Quantcast
Channel: Menning – Fréttatíminn
Viewing all 599 articles
Browse latest View live

Belgískur bjór rústaði ítalskri pítsu

$
0
0
Í Belgíu, sem er einn þriðji af flatarmáli Íslands, eru bruggaðar fleiri en 1500 tegundir af bjór. Hefðin nær langt aftur í aldir og enn má finna tegundir sem ekki er hægt að treysta neinum fyrir nema guðsmönnum í munkaklaustrum. Landið er pílagrímastaður bjóráhugamanna.
UNESCO, Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, heldur utan um sameiginlegan menningararf mannkyns og þar á meðal svokallaðan óáþreifanlegan menningararf. Á þann lista hefur belgíski bjórinn verið settur en þar er að finna alls kyns hefðir, mat og drykk, leiki, hátíðir og menningarfyrirbæri sem þykja kalla á virðingu og vernd í alþjóðavæddum heimi dagsins í dag þar sem áhrif frá enskumælandi löndum flæða um allt.
Belgískur bjór og kúbönsk rúmba skipta mannkynið máli, segja þeir hjá Sameinuðu þjóðunum.​
Belgískur bjór og kúbönsk rúmba skipta mannkynið máli, segja þeir hjá Sameinuðu þjóðunum.​
Á listanum má sjá hvað mannkynið tjáir sig með fjölbreyttum hætti gegnum alls konar tákn og athafnir. Þjóðríki keppast við að koma sínum atriðum á listann en þess má geta að pítsuhefð Napóli komst ekki á listann núna þrátt fyrir vilja ítalskra stjórnvalda.
Nú skála menn í Belgíu, líklega í bjór sem hefur skolast til um aldir og borist milli kynslóða. Ásamt belgíska bjórnum má nefna að kúbanskur rúmba-dans, fornar kínverskar tímatalsaðferðir og kóreskar skelfiskveiðar, sem eru stundaðar af konum, voru meðal þess sem einnig náði inn á listann að þessu sinni.

„Því frjálsari sem maður getur verið – því betra“

$
0
0

Þeir Óskar og Ómar Guðjónssynir, Davíð Þór Jónsson og Magnús Tryggvason Eliassen mynda ADHD. Hljómsveitin hefur verið til í átta ár, keyrð áfram af leit í tónlistinni og djúpri vináttu. Römm er sú taug. Þegar þeir tínast einn af öðrum inn til fundar, sem fer fram yfir kaffibolla í plötubúðinni Lucky Records við Rauðarárstíg, eru faðmlögin innileg. Samt er þetta ein af þeim hljómsveitum sem er lítið gefin fyrir æfingar, hlutirnir gerast bara í hljóðveri eða á sviðinu. Tónlistin er því eins lífræn og hún getur orðið. Það er best þannig.

„Það er ekkert sérstaklega auðvelt að ná okkur fjórum saman,“ segir Ómar Guðjónsson gítarleikari. „Það er helst að það gangi sæmilega þegar við erum á leiðinni í flug og þá reynist það jafnvel ekkert grín,“ segir hann brosandi. Stóri bróðir hans, Óskar, sem leikur á saxófón, tekur undir þetta: „Við vorum að spila í Þýskalandi um daginn og þá kom til okkar ægilega áhugasamur gestur eftir tónleika og spurði hvað við æfðum oft í viku. Ég svaraði nú bara: „Ha, æfingar? Ég þekki ekkert þessa menn.““

Davíð Þór Jónsson, hljómborð: „Tónlist er markaðssett í dag eins og hún sé algjörlega tilbúin og óbreytanleg en er lifandi og verður til í fólki sem hlustar.“
Davíð Þór Jónsson, hljómborð: „Tónlist er markaðssett í dag eins og hún sé algjörlega tilbúin og óbreytanleg en er lifandi og verður til í fólki sem hlustar.“

Það gerist ekki oft að það komi upp deilur eða rifrildi hjá þessum mönnum, þó allir séu þeir stórir tónlistarmenn með hæfileika í bílförmum. Magnús rifjar reyndar um óljósa sögu af því þegar bræðurnir Óskar og Ómar rifust um yfirráð yfir forláta blýanti. Það voru víst svæsnar deilur og drógust á langinn. „Ókei, gott og vel,“ segir Ómar. „Við erum auðvitað bræður og með sérleyfi til að rífast og slást sem við notum til algjörra hátíðabrigða,“ segir Ómar hlæjandi.

Ferðalögin eru límið

Þetta er kannski orðum aukið, en ferðalögin og tónleikahaldið er það sem heldur ADHD saman, þar gerist galdurinn. „Það er eins gott að hafa það gaman og gott með þeim sem maður spilar með tónlist, því að spilatíminn á sviði er bara hluti af þessu. Það er líka alls konar bið og hangs,“ heldur Óskar áfram.

Magnús trymbill, sá sem tjáir sig minnst í spjallinu við kvartettinn (enda eru hinir málglaðir) er á því að ferðalögin skili miklu. „Við höfum sem betur fer allir gaman af því að því að hlæja,“ segir hann. „Og það er mikið hlegið.“ Ómar bætir því við að líklega sé ekki gott að vera rifbeinsbrotinn á túr með ADHD.

Hljómsveitin hefur komið sér ágætlega fyrir í djassklúbbasenu Norður-Evrópu, ekki síst í Þýskalandi, Sviss og Belgíu. Hún hefur leikið á 20 til 40 tónleikum árlega að undanförnu. „Það er dýrt að komast af þessari eyju okkar jafnvel þó bandið sé ekki stærra en þetta,“ segir Óskar. „En hér viljum við vera. Konan sem bókar okkur á tónleika í Þýskalandi segir að hún gæti fundið tónleikastaði þar fyrir okkur í hverri einustu viku, ef við bara værum á svæðinu, en í staðinn tökum þetta með áhlaupi þegar færi gefst.“

 Magnús Tryggvason Eliassen, trommur: „Við höfum sem betur fer allir gaman af því að því að hlæja.“

Magnús Tryggvason Eliassen, trommur: „Við höfum sem betur fer allir gaman af því að því að hlæja.“

Alveg spes blanda

Þegar best tekst til er tónlist ADHD nánast dáleiðandi. Í þannig seigfljótandi lögum er saxófónn Óskars eins og söngvari á róandi sem stendur fremst á sviðinu og syngjur flauelsmjúkur út í salinn. Síðan fer einhver á stökk, Ómar með gítarinn, Davíð Þór við hljómborðið eða þá að Magnús slær í klárinn. Stundum er eins og fjandinn sé laus og það er þessi teygja sem gerir ADHD blönduna svo heillandi, auk þess hve færir tónlistarmennirnir eru.

Nú er Davíð Þór Jónsson, galdramaður hljómborðanna, mættur í spjallið og um að gera að ræða tónlistina og ADHD-sándið. Ný plata, með nýjum lögum er upphafið á nýju tímabili hjá sveitinni, ekki niðurstaða. „Þetta er viðsnúningur frá því hvernig menn gerðu þetta í Nígeríu þegar Afrobeat tónlistin var upp á sitt besta á áttunda áratugnum,“ upplýsir Davíð Þór. „Þá var tónlistin unnin alveg í smáatriði og svo spiluð opinberlega aftur og aftur þangað til að hún var tilbúin fyrir upptöku. Við snúum þessu við. Setjum saman hugmyndir, hljóðritum svo en þróum síðan lögin á sviði,“ segir Davíð. „Þetta er algeng spurning í listum, hvenær er hluturinn til? Í höfðinu á þér, á plötu eða á sviðinu á tíundu tónleikum? Tónlist er markaðssett í dag eins og hún sé algjörlega tilbúin og óbreytanleg en tónlist er lifandi og verður til í fólki sem andar og hlustar.“

„Plöturnar eru eiginlega „blueprint“ af lögunum, drög eða fyrsta útgáfa,“ segir Óskar. „Ég fékk eiginlega sjokk um daginn þegar ég heyrði lag af plötu númer fjögur, sem við erum búnir að spila margoft síðan og heyrði hvað það hafði breyst mikið. „Við höfum þetta eiginlega þannig að það mega allir byrja að spila lögin hvar og hvenær sem er. Þó að þetta séu lagasmíðar þá skrifum við ekki upp lista yfir þau fyrir hverja tónleika. Þetta getur verið spennandi þegar við erum að byrja á tónleikaferðalögum og maður er dálítið ryðgaður, þá veit maður oft ekki hvað gerist og hver byrjar á hverju.“

Vikuritið The Economist, sem líka er með áhuga á menningu, fjallaði fyrr á árinu um nýjabrum í djasstónlist og það hvernig tónlistarmenn hafa endurskilgreint og opnað djasstónlist upp á gátt að undanförnu. En er tónlist ADHD, þessi sérstaka blanda, endilega djass? „Ég veit ekki af hverju við erum alltaf að tala um þetta sem djass,“ svarar Ómar. „Kannski er það af því að við notum saxófón og hann virkar stundum eins og söngvari sem ber uppi laglínuna. Allir geta komið með sín áhrif og þau geta komið úr öllum áttum. Þetta er opið í báða enda.“

Hljómsveitin ADHD hefur vakið mikla athygli fyrir tónlist sína heima og heiman. Nú er komin út ADHD6, nýjasta platan með þessari sérstöku blöndu. Myndir/Rut.
Hljómsveitin ADHD hefur vakið mikla athygli fyrir tónlist sína heima og heiman. Nú er komin út ADHD6, nýjasta platan með þessari sérstöku blöndu. Myndir/Rut.

Athyglin og veiðin

ADHD kennir sig við sjúkdómsgreiningu sem margir skrifa á reikning áreitisins sem einkennir líf okkar allra í samtímanum. Nafnið, segja þeir félagar, er heimspekileg og húmorísk pæling um sjúkdómsgreiningar, hvað þær þýði og hvað lyfjagjafir og lausnir í þeim efnum þýði fyrir einstaklingana. Samt vilja hljómsveitarmeðlimirnir ekkert fara nánar í þessa sálma. Nafnið kom bara um árið og það festist vel á sveitinni. „Við eigum allir börn, erum allir einhvers staðar á þessu rófi og höfum allir tekist á við bæði að kenna og nema,“ segir Davíð Þór.

Áreitið er vissulega mikið. Sumir listamenn þrífast á áreitinu en aðrir þurfa að kúpla sig út til að koma skipulagi á hugsanir sínar og hugmyndir. „Það er ábyrgðarhluti hvers og eins að finna eirð í sér til að skapa. Það getur verið krefjandi í dag“ segir Davíð Þór. „Mér finnst áhugavert að heyra ritskáldin lýsa þessu. Sumir setjast niður, byrja að skrifa og líta svo aðeins upp 82 blaðsíðum síðar. Það er eins og eitthvað komi yfir fólk.“

Milli tónlistarferðalaganna gefst tími til að fara á veiðar. Sá áhugi innan sveitarinnar getur sett strik í reikninginn við skipulag. Fiskigengd í ám og skotveiðitímabil hafa áhrif víða, líka í tónlistarlífinu. Það er gott að fara á fjöll, finna sér á eða ganga inn að heiðavötnum til að renna fyrir fisk. „Nýjasta fórnarlambið í veiðidellu sveitarinnar er Maggi,“ upplýsir Ómar. „Óskar er sá eini sem við eigum eftir að koma í þetta. Veiðin er bara eins og tónlistin, því frjálsari sem maður getur verið – því betra. Útiveran og náttúran gerir tónlistinni gott. Þar er frelsið.“

30742_adhd-12
Óskar Guðjónsson, saxófónn: „Það er dýrt að komast af þessari eyju okkar jafnvel þó bandið sé ekki stærra en þetta.“

Djasstónlistarmenn eru sumir hverjir stórar persónur og dálitlir egóistar. Hljómsveitir myndast oft í kringum einn og einn listamann og geta sprungið með hvelli. Hjá ADHD hafa hlutirnir þróast á lífrænan máta. „Músíklega höfum við aldrei rætt nokkurn skapaðan hlut um hvert við erum að fara eða hvað við erum að gera. Við höfum bara tekist á við að spila þau lög sem við höfum komið með í sarpinn,“ segir Óskar. „Manni líður vel af því að maður hefur aldrei þurft að setja sig í stellingar gagnvart félögunum. Við eigum þetta allt saman og ákvarðanir hafa verið teknar lýðræðislega. Maður er bara kominn heim þegar maður mætir í hljómsveitina og allir hafa opið eyra til að láta hlutina ganga upp. Þetta er góð jafna. Við þróum tónlistina í sameiningu.“

Nýja platan er hressandi. Fyrir alvanan aðdáanda ADHD virkar hún kannski ívið frjálsari og hljóðheimurinn kannski eilítið „speisaðari“ en áður. „Þetta er eðlilegt framhald af okkar tóni,“ segir Óskar. „Við gáfum okkur aðeins meiri tíma í hljóðverinu og þetta gekk stressfrítt fyrir sig. Við gátum alltaf farið heim og sofið á þessu. Það er gott. Ívar Ragnarsson tók þetta upp með okkur eins og tvær fyrri plötur og hann er mikilvægur hlekkur í þessu. Við hvöttum hann til að setja meira mark á þetta og leika sér.“

Eins og fleiri íslenskir tónlistarmenn eru ADHD-liðar í fjölmörgum öðrum verkefnum. Þeir eru samt sammála um að þessi sveit sé dálítið sérstök. „Þetta er fastur punktur í lífi manns og efst á listanum. Við eigum þetta allir og þetta er einhvers konar fjölskylda sem maður elskar að vera hluti af,“ segir Ómar og Magnús bætir við: „Ætli þetta sé ekki meira bræðralag hjá okkur en í öðrum böndum sem maður er í. Ég hlakka alltaf til.“

Davíð á síðasta orðið: „Þetta fer í allar áttir eins og gott hjónaband. Ef þetta væri bara á einn veg þá væri þetta ónýtt.“

 

Konan kemur við sögu

$
0
0

Þó að Íslandssagan sé oft karllæg, eins og á við um aðra stórsögu á Vesturlöndum, hefur konan vitanlega komið við sögu í gegnum aldirnar með ýmsum hætti. Á síðustu árum hefur hlutur kvenna í sagnfræðirannsóknum aukist til muna með samstilltu átaki, annars konar sýn á heimildir og víðari hugsun um fortíðina. Í tilefni af 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna, sem haldið var upp á í fyrra, gefur Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum nú út forvitnilegt og fjölbreytt greinasafn sem heitir einmitt Konan kemur við sögu. Greinarnar í safninu eru stuttar, umfjöllunarefnin fjölbreytt og frá ýmsum tímum og öldum.

30737-fjallkona

Úr greininni Kvenþjóð eftir Guðrúnu Nordal, forstöðumann Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum:

Orð eru til alls fyrst. Orð ramma inn hugsanir okkar og því þarf sífellt að smíða ný orð til að fanga nýja hugsun, nýjar aðferðir og nýjar hugmyndir. Ég hef lengi verið hugsi yfir orðinu kvenþjóð sem virðist fyrst notað í ritmáli um miðja 19. öld. Orðið kemur fyrst fyrir á tíma sjálfstæðisbaráttunnar og velta má fyrir sér hvort það sýni djúpstæða aðgreiningu á kynjunum þegar hin þjóðernislega skilgreining á þjóðinni varð til. Um hvaða þjóð er verið að tala? Var litið á konur sem sérstakan þjóðflokk, og tilheyrði þeim hópi allar konur hvar svo sem þær væru fæddar í heiminum?

30737-gudrun-04892
Guðrún Ingólfsdóttir. Mynd: Hari.

 

Brjóstagjöf í Íslendingasögum

„Persónulegt líf og nærumhverfi kvenna er ekki algengt umfjöllunarefni í Íslendingasögunum,“ segir Guðrún Ingólfsdóttir sem ritar um náið samband móður og barns við brjótagjöf þegar kemur að þeim merku sögum. „Á yfirborðinu fjalla sögurnar auðvitað um átök á opinberum vettvangi og því er tilfinningalíf fólks ekki beint í forgrunni. Samt er að finna þar litlar frásagnir, eins konar glugga, sem veita innsýn inn í líf venjulegs fólks eða tilfinningalíf.

Því hefur stundum verið haldið fram að vegna tíðs barnadauða hafi fólk á þessum tíma ekki tengst börnum sínum jafn sterkum tilfinningaböndum og síðar varð. Ég held að þetta sé ekki rétt. Fólk er eins á öllum tímum en hins vegar má segja að þetta tilfinningalíf á fyrstu árum barnsins hafi ekki verið frásagnarvert. Þetta er eiginlega bara of hvunndagslegt og þess vegna eru dæmin svona fá.“

Guðrún rekur tvö dæmi í grein sinni um brjóstagjöf. Annars vegar orðfáa frásögn í Fljótsdælasögu þar sem Þorlaug Bessadóttir þarf að bregða sér af bæ og frá stúlkubarni sínu. „Hún lét eftir meyna og vandi af brjósti,“ segir þar. Þetta virkar alls ekki í frásögur færandi og vefst hvorki fyrir móður né höfundi sögunnar.

