ísland var auðvitað samferða Danmörku í breytingunni árið 1700 þegar ellefu dagar voru felldir úr nóvember. Stóra-Bretland og nýlendur Ameríku uppfærðu ekki sitt daga tal fyrr en um miðja 18. öld og Rússar ekki fyrr en í byltingunni 1917 svo dæmi séu nefnd.
Hætta starfsemi eftir allavega 446 ár
Við notum hljóðmerki til að segja til um tímann. Við teljum niður sekúndurnar fyrir áramót og hringjum klukkum. Sum fyrirtæki eru svo gömul að enginn veit nákvæmlega hve lengi þau hafa verið að störfum. Það á við um Whitechapel Bell Foundry sem hætti störfum á árinu, nánar tiltekið 2. desember síðastliðinn.
Í Bretlandi hafa bjöllur fyrirtækisins hringt öldum saman, auk þess sem sigrum hefur verið fagnað með bjölluhljómi og þeirra látnu minnst með því að kirkjuklukkum er hringt.
Whitechapel Bell Foundry hóf starfsemi 1570 og jafnvel enn fyrr eða um 1420 voru handverksmenn farnir að smíða klukkur í austurhluta London. Kynslóð fram af kynslóð smíðuðu starfsemenn fyrirtækisins bjöllur sem hljómuðu um allt England og víðar. Stærsta afrekið var Big Ben, klukkan í klukkuturni breska þinghússins, en bjalla fyrirtækisins boðaði einnig nýja tíma í Philadelphiu árið 1776 þegar borgarbúar þar komu saman við slátt Frelsisbjöllunnar þegar Bandaríkin urðu til.
Í ljósmyndum sínum sýndi hinn enski Eadweard Muybridge fram á tengsl hreyfingar og tíma. Myndir hans höfðu mikil áhrif á fjölmarga listamenn sem unnu með tímann, til dæmis ítölsku fúturistana í upphafi 20. aldar. Tíminn hefur lengi heillað listamenn í ýmsum greinum og skyldi engan undra.
Þennan síðasta mánuð ársins hafa matarspekúlantar víðs vegar um heim spáð því sem koma skal á nýju ári í matarmenningu. Það sem allir eru algjörlega sammála um er að árið 2017 verður ár jurtaríkisins.
Undanfarin ár hefur grænmetið tekið æ meira pláss í hillum stórmarkaða og á matseðlum veitingastaða en á næsta ári mun grænmetið allsstaðar verða í algjöru aðalhlutverki. Hér með tilkynnist það að tíð grænmetis sem meðlæti dýraafurðanna er liðin. Það þýðir samt ekki að allir kokkar gerist grænmetisætur eða verði vegan og að við þurfum öll að verða það, heldur að grænmetið mun taka við aðalhlutverki kjötsins á disknum. „Flexitarian“ er orð sem við munum heyra mikið af á árinu, en það er manneskja sem er mestmegnis grænmetisæta en borðar kjöt einstaka sinnum, og þá kjöt sem kemur af býli en ekki úr verksmiðju. Hluta þessara róttæku breytinga, sem hafa verið að gerjast undanfarin ár, má rekja til aukinnar meðvitundar um verksmiðjuframleidd matvæli, ekki bara vegna áhrifa á heilbrigði og velferð mannskepnunnar heldur líka dýra og jarðarinnar allrar.
Nýjir kjötskurðir og hægeldun
Önnur afleiðing aukinnar meðvitundar um verksmiðjuframleiðslu er sú að fókusinn verður settur á kjötmenningu. Kjötið mun taka sér aukið rými í formi heimagerðra afurða, nýjum skurðum og gamalgrónum uppskriftum sem hafa fallið í skuggann af fitusnauðum lífsstíl síðustu ára. Ef þessi bylgja nær til Íslands munum við kannski sjá kjötborð á ný í verslunum þar sem hægt verður að biðja um sérstaka skurði af dýrinu, á mun hagstæðara verði en til dæmis hina klassísku lund. Bitar á borð við frampart, háls, bóg, bringu eða síðu, eru mun ódýrari en alls ekki síðri ef fólk gefur sér tíma til hægeldunar. Hægeldun og marínering, eða réttara sagt það að gefa sér tíma til að elda, verður einmitt annað af matartrendum næsta árs. Blómkálið verður stjarna ársins
Það eru alltaf einhver hráefni sem skína skærar en önnur og kokkar helstu matarblaða heims eru sammála um að stjarna næsta árs verði grænmeti sem hefur aldrei verið í sviðsljósinu áður; blómkálið.
Blómkálið er nú þegar byrjað að læðast inn á matseðla en þegar líða fer á árið verður það alveg búið að taka sess grænmetis sem hefur verið áberandi á liðnu ári, eins og grænkáls, avókadós og rauðrófa. Vinsældir avókadós hafa reyndar verið svo miklar á liðnu ári, ekki síst á hipsterastöðum í Bandaríkjunum, að einn helsti matargagnrýnandi vestanhafs sagði að fengi hann eina ósk varðandi mat á næsta ári yrði hún að útrýma rándýrum avókadobrauðsneiðum af öllum matseðlum.
Hér á landi þekkjum við blómkál helst í blómkálssúpu en auðvitað er fjöldi leiða til að elda það. Það hefur hingað til ekki verið ofarlega á listum heilsu-gúrúa en það er nú samt sem áður stútfullt af trefjum, fólíni og c-vítamíni og þar að auki er mjög auðvelt að rækta það á Íslandi.
Skordýr
Skordýr eru stór hluti af matarmenningu fjölda þjóða og hafa hægt og rólega verið að læðast til Vesturlanda. Skordýramjöl og pasta úr skordýramjöli er umhverfisvænn og próteinríkur valkostur fyrir þá sem vilja ekki neyta kjöts en samkvæmt matarspekúlöntum munum við fara að sjá meira af heilum skordýrum á matardiskunum. Ekki verður heldur langt að bíða þess að hægt verði að panta pönnukökur úr skordýramjöli á hvaða veitingastað sem er.
Viðarkolakokteill
Eitt óvæntasta tískutrend ársins verða viðarkol. Þeir sem kjósa að grilla með kolum frekar en gasi vita að kol gefa bragð en það er ekki bara bragðið sem gerir kolin vinsæl á árinu, heldur líka heilsubætandi eiginleikar þeirra. Viðarkol hafa löngum verið þekkt fyrir afeitrandi eiginleika og hafa til dæmis verið notuð gegn matareitrun. Þau eru líka notuð til að hvítta tennur og sem meðal við timburmönnum. Ekki verða hissa ef þú sért viðarkolakokteil á barnum þegar líða fer á árið.
Minni sóun og meiri hagsýni
Hluti af sókn heimagerðra afurða, hvort sem það er í pylsu- og skinkugerð, niðursuðu eða frystingu má rekja til aukinnar áherslu á að minnka matarsóun. Það að nota bita af kjötinu sem hraðneyslusamfélagið hefur hent síðastliðin ár, líkt og hefur verið gert við mat sem stenst ekki útlitskröfur, er ein leið til að minnka sóun og auka hagsýni. Veitingahús munu á nýju ári leggja mikla áherslu á að elda upp úr því sem hingað til hefur farið í ruslið og matvælaframleiðendur munu í auknum mæli sýna samfélagslega ábyrgð og þróa vörur í sátt við umhverfið.
Alvöru pítsa
Að fara aftur til upprunans og einfaldleikans verður vinsælla og klassísk eldbökuð ítölsk pítsa úr góðum hráefnum með einni áleggstegund er ein birtingarmynd þess. Hipsterapítsustaðir þar sem súrdeigspítsur með rauðrófum ráða ríkjum munu víkja fyrir heimilislegum og einföldum stöðum með rauðköflóttum dúkum og engum stælum.
Þjóðleg matreiðsla
Portúgalskar vanillukremskökur
Þeir sem voru hræddir við að alþjóðavæðingin myndi þurrka rótgrónar matarhefðir út geta slakað á því þær hafa aldrei verið vinsælli. Við munum sjá norræn brauð, kúbanska pottrétti, mexíkósk takó og rússneskar súpur í fáguðum útgáfum á fínum matseðlum árið 2017.
Innan í heimagert takó úr rauðum maís verður hægeldaðari nautasíðu eða mauksoðnum svínabóg blandað saman við heimaræktað salat og spænskt hvítlauksmæjónes og á eldbökuðu súrdeigsbrauði frá Þrándheimi verður villtur lax úr Fljótunum í stað eldislax frá Noregi. Matur frá Portúgal og Filippseyjum verður það allra heitasta á árinu. Gerjaður matur
Gerjaður matur verður ein af stjörnum ársins svo ekki láta þér bregða ef súrsaðar gúrkur, kóreskt kimschi eða þýskt sauerkraut fer að poppa upp á matseðlum bæjarins. Sé grænmetið súrsað með hefðbundnum aðferðum myndast í því bakteríur og mjólkursýrugerlar sem eru nauðsynlegar fyrir þarmaflóruna. Gerjun hefur verið notuð í öllum heimshlutum til að súrsa grænmeti, og halda um leið lífi í manninum, en auk þess til að búa til áfengi, brauð, mísó, tófú, osta og jógúrt svo eitthvað sé nefnt.
Peningarnir renna í matarbransann
Fjárfestar í sílíkondalnum í Kaliforníu horfa í sífellt meira mæli til sprotafyrirtækja í matariðnaði og þangað mun mestallur þeirra peningur fara árið 2017, samkvæmt viðskiptablaðinu Forbes.
Það sem helst er verið að fjárfesta í er sjálfbær framleiðsla og tímasparnaður:
-Heilsumatvæli úr sjálfbærri framleiðslu, mestmegnis úr hnetum, grænmeti og skordýrum.
-Heimsendingaþjónusta frá veitingahúsum.
-Matvælasendingar fyrir starfsmenn fyrirtækja.
-Heimsendingar beint frá býli.
-Heimsendingar á hráefni í rétti, líkt og Eldum rétt á Íslandi.
-Matvæli, heilsu og snyrtivörur út kannabis, en kannabis hefur nú verið lögleitt í níu ríkjum Bandaríkjanna, og í 21 einu ríki er það löglegt í lækningaskyni.
Það sem við losnum blessunarlega við árið 2017:
-Avókadó. Í öllum sínum myndum, líka ristaðar brauðsneiðar með einni avókadósneið og kálblaði á rándýrum hipsterakaffihúsum.
-Grænkál. Grænkál er ágætt en ekki svo gott að það verðskuldi að vera í öllum réttum, hvað þá að taka við af kartöflunni sem uppistaðan í snakki.
-Rauðrófur. Þetta ágæta grænmeti er og hefur verið ein helsta uppistaðan í rússneskri matargerð og á sínar góðu stundir, eins og til dæmis í Borch-súpunni, en það er eins og íslenskir kokkar hafi verið að uppgötva tegundina, slík hefur innkoma hennar verið í íslenskum eldhúsum síðustu ár. Nú er nóg komið.
Jólasýning Þjóðleikhússins, sem er auglýst sem sýning á Óþelló Shakespeares, hefst á því að Ingvar E. Sigurðsson birtist á sviðinu á nærbrókinni einni saman með exi í hendi og heggur niður stórt grenitré, jólatré. Það hefur staðið góða stund eitt á miðju sviði, baðað ljósum og ómum, áður en atgangurinn byrjar. Ingvar er tiltölulega snöggur að þessu, stofninn er ekki sver þótt tréð sé meira en tveggja mannhæða hátt. Sem betur fer fellur það inn á sviðið, en ekki út í salinn.
Ekkert Sjeikspír-drasl
Nú veit ég svo sem ekki hvað þetta á að fyrirstilla frekar en margt annað í þessari furðulegu uppsetningu. Svona tré getur táknað margt. Það getur verið lífstréð og sem jólatré (að vísu án skrauts) gæti það staðið fyrir allt sem við höldum með einhverjum hætti heilagt. Mér dettur helst í hug að Gísli Örn Garðarsson, eini höfundur þess sem hér fer fram (Shakespeare er alsaklaus af því) sé að reyna að segja eitthvað í þessa veru: Það sem þið, hæstvirtir áhorfendur, eigið í vændum og hafið keypt ykkur inn á er ekki neitt gamaldags Sjeikspír-drasl því ég er framúrstefnuleikstjóri og nú ætla ég að brytja leikrit Shakespeares í spað eins og allir sannir framúrstefnuleikstjórar – og mér er skítsama þó að ég eyðileggi jólin fyrir ykkur sem eruð svo vitlaus að halda að ég geri ekki nákvæmlega það sem mér sýnist.
Í drullu og skít
Og Gísli Örn gæti haldið áfram eitthvað á þessa leið: Já, nú er ÉG sloppinn inn í helgustu vé íslenskrar leiklistar, af því að ég er orðinn svo frægur í útlöndum að ég get fengið að gera hvað sem ég vil, Ari segir ekki neitt, hann myndi aldrei þora að banna MÉR neitt. Ég get látið leikarana veltast um í drullu og skít í þrjá klukkutíma, háttað þá og látið þá arga og garga, gera stykkin sín, ég get fært kalla í kvenföt, látið konur leika kalla; já, ég kem með ný og ný trix í allt kvöld: stropljós þarna, slómó hér, diskó á einum stað, myndastyttuleik annars staðar; svo hef ég með svona “meta-teater”, því það gera allir avanseraðir leikstjórar sem ég hef séð í útlöndum þar sem heimsfrægðin bíður mín. En ég er líka mjög prógressífur og félagslega meðvitaður, þess vegna smelli ég á einum stað inn frumsaminni predikun á móti rasisma, auðvitað er ég líka á móti kvennakúgun, ekki það ég haldi þetta hafi neitt að segja eins og ´68-kynslóðin hélt, nei nei, leikhúsið breytir engu, ekki nokkrum sköpuðum hlut, þið getið bara tekið þetta, ef ykkur sýnist, sem kveðju til ´68-liðsins sem er nú sem betur fer búið að moka út úr leikhúsinu (eins og það henti út kynslóðinni á undan því) og á leið á elliheimilin (sem ég gerði einu sinni lítinn sætan söngleik um, þið hljótið að muna eftir honum, hann var jafn frábær og allt sem ég geri). Því nú höfum VIÐ tekið völdin, við sem erum ung og fersk, en umfram allt hip og kúl, já ef ég er eitthvað – sem ég er svosem ekkert viss um að ég sé – þá er ég hip og kúl.
Oní útikamarinn
Og hinn ungi (reyndar bráðum hálffimmtugi) og ferski meistari leikhústöfranna lætur dæluna ganga: Já, og svo passa ég upp á að sjokkera smáborgarana, því ég er ekkert að láta þetta sem þeir kalla smekklegheit þvælast fyrir mér, ég geri til dæmis grín að alkóhólistum og AA eins og ekkert sé, og svo – já svo geri ég dáldið sem enginn hefur áður gert í Þjóðleikhúsinu, ég dýfi Ingvari á kaf oní útikamar og læt hann vafra um ataðan brúnni sósu, svo ykkur langar mest að gubba, pempíurnar ykkar, en mér er sama, við í Vesturporti höfum nóg klapplið sem æpir og stappar svo hátt í salnum að þið munuð ekki þora annað en standa upp og hrópa húrra, forsetinn líka. Og svo pakka ég öllu heila klabbinu inn í risa-plastumbúðir, sal og sviði (af því við lifum í svo plöstuðum heimi, ég hef skrifað um það í leikskrána, ég er svo mikill umhverfissinni) og það hefur heldur enginn gert áður í Þjóðleikhúsinu og ég fæ að gera allt sem ég vil í Þjóðleikhúsinu, sama hvað það kostar, Ari segir ekki múkk, ekki við mig sem er rétt að verða heimsfrægur í Stóra-Bretlandi, hann opnar bara veskið, ég læt Börk sjá um plastið (það er bara besta fólkið sem fær að vinna fyrir mig), og þetta verður upplýst mjög estetískt og svo massa ég þetta með flottri músík úr græjunum (ég get vel verið svít og melló ef mér sýnist) – já það er sko eins gott fyrir ykkur að standa upp í leikslok, hrópa húrra og klappa fyrir mér. Fyrir MÉR.
Vörusvik í Þjóðleikhúsinu
Einhvern veginn svona gæti hún hafa hljómað, greinargerðin fyrir sýningunni sem Vesturportarinn hefði átt að skrifa í leikskrána. Því miður hefur hann sleppt því sem er út af fyrir sig skiljanlegt; þetta er einungis enn eitt flippið, enn ein skrumskælingin á verki eftir Shakespeare sem tvö aðalleikhús þjóðarinnar hafa trakterað okkur nokkuð reglubundið á síðustu tuttugu árin eða svo. Og ekkert nýtt í því, nema helst óvenju stór skammtur af sora sem leikstjórinn leggur til frá eigin brjósti. Leikrit Shakespeares er að vanda skorið niður, tætt í sundur svo ekkert er orðið eftir af dramatísku samhengi eða mótsetningum (sem skáldið notar alltaf á afar markvissan hátt), persónum er hent út eftir geðþótta, persónum bætt við og þær sem eftir standa afskræmdar.