Hitt dæmið er sérkennilegra. Það er úr Flóamanna sögu en þar venur Þorgils örrabeinsstjúpur son sinn, Þorfinn, á geld karlmannsbrjóst sín til að halda í honum lífinu. Til þess lætur hann saxa á geirvörtu sína og lætur drenginn „teygja það og kom þar út blanda og eigi lét hann af fyrr en það var mjólk og þar fæddist sveinninn við.“ Síðar í sögunni, eftir þetta mikla karlmennskuafrek, kveðst Þorgils skilja vel hvers vegna konur unna „brjóstbörnum meira en öðrum mönnum.
Það er kannski dálítið tragí-kómískt að þegar að einhver höfundur fer loks að velta því fyrir sér hvernig konum líði þegar þær venja börn sín af brjósti þá sé það í gegnum augu og upplifun karlmanns,“ segir Guðrún Ingólfsdóttir.

Gísli Sigurðsson. Mynd: Hari.
Gísli Sigurðsson. Mynd: Hari.

Harðar og mjúkar sögur í Vesturheimi

Gísli Sigurðsson, einn af starfsmönnum Stofnunar Árna Magnússonar, skrifar eins og fleiri höfundar í bókinni nokkrar stuttar greinar í hana. Í einni þeirra skoðar hann sögur Vestur-Íslendinga sem safnað var á segulband vetrarlangt um miðjan áttunda áratug síðustu aldar af hjónunum Hallfreði Erni Eiríkssyni og Olgu Maríu Franzdóttur.

„Ef maður setur upp kynjagleraugu kemur í ljós að upptökurnar sem þau gerðu á þessum tíma sýna fram mjög mismunandi áhugasvið kynjanna. Karlarnir tala mikið um veruleikann utan heimilisins, veiðiferðir, svaðilfarir og skrítna karla, en konurnar eru miklu meira með sínar sögur bundnar við fjölskyldulífið, dulræna þætti, sáluhjálp, hjúskap og barnauppeldi. Kynbundinn munur var því greinilegur í sögunum.

Kannski hefur líka hjálpað að þarna var kona með í för til að safna sögunum og þess vegna hafi þær orðið margbreytilegri, því eins og hver sagnamaður eða sagnakona veit þá eru sögur aðlagaðar eftir því hver á að hlusta á þær.“

Þetta telur Gísli til merkis um að eldri bókmenntir megi lesa með þetta í huga. „Ég hef auðvitað verið að rýna í Eddukvæðin og Íslendingasögurnar innblásinn af fræðum Helgu Kress um að konur segðu öðruvísi frá en karlar. Ég fór að vinna með þá hugmynd hvort hægt væri að skýra muninn í Eddukvæðunum til dæmis með þessum muni á frásögnum kynjanna. Mér sýnist enn að þar séum við með tvenns konar sýn eða túlkun á söguþræði hetjusagnanna sem Eddukvæðin geyma. Karlarnir finni sig í hópi þeirra sem halda á sverðunum en síðan er sagan stundum sögð frá sjónarhóli kvennanna sem eru að missa maka sína, syni og feður í þessum átökum.

Við eigum því að lesa fornsögur og forn kvæði með þetta í huga að þær eru ekki allar skrifaðar frá sama sjónarhorni. Það þarf ekki endilega að vera að sá sem segi söguna eða skrái hana sé karl eða kona, heldur geta sögurnar verið ýmist skrifaðar inn í kvenlegra eða karllegra umhverfi. Einstaklingurinn lagar sig að áheyrendunum.“

Guðrún Laufey Guðmundsdóttir. Myndir: Hari.
Guðrún Laufey Guðmundsdóttir. Myndir: Hari.

Söngva-Borga og Galdra-Manga

Kvæðamenn voru á öldum áður skemmtikraftar síns tíma og jafnvel fréttaveitur sveitanna í leiðinni. Þeir ferðuðust frá bæ til bæjar og skemmtu með rímnasöng sínum. Ef grannt er skoðað er líka að finna í hópi kvæðamanna konur sem kunnar voru fyrir söng sinn. Guðrún Laufey Guðmundsdóttir ritar um tvær þeirra í nýju bókinni.

„Ég vel mér tvær forvitnilegar konur til að segja frá. Önnur þeirra er Vilborg Jónsdóttir sem kölluð var Söngva-Borga. Hún var úr stöndugri fjölskyldu, móðursystir Guðbrands Þorlákssonar biskups. Vilborg fór ótroðnar og grýttar slóðir í lífinu. Hún var dóttir sýslumanns og í Sýslumannsæfum segir að „hún giptist eigi, en átti barn með drengstetri, varð seinast úti.“ Þessi heimilslausa kona ferðaðist frá bæ til bæjar og launaði fyrir sig með söng en verður svo úti á milli bæja. Þetta sýnir að stundum varð ævin allt önnur en til var ætlast og alls konar fólk gat flosnað upp og farið á vergang,“ segir Guðrún Laufey. Söngva-Borga varð rithöfundinum Jóni Trausta síðar efni í sögulegri skáldsögu sem gerðist þegar hún var uppi á fyrri hluta 16. aldar.

„Hins vegar beini ég sjónum að Margréti Þórðardóttur,“ segir Guðrún Laufey. „Margrét skráist á spjöld sögunnar ekki síst vegna þess að hún dregst inn í galdrafár síns tíma. Hún fékk viðurnefnið Galdra-Manga og um hana eru miklar þjóðsagnir. Faðir hennar var brenndur fyrir galdra og sjálf var hún ofsótt um allt land fyrir þá. Þegar lýst er eftir henni á Alþingi segir í Alþingisbókum: „Vel að meðalvexti, ljósleit, kinnbeinahá, léttfær og skynsöm í máli. Kveður nærri kvenna best.“ Síðar er hún hreinsuð af ásökunum, giftist og varð langlíf.

Með þessum hætti verður maður stundum að lesa á milli línanna til að grafa upp frásagnir af tónlistarlífi fyrri alda og hvað þá að finna konur sem hafa auðvitað líka farið með kveðskap á milli bæja og sungið rímur.“

Hallgrímur J. Ámundason
Hallgrímur J. Ámundason

Fjallkonur landsins

Hallgrímur J. Ámundason rannsakar nöfn og hefur óbilandi áhuga á þeim, bæði á örnefnum og mannanöfnum. Rannsóknir hans sýna að kvenmannsnafnið Hekla er heldur nýtt af nálinni, það kemur til á öðrum áratug 20. aldar. Fyrsta Heklan var fædd árið 1910 en með tíðum og „túristavænum“ gosum eldfjallsins eftir 1970 greinir Hallgrímur sprengingu í kven-Heklum. 1. janúar 2015 eru síðan 464 konur sem bera þetta fallega nafn, ýmist sem fyrra (369) eða síðara nafn.
Í grein sinni í Konan kemur við sögu grefst Hallgrímur fyrir um fyrstu Hekluna. Grúskið sýnir að sú Hekla leikur badminton í Reykjavík á stríðsárunum og dansar nútímalegan dans eftir stríðið í New Jersey í Bandaríkjunum. Hún hét reyndar Kristín Hekla Jóhannesdóttir og var dóttir Jóhannesar Jósefssonar sem kenndur var við Hótel Borg.

Hekla er greinileg og rauðleit á Suðurlandi á Íslandskorti Abrahams Orteliusar (1527-1528) Talið er líklegt að Guðbrandur Þorláksson biskup hafi verið raunverulegur höfundur kortsins. Mynd: Kortavefur Landsbokasafns
Hekla er greinileg og rauðleit á Suðurlandi á Íslandskorti Abrahams Orteliusar (1527-1528) Talið er líklegt að Guðbrandur Þorláksson biskup hafi verið raunverulegur höfundur kortsins. Mynd: Kortavefur Landsbokasafns

1947, sama ár og eldfjallið sögufræga ræskir sig rækilega eru tvær stúlkur nefndar Hekla, önnur fæddist daginn eftir að gosið hófst og því líklegt að atburðirnir hafi haft áhrif á nafnavalið. Samt er það ekki fyrr en árið 1997 að 20 Heklu múrinn er rofinn.

En Hallgrímur veltir líka fyrir sér öðrum eldfjöllum og kvenmannsnöfnum í sinni forvitnilegu grein í bókinni. Katla er eldfjall sem við berum óttablandna virðingu fyrir. Katla er samt fornt heiti og í manntali 1910 ber ein kona nafnið. Það er síðan 20. öldin sem tekur litlar Kötlur í faðm sér í auknum mæli. Eitt tilfelli er til um Öskju á 20. öld en á nýrri öld hafa nokkrar bæst við.

 

Það kennir ýmissa grasa í kverinu sem Stofnun Árna Magnússonar hefur gefið út um það hvernig konan kemur við sögu. Starfsmenn og góðvinir stofnunarinnar birta þar forvitnilega og fjölbreytta pistla sem sýna það hvernig konur skjóta upp kolli í annars allt of karllægri sýn okkar á sögu fyrri alda.
Það kennir ýmissa grasa í kverinu sem Stofnun Árna Magnússonar hefur gefið út um það hvernig konan kemur við sögu. Starfsmenn og góðvinir stofnunarinnar birta þar forvitnilega og fjölbreytta pistla sem sýna það hvernig konur skjóta upp kolli í annars allt of karllægri sýn okkar á sögu fyrri alda.

Þú hefur tíma fyrir þessar bækur

$
0
0
30802-takk-fyrir-ad-lata-mig-vita-fridgeir
Takk fyrir að láta mig vita
Smásögur eftir Friðgeir Einarsson.
Sviðslistamaðurinn Friðgeir býður í sinni fyrstu bók upp á smámyndir úr daglegum veruleika víða um lönd. Hversdagsleikinn er margslungnari en margur heldur og það sannast hér. Sögurnar lifa með manni og margt liggur milli línanna á þessum 144 bls.
30802-kompa-sigrun-palsdottir
Kompa 
Skáldsaga eftir Sigrúnu Pálsdóttur.
Ung fræðikona vinnur að doktorsritgerð en uppgötvar að hún er byggð á sandi. Hún hrekst heim til Íslands og tekur upp þráðinn í samskiptum sínum við ýmsa í lífi sínu. Bók er oft dálítið dularfull, fjölbreytt í stíl og því gott að lesa hana hægt og njóta stílbragðanna. Hún er 168 bls.
30802-ranid-a-hunboga-ofeigur
Ránið á Húnboga Höskuldssyni alþingismanni
Skáldsaga eftir Ófeig Drengsson.
Nokkrir vinir eru að drekka bjór í miðbænum áður en þeir halda í veiðiferð vestur á firði. Á leiðinni bjóða þeir Húnboga Höskuldssyni, þingmanni Framsóknarflokksins, far heim en ákveða svo að sleppa honum ekki. Þeir vilja heldur rökræða pólitík við þingmanninn. 82 bls.
30802-samskiptabodordin-adalheidur
 Samskiptaboðorðin
Handbók eftir Aðalbjörgu Stefaníu Helgadóttur.
Það er nauðsynlegt að átta sig á því hvernig við höfum samskipti. Hér er þessum samskiptum lýst og aðferðir settar fram sem gætu bætt þau, en eins og við vitum hefur fátt meiri áhrif á líðan okkar en einmitt sambandið við annað fólk. Þetta er gert upp á 184 síðum.
30802-ljon-nordursins-bjarki
Ljón norðursins
Ævisaga eftir Bjarka Bjarnason
Ævisögur geta verið forvitnilegar og skemmtilegar, sérstaklega um forvitnilegt fólk. Leó Árnason (1912-1995) var svo forvitnilegur að hann tók sér listamannsnafnið Ljón norðursins. Hann auðgaðist á viðskiptum en snéri sér svo að listinni af fullum þunga. Nóg af myndum á 120 síðum.
30802-hestvik-gerdur-kristny
Hestvík
Skáldsaga eftir Gerði Kristnýju. 
Í sumarbústaðalandi í Grafningnum kemur fólk til að vera í friði með minningar sínar og leyndarmál á meðan dagarnir styttast. Gerður Kristný fjallar í þessari þriðju skáldsögu sinni fyrir fullorðna um skilin milli barnæsku og fullorðinsára og hvernig við upplifum æsku okkar. 163 bls.
30802-sonettan-sigurjon
Sonnettan
Skáldsaga eftir Sigurjón Hjartarson. 
„Land, þjóð og tunga – þrenning sönn og ein,“ segir í frægri sonettu skáldsins Snorra Hjartarsonar. Sigurjón Magnússon veltir fyrir sér hvernig þessi orð ríma við fjölmenningu dagsins í dag. Deilur um þetta verða svo miklar innan menntaskólans þar sem söguhetjan Tómas starfar að hann hrökklast úr starfi og alla leið til Spánar. Á Spáni stækkar spurningin um hvað sé til í orðunum úr sonettunni í huga Tómasar. 160 bls.
30802-draumrof-ulfar
Draumrof
Skáldsaga eftir Úlfar Þormóðsson. 
Hvað gerir maður þegar fyrrum vinur manns skrifar bók um atvik úr lífi manns? Í þessari bók ákveður söguhetjan að brjótast inn í tölvu rithöfundarins og upplýsa lesandann um hvað hann finnur þar. Jafnframt því er best að segja satt og rétt frá eigin ævi. Segja frá velgengni og falli, óbærilegum harmi og djúpstæðri sátt. 157 bls.

„Saga afa er saga Kópavogs“

$
0
0
„Þessi saga fyrstu áranna í þéttbýlismyndun Kópavogs byggir á minni fjölskyldusögu sem ég hef verið að rannsaka síðustu ár. Sveinn Mósesson, afi minn, var meðal þeirra fyrstu sem byggðu sér hús í Kópavogi þegar þéttbýli tók að myndast þar. Við vorum mjög nánir á sínum tíma þó að langt sé milli kynslóða, hann fæddur 1907 en ég 1971. Ég fékk gamla tímann eiginlega  beint í æð frá honum og held að hann hafi kveikt hjá mér sagnfræðiáhugann. Hann sagði mér til dæmis sögur af Guttóslagnum og þessar sögur heilluðu mig mikið,“ segir Leifur Reynisson.
 Leifur Reynisson sagnfræðingur hefur fundið samhljóm í sögu afa síns og ömmu og sögu Kópavogs. Hann fléttar þetta saman í bók um þéttbýlismyndun í þessu öðru fjölmennasta sveitarfélagi landsins. 

Leifur Reynisson sagnfræðingur hefur fundið samhljóm í sögu afa síns og ömmu og sögu Kópavogs. Hann fléttar þetta saman í bók um þéttbýlismyndun í þessu öðru fjölmennasta sveitarfélagi landsins.
Önnur bókin um afa 
Leifur segir að afi sinn, Sveinn, hafi verið fróður alþýðumaður og þegar kom að því að rannsaka sögu hans fór Leifur í stóran frændgarð sinn til að leita efnis, finna ljósmyndir og safna sendibréfum og alls konar pappírum og taka viðtöl við þá sem mundu gamla tíma. „Þessi bók er verk númer tvö þar sem ég skrifa um afa minn,“ segir Leifur. „Ég hef líka skrifað um fyrstu árin í lífi hans vestur á fjörðum þar sem ég speglaði sögu hans í samfélagsbreytingum á fyrstu áratugum 20. aldar. Ég dró fram mynd af umbreytingu frá bændasamfélagi og yfir í nútímaþjóðfélagið sem þá var að hefja innreið sína.
Síðar er afi meðal allra fyrstu frumbyggja Kópavogs þegar hann byggir sér hús þar á árunum 1937-38. Ég fann myndir frá þessum tíma á filmum í gömlum vindlakassa og sá að þær vörpuðu ljósi á þessar breytingar sem ekki hefur verið skrifað mikið um, það hvernig Kópavogur verður til út af ákveðnum félagslegum og sögulegum aðstæðum.“
Það var berangurslegt á Digraneshálsi þegar fyrstu húsin risu þar. Landslagið var stórgrýtt og íbúarnir höfðu mikið fyrir að sprengja og brjóta niður klappir og kletta. Hér eru Guðdís og Reynir á mynd. Amma og faðir Leifs Reynissonar. 
Það var berangurslegt á Digraneshálsi þegar fyrstu húsin risu þar. Landslagið var stórgrýtt og íbúarnir höfðu mikið fyrir að sprengja og brjóta niður klappir og kletta. Hér eru Guðdís og Reynir á mynd. Amma og faðir Leifs Reynissonar.
Kópavogur úr kreppu
Leifur nálgast því sögu Kópavogs í gegnum Svein afa sinn og bróður hans, Finnjón Mósesson. Báðir voru þeir málarar sem komu sér upp húsi í Kópavogi. „Þéttbýli í Kópavogi kemur til upp úr kreppunni miklu í upphafi fjórða áratugarins,“ segir Leifur. „Þetta var ótrúlega mikil sveit á þessum árum og þarna var fólk að koma undir sig fótunum sem ekki náði í lóð eða húsnæði í Reykjavík. Þannig féll afi í þann flokk sem var oft kallaður „landshornaflakkararnir á hálsinum“ en þar var vísað til Digraneshálsins, þar sem byggðin byrjaði fyrst.
Sögulegur bakgrunnur þéttbýlis í Kópavogi var sá að stjórn hinna vinnandi stétta (sem var við völd 1934-38) ákvað að skipta upp og deila út tveimur ríkisjörðum, Kópavogsjörðinni og Digranesjörðinni. Þetta voru stórar jarðir en ekki sérstaklega merkilegar bújarðir. Uppskiptin voru með tvennum hætti: stærri nýbýli sem voru norðan við núverandi Nýbýlaveg og síðan blettir sem voru sunnan megin Nýbýlavegar og hver þeirra var einn hektari að stærð. Þetta var í raun ein af kreppuráðstöfun stjórnvalda á þessum tíma. Afi fékk einn af þessum hekturum og það fylgdi sú kvöð að viðkomandi varð að rækta sinn hektara upp á tíu árum, en heilsárshús voru ekki leyfð.
Á þessum tíma var Kópavogur hluti af Seltjarnarneshreppi og þar vestur frá var mönnum ekki að skapi að íbúar færu að reisa sér íbúðarhús í Kópavogi. Húsnæðishallærið var hins vegar svo mikið að margir freistuðust til þess. Það er síðan ekki fyrr en Kópavogur slitnar frá Seltjarnarnesi og verður hreppur, 1948, að upp koma stórfelld áform um að mynda kaupstað.“
30722-alfholsvegur-dalli-vid-husid
Reiðhjólið nauðsynlegt
Leifur segir ljóst að reiðhjólið hafi verið forsenda þess að byggð myndaðist svo snemma í Kópavogi. „Á þessum fyrstu árum var, eðli málsins samkvæmt, enga vinnu að fá í Kópavogi og margir þeirra sem þar byggðu höfðu ekki ráð á bifreiðum á þessum árum og því var reiðhjólið hið mesta þarfaþing. Sú var til dæmis reyndin með afa minn sem sótti vinnu sem málari inn til Reykjavíkur. Þannig að fyrstu árin var bara hjólað þarna á milli.
Í upphafi skorti margt í þessum búskap. Vatn urðu menn sér úti um með því að grafa brunn, afi var með vindmyllu til að framleiða rafmagn í lýsingu og hópferðir voru farnar í þvottalaugarnar fyrstu árin. Á stríðsárunum kemur rafmagn í húsin, síðan vatnsveita og skólp og loks skóli í bæinn eftir stríð, 1949. Þessum breytingum og þróun á þjónustu og auknum bæjarbrag lýsi ég í bókinni. Ég sá bara að saga afa og ömmu, Guðdísar Guðmundsdóttur, spannaði eiginlega alveg sögu bæjarfélagsins og þess vegna brá ég á það ráð að tengja þetta svona saman.“
Sveinn Mósesson, afi Leifs Reynissonar, á reiðhjóli sem var þarfaþing á árunum þegar þéttbýli tók að myndast í Kópavogi. 
Sveinn Mósesson, afi Leifs Reynissonar, á reiðhjóli sem var þarfaþing á árunum þegar þéttbýli tók að myndast í Kópavogi.

Hlaðvarp: Frábær nýting á vannýttum tíma

$
0
0

Ég verð alltaf jafn hissa þegar ég spjalla við fólk sem þarf að aka langar vegalengdir eða sinna einhæfum störfum og kemst að því að það hlustar ekki á hlaðvörp til þess að stytta sér stundir. Svo djúpt er ég sokkin að ég á orðið erfitt með að sinna verkum sem krefjast ekki mannlegra samskipta án þess að vera með malandi hlaðvarpsraddir í þráðlausu heyrnartækjunum.
Undanfarið hef ég verið mikið í því að búa um rúm og þrífa herbergi eftir íveru ferðamanna. Það er ágætis búbót en hvorki sérlega skemmtileg iðja né auðgandi fyrir andann. Þegar við bætast almenn heimilisstörf og önnur leiðindi að vinnu lokinni geta brúnirnar verið fljótar að þyngjast. Það er hægt að lífga upp á daginn með reglulegum innlitum á samfélagsmiðla en þar til ég kynntist hlaðvörpum fannst mér skorta verulega á dýptina. Ég nenni ekki lengur að hlusta á yfirborðskennt kurteisishjal dægurmálaþátta eða pólitískt þras fréttatíma. Nú hlusta ég tímunum saman á fólk sem fellir grímuna á bakvið upptökutækið, talar af óheflaðri og óritskoðaðri ástríðu um það sem það hefur áhuga á og gaman af og skellir því á netið í formi streymandi hljóðskráa.
Öldur þessa nýja ljósvaka hafa fært mikla gleði og birtu inn í hversdagsleikann og nú skelli ég oft á tíðum upp úr við klósettþrifin og fæ gæsahúð við þvottafráganginn. Umferðin fer ekki í taugarnar á mér lengur, biðröðin við kassann í matvöruversluninni er allt of stutt og ég sit stundum áfram í bílnum fyrir framan húsið mitt þar til heimilisfólkið fer að vinka mér í glugganum. Ég lít ekki á hlustunina sem tímasóun og innantóma afþreyingu heldur frábæra nýtingu á annars vannýttum tíma. Í gegnum leiftrandi fyndna og klára persónuleika má fræðast og fá góða tilfinningu fyrir samfélaginu, heimsmálunum, menningunni og alls konar furðuhlutum eftir smekk hvers og eins.
Það eru vel yfir hundrað þúsund virkar hlaðvarpsþáttaraðir í boði á ensku og tugir íslenskra. Ótalinn er gríðarlegur fjöldi þáttaraða sem hafa runnið sitt skeið en það má finna ýmsa fjársjóði með því að hlusta aftur í tímann. Ég hef ekki enn nema rétt gárað yfirborðið og birti hér einungis lista yfir þau hlaðvörp og hlaðvarpsflokka sem ég hlusta mest á í augnablikinu og endurspegla mín eigin hugðarefni (engar íþróttir eða pólitík) en að sjálfsögðu má finna og nálgast þáttaraðir um allt milli himins og jarðar með leit í podcast smáforritum. Einnig er hægt er að fá góðar ábendingar í hlaðvarpshópum á fésbókinni. Gleðilega hlustun.

Grín

icetralia

Icetralia er fyrsta og eina íslensk/ástralska hlaðvarpið í heiminum. Uppistandararnir Hugleikur Dagsson og Jonathan Duffy eru hvorki frá sömu heimsálfu né með sömu kynhneigð en smella svo vel saman að unun er á að hlýða. Þeir deila með hvor öðrum og hlustendum drepfyndnum og einlægum reynslusögum af daglegu amstri, vandræðalegum misskilningi og sívaxandi vináttu. Að hlusta er eins og að vera fluga á vegg þegar menn eru á góðu „trúnó“ nema þúsund sinnum skemmtilegra. Til að kóróna stemninguna geta hlustendur einstaka sinnum fengið tækifæri til þess að vera viðstaddir upptöku þáttarins en þá er hann tekinn upp á skemmtistað í bænum og jafnast á við bestu uppistandssýningar.
Ef þið eigið ykkur uppáhalds grínista er ansi líklegt að hann sé annað hvort að stjórna sínu eigin hlaðvarpi eða hafi verið gestur í hlaðvörpum annarra og ekki ætti að vera flókið að hafa uppi á þeim. Ég mæli til dæmis með The Doug Stanhope podcast og Monday Morning – Bill Burr

Viðtöl

wtf

WTF with Marc Maron er gamalgróið og virt hlaðvarp en grínistinn og rithöfundurinn Marc Maron er skemmtilegur spyrjandi sem hefur einstakt lag á því að fá fræga gesti til þess að slaka á og opna sig meira en þeir gera í viðtölum við aðra miðla. Meira að segja fráfarandi forseti Bandaríkjanna hefur komið og veitt viðtal í bílskúrnum heima hjá honum í Los Angeles þar sem hann tekur upp þættina. Marc er hreinskilinn og heimspekilegur og skammast sín ekkert þótt það komi fyrir að hann tárist með viðmælendum sínum þegar þannig blæs í seglin.
Áhugavarpið með Ragnari Hanssyni kvikmyndaleikstjóra er dæmi um góðan viðtalsþátt sem gerður er hér á landi. Þetta var einn af fyrstu þáttunum sem fóru í gang á hlaðvarpsþjónustunni Alvarpinu og ræðir hann í þeim „við áhugavert fólk um áhuga af áhuga“ eins og upphafsorð hvers þáttar hljóða.
Menningarumfjöllun

hefnendurnir

Nerdist er afar vinsælt hlaðvarp þar sem fjallað er um dægurmenningu á léttu nótunum. Þekktir leikarar, tónlistarmenn og skemmtikraftar eru teknir í um klukkutíma löng viðtöl um þeirra smekk, feril og það sem þeir eru að fást við hverju sinni. Þetta eru æðislegir þættir þótt titillinn sé orðinn nánast merkingarlaus þar sem nördamenningin sem var í upphafi jaðarmenning sérlegra áhugamanna um teiknimyndasögur, ofurhetjur, tölvu- og hlutverkaleiki hefur blandast meginstraums dægurmenningu og nær nú einnig yfir almenna umfjöllun um hvers kyns sjónvarpsefni og kvikmyndir.

englaryk
Konungar íslensks nördahlaðvarps eru og verða Hefnendurnir, þeir Hugleikur Dagsson og Jóhann Ævar Grímsson sem hættu á toppnum eftir hundrað þætti. Þeir halda þó enn reglulegar bíósýningar og sinna aðdáendum sínum (Jarðarbúum) vel á fésbókarsíðu þáttarins. Einnig verð ég að minnast á þáttinn Englaryk fyrir vitrænan slúðurskammt um fræga fólkið í Hollywood. Þátturinn er í umsjá þeirra Drafnar Aspar Snorradóttur-Rozas og Hönnu Eiríksdóttur sem eru fagdömur fram í fingurgóma. Ég kynni einnig til sögunnar nýtt, hrátt en efnilegt Soundcloud varp: Dashing Through the Snow þar sem kvikmyndagerðarkonurnar Lovísa Lára Halldórsdóttir og Nanna Höjgaard Grettisdóttir glápa á eldgamla þætti af Keeping up with the Kardashians og spjalla um þá og sitt eigið líf á ensku.
Hryllingur

last_podcast_on_the_left

The Last Podcast on the left er brjálæðislega hress og fyndin þáttaröð um alls kyns hrylling, bæði raunverulegan og skáldaðan. Þar er rætt um fjöldamorðingja, vampírur, geimverur, mannætur, draugagang og djöfla. Efnistökin ná svo langt inn í dimmustu afkima mannkyns að eina leiðin til þess að höndla það svo þolanlegt sé er með öfgakenndu gríni. Þáttastjórnendur hafa þó ávalt unnið heimavinnuna sína og gagnrýnin hugsunin skín í gegn um glensið. Ég get samt ekki hlustað á þá þegar ég er ein heima.

my_favorite_murder
My Favorite Murder – Sannar sakamálasögur sagðar af tveimur blíðlyndum og kímnum vinkonum sem deila hrollvekjandi áhugamáli og heillast af því sem þær eru hræddastar við.

Vísindi og fróðleikur

stuffyoushouldknow2-1

Stuff you Should Know eru stuttir og heillandi þættir sem leitast við að útskýra á einfaldan hátt allt sem þú vissir ekki að þú hefðir áhuga á að vita um. Þarna má meðal annars finna umfjallanir um þrívíddarprentun, marglyttur, snákatemjara, fellibylji, loftbelgi, pez-karla, bréfdúfur, kóngulær og brenninetlur, svo eitthvað sé nefnt. Hlaðvarpið er hluti af fræðslusíðunni Howstuffworks.com sem birtir greinar, myndbönd og önnur hlaðvörp sem varpa ljósi á það hvernig heimurinn virkar.
Mannrækt og andleg málefni

On Being í umsjón blaðamannsinns Kristu Tippett eru margverðlaunaðir þættir um lífið og tilveruna. Þarna eru stórar siðferðislegar spurningar ræddar á pollrólegum nótum við andlega þenkjandi rithöfunda, skáld, leiðtoga, eðlisfræðinga og þar fram eftir götunum. Fínt að sofna út frá þessum.

Radiolab eru þekktir heimildarþættir um vísindi og mannlega tilveru með heillandi hljóðheimi sem senda hugann á flug.
Tónlistarumfjöllun

Hefðbundin hlaðvörp leggja áherslu á talað mál og það gerir einnig tónlistarhlaðvarpið Fílalag í umsjón samfélagsrýnisins Bergs Ebba og tónlistarmannsins Snorra Helgasonar. Það hefur fest sig rækilega í sessi og á að baki hundrað þætti og dyggan hóp fylgjenda (Fílahjörðin). Stjórnendur taka fyrir nokkurra mínútna langt lag í hverjum þætti og fíla það í tætlur á klukkutíma, ræða um hughrif þess og menningarlegt samhengi á þann hátt að ómögulegt er að hrífast ekki með.
Að sjálfsögðu eru svo margir dúndurgóðir tónlistarþættir sem sendir eru út á hefðbundnum útvarpsrásum einnig í boði sem poddköst eins og til dæmis Arnar Eggert sem spáir og spekúlerar í diskói jafnt sem dauðarokki og grefur upp gullmola sem rata sjaldan í dagspilun, Langspil þar sem Heiða Eiríks kembir nýútkomna íslenska tónlist, leikur lög og tekur viðtöl við tónlistarmenn og svo er kletturinn Rokkland enn í traustum höndum Óla Palla.

Kristinn Sigmundsson tilnefndur til Grammy verðlauna

$
0
0

„Þetta er skemmtilegt og kemur á óvart. Þetta er með flottari uppfærslum sem ég hef tekið þátt í og verkið sjálft er æðisgengið,“ segir Kristinn sem tók þátt í óperu bandaríska tónskáldsins John Corigliano Draugarnir í Versölum. Bæði uppfærsla Los Angeles óperunnar á verkinu og upptaka á því eru tilnefnd til Grammy-verðlauna.

Kristinn Sigmundsson í hlutverki Loðvíks sextánda í óperunni Draugarnir í Versölum eftir John Corigliano.
Kristinn Sigmundsson í hlutverki Loðvíks sextánda í óperunni Draugarnir í Versölum eftir John Corigliano.

Óperan er meira en lítið blóðug og en hún gerist í framhaldslífi aðalsfólksins sem fór illa út úr frönsku byltingunni. Í verkinu fór Kristinn með hlutverk Loðvíks sextánda Frakkakonungs. „Þó að ég sé kóngurinn var hlutverkið mitt ekki stórt en uppsetningin var geysilega mannmörg,“ segir Kristinn. „Sýningarnar voru sex eða sjö talsins, uppseldar upp í rjáfur með góðum fyrirvara en uppfærslan var gríðarlega dýr. Fyrir mann sem syngur aldagamla tónlist flesta daga er mjög gaman að fá að taka þátt í einhverju sem er nýtt og spennandi. Tónskáldið tók þátt í æfingunum og sendi mér jafnvel tölvupósta um þær. Þú getur ímyndað þér hvernig er að fá tölvupóst frá Mozart,“ segir Kristinn og hlær.

 

Bíræfnasti kokkur Frakklands

$
0
0

Alain Passard er sextugur að aldri og hann hefur áhuga á tvennu, mat og tónlist. Foreldrar hans voru tónlistarmenn en fjórtán ára gamall sagði Passard þeim að hann vildi verða matreiðslumaður. Mataráhuginn kom frá ömmu hans og í viðtölum er Passard tíðrætt um þau djúpu áhrif sem matargerð ömmunnar hefur haft á metnað hans í gegnum árin. Amma kenndi honum þannig að umgangast opin eld sem er mikilvægur í hefðbundinni franskri matargerð og Passard hefur nýtt sér í gegnum árin.

Á unglingsárum réð Passard sig sem aðstoðarmann í eldhús í París, Reims og Brussel og drakk í sig alla þá reynslu sem eldhúsin höfðu að geyma. Hann skólaðist í sígildri franskri matargerðalist hjá stjörnukokkum sem gáfu unga manninum séns á að sanna sig. Á níunda áratugnum náði hann tvívegis að skreyta sig með tveimur af stjörnunum eftirsóttu á tveimur mismunandi veitingastöðum.

Árið 1986 kom Alain Passard fótunum undir sinn eigin rekstur. Þá keypti hann veitingastað af fyrrum yfirmanni sínum og breytti nafni staðarins úr Archestrate í Arpège. Nafnið lýsir aðdáun matreiðslumeistarans á tónlist og vísar í brotinn hljóm, þar sem hver nóta er spiluð sjálfstæð. Sjálfur leikur Passard á saxófón og er tíðrætt um að fegurð hreyfingarinnar tengi þetta tvennt saman: tónlist og matargerð. Í hans huga snýst matargerðarlist að stórum hluta um líkamstjáningu.

Arpège við Rue de Varenne í sjöunda hverfi Parísar lætur ekki mikið yfir sér en er heimavöllur matreiðslumannsins Alain Passard sem leitt hefur endurmat á möguleikum grænmetis í þarlendri matargerð.
Arpège við Rue de Varenne í sjöunda hverfi Parísar lætur ekki mikið yfir sér en er heimavöllur matreiðslumannsins Alain Passard sem leitt hefur endurmat á möguleikum grænmetis í þarlendri matargerð.

Arpège er í sjöunda hverfi Parísar, ekki langt frá Invalides byggingunum þar sem Napoleon Bonaparte er grafinn. Þar rekur Passard sinn skóla í matargerðarlist rétt eins og Napoleon lét skóla hershöfðingja sína í Invalides. Á veitingastaðnum brýnir Passard fyrir sínu starfsfólki að slípa til skilningarvitin og brýna þau til að átta sig á öllu sem bragði og framsetningu matarins kemur við. Öll skilningarvitin eru undir.