Hinn sögulegi rammi verksins, Feneyjar í baráttu við veldi Tyrkja, er klipptur út og af hinu magnaða lokaatriði leiksins þar sem hvað rekur annað: morðið á Desdemónu, afhjúpun Jagós og sjálfsvíg Óþellós, er ekkert eftir nema átakanleg slitur. Í leikritinu er Jagó neyddur til að játa verknað sinn frammi fyrir fulltrúum feneyskra stjórnvalda; hér kjaftar hann sjálfur öllu í Óþelló þegar hann hefur kálað konu sinni – þeir eru einir á sviðinu – með þeim afleiðingum að Óþelló tryllist, lemur hann, en hættir við að drepa hann og hengir þess í stað sjálfan sig í rauðum borða sem hann bindur við rimla í rúmgaflinum (sverð og hnífar eru að vonum útlæg úr svo tímalausri sýningu). Þetta er svo ámátlegt og kauðskt að maður nánast blygðast sín fyrir hönd leikstjórans að þurfa að horfa upp á það.
Það er lágmarkskrafa til Þjóðleikhússins að kynna önnur eins ósköp og þessi sem hugverk leikstjórans. Það svíkst leikhúsið um og selur því enn og aftur svikna vöru þeim áhorfendum, sem hafa keypt sig inn í von um að kynnast og njóta listar Shakespeares. Það er EKKI nóg að í leikskrá standi með litlum stöfum og daufum svo vart er læsilegt að hann hafi samið „leikgerð“ – sem getur raunar merkt hvað sem er.
Afskræmdar persónur
Engin persóna vekur hér áhuga eða samúð. Þetta er allt saman úrkynjað pakk í plasti. Óþelló er búralegur öskurapi. Óþelló Shakespeares er svartur á hörund, gæti jafnvel verið afrískur blökkumaður (sem Laurence Olivier gerði hann í frægri sýningu), en Ingvar er á litinn eins og rjómakaffi; hann gæti í mesta lagi hafa legið fulllengi inni á sólbaðsstofu. Ég efa raunar að Ingvar hefði ráðið vel við hlutverk Óþellós, jafnvel undir vitrænni leikstjórn; textameðferð Ingvars er ekki hans sterka hlið og sjaldan hrífandi, en hlutverkið eitt hið best skrifaða í öllum verkum Shakespeares, fullt af magnaðri póesíu sem einungis texta-meistarar á borð við Arnar eða Hilmi Snæ geta komið til skila. Það er synd að Arnar skuli aldrei hafa fengið tækifæri til að leika Óþelló – og svei mér ef hann gæti ekki enn plumað sig í honum, rúmlega sjötugur, því að aldur Óþellós er óráðinn og Arnar hefur haldið sér vel. Og röddin enn ung, þróttmikil og full af blæbrigðum, eins og við heyrðum nú síðast í Horft af brúnni.
Desdemóna, ein glæsilegasta kvenlýsing Shakespeares, er súludansmær og dræsa. Hún er leikin af ungri nýútskrifaðri leikkonu, Aldísi Amah Hamilton; það er sjálfsagt hæpið að dæma hana eftir frammistöðu við slíkar aðstæður, en leikur hennar var sannarlega ekki mikið til að hrópa húrra yfir. Engar tilfinningasveiflur sem er hægt að trúa á, ekki heldur þegar Óþelló myrðir hana. Hún verður aðeins svoldið reið, en aldrei særð eða hrædd. Það er augljóst að Aldís Amah hefur enga persónuleikstjórn fengið, enda hefur leikstjórinn eflaust haft nóg að hugsa um umbúðirnar, plastverkið sem umlykur þetta allt, og lítið mátt vera að því að sinna leikurum.
Hreinleiki Desdemónu er jafnstórt atriði í leik Shakespeares og illska Jagós, eins og ég tæpti á í smágrein sem ég skrifaði hér í Fréttatímann fyrir jól. Það er því afar sérkennilegt að sjá leikkonuna stíga fram, klædda í mellulega glimmer-korselettu, og flytja frumsamið samtal hennar og “Jagós” um kvenréttindi!! Því ef eitthvað er hægt að lesa út úr þeirri mynd af persónunni, sem er hér dregin upp, er það kvenfyrirlitning. Í Óþelló lýsir Shakespeare hlutskipti giftra kvenna fyrri tíma, undirokun þeirra og vanmætti í hjónabandinu, af næmi og samúð sem vart á sér hliðstæðu í öðrum verkum hans, hvað þá annarra skálda. Margar helstu kvenlýsingar hans eru stórbrotnar konur, konur sem hafa jafnvel þor og burði til að rísa gegn stöðu sinni í samfélagi stýrðu af körlum. Og konur hans sýna engu minni siðferðisstyrk en karlarnir, ef nokkuð er meiri, þurfi þær að mæta beiskum örlögum eða dauða. Desdemóna er besta dæmið um þetta, en það er einnig hægt að benda á Rósalind, Kleópötru, Kordelíu, Imogen, Hermíónu og Katrínu af Aragon.
Kassíó í útgáfu Gísla Arnar er klæðskiptingur og vappar góða stund um sviðið á brókinni einni saman í netnælonsokkum (sýndist mér úr sæti mínu á níunda bekk sem er aftar en svo að maður geti verið viss um öll smáatriði). Arnmundur Ernst Bachmann hefur sýnt og sannað, nú síðast í Djöflaeyjunni, að hann er eitt af bestu leikaraefnum sinnar kynslóðar; hæfileikum hans er misboðið með slíkri meðferð, en við verðum að vona að leikhúsið hafi í framtíðinni vit á að bjóða honum þroskavænlegri verkefni.
Jagó er leikinn af eiginkonu leikstjórans, Nínu Dögg Filippusdóttur. Nína Dögg hefur sést í tveimur stórum dramatískum hlutverkum á sviði Þjóðleikhússins að undanförnu, en hvorugu náði hún að gera minnisverð skil. Hér kemur best í ljós hversu takmörkuð raddbeiting hennar og textameðferð er; tónninn einhæfur, áherslur á stundum rangar, textinn einatt höggvinn einkennilega sundur, auk þess sem hún á til að buna honum út úr sér svo hratt að vart verða greind orða skil. Hvaða hugsun er á bak við þessa hlutverkaskipan er mér fullkomlega óskiljanleg. Gísli Örn hefur stært sig af því að þetta sé í fyrsta sinn sem kvenmaður leikur Jagó, en það er rangt af tveimur ástæðum: í fyrsta lagi hefur kona áður leikið Jagó – og í öðru lagi á sá Jagó sem þarna er sýndur jafnlítið skylt við persónusköpun Shakespeares og önnur skrípi á fjölum leikhússins.
Ólafur Egill Egilsson vingsast um sviðið með gamalkunnum kippum og rykkjum. Hann fer ekki með neitt sérstakt hlutverk, en fær að tína upp eitt og annað smálegt héðan og þaðan, svo sem leifar úr hlutverki Emilíu, konu Jagós, sem hefur eðlilega verið strikað út (Emilía er raunar einnig meðal betri kvenhlutverkum skáldsins). Ólafur hefur verið með í Vesturports-familíunni frá upphafi, ef ég man rétt, og væntanlega hefur Gísli ákveðið að leyfa honum að hoppa um borð, svona upp á gamlan vinskap.
Eini maðurinn sem þarna sýnir eitthvað sem kalla má leiklist er Björn Hlynur Haraldsson. Hann býr til kostulega fígúru úr föður Desdemónu (og öðru blandi leikstjórans), og gerir það svo listilega að hann er nánast óþekkjanlegur í byrjun. Hann fer einnig mjög vel með textann. Og vitaskuld hefði hann átt að leika Jagó. Björn Hlynur á til að virka fremur kaldur á sviði, eins og hann nái ekki almennilega til hinna dýpri og hlýrri tilfinninga, en það er kostur í hlutverki Jagós sem er ískaldur og slóttugur í senn.