Arpège gekk vel eftir að Passard setti hann á stofn. Hægt og rólega söfnuðust stjörnurnar á staðinn og árið 1996 voru þær allar þrjár komnar á sinn stað. Það þýddi þó ekki að Passard væri alsæll og sáttur við hvert matargerðarlist sín væri að þróast.

Eins og fleiri stjörnkokkar hefur Alain Passard miðlað reynslu sinni og hugmyndum í matreiðslubókum.
Eins og fleiri stjörnkokkar hefur Alain Passard miðlað reynslu sinni og hugmyndum í matreiðslubókum.

Matreiðslubók náttúrunnar

Hefðbundið franskt eldhús snýst um hefðbundin hráefni, fisk, kjöt, skelfisk og stundum fitu. Michelin stjörnukerfið hefur lengi verið byggt upp í kringum það hvernig farið er með þessi hráefni.

Í leit sinni að innblæstri varð Alain Passard skyndilega leiður á „dýraholdi.“ Samband hans við kjöt varð snúnara og snúnara. Hægt og rólega hætti grænmeti að vera til skrauts og færðist í aðalhlutverkið. Í framhaldinu lá beint við að hefja ræktun á eigin grænmeti þar sem áhersla er lögð á að nota bestu mögulegu fræ til ræktunar. Litur og áferð skiptir Passard öllu máli, hann hefur gríðarleg áhrif á bragðlaukanna og skynjun gestanna.

Alain Passard færði grænmeti í heiðurssess í matargerð sinni fyrir 15 árum. Þrjár Michelin stjörnur voru undir, en framtíðarsýnin gekk upp. Rauðkálssaladið hans er öðrum slíkum fegurra.
Alain Passard færði grænmeti í heiðurssess í matargerð sinni fyrir 15 árum. Þrjár Michelin stjörnur voru undir, en framtíðarsýnin gekk upp. Rauðkálssaladið hans er öðrum slíkum fegurra.

Það að henda kjötmeti út af matseðlinum, eins og Passard gerði árið 2001 og hafa grænmeti í fyrirrúmi, var bíræfið af matreiðslumanninum, sérstaklega með þrjár Michelin stjörnur undir.

Þetta tók sinn tíma og ekki voru allir tilbúnir að gleypa við þeim sérstæðu aðferðum sem Passard beitti á grænmetið. Veðmálið gekk hins vegar upp, þó að sjálfur segist hann hafa verið tíu árum á undan samtíma sínum. Stjörnurnar héldust og nú vinna tólf garðyrkjumenn sérstaklega við að rækta það grænmeti sem veitingastaður Passard þarfnast. Eldhús-garðarnir hans svokölluðu eru þrír í vestur Frakklandi. Jarðvegurinn er mismunandi á hverjum stað, lögð er áhersla á lífræna ræktun og framleidd um 40 tonn árlega fyrir veitingastaðinn. Allt tekur mið af árstíðunum og Passard leggur mikið á starfsfólk sitt því matseðlarnir eru sífellt í þróun en jafnframt er honum meinilla við að skrifa nokkuð niður af uppskriftum sínum. Aðalmálið er að vera á tánum alla daga.

Á hverjum morgni berst ferskt grænmeti á staðinn og nýlega var bætt við þeirri þjónustu að Parísarbúar geta líka pantað sér sinn grænmetisskammt beint frá görðunum hans Alains Passard. Í gegnum matargerðina vill hann segja söguna allt frá því að fræið fer í jörð og þar til afurðin er sett á disk. Honum er metnaðarmál að ástríða matreiðslumannsins og ástríða garðyrkjumannsins haldist í hendur. Náttúran skrifar fallegustu matreiðslubókina.

Það eru þessi nánu og flóknu tengslin við náttúruna og árstíðirnar sem heilla Alain Passard. Eldhús byggt á grænmeti er að hans mati einfaldlega meira lifandi. Og nú fimmtán árum eftir að hann skipti um gír er Alain Passard á því að möguleikar einfaldasta grænmetis, eins og til dæmis gulrótar, eigi enn langt í land með að vera fullkannaðir. Ástríðufull leit af möguleikum grænmetis er í hans tilviki rétt að byrja.

Alain Passard er einn þeirra matreiðslumanna sem fjallað er um í þáttunum Chef’s table: France á Netflix myndveitunni. Á veitingastaðnum Arpège við Rue de Varenne kosta 12 rétta seðlar ýmist 320 eða 390 evrur en einnig er hægt að velja „a la carte.“

 


Nítjándu aldar Íslandsfari og jafnaðarmaður sem enn er uppspretta hugmynda

$
0
0

,,Ég vil ekki list fyrir fáa útvalda fremur en ég vil menntun og frelsi fyrir fáa útvalda,“ skrifaði William Morris árið 1877 í ávarpi sem fjallaði um mikilvægi skreytilistar fyrir framfarir í samtímanum.

Morris fæddist í Walthamstow Norðaustur London árið 1834 inn í auðuga millistéttarfjölskyldu og er einn þekktasti og dáðasti listamaður Viktoríutímabilsins. Morris er einna þekktastur í heimalandi sínu fyrir mynstur- og textílhönnun sína en einnig fyrir að hafa verið forsprakki hinar svokölluðu ‘Arts and Crafts’ hreyfingar. Hreyfingin hafði í hávegum alþýðu- og handverkslist og horfði rómantískum augum aftur til miðalda. William Morris var þó ekki eingöngu hönnuður og handverksmaður því hann var einnig afkastamikill á sviði skáldskapar, orti ljóð og skrifaði skáldsögur auk þess sem hann þýddi hluta af Íslendingasögunum. Á sínum efri árum og raunar allt sitt líf lét hann til sín taka í stéttabaráttunni sem yfirlýstur sósíalisti, þrátt fyrir borgaralegan bakgrunn sinn.

Kort teiknað af William Morris af Íslandi og ferðum hans þar
Kort teiknað af William Morris af Íslandi og ferðum hans þar

Ferðalög William Morris til Íslands
Árið 1871 og svo aftur árið 1873 fór Morris í tvær reisur til Íslands sem höfðu mikil áhrif á hann. Hann lýsir sinni fyrstu sýn af Íslandi svo; ,,hræðileg strönd í sannleika sagt: stór þyrping grárra fjalla, sem mynduðu pýramíta og stalla eins og þeir hefðu verið hlaðnir upp og síðan hrunið til hálfs.”
Morris var mikill áhugamaður um Íslendingasögurnar, hann þýddi hluta þeirra á ensku ásamt vini sínum Eiríki Magnússyni, bókaverði í Cambridge-háskóla, sem að kenndi honum jafnframt forn-íslensku og fylgdi honum til í Íslands. Íslandsferð Morris var því eins konar pílagrímsferð. Sagan segir að Morris hafi ferðast til Íslands til þess að jafna sig á ástarsambandi eiginkonu sinnar Jane Morris og vinar hans, listmálarans Dante Gabriel Rosetti, forsprakka Pre-Raphaelite hópsins sem var félagsskapur listamanna, ljóðskálda og gagnrýnenda sem sótti innblástur sinn til endurreisnartímans. Hvað sem því leið þá virðast allar heimildir vera sammála um að ferðir Morris til Íslands hafi haft mikil áhrif á hann og að hann hafi haft mikið dálæti á íslenskri náttúru og menningu. Með í för William Morris til Íslands var einnig náinn vinur og samstarfsmaður hans, listmálarinn og hönnuðurinn Edward Burne-Jones sem einnig var hluti af Pre-Raphaelite hópnum. James Morris ritar í inngangi sem að fylgir íslenskri þýðingu á ferðadagbókunum „Þeir sem þekktu William Morris best fundu að ferðir hans til Íslands höfðu verið honum eins konar hreinsunareldur í lífi hans, sem veitti honum bæði sársauka og ánægju, en skildi honum eftir aðeins frið – árið 1884 skrifaði Engels, að Morris hinn virki sósíalisti gæti enn funað af fögnuði af að sjá Eddu á forn-norrænu á borði byltingarmanns.”

William Morris
William Morris

Fegurðin í efnismenningu 19. aldar á Íslandi
Dagbækur Morris úr Íslandsferðum hans eru einstaklega áhugaverð heimild um efnismenningu Íslands á seinni hluta 19. aldar og er mikið um skemmtilegar og ítarlegar lýsingar á stöðum og fólki. Morris safnaði einnig ýmsum munum á ferðalögum sínum sem nú tilheyra safni William Morris í Walthamstow. Þar á meðal eru útskorin drykkjarhorn, tóbakshorn, útsaumaðir leðurskór, útsaumað kvennvesti, ofin slaufa eða bindi, belti og beltissylgju og svo upprunalegt eintak af sjálfri Guðbrandsbiblíunni. Samkvæmt Rowan Baines, sýningarstjóra safnsins er ekki vitað með vissu hvar Morris komst yfir eintak af Guðbrandsbiblíunni en hún er nú í eign safnsins. Það er óumdeilanlega mikill fengur fyrir íslenska menningarsögu að hafa fengið hluta hennar skráða af William Morris, einu dáðasta skáldi og listamanni Viktoríutímans. Tenging hans við Ísland og lýsingar hans á þeim munum sem hann komst í tæri við, sömuleiðis áhrifin sem íslensk náttúra og menning hafði á hann við sýna okkur hvernig menning verður aldrei til í einangruðu tómi. Þrátt fyrir að vera litaður af rómantískri fortíðarsýn þá var Morris fyrst og fremst frumlegur framfarasinni sem að þráði að skapa fegurri og jafnari heim.

Afmáði skilin milli há- og lágmenningar
Árið 2004 hélt Sigríður Björk Jónsdóttir erindi um ferðir William Morris á Íslandi sem var byggt á MA-ritgerð hennar um sama efni, en hún segir í viðtali við Morgunblaðið sama ár að greinilegt sé að það hafi haft mikil áhrif á William Morris að sjá að þrátt fyrir mikla fátækt á Íslandi, hrörleg húsakynni og almennt harðbýli og að hvarvetna hafi handverk verið mikils metið. Sigríður segir í viðtalinu: „Í raun og veru var það íslenskt 19. aldar bændasamfélag sem hafði áhrif á hugmyndir hans um heilbrigt og gott samfélag. Þetta samfélag sem mætti honum hér var vissulega andstæða hins iðnvædda verksmiðjusamfélags Viktoríutímans þar sem ójöfnuður var mikill og verkafólk vann einhæfa vinnu við hræðilega aðstæður.“

Árið 1890 gaf William Morris út nokkurskonar vísindaskáldsögu sem hét News From Nowhere þar sem Morris fékk tækifæri til þess að ímynda sér útópískt samfélag framtíðarinnar mótað af hans eigin sósíalísku hugmyndafræði. í sögunni er lögð mikil áhersla á að vinna mannsins eigi að vera skapandi og gefandi. Það skal látið liggja á milli hluta hversu mikil áhrif Íslandsferðirnar hafa haft á þau skrif hans en það má með sanni segja að Morris hafi verið hönnuður í víðasta skilningi. Hann vildi ekki einvörðungu færa fegurð inn á öll heimili og í alla hluti hversdagslífsins heldur vildi hann í raun endurhanna alla samfélagsgerðina og hann fann sinn vettvang í hugmyndafræði sósíalismans. Hann var þannig einstaklega framsýnn og á pari við menningarfræðinga 20. aldarinnar sem að leituðust við að afmá skilin milli há- og lágmenningar.

William Morris fleygir snekkju Abramovich í verki Jeremy Deller á Feneyjatvíæringnum 2013
William Morris fleygir snekkju Abramovich í verki Jeremy Deller á Feneyjatvíæringnum 2013

Morris í samtímalist og fjöldaframleiðslu
Breski samtímalistamaðurinn Jeremy Deller var fulltrúi Bretlands á Feneyjartvíæringnum árið 2013, hluti af innsetningu hans sem bar heitið “English Magic” var stórt veggmyndaverk titlað “We sit starving amidst our gold”. Það var málað af vegglistamálaranum Stuart Sam Hughes fyrir Deller og sýndi William Morris halda á risasnekkju rússneska auðkýfingsins Roman Abramovich reiðubúinn að fleygja henni langt frá Grand Canale í Feneyjum. Verkið var innblásið af sjálfri snekkjunni sem Abramovich lagði við síkið á tvíæringnum árið 2011 með þeim afleiðingum að hún byrgði sýn vegfarenda á borgarlandslagið. Verkið er augljóslega hárbeitt ádeila á misskiptingu auðs eins og hann birtist í samtíma okkar. Deller heldur þannig arfleið Morris lifandi og samræðunni um samfélagið og áhrifamátt og hlutverk hins fagurfræðilega/listræna í lífi manneskjunnar. Deller er vitaskuld ekki sá eini sem hefur orðið innblásinn af ævi og starfi William Morris því myndlistarmaðurinn Birgir Andrésson heitinn vann einnig röð verka sem voru í beinu samtali við William Morris og er áhugasömum bent á að kynna sér þau á heimsíðu gallerýs i8. Eins og sagði í upphafi greinarinnar þá er Morris einna þekktastur í dag fyrir textílhönnun sína sem hefur haft áhrif á þær kynslóðir hönnuða sem á eftir honum koma. Mynstur hans er núorðið að finna á alls kyns söluvarningi seldum í safnabúðum og lífstílsbúðum um allt Bretland; allt frá hitabrúsum, tebollum til viskustykkja og stílabóka. Það er svo spurning hvað honum hefði sjálfum þótt um þessa fjöldaframleiðslu neysluvarnings skreyttum af honum. Eitt er víst að handverk hans, fagurfræði og pólitísk hugmyndafræði lifir enn góðu lífi og að baráttunni fyrir réttlátu og jöfnu þjóðfélagi er hvergi nærri lokið.

Brot úr fyrri Íslandsdagbók William Morris:

Föstudagur, 4. ágúst
Fór fremur seint á fætur, veðrið skárra, en ekki mjög bjart. Eftir langan og góðan morgunverð kom læknirinn með dóttur sína, sem var klædd hátíðarbúningi og þar á meðal belti, sem var verulega falleg silfursmíð, smíðað ekki síðar en 1530, því Sankti Barbara var grafin á sléttan flöt sprotans í hreinum Hans Burgmair-stíl. Vinnan á framhlið beltisins var mjög falleg, hefðbundið norður-býzanskt verk, blandað hinum upphleypta sextándu aldar laufskurði. Skurðstofa læknisins var kynlegur staður, flöskurnar voru svo stórar og óhreinar, með sterkum lyfjum (býst ég við), fuglshömum, svipum og alls konar dóti; lítið safn gamalla bóka (latneskar læknabækur), og liggjandi í óreiðu gott eintak af Guðbrandsbiblíu í sínu upphaflega bandi og látúnsslegið” (bls. 115)
William Morris Dagbækur úr Íslandsferðum 1871-1872, íslensk þýðing Magnús Á. Árnason, Mál og Menning 1975.

Marta Sigríður Pétursdóttir
ritstjorn@frettatiminn.is

Það sem ég tala um þegar ég tala um nýþýdda hlaupabók Murakami og íþróttabókmenntir

$
0
0

Í upphafi bókarinnar segir Murakami: „Eitt sem ég tók eftir var að það að skrifa heiðarlega um hlaup og að skrifa heiðarlega um sjálfan mig er nánast hið sama.“

Þetta gefur lesanda vísbendingu um að hér fáum við að fræðast jafn mikið um líf höfundarins og hlaup hans – en það er þó ekki raunin. Við fáum sannarlega svipmyndir úr lífi Murakami, og kannski ákveðna tilfinningu fyrir hinum hversdagslega takti sem vantar oft í ævisögur, en þessi bók er samt fyrst og fremst um hlaup.

Hér eru alls kyns sögur um undirbúning fyrir hlaup, upplifanir af hlaupum, vonbrigðum yfir hlaupatímum og hvernig Murakami lítur á sjálfan sig sem hlaupara. Annað hversdagslíf er í bakgrunninum – við skynjum að hann er alltaf að vinna að einhverjum skrifum meðfram hlaupunum en þau eru aukaatriði í þessu samhengi.

Hlaupin eru þó augljóslega nátengd skrifunum, enda byrjar hann á hvoru tveggja um svipað leyti – í kringum þrítugt. Hann ræðir töluvert um líkindin með því að hlaupa og maraþonið sem það er að skrifa bók, en hlaupin eru augljóslega líka bara leið til þess að halda sér í formi meðfram þeim kyrrsetum sem skrifin krefjast. Það viðurkennir Murakami strax í byrjun með orðunum: „Herramaður ætti ekki að blaðra um það hvað hann gerir til að halda sér í formi. Að minnsta kosti er það skoðun mín. Eins og allir vita er ég enginn herramaður, þannig að kannski ætti ég ekki að hafa áhyggjur af þessu yfir höfuð, en samt er ég nokkuð hikandi við að skrifa þessa bók.“

Kápa íslensku útgáfunnar í þýðingu Kristjáns Hrafns Guðmundssonar. Ungur Paul Auster á kápu bókar um líkama sem er að eldast.