Ólíkar undirtektir
Þjóðleikhúsið hafði að þessu sinni þann hátt á að frumsýna í tvennu lagi – eða hvað á að kalla það: kvöldið fyrir Þorláksmessu var hin eiginlega frumsýning; þá mætti forsetinn og slatti af þeim fínimönnum sem gjarnan láta sjá sig á frumsýningum. Á kvöldi annars í jólum var svo eitthvað sem leikhúsið kallaði „hátíðarsýningu“; þar voru heldur færri fyrirmenn sýndist mér (borgarstjórinn þó þar á meðal) en öllu meira af leikhús- og listafólki. Í bæði skiptin tók þjóðleikhússtjóri sjálfur á móti gestum (nokkuð sem tíðkaðist aldrei fyrr en Tinna tók það upp eftir Magnúsi Geir sem byrjaði á því í Borgarleikhúsinu) og bauð upp á sama freyðivínið og Nóa-konfektið.
En undirtektir sýningargesta á þessum tveimur sýningum voru áberandi misjafnar. Á „frumsýningunni“ var klappliðið auðheyrilega mætt og þá var æpt og hóað og risið úr sætum. Andrúmsloftið á „hátíðarsýningunni“ var mun kuldalegra og klappið í lokin kurteislegt en laust við allan innileika. Ég hef heyrt daufara klapp á frumsýningum Þjóðleikhússins, en ekki oft. Í þetta skipti náði ég að fylgjast svolítið með viðbrögðum annarra leikhúsgesta á meðan á sýningunni stóð, og þau voru ekki lífleg. Einstaka maður geispaði, aðrir laumuðust til að líta á klukkuna, margir sátu sem frosnir. Ég er hræddur um að undirritaður hafi ekki verið sá eini sem fannst keisarinn nakinn.
Að lokum:
Herra þjóðleikhússtjóri, Ari Matthíasson! Þessi sýning er ykkur öllum til skammar og einkum þér, því endanlega er ábyrgðin þín. Þú ert nýr í starfi og ættir nú að hafa tækfæri til að hefja leikhúsið upp úr þeirri botnlausu lágkúru sem það hefur sí og æ verið að detta í mörg undangengin ár. Þú hefur þegar þann stutta tíma sem þú hefur gegnt embættinu sýnt ótvíræða viðleitni til að bæta verkefnavalið og sýningin á Horft af brúnni fyrr í haust var leikhúsinu til mikils sóma. Út af þeirri sýningu gekk maður jafn glaður og maður gengur hryggur út af þessari.
Af hverju reynirðu nú ekki að fá hingað einhvern af þeim mörgu snjöllu Shakespeare-leikstjórum sem Bretar eiga um þessar mundir? Ef þú eða þínir hjálparkokkar þekkja ekki til þeirra, skal ég með glöðu geði gefa þér nokkrar ábendingar. Þetta eru menn sem kunna að fara með Shakespeare, leysa hann úr viðjum gamalla hefða, en virða þó þau grundvallaratriði listar hans sem gera hana að því sem hún er. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að þú ætlir að viðhalda þeirri ómenningu tveggja síðustu forvera þinna, að leyfa mönnum, sem eru ólæsir á leikskáldskap, að gefa íslenskum áhorfendum rammfalska mynd af stórbrotnasta leikskáldskap allra tíma.
„Hormónar eru persónulegt, rannsakandi ferðalag um tilfinningalíf mannsins. Hið ósýnilega sem stjórnar öllu en fólk veltir ekki endilega of mikið fyrir sér,“ segir útvarpskonan Anna Gyða Sigurgísladóttir sem hefur unnið að nýrri hlaðvarpsseríu sem nefnist Hormónar. Á næstu vikum verður hægt að nálgast Hormóna á Hlaðvarpinu en fyrsti þátturinn af tíu fer í loftið á Rás 1 kl. 14 í dag.
Í hverjum þætti rannsakar Anna eitt viðfangsefni og fer heiti þáttanna eftir því: Raddir, Tilgangur lífsins, Sjúklingur, Dauðinn, Ástarsorg, Mamma og Adrenalín svo eitthvað sé nefnt. „Ég fékk hugmyndina að þáttunum því ég hlusta mikið á hlaðvarpsþætti. Með hverju árinu verða þeir meira skapandi og skemmtilegri. Hef mestan áhuga á sögum en það eru þær sem eru oft efniviður þessara þátta – ekki fræga fólkið og líf þess, heldur venjulegt fólk eins og Jón úti í bæ.“
„Ég er algjör tilfinningabangsi og finnst ýmsar tilfinningar ekki nógu mikið ræddar, bæði í samfélaginu en líka í samræðum milli manna. Hlutirnir bæði ósýnilegir og tabú. Oft ógreinilegt hvað eru tilfinningar og hvað hormónar. Hversu mikið þessir þættir hafa áhrif á okkur. Þetta er það sem ég ætla að skoða í þáttunum. Mismunandi vinkla og jafnvel setja hlutina í áður óþekkt samhengi.“
Útvarpskonan Anna Gyða Sigurgísladóttir hefur unnið að nýrri hlaðvarpsseríu sem nefnist Hormónar. Mynd/Saga Sig
„Í fyrsta þættinum, sem nefnist Raddir, skoða ég mannsröddina. Ræði við transkonu sem var karl með djúpa rödd en er nú kona. Hún deilir með hlustendum hvernig röddin hefur breyst í gegnum kynleiðréttingarferlið, áhrif raddarinnar. Svo ræði ég við sópransöngkonu um röddina sem hljóðfæri. Hvernig það er að búa í eigin hljóðfæri. Velti upp spurningum eins og hvort sé hægt að tryggja röddina.“
„Annar þáttur fjallar um sjúklinginn. Þátturinn skoðar hvað það þýði að vera „sjúklingur‘‘? Hvernig er einnig að upplifa sig sem sjúkling í samfélagi þar sem allir eiga að vera heilbrigðir. Skilaboðin eru þau að maður sé hamingjusamur ef maður er heilbrigður. Einhverjir eru kannski ósammála en það er mjög sérstakt að vera í stöðu sjúklingsins í samfélaginu. Sérstaklega hjá ungu fólki. Ég talaði við hóp ungs fólks sem hefur verið eða eru sjúklingar. Ástæðan fyrir því að ég tek þetta fyrir í einum þætti er sú að ég stóð sjálf í þessum sporum fyrir þremur árum þegar ég lenti í slysi. Það hafði mikil áhrif á mig og sýn mín á heiminn breyttist dálítið.“
„Ástarsorgin er líka þáttur sem mér fannst gaman að vinna. Þegar ég hef upplifað ástarsorg hef ég ekki fundið neitt efni sem talar til mín á þeim tíma. Bíómyndir finnst mér yfirborðskenndar eða tala tungumál sem höfðar ekki til minna tilfinninga. Það eru ákveðin norm í samfélaginu sem gilda um þá sem eru í ástarsorg. Þú átt að ganga í gegnum sambandsslit á svona löngum tíma, vera svona lengi í ástarsorg og ganga í gegnum sorgina á ákveðinn fágaðan máta. Í þættinum tala ég við sálfræðing og fólk sem hefur verið í ástarsorg, heyri og ræði hliðar um ástarsorgina sem við tölum ekki um.“
Hún lýsir þáttunum sem heimildargerðarferðalagi. „Ég set upp spurningu og hlustendur fara inn í ferlið með mér. Þetta eru mikið af opnum spurningum sem ég mun ekki setja neitt eiginlegt svar við heldur einfaldlega skoða. Fara inn á svæði sem við jafnvel hræðumst, eins og dauðann, en eru spennandi, ögrandi.“
Dýrustu seríurnar
Margar vinsælar framhaldsseríur munu halda áfram á árinu, sjálf er ég spenntust fyrir sjöundu seríu af Game of Thrones, en ég er mikill aðdáandi bæði bókanna og þáttanna, ég er með dellu á vandræðalegu stigi. Serían er væntanleg einhvern tímann í sumar, en annars eru framleiðendur búnir að kvelja aðdáendur lengi með óvissu um frumsýningardag.
The Crown velti Game of Thrones úr sessi sem dýrasta sjónvarpssería sögunnar. Önnur sería The Crown er væntanleg í nóvember og ég held að þættirnir eigi sér orðið marga aðdáendur hér á landi. Þá fylgjumst við áfram með ævi Elísabetar annarar Englandsdrottningar. Stefnt er á að gera sex seríur í heildina, og tekur hver sería fyrir áratug í lífi drottningarinnar. Það verður líka spennandi að sjá hvernig framleiðendur haga leikaravalinu og hvernig það heppnast, en það er búið að gefa það út að leikurunum verði skipt út eftir því sem persónur sögunnar eldast.
Sci-Fi
Árið 2016 var stórkostlegt ár fyrir Sci-Fi. Ein af sögum Stephen King 11.22.63 var matreidd í frábærri seríu með James Franco í aðalhlutverki, þættir eins og Black Mirror héldu inn í þriðju seríu og náðu gersamlega nýjum hæðum, margir voru afskaplega ánægðir með teiknimyndasögurisann Marvel sem sjónvarpsvæddi bæði Luke Cage (einnig þekktur sem Power Man) og Jessicu Jones. Í lok ársins kemur síðan óvænt alveg hreint frábær kanadísk sería sem heitir Travelers. Þetta er besta tímaflakks sci-fi sem ég hef séð. Serían var sýnd á Netflix bara rétt fyrir jólin og það var sjálfur Eric McCormack, betur þekktur sem Will úr Will & Grace, sem fór með aðahlutverkið. Það er ekki búið að staðfesta aðra seríu en mér finnst mjög líklegt að af henni verði og að hún komi í lok næsta árs sem einskonar nördalegur jólapakki, og ég er afskaplega spennt fyrir því.
Svo er nóg af nýju efni:
Big Little Lies
Í febrúar kemur HBO með morðgátuna Big Little Lies, en þetta er gamansöm sjö þátta morðgáta, byggð á samnefndri skáldsögu, sem skartar leikkonunum Nicole Kidman, Shailene Woodley, Lauru Dern, og Reese Witherspoon. Sagan fjallar um húsmæður á fertugsaldri sem lifa svolítið firrtum lífsstíl í uppahverfi í Bandaríkunum. Það er eitthvað sem segir mér að þetta verði algjört dúndur, kannski af því að ég er aðdáandi Reese Witherspoon og finnst hún ekki hafa fengið að njóta sín síðustu ár. Svo er líka ferskt að fá svona einstaka sinnum efni um kvenpersónur sem eru ekki tvítugar gellur, og svo er auðvitað fátt fyndnara en ofurríkt fólk í vandræðum. Ég hugsa að aðdáendur Desperate Housewifes eigi eftir að hoppa hæð sína yfir þessu.
A Handmaids Tale
Í lok apríl kemur síðan sjónvarpsaðlögun þessarar mikilfenglegu skáldsögu rithöfundarins Margaret Atwood, sem gerist í dystópískri framtíð og fjallar í sem stystu máli um kvennakúgun og misbeitingu valds. Það er nú þegar búið að gera bæði kvikmynd og óperu eftir bókinni, þannig að það var kannski spurning um hvenær en ekki hvort sjónvarpið myndi matreiða þennan stórkostlega hrylling, sem kannski hefur aldrei átt meira erindi við samtímann. Serían mun skarta þekktum leikurum; Samiru Wiley úr Orange is the New Black, Joseph Fiennes sem síðast sást í American Horror Story, Elizabeth Moss úr Mad Men og fleiri góðum. Þessir þættir verða örugglega einn af hápunktum ársins í sjónvarpi.
American Gods
Frægasta verk fantasíuhöfundarins Neil Gaiman er hérna loksins komið í sjónvarpsaðlögun og eru þættirnir væntanlegir í apríl. Það eru gamlar bransakempur sem sjá um handrit og framleiðslu, en Gaiman verður sjálfur aukaframleiðandi sem ætti að vera góðs viti upp á að þættirnir haldist sannir uppruna sínum. Þetta er samt engin risaframleiðsla, og það eru engar epískar stórstjörnur í leikhópnum, sem mér finnst oftast vera kostur frekar en löstur, það kippir manni stundum út úr sögunni að sjá smettið á einhverjum svakalega frægum. Það er kapalstöðin Starz sem framleiðir þetta, þetta er líklega stærsta hennar verkefni hingað til, en hún tók við eftir að HBO risinn hafði slitið viðræðum um framleiðslu. Þetta eru lítil nöfn með stór verkefni. Það verður áhugavert.
Twin Peaks
„That gum we like is coming back in style“. Þetta er auðvitað rúsínan í sjónvarpspylsuenda ársins. Twin Peaks voru svo ofboðslega mikilvægir þættir á sínum tíma og áhrifa þeirra hefur gætt í öllu leiknu sjónvarpi alla tíð síðan, fyrir því liggja ástæður sem er hreinlega ekki tími til að fara út í hér. En þegar ég frétti að það ætti að endurlífga þessa ótvíræðu drottningu sjónvarpssögunnar þá leist mér bara alls ekkert á þetta. Ég veit ekki ennþá hvort mér lítist eitthvað á þetta. Sjálfur David Lynch bæði skrifar og leikstýrir og Kyle MacLachlan kemur og endurlífgar lögreglumanninn Dale Cooper. Kannski verður þetta snilld, en mögulega hræðilegt. Það er að minnsta kosti öruggt að ég mun fylgjast með því.
Nína segir marga þætti vera spennandi á árinu 2017. Mynd úr einkasafni.
„Einu sinni fyrir langa, langa löngu í vetrarbraut langt, langt í burtu.“ Svona byrjaði þetta, svona byrjar þetta alltaf. Þið þekkið þetta. Þetta er loforð ævintýrisins, hér getið þið gleymt ykkur, gleymt samtímanum, gleymt grámóskulegum raunveruleikanum og upplifað heim með alvöru hetjum og skúrkum.
En nýlega varð smá truflun í mætti ævintýrisins, sumir harðsvíruðustu stuðningsmenn nýkjörins Bandaríkjaforseta fullyrtu að nýjasta Stjörnustríðsmyndin væri árás á Trump og kölluðu eftir að menn sniðgengju myndina. Loforð ævintýrisins hafði verið svikið og þeir ætluðu sko ekki að taka þátt í þessu.
persóna Rogue One er Jyn (Felicy Jones) – dóttir mannsins sem smíðaði Helstirnið.
Chris Weitz, annar handritshöfundur myndarinnar, kynnti bálið þegar hann tísti: „Vinsamlegast athugið að keisaraveldið er stofnun sem byggir á hugmyndinni um yfirburði hvíta kynstofnsins,“ og Rian Johnson, leikstjóri Stjörnustríðsmyndar næsta árs (já, það lítur út fyrir að nýtt Stjörnustríð verði árlegur viðburður í nánustu framtíð), bætti nýlega um betur þegar hann varði hinn alræmda forleiks-þríleik Stjörnustríðs-myndanna með orðunum: „Forleikurinn er 7 tíma löng barnamynd um hvernig óttinn við missi breytir góðmennum í fasista.“
Gremja öfgahægrimannana er í sjálfu sér að einhverju leyti réttmæt – það er alveg skotið á þá í nýjustu myndinni – jafnvel meira en áður. Enda svíkja ævintýrin alltaf þessi loforð. Þessi svik eru innbyggð í þau, við semjum þessi ævintýri. Þetta loforð er bara trójuhestur til þess að fá okkur til þess að hugsa öðru vísi um heiminn. En það geta ýmsir fengið far með þessum trójuhesti.
Jihad-pláneta Che Guevara
Upprunalega var Stjörnustríð óður til gamalla barnaævintýra í æsku George Lucasar. En myndirnar sóttu líka í mannkynssöguna; myndmálið virtist einfalt við fyrstu sýn – keisaraveldið sótti innblástur sinn til nasistanna og Jedi-riddararnir voru samúræjar himingeimsins. En um leið viðurkenndi Lucas að hafa verið undir áhrifum frá stríðsmyndum æskunnar – um heimstyrjöldina síðari, síðasta „góða“ stríðið. Það stríð mundi Lucas þó varla nema í gegnum bíómyndir (hann var eins árs þegar því lauk) – stríðið sem hann ólst upp við var Víetnam-stríðið, „vonda“ stríðið sem fylgdi í kjölfarið – fyrir heimsveldi Bandaríkjanna altént, sem máttu láta í lægra haldi fyrir lítilmagnanum, alveg eins og í Star Wars, þar sem veikleiki risans felst í grandaleysi hans og hroka.
Þetta hefur vissulega alltaf verið undirliggjandi í Stjörnustríðsmyndunum – en aldrei jafn augljóst og í Rogue One. Orðfærið allt er kunnuglegt úr fréttatímunum og uppreisnarmennirnir leynast í þetta skiptið í hersetinni borg sem minnir helst á hersetna Bagdad eða Kabúl.
Óskarsverðlaunaleikarinn Forest Whitaker leikur uppreisnarforingjann Saw Gerrera, einhvers konar Che vetrarbrautanna.