Lífið sem flæðir út fótleggi fram í fingurgóma
Hann ræðir líka töluvert um tímann fyrir skrifin og hlaupin, þegar hann rak lítinn djassbar í Tókýó. Þá endurtekur sig sama stef; það eru svipuð prinsipp sem hjálpuðu honum við að reka djassbarinn og hjálpuðu honum að æfa fyrir hlaup. Að þessu mætti máski ætla að hann sé að nota hlaup sem einhvers konar metafóru fyrir lífið, hvort sem er rekstur djassbars eða skáldsagnaskrif. En það sem reynist sameiginlegt með þessu er kannski frekar nálgun Murakami, enda játar hann að hann hafi valið bæði hlaupin og skáldsagnaskrifin vegna þess að þau hentuðu geðslagi hans.

Sá Murakami sem birtist okkur hér er agaður einfari með skýr markmið. Hlaupin eru líka ákveðin hugleiðsla frekar en hugsun, snúast um að tæma hugann frekar en að hugsa. En þau snúast líka um að upplifa hluti á eigin skinni, jafnvel um heiðarleika hins skrifandi manns. Fyrsta maraþonið hans er gott dæmi um þetta. Hann hleypur það einn – öfuga leið við upphaflega maraþonhlauparann, sumsé frá Aþenu til Maraþon. Hann gerir það af praktískum ástæðum, til þess að lenda í lágmarksumferð, en metafóran eltir hann vitaskuld uppi. Hann er að skrifa grein fyrir tímarit um hlaupið og þegar ljósmyndaranum verður ljóst að hann ætli að hlaupa alla leið kemur það honum á óvart:

„Í alvöru? En þegar við erum í þessum verkefnum fara fæstir alla leið. Við tökum bara nokkrar myndir og flestir klára ekki vegalengdina. Ætlarðu í alvöru að hlaupa alla leið?“
Stundum verð ég orðlaus gagnvart heiminum. Ég trúi því ekki að fólk myndi virkilega gera nokkuð þessu líkt.“

Í þessum orðum felst ekki bara heiðarleiki höfundarins, heldur einnig ákveðin þörf fyrir að reyna hlutina á eigin skinni. Það getur verið erfitt fyrir skáldsagnahöfund, sérstaklega einhvern sem er jafn hallur undir fantasíu og Murakami, en þá ber að hafa í huga að þetta þarf ekki alltaf að skilja bókstaflega. Góð fantasía grundvallast á góðri jarðtengingu og maður finnur að hlaupin eru fyrir Murakami þessi jarðtenging; hann hleypur til þess að upplifa sjálfan sig sem líkama – og gefur þar með persónum sínum sömu vídd, þannig að þær verða ekki aðeins fljótandi hugar úr penna sitjandi manns.

Líkamsdagbók rithöfundar
Þannig er bók Murakami í vissum skilningi fyrst og fremst dagbók líkamans – og í þeim skilningi náskyld ævisögulegri bók Paul Auster, Winter Journal, þar sem hann einsetur sér að segja ævisögu líkama síns og þess að eldast: „Máski er best að setja allar þessar sögur til hliðar um stund og reyna að greina hvernig þér hefur liðið inni í þessum líkama frá fyrsta deginum sem þú getur munað fram að deginum í dag.“

Rétt eins og hjá Murakami þá flýtur ýmislegt annað með en saga líkamans með. Mun meira raunar, þetta er miklu nær því að vera eiginleg ævisaga – og þótt Murakami dreymi ósjaldan um bjórinn sem hann ætlar að fá sér þegar hann kemur í mark þá leggur Auster ólíkt meiri áherslu á syndir líkamans: „Já, þú drekkur of mikið og reykir of mikið, þú hefur misst tennur án þess að hafa fyrir því að fá nýjar, mataræðið þitt stenst engan veginn kröfur nútíma næringarfræði.“

Tom Courtney í kvikmyndagerð Einsemdar langhlauparans, The Loneliness of the Long Distance Runner.
Tom Courtney í kvikmyndagerð Einsemdar langhlauparans, The Loneliness of the Long Distance Runner.

Einsemd langhlauparans
En hlaup geta líka verið uppreisn. Í Bretlandi eftirstríðsáranna kom fram kynslóð rithöfunda sem var einfaldlega kölluð „Reiðu ungu mennirnir.“ Þetta voru ungir höfundar sem fjölluðu um stéttaskiptingu og lífið í fallandi heimsveldi. Einn þessara höfunda var Alan Sillitoe, sem sjálfur var af verkalýðsættum, og hann samdi nóvelluna frægu Einsemd langhlauparans.

Aðalpersónan, sem heitir því erki-breska nafni Smith, er vandræðaunglingur sem endar á betrunarheimilinu Borstal, sem er í raun bara unglingafangelsi. En hann finnur sig í langhlaupum – og í gegnum þau fer hann að átta sig á heiminum í kringum sig, stéttaskiptingunni og óréttlætinu.

Hlaupin eru einsemd og flótti, íhugun og útrás – en reynast líka óvænt leið til að gera þögla uppreisn gegn kúgurunum í Borstal.

Hlaupabækur geta líka hlaupið inná lendur mannfræðinnar eins og raunin er í bók Christopher McDougall, Born to Run: A Hidden Tribe, Super Athletes, and the Greatest Race the World Has Never Seen. Sagan byrjar með einfaldri spurningu hlauparans McDougall; Af hverju er mér illt í fótunum? En eftir að hafa leitað svara í rannsóknarstofum skóframleiðanda leitaði hann á náðir Tarahumara indjánana í Mexíkó, ættbálks ofurhlaupara sem aldrei virðast þreytast, sem fær hann til að grafa dýpra í það hvað valdi því eiginlega að mannskepan stundi þessi langhlaup.

Íþróttabókafár
Íþróttir hafa ávallt verið viðfangsefni í bókmenntum, en lengst af ekkert sérstaklega algengt viðfangsefni. Bandaríkin voru þar kannski undantekning – þekktir amerískir höfundar á borð við Ernest Hemingway, Jack Kerouac og Norman Mailer störfuðu um skeið sem íþróttafréttamenn og Philip Roth, Don DeLillo og David Foster Wallace hafa allir skrifað skáldsögur sem gerast í heimi íþróttanna.

Marlon Brando flytur eina af sínum frægustu ræðum í On the Waterfront: „I coulda been a contender.“
Marlon Brando flytur eina af sínum frægustu ræðum í On the Waterfront: „I coulda been a contender.“

Þeir sáu mögulega sumir íþróttamanninn sem holdgervingu ameríska draumsins – og þeir geta þá líka verið birtingarmynd tálsýnarinnar sem hann stendur fyrir. Eða svo við gefum uppgjafarboxaranum Terry Malloy (Marlon Brando) orðið; „I coulda’ been a contender.“ Uppgjör heillar kynslóðar við brostna drauma úr munni leikara sem virtist boða nýja tíma.

Hinum megin Atlantsála voru íþróttabókmenntir hins vegar ekki hátt skrifaðar, saga Sillitoe undantekning frekar en reglan. Það breyttist snögglega þegar Nick Hornby sló í gegn með Fever Pitch, sem seinna var íslenskuð sem Fótboltafár af Kristjáni Guy Burgess. Hún er ævisöguleg eins og bók Murakami – en hún fjallar þó ekki um hreyfingu aðalpersónunnar, heldur um það hvernig höfundurinn lifir í gegnum ellefu nágranna sína í London og afrek þeirra – eða skort á þeim – í búningi fótboltaliðsins Arsenal.

Ef bresku heldra fólki fannst eitthvað ómerkilegra en íþróttamenn þá voru það aðdáendur íþróttaliða, sem í þeirra augum voru allar bullur. Bók Hornby gerbreytti þessu, skyndilega varð sæmilega kúl (eða í það minnsta ásættanlegt) í menningarkreðsum að fylgjast með íþróttum. Bókin hjálpaði til við að millistéttavæða fótboltann – en þar spilaði líka inní uppgjör við bullumenninguna sem tröllreið breskum leikvöngum á níunda áratugnum og endaði með því að enskum liðum var tímabundið sparkað út úr Evrópukeppnum. Um leið uppgötvuðu peningamenn möguleika fótboltans fyrir alvöru – og þannig varð velgengni bókarinnar um leið til þess að hún varð minnisvarði veraldar sem var; fótboltans sem helstu skemmtunar fátækrar alþýðu – og ófárra menntamanna í millistétt eins og Hornby, sem höfðu kannski ekki hátt um fótboltaáhugann í partíum.

Hægt og rólega höfðu þessir aðdáendur þó byrjað að skrifa íhugulli og bókmenntalegri texta um fótbolta en venjan var í alls kyns fótboltablöð utan alfaraleiðar og rétt áður en Hornby gaf út Fótboltafár þá voru merki fársins byrjuð að sjást, Pete Davies skrifaði sömuleiðis ævisögulega bók um það að styðja fótboltalið í All Played Out, um enska landsliðið á HM á Ítalíu 1990.

Mannkynssagan í fótboltanum
En bók Hornby var upphafið að flóðbylgjunni og fljótlega fóru að birtast bækur með öllu stærra svið, þar sem menn skrifuðu sögur helstu knattspyrnuþjóðanna – ekki þó til þess að rekja úrslit og meistaratitla (slíkar bækur höfðu orðið vinsælar löngu fyrr en töldust sjaldnast til mikilla bókmenta) heldur til þess að nota íþróttina sem stækkunargler á þjóðirnar sem spiluðu hana. Það er oftast gert með því að setja fótboltann í sögulegt og mannfræðilegt samhengi við sögu þjóðanna, en ekki síður með sögum af skrautlegum karakterum sem eru til jafns leiðsögumenn lesanda um heim fótboltans sem og þeirra tíma sem þeir lifðu.

Austur-Þjóðverjinn Helmut Schön fagnar heimsmeistaratitli Vestur-Þjóðverja með fyrirliðanum Franz Beckenbauer.
Austur-Þjóðverjinn Helmut Schön fagnar heimsmeistaratitli Vestur-Þjóðverja með fyrirliðanum Franz Beckenbauer.

Gott dæmi um slíkt er Tor, saga Uli Hesse um þýskan fótbolta. Þegar Vestur- og Austur-Þýskaland mætast í fyrsta skipti á HM 1974 var þjálfari vestur-þýska liðsins Helmut Schön. Hann var fæddur í austrinu en flúði vestur og þjálfaði meira að segja um tíma hið löngu gleymda þriðja þýska landslið, Saarland, sem Frakkar stýrðu þar til það sameinaðist Vestur-Þýskalandi árið 1956.

Leikurinn (sem tapast) verður lykilleikur Schöns, miklu frekar en úrslitaleikurinn sjálfur (sem vannst). Og bókin tekur sér tíma til að segja sögu hans, stráksins frá Dresden sem lifði af eldhafið þar og flúði kommúnismann – og í gegnum Schön fáum við sögu Þjóðverja af hans kynslóð, kynslóð sem svo sannarlega lifði tímana tvenna.

Murakami fullyrðir í bók sinni að þjáning sé val – eitthvað sem sé nauðsynlegt að hafa í huga þegar maður hleypur; maður valdi að gera þetta. En saga Schön bendir til þess að mögulega væri nákvæmari skilgreining að segja að íþróttir séu valin þjáning; og stundum reynist sú þjáning leið til þess að takast á við annars konar þjáningu, jafnvel mannkynssöguna sjálfa.

Ásgeir H. Ingólfsson
ritstjorn@frettatiminn.is

Íslenskar bókmenntir lögðu á mig álög

$
0
0

Angelu Romero Ástvaldsson finnst erfitt að tala um sjálfa sig, enda miklu vanari því að tala um skáldsagnapersónur. En til að svara því hver hún sé, þá sé best að taka það fram að hún er fædd og uppalin í Galisíu á Spáni og að hún hefur eytt stærstum hluta ævinnar í að stúdera bókmenntir Rómönsku Ameríku. Það hafi líklega mótað hana hvað mest.

Eftir að hafa stundað doktorsnám í argentískum bókmenntum í Salamanca hefur Angela lifað og hrærst í heimi bókmenntanna, ritað fræðibækur og gagnrýni en frá árinu 2004 hefur hún búið, ásamt íslenskum eiginmanni sínum, í Liverpool þar sem hún starfar við háskólann. Angela gaf nýverið út fyrstu skáldsögu sína, En Islandia no hay árboles, eða Á Íslandi eru engin tré. Sagan gerist á Íslandi á fyrri hluta tuttugustu aldar og er, eins og fram kemur í grein Hólmfríðar Garðarsdóttur hér til hliðar, auk þess að vera listilega vel skrifuð, mjög „íslensk“.

Minningabókin kveikti áhugann
Þrátt fyrir að hafa alla tíð lifað í heimi skáldsögunnar segist Angelu aldrei nokkurn tíma hafa dottið það til hugar að skrifa annað en fræðitexta sjálf, þar til hún komst yfir gamalt myndaalbúm frá Íslandi.

„Stuttu eftir að við Ástvaldur fórum að búa í Liverpool sýndi hann mér albúm sem föðurafi hans, Jón Jónsson, hafði átt. Þetta var minningaalbúm þar sem finna mátti myndir, dagblaðaúrklippur, póstkort með myndum af skipum, jólapóstkort og þess háttar, allt það sem einkenndi hann og sem hann hann hafði notið í lifanda lífi. Hann hafði búið með konunni sinni í litlu fiskiþorpi í 60 km fjarlægð frá Reykjavík á 3. og 4. áratugunum. Ég fór að setja mig inn í þessa minningabók, og það sem hún miðlaði um persónu hans, hvernig hann sá heiminn og veru hans í heiminum.

Ég hafði aldrei tekist á við skapandi skrif fyrr, fann aldrei hjá mér þörfina til þess. Vinir mínir hvöttu mig til þess, en ég leiddi það alltaf hjá mér, því ég hafði hvorki löngun til þess né fann fyrir hvötinni, og mér finnst að sköpun sé ekki eitthvað sem hægt er að leggja á sig; auk þess mun jörðin varla hætta að snúast þótt ekki komi enn önnur skáldsagan út, það eru til svo margar, og stundum finnst mér þær vera alltof margar. En þarna fann ég að í hendur mínar væri komið eitthvað sem varð að segja frá og ég fann fyrir þörfinni að gera það.“

Skáldsaga Angelu Romero, En Islandi no hay árboles / Á Íslandi eru engin tré, kom út í október á Spáni og selst mjög vel enda mikill áhuga á Íslandi á Spáni. Angela er gift Íslendingi og býr í Liverpool þar sem hún kennir bókmenntir við Háskólann.
Skáldsaga Angelu Romero, En Islandi no hay árboles / Á Íslandi eru engin tré, kom út í október á Spáni og selst mjög vel enda mikill áhuga á Íslandi á Spáni. Angela er gift Íslendingi og býr í Liverpool þar sem hún kennir bókmenntir við Háskólann.

Ekkert tilfinningaklám í Laxness
Þrátt fyrir að byggja á lífi forfeðra eiginmannsins er skáldsagan ekki bókstafleg endursögn á lífi þeirra heldur er hún einungis innblástur að marglaga sögu þar sem lífshættir þorpsins leika stórt hlutverk.

„Ég ferðaðist til Íslands og kynntist þorpinu hans Jóns og smátt og smátt varð sagan til, hún bara óx og skaut rótum í mér. Ég kynnti mér tímabilið, lífshættina og fiskivinnsluna á þessum tíma og hvernig lífið var í torfhúsunum, með það markmið að komast að nýjum raunveruleika og lýsa honum á skiljanlegan máta. Ég vildi gefa lesandanum almenna hugmynd um sögu landsins, aðstæður tímabilsins, lífssýn íbúa þess, og um bókmenntirnar sem eru sífellt nálægar í lífi íbúanna frá upphafi landnáms til dagsins í dag. Þess vegna má heyra í skáldsögunni bergmál af Íslendingasögunum, frá Halldóri Laxness, rithöfundi sem kunni að fanga íslenskan veruleika á meistaralegan hátt, af innsæi og án tilfinningakláms, um fram allt í þremur táknrænum skáldsögum, Heimsljósi, Íslandsklukkunni og Sjálfstæðu fólki, en þessi síðastnefnda er ein af mínum uppáhalds og af henni má greina hlédrægan hljóm á milli lína, kannski vegna þess að ég les hana i hvert skipti sem ég kem til eyjunnar.“

Líf handan glæpasagnanna
Angela hefur ferðast reglulega um Ísland frá því hún kynntist „víkingnum“ sínum, eins og hún kallar eiginmanninn. Bæði til að afla sér heimilda fyrir skáldsöguna en líka til að eyða tíma með tengdafjölskyldunni.

„Ég hafði mjög óljósa hugmynd um Ísland áður en ég heimsótti landið fyrst. Landið var ekki komið í tísku eins og það er núna á Spáni, þar sem hver einasti maður er upprifinn af Íslandi og hvert einasta tækifæri er nýtt til þess að ferðast um landið. Þessi túristaalda sem gengur yfir landið var ekki enn komin og því var allt mun auðveldara og líklega rólegra. Í fyrstu ferðinni minni fannst mér mikið koma til landsins, það var ekki annað hægt en að heillast af landslaginu, en það er alveg öruggt að í seinni ferðum mínum hefur skilningurinn dýpkað og sömuleiðis aðdráttaraflið, með góðu og illu, og nú er landið mjög sérstakur hluti af lífi mínu. Ég þekki landið á öllum árstímum. Auk þess þá verð ég að játa að íslenskar bókmenntir hafa lagt á mig álög, bæði þær klassísku og samtímabókmenntirnar, og það bætir nánd og samskipti við íslenskan veruleika. Ég les yfirleitt allt sem kemur út þýtt og ég nota hvert tækifæri til þess að koma því á framfæri að íslenskar bækur eru ekki bara um glæpi, sem betur fer. Það er líf handan glæpasagnanna.“

Íslensk kímnigáfa
Á bókarkynningu í Madríd kynnti Enrique Bernández, einn helsti þýðandi Íslendingasagnanna og íslenskra samtímabókmennta, bókina sem íslenska skáldsögu,ekki aðeins vegna umhverfisins, sjónarhornsins og kímnigáfunnar. Angela segist hafa orðið mjög hrifin af þessum orðum.