Leiðtogi herskáustu skæruliðanna heitir svo Saw Gerrera og leynist á plánetunni Jedha, við erum bara örlítilli misheyrn frá því að heyra Che Guevara og Jihad. Pólitíkin er nær Che en fagurfræðin nær Íslamska ríkinu eða Al-Kaída. Á meðan ógnar heimsveldið þeim með dauðageisla sem minnir til skiptis á kjarnorkusprengjuna sem Bandaríkjamenn notuðu til að ljúka síðari heimstyrjöldinni og ofurnákvæma drónana sem þeir fjarstýra núorðið öllum sínum stríðum í gegnum. Ofurnákvæm drónaárás með kraft kjarnorkusprengju.
Sumsé, höfuðandstæðingar bandaríska heimsveldisins fá hér að verða hetjur í allra stærstu bíómyndum peningamaskínunnar Hollywood og Kanarnir sjálfir eru orðnir skúrkarnir – hvað kemur til?
Veikleikinn í vélinni
Myndin snýst um það að uppreisnarmennirnir komast yfir teikningarnar af Helstirninu – en þar má finna veikleikann sem Logi, Leia og Han Solo áttu eftir að nýta sér í fyrstu Stjörnustríðsmyndinni (sem gerist skömmu á eftir þessari). Þessi veikleiki er ekki þarna óvart, honum var komið fyrir af pabba aðalpersónunnar, sem virðist hafa gengið úr þjónustu keisaraveldisins aðeins til þess að svíkja svo uppreisnarmennina – að því er virðist. Hann reynist þó vera gagnnjósnari í raun, innanbúðarmaður sem svíkur heimsveldið, Edward Snowden sinnar vetrarbrautar.
En hver er þá veikleiki bandaríska heimsveldisins? Gæti það mögulega verið Hollywood? Menningin og popplögin, poppkúltúrinn sem hjálpaði þeim að sigra heiminn? Það kom í ljós fyrir ekki svo löngu að CIA sá hálfpartinn um listamannalaunin í Bandaríkjunum á tímum kalda stríðsins, studdi (eftir órekjanlegum krókaleiðum, vissulega) nútímalist eftir listamenn sem voru margir hálfgerðir kommúnistar – af því þeir trúðu því að þannig ynnu þeir áróðursstríðið við Sovétmenn. Verk þessara listamanna yrðu sönnun þess að frjáls markaður og amerísk gildi tryggðu málfrelsi, ólíkt hinni kommúnísku ritskoðun. Þetta reyndist hárrétt hjá CIA – en um leið er auðvitað spurning hvort listamennirnir hafi ekki komið fyrir alls kyns veikleikum í kerfinu sem hægt væri að sprengja upp hvenær sem er.
Listamenn eru nefnilega sjaldnast mjög leiðitamir kapítalismanum, ekki einu sinni þeir sem eru næst meginstraumnum. Þeir þurfa vissulega að semja reglulega við djöfulinn, Björgólfa og Medici-fjölskyldur allra tíma – en það er oft tvísýnt um hver fær meira út úr þeim samningum.
Nú eru örugglega margir byrjaðir að hrista hausinn fyrir löngu yfir öllum þessum oftúlkunum, Star Wars er jú bara poppkornsskemmtun og djúp alvöru pólitísk skilaboð þurfi að leita uppi í fullorðnisbíómyndum handan meginsstraumsins, alvarlegum bókmenntum og spekingslegri gáfumannatónlist. Það er að vissu leyti alveg rétt – en að vissu leyti kolrangt líka. Ekki bara út af því grasrótin nærir lággróðurinn (hingað til hafa flestir leikstjórar Star Wars verið tiltölulega nýbúnir að gera hræódýrar, óháðar myndir skömmu fyrir sitt Stjörnustríð), heldur líka út af því að hápólitískar óháðar bíómyndir ná sjaldnast almannahylli – metsölumyndirnar eru trójuhestarnir sem kynna alls kyns heimspeki og pólitík fyrir fjöldanum. Vissulega í einfölduðu – eða vandlega dulbúnu – formi, enda þarf þess til þess að komast í gegn, til að fá myndina frumsýnda í mörg þúsund bíósölum samtímis.
Þá er alþjóðavæðingin líka að breyta leikreglunum. Hollywood hefur drottnað yfir kvikmyndamarkaði heimsins frá seinni heimstyrjöldinni – en lengst af voru samt tekjur myndanna að langmestu leyti fengnar heima við. Það hefur gjörbreyst síðustu tvo áratugi – svo mjög að ein vinsælasta mynd síðasta sumars, Warcraft, var risastórt flopp í Bandaríkjunum og mestöllum hinum vestræna heimi. En hún sló í gegn í Kína – og það var nóg. Þetta hefur valdið óvæntum breytingum á leikaravali í stórmyndir – fjölbreytnin þegar kemur að öðrum kynþáttum en þeim hvíta er, samkvæmt rannsóknum, töluvert meiri í metsölumyndum heldur en óháðum. Ekki endilega til þess að friða bandaríska minnihlutahópa, heldur til þess að selja heiminum öllum myndina. Þannig er leikaravalið í Rogue One til þess fallið að selja myndina betur í Englandi, Mexíkó, Ástralíu, Kína og Danmörku – svona ef ske kynni að Star Wars sé ekki nógu vinsælt fyrir í þessum löndum.
Steve Bannon sér Svarthöfða sem hetju – ásamt Dick Cheney og Satan.
Keisaraveldið snýr aftur
En auðvitað gekk þetta ekki upp, myndin varð jafn stjarnfræðilega vinsæl og allir bjuggust við og meint sniðganga öfgahægrimanna virtist ekki hafa nein áhrif. Enda er nóg fyrir þá í Stjörnustríði líka. Fegurðin er í auga sjáandans og mögulega eru illmennin bara misskilin. Steve Bannon, einn alræmdasti ráðgjafi Donald Trump, er til dæmis búinn að finna sér sína hetju í myndunum, en hann sagði nýlega í viðtali: „Myrkrið er gott. Dick Cheney. Svarthöfði. Satan. Það er vald.“ Svo má ekki gleyma því að fyrir 33 árum viðraði Ronald Reagan hugmyndir af varnaráætlun í geimnum sem samstundis var uppnefnd Stjörnustríð, eitthvað sem virtist vera hans varnarsinnaða útgáfa af Helstirninu.
Danski stórleikarinn Mads Mikkelsen leikur Galen, vopnasmiðinn sem reynir fyrir sér við landbúnaðarstörf.
Uppreisnarmennirnir gætu líka alveg verið Trumpistar úr Biblíubeltinu. Í upphafsatriði myndarinnar kemur erindreki keisaraveldisins til Íslands, ég meina plánetunnar Lah‘mu, til að handtaka uppreisnarmanninn Galen. Hann horfir í kringum sig, í stífpressuðum einkennisbúningnum, horfir svo á skítugan uppreisnarmanninn og segir með fyrirlitningu; „sveitastörf, í alvöru?“ Þarna er kominn veraldarvani borgarbúinn og hans fyrirlitning á sveitalubbanum, þessu salti jarðar sem mun færa Ameríku, ég meina vetrarbrautinni, sinn gamla mikilfengleik.
Þá er hin trúarlega hlið máttarins mun sterkari hér en í öðrum Stjörnustríðsmyndum. Þar er alltaf einhver sem býr yfir þessum mætti – sem gerir máttinn hluta af raunveruleikanum, byggðan á staðreyndum frekar en trú. Hér er enginn útvalinn, Svarthöfði er eina persónan sem án nokkurs vafa hefur máttinn – annars eru þetta eru bara venjulegar manneskjur og aðrar geimverur – sem trúa á máttinn, án þess að hafa nokkra sönnun fyrir honum. Ein aðalpersónan telur sig að vísu búa yfir mættinum – en ekki einu sinni besti vinur hennar trúir honum.
Í nokkrum lykilatriðum myndarinnar heldur svo aðalhetjan okkar, hún Jyn, fast um verndargripinn sinn (sem er úr sömu kristölunum og geislasverð jedi-riddaranna) á meðan samherjar hennar reyna að dýrka upp lása með hjálp tækninnar – og við fáum aldrei að vita fyrir víst hvort það var trúin sem flutti fjöll eða bara gamla góða hyggjuvitið. Þannig eru trúarstef lykilþáttur í myndinni – en þau eru galopin og heittrúaðir múslimar og heittrúaðir kristnir menn geta túlkað myndina sér í hag – og trúleysingjarnir líka.
Loksins almennilegt stríð
Myndin er skilgreind sem hliðarsaga – hún er ekki formlegur hluti af aðalbálknum sjálfum, þótt að vísu mætti alveg kalla hana Episode 3.5. Þetta þýðir að flestar persónurnar fá bara þessa einu mynd, það þarf ekki að halda neinum á lífi fyrir framhaldið eða vísa í forverana. Þetta gefur heilmikið frelsi – en í þessu eru líka innbyggðir veikleikar – Stjörnustríðsmyndirnar gefa sér ekki mikinn tíma í persónusköpun, sem reddast þegar við höfum þrjár myndir til að kynnast karakterunum – þannig voru til dæmis Logi og Svarthöfði orðnir góðkunningjar bíógesta þegar menn komust loks að því að þeir voru feðgar.
En plottið í myndinni má finna í opnunartexta upprunalega Stjörnustríðsins, þetta eru uppreisnarmennirnir sem stálu teikningunum, þetta eru fótgönguliðarnir, þeir sem allir eru búnir að gleyma á meðan Logi, Leia og Han fengu allt hrósið. Hingað til hefur Stjörnustríðið nefnilega meira snúist um stjörnur en stríð, stjörnurnar tákna fantasíuna – þar sem allir eiga sér sitt sérsniðna hlutverk, sín persónulegu örlög.
(Og hér kemur Höskuldarviðvörun fyrir ykkur þessi fáu sem eigið eftir að horfa – geymið lokaorðin þangað til eftir bíóferð)
Í stríði hins vegar eiga allir sér sama hlutverk – að berjast, og mögulega deyja – fyrir málstaðinn. Þau deyja fyrir vetrarbrautina – en fyrir okkur, sem búum ekki í þessari vetrarbraut – þá deyja þau fyrst og fremst fyrir Loga, Leiu og Han. Galli myndarinnar er að marga þessa stríðsmenn skortir karakter – því til hvers að byggja upp persónuleika ef þú ert að fara að deyja fyrir málstaðinn á morgun?
Robin Wright er tölvuteiknuð í heimi sem þarf ekki alvöru leikara lengur í myndinni The Congress.
Pixlarnir stela sálinni
Það er gömul hjátrú að ljósmyndavélin steli í manni sálinni. Annað hvort er það bábilja eða við höfum öll verið sálarlaus í meira en öld – en hins vegar er nýlegri hjátrú að það steli sannarlega sálinni í manni að vera tölvuteiknaður. Um þetta fjallar raunar ein besta vísindaskáldsagnamynd síðustu ára, The Congress, þar sem Robin Wright leikur sjálfa sig, leikkonu sem fær sitt hinsta hlutverk – og þarf ekki að leika það nema í klukkustund. Hún er skönnuð inn í tölvukerfi sem varðveitir allar hennar tilfinningar og tjáningu – og eftir það er hún orðin ódauðleg og getur leikið í bíómyndum til eilífðarnóns. En um leið er hún orðin fullkomlega gagnslaus – hún getur hér eftir setið heima á meðan leikstjórar heimsins „downloada“ henni eftir hentisemi.
Þessi fantasía átti sér stoð í raunveruleikanum; höfðum alvarlegra leikara var skeytt á höfuð klámmyndaleikara í Nymphomaniac og höfði aðalleikkonunnar í Málmhausi var skeytt á atvinnugítarleikara í erfiðustu tónlistaratriðunum. En fantasían byrjar þó fyrst að verða raunveruleiki í Rogue One, þar sem Peter Cushing stígur upp úr sinni 22 ára gröf og hin sextuga Carrie Fisher verður skyndilega nítján ára á nýjan leik. Fisher dó á meðan þessi pistill var skrifaður – dó um leið og henni var tryggt eilíft pixelarað líf, orðin ódauðleg og óþörf, fyrsta leikkonan sem tölvutæknin léði eilífa æsku. Það skiptir ekki öllu að glöggir bíógestir hafi séð að ekki var allt með feldu, tæknin á bara eftir að batna.
Carrie Fisher er nýlátin. En hún lifir enn – þótt tölvuteiknuð sé. Hún verður þó í alvöru í næstu mynd, sem var tekin upp áður en hún lést.
Þetta er óþægileg og lítt könnuð siðferðisklípa. Hvað ef þetta verður nýtt í ævisögulegum myndum, hvað ef andlitið á Jackie Kennedy hefði til dæmis verið tölvuteiknað ofan á andlit Natalie Portman í væntanlegri ævisögu? Mörk skáldskapar og raunveruleika verða fljót að þurrkast út í slíkum heimi, heimi handan alls sannleika. Heimi þar sem raddhermar eru orðnir svo fullkomnir að við getum ekki bara lífgað Carrie Fisher við, heldur líka Bowie, Cohen, Prince og George Michael. Við erum um það bil að læra að ljósrita manneskjur almennilega – og það þýðir að við getum fengið okkar Stjörnustríðsmyndir áfram næstu fjörutíu árin – og nú þarf ekki einu sinni að skipta um leikara lengur. Hin eilífa endurtekning nær fullkomnun sinni og stjörnur bernskunnar þurfa aldrei að deyja. Um leið endurnýjar keisaraveldið sig alltaf aftur, uppreisnarmennirnir eru ávallt fengnir til að vinna fyrir keisaraveldið á einhvern nýjan hátt. Þannig endurnýjar kerfið sig alltaf og snýr á listamennina – jafnvel það kerfi sem þeir sjálfir sköpuðu.
Margaret Atwood ætti að vera mörgum lesendum kunn enda er hún með þekktari samtímahöfundum og eru helstu einkenni höfundarverks hennar beinskeyttur femínismi og óhugnanleg hæfni til þess að lýsa heiminum sem gæti orðið, enda kýs hún sjálf að kalla þessa tegund bókmenntaverka nokkurs konar getgátu skáldskap (e. speculative fiction). The Handmaid’s Tale olli töluverðu fjaðrafoki þegar hún kom fyrst út en festist fljótlega í sessi sem sígilt femínískt bókmenntaverk og var innlegg í umræðu þess tíma, en kristilegir sjónvarpspredikarar drottnuðu yfir sjónvarpsskjánum og samfélagsumræðunni þá. í bókinni er að finna beinar vísanir í fræga sjónvarpspredikara þess tíma. Það var svo gerð kvikmyndaaðlögun eftir bókinni árið 1990 með Natöshu Richardsson í aðalhlutverki og kom Harold Pinter að handritsgerðinni sem þótti mjög flókið verkefni vegna þess að sagan er að mestu leyti sögð í fyrstu persónu.
Umræða um Handmaid’s Tale hefur sprottið upp aftur núna bæði út af nýju sjónvarpsþáttunum og í kjölfar umdeilds framboðs og svo sigurs Donalds Trump í kosningabaráttunni um forsetaembættið vestra. Það þarf vart að taka það fram að Donald Trump hefur með framgangi sínum tekist að normalísera hatursfulla orðræðu gagnvart konum og fólki af öðrum þjóðernum og kynþáttum en hvítum bandarískum auk þess sem hann afneitar hnattrænni hlýnun. Leikkonan Elizabeth Moss, þekkt fyrir hlutverk sitt sem Peggy í Mad Men, sem fer með aðalhlutverkið í nýju þáttunum segir í viðtali við Vulture á netinu að sig hafi ekki órað fyrir því þegar undirbúningur hófst fyrir þáttagerðina að þeir ættu eftir að eiga svona mikið erindi við samtímann.
Kvennakúgun frá Gilead til Afganistan
Ástandið er eins í Gilead og víða annars staðar í dystópískum framtíðarsýnum að frjósemi er gríðarlega sjaldgæf (af völdum mengunar) þannig að þær konur sem enn eru frjóar verða að samfélagseign, líkamar þeirra að útungunarvélum og þær sem ekki framleiða er hent á haugana – í vændi eða vinnuþrælkun. Fyrir konur er notkun tungumálsins forboðin í Gilead, enda er þöggun eitt mikilvægasta vopn þeirra sem vilja beygja aðra undir sig. Söguhetjan í Handmaid’s Tale heitir Offred – Of Fred, hún tilheyrir Fred. Konurnar í Gilead eru auk þess skyldaðar til að ganga í nokkurs konar einkennisbúningum sem að minna einna helst á nunnuklæði frá miðöldum, litamerktar eftir röðun innan stigveldisins.