„Ég hef áhuga á Íslandi á hvaða tímabili sem er, en söguhetjunum mínu hlotnaðist að lifa á þessu tímabili, og þess vegna lagði ég kapp á að endurskapa þetta sérstaka samhengi, jafnvel þótt bygging bókarinnar bjóði upp á miklu teygjanlegri tíma, sem nær frá landnámi fram að níunda áratugnum. Heimildaöflunin var mjög ánægjuleg og ég lærði mikið, auk þess sem ég bjó svo vel að hafa Íslending mér við hlið sem var ávallt reiðubúinn til þess að hjálpa ef svo bar við. Eftir að ég sá albúmið sagði Valdi mér sögur af því hvernig lífið var hjá ömmu hans og afa og af reynslu hans í sveitinni þegar hann var lítill, auk þess rifjaði tengdamóðir mín upp hluti frá tímabilinu og frá lífi tengdaforeldra sinna. Valdi var fyrstur til þess að lesa handritið og koma auga á að þetta væri einstaklega íslensk skáldsaga.“

Fjallar um mannleg gildi
Þrátt fyrir að skáldsagan gerist á Íslandi og þyki vera mjög íslensk, þá gætu Einar og Guðrún verið hvaðan sem er. Hún fjallar um það sem okkur öllum er sameiginlegt; ást, tryggð, járnvilja, hvassan einmanaleika, grimman sársauka, tengsl við upprunann og þörfina fyrir félagsskap.

„Hún fjallar um þetta innra landslag sem býr með okkur öllum,“ segir Angela. „Mikilvægu gildin sem gera okkur mannleg, sem göfga okkur og gefa okkur merkingu. Allt það sem gerir okkur kleift að skapa sanna list,“ segir Angela sem vill alls ekki fara nánar út í innihald bókarinnar.

„Ég er bara ábyrg fyrir helmingi bókarinnar, hinn helmingurinn er lesandans. Conrad sagði að þegar maður les þá læri maður ekki bara, heldur breytist maður í eitthvað. Á endanum er það lesandinn sem gefur bókinni merkingu og þess vegna tilheyrir sagan mér ekki lengur. Nú tekur lesandinn við.

Halla Harðardóttir
halla@frettatiminn.is

Átta sýningar um helgina og barn með brotinn putta

$
0
0

„Það koma nú oft tarnir hjá manni en þetta hefur ekki verið svona rosalega mikið áður,“ segir Hallgrímur Ólafsson leikari.

Það verður seint sagt að Hallgrímur taki lífinu rólega á aðventunni. Um síðustu helgi lék hann á níu sýningum í Þjóðleikhúsinu og um þessa helgi leikur hann á átta sýningum. Þar fyrir utan er hann að undirbúa sig fyrir aðalhlutverk í nýju leikriti Góa í leikstjórn Selmu Björnsdóttur sem fer á fjalirnar eftir áramót, leika í áramótaskaupinu og að leikstýra ungmennum á Akranesi. Þá er ekki einu sinni minnst á fjölskylduna, en Hallgrímur býr með konu og þremur börnum í Hafnarfirði. Það er kannski jafngott að hann þykir með eindæmum geðgóður maður og er af þeim sökum stundum kallaður Halli melló.

Halli melló hefur í nógu að snúast um helgina í Þjóðleikhúsinu. Framundan er svo frumsýning í janúar og leikstjórnarverkefni uppi á Skaga. Myndir/Rut
Halli melló hefur í nógu að snúast um helgina í Þjóðleikhúsinu. Framundan er svo frumsýning í janúar og leikstjórnarverkefni uppi á Skaga. Myndir/Rut

„Það er ekki bara nóg að gera í leikhúsinu. Svo bætast veik börn líka við. Ég fékk eitt puttabrot heim í gær,“ segir hann og hlær.

Halli leikur í Djöflaeyjunni og Horft frá brúnni sem báðar eru sýndar á Stóra sviði Þjóðleikhússins en á daginn lóðsar hann yngri kynslóðina um ganga leikhússins í hinni sívinsælu sýningu Leitin að jólunum.

„Mér finnst þetta alltaf gaman. Þetta er þriðja árið mitt í röð í Leitin að jólunum og það er fínt að sprella eitthvað fyrir krakkana,“ segir Halli.

Hvernig kemur maður maður níu leiksýningum fyrir yfir eina helgi?
„Það var ein sýning á föstudeginum og fjórar á laugardegi og sunnudegi. Ég var mættur niður í leikhús klukkan tíu um morguninn og fyrsta sýning af Leitin að jólunum var klukkan ellefu. Svo var önnur klukkan eitt og sú þriðja hálf þrjú. Síðan var ég mættur aftur hálf sex til að leika í Djöflaeyjunni um kvöldið.“

Svo ertu þar fyrir utan að vinna í öðrum verkefnum…
„Já, ég ligg akkúrat núna með iPadinn að læra texta fyrir Fjarskaland eftir vin minn Góa. Þetta er fjölskyldusýning sem frumsýnd verður 22. janúar. Við erum á fullu að æfa það núna. Þetta er Stóra sviðs-sýning með hljómsveit, það er mikið í þetta lagt,“ segir Halli sem er auk þess að undirbúa sýningu sem hann leikstýrir uppi á Akranesi eftir áramót. Það er fyrir framhaldsskólann þar og nú er verið að raða í hlutverk.

Hafi Halli hugsað sér að hvíla sig um jól og áramót getur hann gleymt því, enda er jólafríið bara ein helgi.
„Já, svo eru þetta bara asnaleg jól. Ég er reyndar afskaplega lítið fyrir að hvíla mig. Það er eiginlega það leiðinlegasta sem ég geri.“

Kanntu ekki að meta félagsskapinn af sjálfum þér?
„Nei, mér finnst ég ekkert spennandi einn og sér með kaffibolla. Það verður að vera eitthvað líf í kringum mig.“

30954_hallgrimur_olafsson-03

Einar Már slær í gegn í Kína

$
0
0

„Ég hef nú samt bara fylgst með þessu af hliðarlínunni, ég veit satt að segja ekki hvort það er mikill almennur áhugi á skáldskap í Kína, þótt þarna sé milljarðaþjóð er ekki þar með sagt að bækur komi út í milljónum eintaka. En ég er ánægður með að fá sem flesta lesendur,“ segir Einar Már. Hann á von á því að verða boðið til Kína í tengslum við verðlaunin en verðlaunaathöfnin fer fram í mars 2017.
Skáldsagan Hundadagar fjallar um Jörund hundadagakonung og eldklerkinn Jón Steingrímsson.

 

Einar Már segist ekki vita hvað höfði svona sterkt til Kínverja. „En Jörundur er ævintýramaður sem fer sínar eigin leiðir og brýtur upp ákveðna meðalmennskuhegðun. En það er þetta sem er heillandi við að skapa bókmenntir og fylgjast með þeim breiðast út, viðtökurnar eru oft alveg ófyrirsjáanlegar.“ Hann segir að stjórnarfarið í Kína komi bókmenntunum ekkert við og oft sé látið eins og það sé siðferðisspurning að koma út í slíkum löndum. „Bækurnar tala fyrir sig og það er gott að þær fari víða. Erlendir lesendur sjá oft eitthvað annað í bókunum en Íslendingar. Þegar skáldsagan mín, Englar alheimsins, kom út í Tyrklandi, var ég spurður, hvernig það gæti verið svona mikil mannvonska í velferðarríki eins og Íslandi. Ég verð að viðurkenna að spurningin kom mjög flatt uppá mig. Kannski mun Jörundur hvetja uppreisnarmenn í Kína til að rísa upp, hver veit,“ segir hann.

31056-olafur

Ákveðið var að flýta útgáfu bókarinnar í tilefni af 45 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Kína sem fagnað var í gær. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, færði þar Zhou Xiochuan, seðlabankastjóra Kína, bókina sem gjöf frá Íslandi.

Viðkvæm portúgölsk perla í Hörpu

$
0
0

Maria João Pires er eilítið yngri en íslenska lýðveldið, fædd í Lissabon 23. júlí árið 1944. Aðeins fimm ára gömul kom hún fram á sínum fyrstu tónleikum, síðan fylgdu verðlaun fyrir unga tónlistarmenn og víðtækt tónlistarnám í Þýskalandi. Eftir sextíu ára tónleikahald tilkynnti Pires árið 2010 að hún myndi draga nokkuð úr tónleikum. Það eru því forréttindi fyrir íslenska tónlistaráhugamenn að hún heimsæki Ísland en á tónleikunum í Hörpu leikur Pires sónötur eftir Schubert og Beethoven.

Hlý og huglæg

Maria João Pires er hæglát kona. Hún talar blíðlega og fallega um hlutverk tónlistarinnar við að móta og bæta heiminn. Hún vill að sem flestir kynnist töfrum sígildrar tónlistar en vill síður láta teyma sig út í miklar umræður um tónverkin sjálf.

Nálgun hennar við tónlistina er í grunninn heimspekileg, eins og svo mikið af góðri list. Afi Pires lagði stund á búddisma sem var afar sjaldgæft í Portúgal um miðja tuttugustu öld og faðir hennar lagði stund á austræna heimspeki. Síðar dróst Pires sjálf að búddismanum en er feimin við að tala um sig sem sem búddista, vill síður láta fella sig í ákveðin hólf í trúarlegum efnum. Henni er hins vegar tíðrætt um siðferði og mennskuna sem hún leggur áherslu á og gerir allt til að draga fram með tónlist sinni. Hún er á því að töfrar tónlistarinnar geti aukið á samlíðan fólks með þeim sem minna mega sín.

Maria Joao Pires hefur átt í löngu og góðu samstarfi við útgáfufyrirtækið Deutsche Grammophon.
Maria Joao Pires hefur átt í löngu og góðu samstarfi við útgáfufyrirtækið Deutsche Grammophon.

Glæstur ferill Pires hefði getað orðið enn mikilfenglegri en hún er ekki mikið fyrir að trana sér fram og gagnrýnendum er tíðrætt um hve laus hún er við allan sjálfbirgingshátt, sem stundum einkennir píanista á stórum sviðum heimsins. Í viðtölum er greinilegt að Pires þykir ekkert sérstaklega skemmtilegt að tala um sjálfa sig. Hún er að mörgu leyti fínlegur píanisti en krafturinn blossar upp þegar með þarf. Mestum hæðum þykir hún hafa náð í túlkun sinni á verkum tónskálda á borð við Mozart, Schubert og Chopin. Túlkunin er tær og einhvern veginn mjúk, án þess að vera væmin.

Skólahald

Árið 1999 setti Pires upp tónlistarskóla fyrir börn á sveitasetri sínu i Portúgal. Þar var takmarkið að opna heim tónlistarinnar fyrir börnum sem gátu vegna fjárhags og félagslegra aðstæðna ekki notið tónlistarnáms eða menningar. Eftir nokkra ára rekstur slettist upp á vinskapinn milli hennar og yfirvalda, auk þess sem illt umtal meðal menntamanna heimalandsins varð til þess að hún flutti frá heimalandi sínu.

Átökin í kringum skólahaldið fóru hins vegar illa með heilsuna og langan tíma tók fyrir píanistann að byggja sig aftur upp. Hún flutti til Brasilíu þar sem hún styður áfram við áþekk verkefni sem snúa að því að opna sígilda tónlist fyrir ungum krökkum.

Að baki þessari hugsun býr trú á tónlistina og fullvissa um að hún geti hjálpað til við að opna augu fólks fyrir þeim áskorunum sem blasa við mannkyni. Pires spyr sig hvað tónlistarmenn geti gert til að fólk horfist í augu umhverfisvá og misskiptingu auðs í heiminum.

Hverfur inn í sig

Maria João Pires er ekki manneskja mikilla flugeldasýninga þegar hún situr við hljóðfærið. Hún er gagnrýnin á það hvernig sumir ætlast til að stjörnupíanistar hagi sér og þolir illa píanókeppnir þar sem tæknisýningar skjóta farsælum tónlistarmönnum upp á stjörnuhimininn. Pires lítur svo á að slíkar keppnir hafi eyðilagt margan hæfileikaríkan tónlistarmann í gegnum árin. Hún er algjörlega mótfallinn þeirri hugmyndin að hægt sé að keppa í listum.

Sjálf hverfur hún nánast inn í sig þegar hún situr við hljóðfærið. Rennur saman við tónlistina. Í viðtölum talar hún með sínu blíða brosi um það hve tengslin við tónlistina séu djúp og sterk. Aðeins með þeim hætti næst í hennar huga full stjórn og friður. Lykilinn er hógvær nálgun að hverju tónverki fyrir sig.

Maria Joao Pires leikur píanósónötu nr. 32 í c-moll, op. 111 eftir Ludwig van Beethoven og píanósónötu nr. 21 í B-dúr, d. 960 eftir Franz Schubert á Tónleikum í Hörpu á sunnudag kl. 17.

Tölvurnar skrifa

$
0
0

Til þess að geta skrifað þarf maður að geta lesið. Og lestur flókins texta er ekkert sérstaklega einfalt fyrirbæri, eins og dæmin sanna. Í nýlegri grein í vefritinu Aeon fjallar indverski tölvumálfræðingurinn Inderjeet Mani um það hvernig vitvélar, tölvur með gervigreind, nýtast í dag til lesturs og veltir fyrir sér möguleikanum á rithæfni þeirra í komandi framtíð.

Gleypa í sig texta

Margir gætu haldið að langt sé milli heimsbókmenntanna og gervigreindar sem tekið hefur miklum framförum á síðustu árum. Tölvur eru samt byrjaðar að lesa og það af nokkru viti.
Einn kosturinn við tölvur er að hægt er að mata þær á miklum texta og þær þreytast seint í augunum.

Tölvur eru farnar að leggja bókmenntafræðingum lið þegar kemur að því að greina texta og ýmis atriði hans. Þær geta lagt mat á form texta en eru einnig að ná tökum á að greina ýmis atriði hans, til dæmis framvindu sögu, framrás tímans innan hennar, rýmið sem sagan gerist innan, átta sig á persónum og jafnvel söguþræði.

Ekkert af þessu er auðvelt, til dæmis getur verið snúið að átta sig á framvindu tíma í frásögn, en það atriði finnst mörgum höfundum skemmtilegt að leika sér með. Til þessa hafa vísindamenn víða um heim kennt vitvélum sínum að greina slíka byggingu og er þá yfirleitt stuðst við einn flokk styttri texta. Til dæmis hafa smásögur, fréttaskrif, dæmisögur og ekki síst ævintýri þótt nýtileg til að skóla til gervigreind á þessu sviði. Reikniritin eða algóriþmar forritanna í tölvunni eru því þjálfaðir af mönnum, ef svo má segja. Slík vinna er kostnaðarsöm, tímafrek og flókin, því merkja og skilgreina þarf einingar textans og því eru styttri textar yfirleitt hentugri. En það gæti breyst.

31026-gettyimages-464440591
Rússnesk ævintýri hafa verið mötuð inn í tölvu sem síðan hóf að skrifa þau. Rússneska nornin Baba Yaga var ekkert lamb að leika við.

Enginn les eins

Við lesum texta í flóknu samhengi, útfrá sögulegum og menningarlegum forsendum, með hliðsjón af því sem við vitum um textann og höfund hans og svo vitum við stundum af viðtökunum sem textinn hefur vakið áður en við byrjum að lesa hann. Þetta eru upplýsingar sem er að stórum hluta hægt að byggja inn í lestur vitvéla.

Fræðimenn á þessu sviði horfa á það sem möguleika að tölvur geti einn daginn lesið með þeirri mannlegu tilfinningu sem við þekkjum svo vel en það er langt í land. Samhengið skortir oft þótt framfarir séu miklar. Þróun á tilfinningalestri tölvunnar og skilningi hennar á jafn menningarbundnum fyrirbærum eins og kaldhæðni stendur yfir. Kenningin er að tölvur geti, rétt eins og við, lesið milli línanna.

Auðvitað er langt í land með að tölvur fari að skrifa fyrir okkur jólabækurnar, sem betur fer. Það þýðir samt ekki að vísindamenn séu ekki skotnir í því að búa til alvöru höfunda.

Tölva er þannig farin að skrifa ævintýri í rússneskum stíl suður á Spáni. Slík ævintýri þykja nægilega formúlukennd til að útkoman verði ekki algjör þvæla. Önnur tölva er farin að skrifa söguþræði í söngleiki eftir að hafa verið gerð alfróð um þá og enn önnur er farin að útbúa söguþræði í sápuóperu, auðvitað læknadrama einhvers konar.