Þrátt fyrir að þetta hljómi eins og mjög fjarstæðukenndur veruleiki fyrir flestar konur á Vesturlöndum í dag þá er þetta samt sem áður óhugnanlega líkt því sem gerst hefur til dæmis í Afganistan undir stjórn Talíbana. Langvarandi stríðsátök og hernaðarlegrar íhlutanir vestrænna heimsvelda allt frá nýlendutímum 19. aldar allt fram til dagsins í dag undirbjuggu jarðveginn fyrir valdatíð Talíbana. Það fyrsta sem flestum kemur í hug í dag, þegar minnst er á Afganistan, er kona í búrku. Innrás Bandaríkjanna í Afganistan var að mörgu leyti réttlætt á þeirri forsendu að nú þyrftu hin frjálslyndu Vesturlönd að frelsa konurnar úr búrkunum. Í áhugaverðri senu í Handmaid’s Tale upplifir Offred sig sem sýningargrip þegar hún verður á vegi hóps japanskra ferðamanna sem vilja ljósmynda hana. Hún skynjar hvernig ferðamennirnir sjá hana, sem forvitnilega og exótíska veru og á móti öfundar hún konurnar í hópnum af frjálslegum og „vestrænum“ klæðnaði þeirra. Þessi sena kallast óneitanlega á við blætið sem til hefur orðið í heiminum (sérstaklega á Vesturlöndum) gagnvart fatnaði og þá aðallega búrkum og hijab – höfuðslæðunum sem múslimskar konur ganga með, sumar tilneyddar en aðrar að eigin vali. Eflaust eins margar konur sem muna eftir tímanum fyrir sirka 1980 í Mið-Austurlöndum man Offred lífið eins og það var áður en klerkarnir tóku völdin. Konur hafa ekki alltaf verið í búrkum og svarið við spurningunni um það hver hafi klætt konurnar í þær er alls ekki svo einfalt. Umhverfisváin og Maddaddam þríleikurinn
Þrátt fyrir að Handmaid’s Tale sé enn þekktasta verk Atwood hefur hún skrifað fjölmargar bækur og hefur hlotið mörg verðlaun fyrir. Maddaddam þríleikur hennar, (Oryx and Crake (2003), The Year of the Flood (2009) og Maddaddam (2013), hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár og eru einnig sjónvarpsþættir byggðir á þeim í leikstjórn Darren Aronofsky í framleiðslu. Maddaddam þríleikurinn gerist, líkt og Handmaid’s Tale, í dystópískum heimi þar sem hamslaus neyslu- og gróðahyggja í skugga loftslagsbreytinga og siðlausrar tilraunastarfsemi með genamengi manna og dýra leiðir til nokkurs konar (manngerðs) heimsendis sem fáir lifa af. Í heimi Maddaddam, áður en mannkynið nær útrýmir sjálfu sér, er lífi þegnanna stjórnað af CorpSeCorps, stórfyrirtæki sem sér um allt eftirlit og öryggismál. Ríkisvaldið hefur flust alfarið yfir á risavaxnar fyrirtækjasamsteypur og öll spilin eru lögð í hendur genatækninnar sem fer vitaskuld úr böndunum. Skyndibitinn heitir „Secret Burger“ vegna þess að enginn má eða vill vita nákvæmlega hvers konar kjöt fer í hann, hugvísindi og listir eru einskis virði í samfélaginu þar sem sjálfsmorð í beinni útsendingu á netinu eru skemmtiefni og aðalpersónurnar spila EXTINCTATHON, flókinn leik á netinu sem gengur út á að geta nefnt allar lifandi og útdauðar dýrategundir. Efalaust hafa margir lesendur bóka hennar rekið sig á ýmislegt í samtímanum sem virðist vera eins og beint upp úr ímyndunarafli Atwood.
Heimurinn sem gæti orðið
Margaret Atwood varpar því fram í bókum sínum ansi myrkri framtíðarsýn á heiminn sem gæti orðið ef við höldum áfram á sömu braut og við erum á í dag. Hvort sem það er hvert við stefnum í umhverfismálum eða hvað gerist þegar hættuleg öfl sem grassera undir yfirborðinu, eins og rasismi og kvennhatur, ná yfirhöndinni. Handmaid’s Tale lifir því enn góðu lífi árið 2017 og á mikið erindi við samtímann. Það er gleðiefni að sagnabrunnur Atwood nái enn meiri útbreiðslu með sjónvarpsþáttum byggðum á bæði Handmaid’s Tale og Maddaddam þríleiknum.
Ein frægasta tilvitnunin úr Handmaid’s Tale er „Nolite te bastardes carborundorum“. Offred finnur þessa dularfullu setningu á latínu rista inni í skáp í herberginu þar sem hún sefur. Þrátt fyrir að hún skilji ekki setninguna fyrr en síðar veitir hún henni von í ánauðinni, fyrirheit um einhverskonar samstöðu á milli þjáningarsystra en líka andstöðu og baráttu við ríkjandi öfl. Setningin þýðir „Ekki leyfa óþokkunum að brjóta þig niður“ – slagorð sem enn nýtist femínistum sem og öllu umhverfis- og mannréttindabaráttufólki 21. aldarinnar sem nú þarf að takast á við fjögur ár af Donald Trump á forsetastóli Bandaríkjanna.
Marta Sigríður Pétursdóttir ritstjorn@frettatiminn.is
„Ég vild’ ég væri ennþá út í Hamborg ég ennþá er með hugann út í Hamborg.“
Svona söng Raggi Bjarna á 45 snúninga plötu árið 1967. Þessi slagari, um kvennafar í hafnarborginni þýsku, verður varla á efnisskrám í nýju tónlistarhúsi borgarinnar, Elbphilharmonie, sem heimamenn kalla Elphi sín á milli. Stórhýsið var tekið formlega í notkun á miðvikudag með hátíðartónleikum.
Myndir: Elbphilharmonie.de og Getty.
Elbphilharmonie er nýjasta tónlistarhús Evrópu. Það verður heimili samnefndrar fílharmóníusveitar í Hamborg. Upphaflega var gert ráð fyrir að húsið yrði opnað árið 2010 og það var því stór dagur í sögu Hamborgar þegar húsið var loksins vígt í vikunni. Boðsgestir mættu í sínu fínasta pússi á tónleikana en þúsund miðum úthlutað með útdrætti. Efnisskrá tónleikanna var frá ýmsum tímum en lauk á lokakafla níundu sinfóníu Beethovens.
Þess má geta að íslensk tónlistarhátíð verður haldin í þessu glæsilega húsi í byrjun febrúar. Upplýsingar um hana má finna hér.
Það eru stjörnuarkitektarnir Jacques Herzog og Pierre de Meuron sem eiga heiðurinn að hönnun tónlistarhússins, ásamt auðvitað fjölmörgum öðrum. Líklega eru þeir þekktastir fyrir umbreytingu sína á Bankside orkuverinu í London sem hefur hýst Tate Modern safnið frá árinu 2000. Þeir hafa sagt innblásturinn að baki byggingunni koma úr þremur áttum: Frá fornu leikhúsi í Delphi í Grikklandi, íþróttaleikvöngum og tjöldum.
Í húsinu eru tveir tónleikasalir. Stóri salurinn tekur 2100 gesti í sæti og er í svokölluðum „vínekrustíl“ með hallandi sætaskipan í allar áttir, en sviðið er í miðju rýmisins. Minni salurinn er hannaður fyrir margskonar viðburði og minni tónleika. Hann tekur 550 gesti í sæti.
Elbphilharmonie er í raun nýbygging ofan á annarri eldri. Glerbyggingin stendur á gömlu vöruhúsi sem heitir Kaispeicher A og var byggt eftir síðari heimsstyrjöld eftir að eldri bygging frá 1875 hafði eyðilagst í loftárásum bandamanna. Þar var höndlað með kakóbaunir, tóbak og te allt fram á tíunda áratuginn.
Húsið stendur í HafenCity hverfinu í Hamborg. Það stendur á mörkum Elbu, sem rennur frá fjalllendi Tékklands og að Norðursjó, og einum af hinum fjölmörgu hafnarbökkum borgarinnar. Húsið er 110 metra hátt, en til samanburðar má nefna að Harpa er 43 metrar.
Eins og oft er með tónlistarhús af þessari stærðargráðu fór byggingarkostnaður töluvert fram úr áætlun. Hornsteinn var lagður árið 2007 og ráðgert var að taka bygginguna í notkun árið 2010. Kostnaðaráætlun þá hljóðaði upp á 241 milljón evra (29. 4 milljarðar króna á núvirði) en endaði hins vegar í 789 milljónum evra (96, milljarðar króna).
Nýja tónlistarhúsið breytir ásýnd Hamborgar heilmikið. Ásamt sjónvarpsturni borgarinnar og nokkrum kirkjuturnum er tónlistarhúsið meðal hæstu bygginga á svæðinu, þar sem það gnæfir yfir borginni.