Í grein sinni í Aeon segir Inderjeet Mani ljóst að tölvutæknin komi til með að hafa mikil áhrif á bókmenntir á næstu árum. Bókmenntafræði muni þannig nýta sér hana með auknum mæli. Við munum áfram lesa eina bók á meðan tölvur geti lesið margar og þannig opnist miklir möguleikar í skilningi á galdri bókmenntanna. Skrifin úr tölvuheimi munu án efa slípast til líka. Það skyldi þó ekki vera að fyrsti höfundur fyrsta tölvu-metsöluhöfundarins sé fæddur.

 


Íslenski hesturinn of lítill fyrir Ben Affleck

$
0
0

Sá síðarnefndi fer með hlutverk Leðurblökumannsins, Batman, og þurfti að gera sérstakar ráðstafanir fyrir tökur hans hér. Í myndinni ríður Batman um á hesti en Affleck er fremur hávaxinn, 192 sentímetrar, og þótti líta kjánalega út á hinum smávaxna íslenska hesti. Því var brugðið á það ráð að fá lágvaxinn erlendan aukaleikara til að hlaupa í skarðið og sitja íslenska hestinn í gervi Batmans.

14956-islenskur-hestur

„Allt byrjar á samtali“

$
0
0

„Er líf á öðrum hnöttum?“ er aldagömul spurning – en ef svarið er jákvætt er tímabært að spyrja líka; hver á að taka á móti geimverunum þegar þær loksins lenda? Það hefur lítið upp á sig að berja á þeim, geimverur með tækni til að ferðast á milli sólkerfa verða varla í vandræðum með íslensku víkingasveitina.

Þess vegna er best að reyna að skilja þær – og þá sendir maður auðvitað þýðanda. Sigurð Pálsson til dæmis, enda er hann með ræðuna tilbúna:

„Kannski getum við líka lært ýmislegt af innflytjendum, meira en okkur grunar. Þá er fyrsta skrefið að sýna þeim áhuga, forvitnast um þeirra hag og hugmyndir og reynslu.

Eiga við þá samtal. Allt byrjar á samtali, ekkert hefst án þess.“

Svo mælti Sigurður í ræðu sinni þegar hann tók við verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu – og um leið og þetta talar inn í samtímann þá á þetta merkilega vel við tvær nýlegar bíómyndir; geimverudramað Arrival sem og um Baskavígin, heimildamynd um löngu liðna fortíð.

Í Baskavígunum koma útlendingar á einangraða eyju, í Arrival koma geimverur á einangraða plánetu. Íslendingar/jarðarbúar hafa sínar efasemdir á aðkomumennina/verurnar, þeir deila hvorki tungumáli né hugmyndaheimi með þeim. Hvað vilja þessar geimverur, þessir Baskar? Hvað vilja þeir okkur?

Málvísindamaðurinn Viola Migliom orðar þetta ágætlega í Baskavígunum: „Skilningur milli manna var mjög mikilvægur en misskilningur var enn mikilvægari, því afleiðingar misskilningsins urðu átök.“

Við horfum á tvo klerka (séra Jón og séra Jón; þá Jón Grímsson og Jón lærða) taka á móti Böskunum þegar þeir koma í land. Andlit Jóns Grímssonar lýsir tortryggni og styggð – en andlit Jóns lærða lýsir forvitni og vilja til að skilja. Jón lærði var einn af síðustu kaþólsku biskupunum sem lifði af siðaskiptin og því kunni hann latínu, sem þýddi að hann gat átt í meiri samskiptum við Baskana en flestir. Jón lærði vildi skilja Baskana – á meðan nafni hans Grímsson leitar að átyllu til þess að ráðast á þá.

Fræðimennirnir Louise og Jón lærði vilja skilja hina framandi gesti frekar en að berjast gegn þeim. 31148jonlaerdi

Staðan er ekki ólík þegar dularfullar geimverur lenda í Arrival. Málvísindakonan Amy Adams reynir að skilja geimverurnar – sem líta út eins og skringilegir kolkrabbar og tjá sig á ritmáli sem minnir helst á ( ) – svigaplötu Sigur Rósar. Sem er viðeigandi, þessar geimverur virðast tala einhverja útgáfu af vonlensku og það má örugglega finna textatengsl á milli þeirra og Sigur Rósar, svona fyrir utan það að tónskáld myndarinnar, Jóhann Jóhannsson, er af sömu kynslóð íslenskra tónlistarmanna og Sigur Rós, neðanjarðarhetjur íslensku tónlistarsenunnar undir lok síðustu aldar, sem nú eru að sigra heiminn. En geimverurnar skilja tíma og rúm allt öðruvísi en við – og það gera þær ekki í gegnum tækni sem er okkur hulin, heldur í gegnum tungumál sem við skiljum ekki.

Geimskipin í Arrival sem minna helst á bautasteina Steinríks svífa að virðist þyngdarlaus rétt fyrir ofan jörðina.
Geimskipin í Arrival sem minna helst á bautasteina Steinríks svífa að virðist þyngdarlaus rétt fyrir ofan jörðina.

Að koma í friði
Hvar varst þú þegar geimverurnar lentu? Þetta er fyrsta spurningin sem Arrival svarar – við sjáum Louise kenna fyrir hálftómum sal og þegar þeir fáu nemendur sem eru mættir fara að fá tölvupósta og skilaboð fara þau að átta sig á hvað er að gerast. Þetta er lúmskt líkt upplifun flestra okkar af heimsviðburðunum – flest vorum við bara í vinnu eða skóla, að horfa á sjónvarpið – einhvers staðar í hversdeginum þegar mannkynssagan bankaði upp á. Hún bankar hins vegar fljótlega bókstaflega upp á hjá Louise, þegar hún er fengin til þess að tala við geimverurnar.

Þessar geimverur eru ekki að gera neitt, vel að merkja, risastóru ílöngu geimskipin þeirra sitja bara í mestu friðsemd á tólf mismunandi stöðum í heiminum. Geimskipin minna helst á bautasteina Steinríks – nema þau virðast algjörlega þyngdarlaus þar sem þau svífa rétt fyrir ofan jörðina og eru á stærð við háhýsi stórborganna.

Geimverurnar sjálfar sýna engin merki þess að þær ætli að gera árás – en þessi stóru og mikilfenglegu skip sá ótta í huga manna og maður hefur miklu frekar áhyggjur af því að manneskjurnar ráðist á geimverurnar, frekar en að þær ráðist á okkur. Enda gengur ríkjum heimsins illa að vinna saman, sumar þjóðir vilja halda áfram að reyna að skilja geimverurnar á meðan aðrar vilja gera árás. Og þegar sama dýrategundin getur ekki treyst hvor annarri – jafnvel þótt hún hafi þýðendur og túlka í öllum helstu tungumálum – þá er varla hægt að búast við að þær treysti óskiljanlegum geimverum.

En Louise er fengin í verkefnið af því hennar vinna er sú að skilja. Hún þarf að brjóta flestar öryggisreglur hersins til þess að ná markmiðinu, enda byggja þær reglur allar á tortryggni, vantrausti og skilningsleysi. Misskilningur er eitt það mikilvægasta sem þýðendur heimsins reyna að yfirstíga. Flestir sem hafa raunverulega reynt að eiga samskipti við fólk sem talaði ekki sama tungumál vita þó flestir að fólk finnur leiðir til að skilja. En fólk finnur líka leiðir til þess að misskilja, sérstaklega þegar ótti og tortryggni eru komin í spilið. Þannig upplifir maður til dæmis flestar kalda stríðs bíómyndir sem sögur af skilningsleysi; það var enginn að fara að sprengja kjarnorkusprengju – það héldu bara allir að hinir væru árásárgjarnari, blóðþyrstari og vanstilltari en þeir sjálfir.

Samtalið sem þarf að eiga
Þegar hoppandi skepnur með afkvæmi í poka hoppuðu fram hjá nýkomnum Evrópubúum í Ástralíu spurðu þeir frumbyggjana hvaða skepna þetta væri eiginlega. Svarið var kengúra – en það var ekki fyrr en löngu seinna sem landnemarnir komust að því að „kengúra“ var orð frumbyggjanna fyrir „ég skil ekki.“

Þetta er vel að merkja lygasaga – sem Louise selur hershöfðingjunum til þess að kaupa sér tíma, en hún sýnir þó ágætlega hvernig misskilningur getur einkennt fyrstu samskipti á milli fólks (og geimvera) á meðan við erum að læra tungumál hvers annars. Seinna virðast margir halda að geimverurnar séu að tala um vopn – á meðan orðið „vopn“ gæti allt eins verið tæki eða tól, jafnvel gjöf – og maður rifjar upp fræðitexta Louise fyrr í myndinni, þar sem hún talar um að tungumálið væri eitt öflugasta vopn mannskepnunnar.

Eins er rétt að geta þess að leikstjórinn Denis Villeneuve er frá Quebec, frönskumælandi borg í þeim hafsjó enskunnar sem megnið af Norður-Ameríku norðan Mexíkó er. Hann er vanur að flakka á milli tungumála – og gerði það raunar á eigin ferli; hann hafði leikstýrt þremur lítt þekktum myndum á frönsku áður en sú fjórða sló í gegn. Sem þýddi það að Hollywood – og enskan – kallaði.

Villeneuve kemur okkur líka iðulega á óvart með því að leika sér með tungumál kvikmyndanna – og ef maður hugsar um það þá á það kannski við um flesta óvænta endi í skáldskap; þeir eru augljósir þegar maður veit af þeim, þegar maður er búinn að læra lykilinn að tungumáli sögunnar.

Það sama á mögulega við um mannkynssöguna – jafnvel þótt það megi læra af henni þá breytist málfræðin sífellt og orð falla í gleymsku og dúkka upp aftur, við virðumst þrátt fyrir allt alltaf þurfa að fá lykilinn eftir á.

Arrival lenti hins vegar í mannkynssögunni miðri – hún var frumsýnd í bandarískum bíóum tveimur dögum eftir að Trump var kjörinn forseti og þegar dómar þarlendra kvikmyndarýna um myndina eru lesnir þá finnst manni nánast að myndin hafi reynst þeim sú áfallahjálp sem þeir þurftu á að halda akkúrat þá. Amy Nicholson hjá MTV orðar þetta einna best þegar hún segir aðalpersónuna Louise „neyða okkur til þess að spyrja hversu mikið við erum tilbúin til að leggja á okkur til þess að tala hvert við annað. Það að læra tungumál hetapódana virðist nefnilega auðvelt, samanborið við þær erfiðu samræður sem við Bandaríkjamenn þurfum að fara að eiga hver við annan.“

Það er nefnilega ekki nóg að deila tungumáli, það þarf líka að tala saman. Meira að segja við þá sem eru ósammála þér um flest og týnast í bergmálsklefanum sem algóryþmar samfélagsmiðlana búa til í kringum okkur – og birtast okkur svo bara sem vafasöm skrímsli í endursögn já-bræðra okkar.

Ari í Útlendingastofnun
Þegar Baskarnir komu fyrst í land á sínum stóru hvalveiðiskipum þá hefur upplifun afskekktra eyjaskeggja á Vestfjörðum örugglega ekki verið svo ólík upplifun jarðarbúa framtíðarinnar þegar geimverurnar lenda. Þó tekst að halda friðinn um stund og það myndast meira að segja vísir af sameiginlegu tungumáli. En það er enn á því stigi að vera viðkvæmt fyrir misskilningi og mistúlkunum.

Það er svo sýslumaðurinn Ari í Ögri – sem var svo valdamikill að hann var uppnefndur Vestfjarðakóngur – sem sá sér hag í því að losna við Baskana til að breiða yfir sínar eigin syndir. Hann æsir upp útlendingahatrið og óttann í heimamönnum og ber út lygar og hálfsannleik um Baskana, sem teljast eftir það réttdræpir. Sem varð til þess að tugum þeirra var slátrað grimmilega.

Embættismennirnir Ari í Ögri og séra Jón Grímsson virðast þannig hafa gegnt hlutverki Útlendingastofnunar síns tíma – vissulega spilltari og blóðþyrstari – en rétt eins og Útlendingastofnun nútímans virðist leita allra mögulegra og ómögulegra glufa í regluverkinu til þess að hrekja alla óæskilega útlendinga úr landi.

Það er þó sleginn vonbetri tónn í lok myndar – þegar kemur fram að þrátt fyrir þessa skelfilegu atburði hafi baskneskir hvalveiðimenn haldið áfram að sigla til Íslandsstranda og merkilegt nokk átt friðsamleg samskipti við Íslendinga eftir þetta.

Að læra á tímann og hvalveiðar
„Að læra önnur tungumál skapar möguleika á fjölbreyttara viðhorfi til veraldarinnar og fjölbreytileiki vinnur gegn hvers kyns einsleitni.

Þetta er lykilatriði. Því einsleitni er ekki bara hvimleið og óspennandi, hún er hættuleg, hún getur leitt til einangrunar, ótta og haturs. Með því einu að læra erlend tungumál setjum við okkur í annarra spor og getum þannig skilið þá dýpri skilningi.
Tungumálanámi fylgir ekki bara nýr orðaforði heldur annar hugsunarháttur, annar minningaforði, önnur heimssýn, annað menningarkapítal.“

Þessi tilvitnun er líka í áðurnefnda ræðu Sigurðar Pálssonar – og þetta virðist vera einmitt það sem geimverurnar í Arrival hugsuðu þegar þær héldu til Jarðarinnar. Þær vildu kenna okkur nýjan hugsunarhátt og aðra heimssýn.

Vegna þess að þótt hægt sé að berja á geimverum og útlendingum er líka hægt að læra ýmislegt af þeim. Baskarnir koma inn í bændasamfélag sem er umkringt hvölum en kann ekki að veiða þá, geimverurnar lenda í mannheimum sem kunna ekki enn að ferðast um fjórðu víddina, tímann, hvers straumi við velkjumst hjálparlaus í.

En við lærðum á endanum að veiða hvali (og svo ennþá seinna að selja þá útlendingum lifandi) – hver veit nema okkur takist næst að læra bæði af fortíðinni sem og af framtíðinni?

Kvikmyndakompa Þjóðviljans
Ingibjörg Haraldsdóttir, ljóðskáld og þýðandi, lést í nóvember síðastliðnum. En ég komst að því eftir að hún dó að hún var líka kvikmyndarýnir á sínum yngri árum og skrifaði fyrir Kvikmyndakompuna í Þjóðviljanum sáluga. Því þótti tilvalið að endurvekja þann dagskrárlið í nýju blaði – sérstaklega núna, þegar það eru tvær myndir í bíó sem snúast í mörgu um þýðingar og tungumál, enda færði Ingibjörg okkur rússneskar bókmenntir og menningu á árum þegar Rússar voru oftast skilgreindir sem hið varhugaverða heimsveldi í austri, burtséð frá allri þeirri ríku menningu og sögu sem rússneska þjóðin á.

Bók Tapio Koivukari Ariasman fjallar um Baskavígin.
Bók Tapio Koivukari Ariasman fjallar um Baskavígin.

Bókmenntakompan
Það mætti líka auðveldlega skrifa bókmenntakompu um þetta efni. Arrival er byggð á smásögunni „Story of Your Life“ eftir Ted Chiang og þótt lengstum hafi lítið verið talað um Baskavígin hefur það breyst mikið á síðustu árum. Finnski Íslandsvinurinn Tapio Koivukari skrifaði bókina Ariasman: frásaga af hvalföngurum, en Ariasman var nafnið sem Baskarnir gáfu Ara í Ögri. Þá var Jón lærði fyrirmynd aðalpersónu Rökkurbýsna Sjóns og núna fyrir þessi jól fékk hann sína eigin ævisögu, Jón lærði og náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson, sem var nýlega tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Ásgeir H. Ingólfsson
ritstjorn@frettatiminn.is

Nóg af hefðum til að átta sig á

$
0
0

„Hátíðin leggst vel í mig og þessi annasami tími er mjög skemmtilegur,“ segir Árni Heiðar Karlsson. „Stúlknakórarnir okkar eru að syngja með Sinfóníuhljómsveit Íslands á jólatónleikum um helgina og svo eru Jólasöngvarnir í kirkjunni fastur liður í stafinu hjá okkur. Þeir verða sungnir um helgina.“

Tónleikahald undir heitinu Jólasöngvar á sér 39 ára sögu í Langholtskirkju. „Þetta má rekja allt aftur til þess tíma þegar verið var að byggja kirkjuna. Þá sátu gestir dúðaðir í úlpunum sínum því það var kalt í kirkjunni og brugðið á það ráð að bjóða upp á rjúkandi heitt súkkulaði í hléi til að hlýja þeim. Súkkulaðið hefur haldist en gestirnir eru komnir úr úlpum, húfum og treflum. Annars er þetta allt fast mótað, til dæmis koma sömu fjölskyldurnar ár eftir ár og vilja helst sitja á sama stað í kirkjunni.“

Árni Heiðar Karlsson heldur nú utan um tónlistardagskrá Langholtskirkju á jólum og jólaföstu í fyrsta sinn. Myndir: Hari.
Árni Heiðar Karlsson heldur nú utan um tónlistardagskrá Langholtskirkju á jólum og jólaföstu í fyrsta sinn. Myndir: Hari.

Söngskráin er líka í nokkuð ákveðnum skorðum. Gestir syngja með í nokkrum laganna og svo flytja kórar kirkjunnar og einsöngvarar ýmsar perlur þess á milli. Einsöngvarar að þessu sinni eru Gissur Páll Gissurarson, Eivör Pálsdóttir, Kristín Sveinsdóttir og Andri Björn Róbertsson, auk einsöngvara úr báðum kórum kirkjunnar.

Líður vel í starfi

Árni Heiðar tók við starfi í ágúst síðastliðnum eftir að Jón Stefánsson lést af slysförum. Jón hafði stýrt tónlistarstarfinu í Langholtskirkju í hálfa öld og byggt upp mikið starf.

„Ég kem að ótrúlega góðu búi og hef það mjög gott í nýja starfinu,“ segir Árni Heiðar. „Mér var tekið vel af öllum hér og fann fyrir mikilli hlýju. Þetta hefur gengið vel og merkilegt að átta sig á því hve uppbygging Jóns var mikil á þessum 50 árum sem hann starfaði við sóknina. Ég er því að kafa ofan í allt saman hér, bæði nótnasafn og hefðasafn og átta mig á hvernig landið liggur. Þegar maður kemur að þessu kórstarfi sér maður hve þetta er dýrmætt. Í aðalkórnum hjá mér eru þannig söngkonur í kringum þrítugt sem hafa verið hér að syngja síðan þær voru á barnsaldri. Það er dálítið magnað að hafa sungið í kór hjá Jóni Stefánssyni frá því að maður var fjögurra ára. Þetta hefur því verið ótrúleg uppeldisstöð á söngvurum áratugum saman.“

Sjálfur er Árni Heiðar uppalinn í hverfinu og þykir því vænt um tónlistarstarfið sem segja má að sé hjartað í sóknarstarfinu. „Ég fékk að æfa mig á píanó hérna í kirkjunni og var meira að segja í ræstingum hérna, þannig að kannski má segja að ég hafi unnið mig upp. Kirkjan hefur verið eins konar tilraunastöð fyrir tónlistarmenn að fá að koma fram án þess að pressan væri of mikil. Ég man til dæmis að ég var líka að læra á óbó og Jón fékk mig til að spila sóló á það einhverju sinni. Tónlistin var svolítið fyrir ofan mína getu þannig að ég æfði mig og æfði og ég hef Jón grunaðan um að hafa legið á hleri og hlustað þar til hann dæmdi um að ég væri tilbúinn í þetta. Svona var Jón, hann hafði lag á því að fá það besta út úr fólki og ýta því áfram.“ segir Árni Heiðar hlæjandi.

Fyrstu Jólasöngvar Langholtskirkju verða sungnir á föstudag kl. 23, því að fyrst þegar þeir voru sungnir var það eftir verslunarferðir gestanna á Þorláksmessu. Tónleikarnir eru endurteknir á laugardag og sunnudag, kl. 21.

Skáldævisagan og nonfiction

$
0
0

Jólin 1997 birtist okkur fyrst hugtakið skáldævisaga í hinu séríslensku jólabókaflóði. Guðbergur Bergsson var þá að gefa út endurminningar sínar og honum og Jóhanni Páli Valdimarssyni útgefanda dugðu ekki fyrri hugtök. Ævisaga Guðbergs var auðvitað miklu merkilegri en hefðbundnar íslenskar ævisögur. Allar götur síðan hafa flestir lærisveinar Guðbergs skilgreint sínar bækur samkvæmt þessu tæplega tuttugu ára gamla hugtaki. Sem grundvallast ekki á öðru en því að innri átök Guðbergs eru svo miklu merkilegri en búksorgir sendiherrafrúa. Meðan þessu fer fram á Fróni hefur hins vegar orðið sú þróun úti í hinum stóra heimi að endurminningar og ævisögur þykja góðra gjalda verðar. Þar hefur verið að rísa bylgja sem gæti verið undir slagorðinu: NonFiction Is the New Fiction.

Fátækt fólk er í aðalhlutverki í bókinni Evicted
Fátækt fólk er í aðalhlutverki í bókinni Evicted eftir Matthew Desmond.

Fátækt fólk
Evicted eftir Matthew Desmond er mikilvæg bók sem kom út í upphafi árs en í henni rekur hann sögu átta fátækra fjölskyldna í Milwaukee í Bandaríkjum nútímans. Þetta er fólk eins og Arleen sem er einstæð móðir sem á 20 dollara eftir til að sjá fyrir sér og tveim sonum sínum þegar hún hefur greitt leigu fyrir grenið sem litla fjölskyldan býr í.

Það tók Matthew átta ár að skrifa bókina og er hún afrakstur vandaðrar rannsóknarvinnu. Höfundur starfar sem kennari við Harward háskóla en flutti inn í hjólhýsahverfi til að kynnast aðstæðum fólksins sem hann skrifar um og svo elti hann þessar fjölskyldur í verstu hverfi Milwaukee.

31076_evicted

Við getum heimfært margt úr Evicted yfir á Ísland. Bókin er um fólk sem nær ekki endum saman, er á vergangi og hefur ekki efni á að borga leigu. Miklu fleiri en við viljum kannast við búa við þær aðstæður hér á landi. Samkvæmt nýjustu rannsóknum versna aðstæður fátækra barna á Íslandi ár frá ári. Samkvæmt útreikningum ASÍ ætti húsnæðiskostnaður ekki að vera meira en 20-25% prósent af tekjum. Í nýjustu launakönnun Flóabandalagsins, verkalýðsfélaga á höfuðborgarsvæðinu, eru meðallaun félagsmanna 357 þúsund fyrir skatt en það gera 262.500.- útborgað. Þú færð þriggja herbergja íbúð hjá Gamma í gegnum Almenna leigufélagið þeirra – nýja Verkó – fyrir um 200 þúsund krónur á mánuði í Kötlufelli. Auðveldur hugarreikningur segir manni hvað stendur eftir. Evicted er á lista New York Times yfir bestu bækur ársins.

31076_darkroom

Susan Faludi
Femínstahetjan Susan Faludi hefur skrifað eftirminnilegar bækur á borð við Backlash og Stiffed. Fyrrnefnd bók fjallar um bakslag kvenréttindabaráttunnar og sú síðarnefnda fjallar um stöðu karlmennskunnar í Bandaríkjunum sem er með miklum ósköpum.
Báðar þessar bækur standa vel fyrir sínu en í ár kom besta bók Susan Faludi út: In the Darkroom. Hún er á lista New York Times yfir bestu bækur ársins. Þetta er ótrúlega saga um samband Susan við föður sinn, Steven, nú Stephanie. Hér er verið að takast á grundvallarspurningar sem snúa að stöðu okkar í nýjum heimi sem lúta fjölþættari skilgreiningum á kynhlutverkum. Ofbeldisfullur faðirinn flytur til Ungverjalands einmitt þegar fasisminn er aftur að ná þar fótfestu en þegar Steven Faludi flúði þaðan, sem ungur maður, hafði hann lifað af helför nasista sem var dyggilega studd af ungversku fasistahreyfingunni. En nú er hann sem sagt snúinn aftur og ferðast þaðan til Tælands til að leiðrétta kyn sitt.

Susan eltir hann eftir að hafa fengið ímeil frá Stephanie og hún reynir að skilja þessa fyrrum gegnheilu karlrembu, afsprengi umhverfis síns sem hafði gengið í gegnum svo margt hræðilegt sem karlmaður en er nú orðinn transkona. Umskiptin eru alger. Þessi bók er listilega vel skrifuð, bókmenntagildið sem slíkt er ótvírætt auk þess sem hún varpar fram stórum og mikilvægum spurningum. Hún krefur okkur svara án þess að kaupa sér allibí með því að fela sig bak við hugtakið skáldævisögu. Þetta er nonfiction. Við eigum öll að lesa þessa bók.

31076_blackflags

Hvernig varð Isis til?
Pulitzerinn í nonfiction þetta árið fór til blaðamannsins Joby Warrick en bók hans heitir Black Flags og fjallar um það hvernig Isis varð til. Joby skrifar fyrir Washington Post og hefur áður fengið Pulitzer fyrir blaðaskrif. Það er auðvitað með miklum ólíkindum að lesa um það hvernig aðstæður í Írak og vanhæfni Bush og hans félaga leiddu til þess að Jórdaninn al-Zarqawi náði að skáka sjálfum Bin Laden í illvirkjum. Isis, eða Daesh, ráða nú yfir stórum landshluta í Írak, Sýrlandi og víðar. Ég hef venjulega ekki gaman af svona herbókum. Bróðir minn, fyrrverandi sérsveitarhermaður í breska hernum, hefur stundum gefið mér svona bækur – aðallega þegar hann hefur komið fyrir í þeim sjálfur – og þetta eru yfirleitt leiðinlegar bækur. Black Flags er ekki leiðinleg. Hún er vel skrifuð, stórskemmtileg og áhugaverð.

31076_stampedbeginning

Sagnfræðibækurnar
Hin virtu verðlaun, National Book Award, fyrir nonfiction fóru til Ibram X. Kendi en hann skrifaði bók um sögu rasisma í Ameríku. Ágætis bók en þegar ég las hana var ég nýbúinn að lesa White Trash eftir Nancy Icenberg, sem var líka ágæt, og hafði auðvitað lesið Between the World and Me eftir Ta-Nehisi Coates sem vann verðlaunin í fyrra. Sú bók er persónuleg og skrifuð í formi bréfs til 15 ára sonar Ta-Nehisi. Umfjöllunarefnið er hvernig það er að vera svartur í Ameríku.

Maður þarf nú ekki annað en að lesa The New Jim Crow eftir Michelle Alexander til að skilja hvernig þessi skálmöld gegn svörtu fólki fer fram vestra. En ég var ekkert sérstaklega hrifinn af verðlaunabókum National Book Award í ár og heldur ekki í fyrra en mæli hinsvegar með sjálfsævisögu Ta-Nehisi, The Beutiful Struggle. Það er frábær ævisaga sem segir frá uppvexti Ta-Nehisi í Baltimore og samband hans við föður sinn sem var í þeim alræmdu samtökum Black Panther.

31076_elephant

Besti blaðamaðurinn – besti rithöfundurinn
Uppáhalds blaðamaðurinn/rithöfundurinn minn, Jon Ronson, gaf út tvö verk í ár. Annað var svona best-off greinasafn sem ég mæli að sjálfsögðu með: Lost at Sea heitir það en svo gaf Jon Ronson út litla nóvellu, ef það má kalla non-fiction bók nóvellu, um Donald Trump. Bókin heitir The Elephant in the Room og er öllu heldur um samskipti Jon Ronson við Alex Jones en þau okkar sem eru miklir Jon Ronson aðdáendur þekkja Alex Jones úr bókinni Them, fyrstu bók Jon Ronson.

Alex Jones rekur fréttavef sem heitir infowars.com og þar eru allar frásagnir óhugnanlegar. Fyrirferðarmikið er hatur gegn konum, svörtum og múslimum. Ég get eiginlega ekki útskýrt hver þessi Alex Jones er nema segja það hreint út að maðurinn er fæðingarhálfviti. En þessi litla nóvella Jon Ronson fjallar um það að þessi vitleysingur sé einn af nánustu ráðgjöfum Donald Trump. Nóvellan kom út áður en Trump var kosinn og það er hrollvekjandi að lesa hana núna að afstöðnum kosningum og úrslitum þar. Jesús minn.

31076_moby

Bestu ævisögurnar
Bestu ævisögurnar sem ég las í ár voru Porcelain eftir Moby og An Abbreviated Life eftir blaðakonuna Ariel S. Leve. Nú hef ég aldrei hlustað á þennan Moby og reyndi það á Spotify þegar ég var að lesa bókina. Af því að bókin var svo góð. En ég tengdi ekkert við tónlistina og hélt bara áfram að lesa.

Moby var alinn upp við sára fátækt og gekk í einhvern svona sértrúarsöfnuð á borð við gamla Krossinn þegar hann var unglingur. Og svo var hann að dídjeija og á endanum að drekka og dópa. Sem er auðvitað ekkert merkilegt þegar popparar eru annars vegar en það sem er athyglisvert fyrir ættfræðióðan Íslending er að þetta barna-barna-barna-barn Herman Melville getur svo sannarlega skrifað undurfagran texta. Þetta er ljóðræn og falleg og einlæg ævisaga. Engin helvítis skáldævisaga!

An Abbreviated Live er flóknari bók. Eða, hún Ariel S. Leve býr við flóknara tilfinningalíf. Þessi ævisaga snýst um samband Ariel við móður sína sem er frægt ljóðskáld og goðsögn í skáldalífi New York borgar. En hún er líka súrrandi geðveik eða með alvarlega persónuleikaröskun. Ég uppgötvaði þessa bók þegar ég las viðtal við þær mæðgur sem Jon Ronson tók og birti í Guardian. Þær talast reyndar ekki við því Ariel hefur ákveðið að frelsa sig frá allri geðveikinni. Ég var persónulega djúpt snortinn af þessari bók.

31076_voices

Nóbelinn
Í fyrra var gaman að fá fréttir af Nóbelnum, ólíkt því sem var raunin í ár. 2015 fékk Svetlana Alexievich verðlaunin og ég hef garfað í henni. Enn er verið að þýða og gefa bækurnar hennar út því áður en hún fékk verðlaunin var hún svo gott sem óþekkt hér á Vesturlöndum. Ef þú hefur ekki lesið Voices from Chernobyl verðurðu að drífa þig í Eymundson eða á Amazon. Þessi bók er stórvirki. Ein áhrifamesta bók sem ég hef lesið.

Í gegnum viðtöl við fólk tekst Svetlönu að segja sögu þessa hræðilega slyss. Og ég er enn að lesa bækur eftir hana. Amazon segir mér að Second-Hand Time komi 23. desember. Í ár las ég líka Zinky Boysen, mér finnst það sísta bók Svetlönu. Hún fjallar um stríðið í Afganistan frá sjónarhorni Rússa.

Ég var duglegur að lesa stríðsbækur í ár, eins og áður sagði. Tribe, eftir Sebastian Junger, var áhugaverð bók sem kom út í ár. Hún fjallar um það hvernig tekið er á móti hermönnum úr í nútímasamfélaginu. Sebastian ber það saman við hvernig indíánar tóku á móti sínum stríðsmönnum. Þetta efni er sérstaklega áhugavert hvað mig varðar því ég fer reglulega til London að heimsækja bróðir minn, sérsveitarhermanninn fyrrverandi, sem er þar í fangelsi. Fékk átta ára dóm fyrir þremur árum rúmlega og er feginn, segir hann, því í fangelsinu getur hann fengið að aðlagast borgaralegu lífi aftur eftir að hafa barist í Írak og Afganistan í öll þessi ár.

Heima í fásinninu
En, af hverju er ég nú að rekja þetta? Jú, því hér heima skrifum við skáldævisögur. Ekki ævisögur eða endurminningar; nonfiction. Ekki er gert ráð fyrir slíkum bókum í kategóríum hinna Íslensku bókmenntaverðlauna. Slík verk falla milli stafs og hurðar; bækur Vigdísar og Steinunnar.

Íslenskir rithöfundar tóku þessu hugtaki fagnandi og það hefur lifað góðu lífi allt frá því að þeir Jóhann Páll og Guðbergur fundu það upp. Sennilega hefðu þeir félagar varla getað ímyndað sér þá hversu snjallt þetta hugtak er – og eru þó hvorugur þjakaður af minnimáttarkennd. Skáldævisagan hentar nefnilega alveg svona prýðilega hvernig sem á það er litið. Þjóðaríþrótt Íslendinga, þessi sem gengur út á að finna raunverulegar manneskjur í persónum skáldsagna, henni er ekki raskað. Og rithöfundar ná að halda sér og sínum skrifum rækilega aðgreindum frá skrifum blaðamanna, sem eru auðvitað ekki eins merkilegir og þeir. Með skáldævisögunni telja rithöfundar sig geta átt sterkari rödd um samtímaleg málefni en með skáldsögunni en samt þannig að þeir þurfa ekki að bera ábyrgð á orðum sínum. Það þarf ekkert endilega að standast þetta sem þeir segja. Ef einhver er ósáttur er alltaf hægt að vísa til þess að þetta er SKÁLDævisaga.
En, úti í hinum stóra heimi er nonfiction the new fiction.

Mikael Torfason
mikael@frettatiminn.is

Auðtrúa eiginmaður og siðblindur sjarmör

$
0
0

Á fyrstu sex árum seytjándu aldar samdi William Shakespeare fjóra harmleiki sem óumdeilanlega gnæfa hátt yfir önnur verk hans, leikrit og ljóð: Hamlet, Óþelló, Macbeth og Lé konung. Þar af leiðandi yfir allar bókmenntir heimsins frá upphafi til vorra daga – myndu margir, ef ekki flestir, segja. T.S. Eliot, sem var ekki aðeins merkilegt skáld heldur einnig merkur bókmenntarýnandi, taldi að vísu að hinn Guðdómlegi gleðileikur Dantes væri stærsta verk vestrænna bókmennta og það svo að ekki dygði minna en öll verk Shakespeares til að finna eitthvað sambærilegt. Fyrir mitt leyti á ég bágt með að skilja slík samanburðarfræði; ég sé ekki hvernig hægt er að leggja að jöfnu annars vegar voldugan ljóðabálk, andlegs efnis, gegnhugsaða, þaulmótaða listræna heild; hins vegar eitthvað rétt innan við fjörutíu leikrit sem þrátt fyrir sameiginleg höfundareinkenni eru svo ólík innbyrðis að undrum sætir. Því það er ein af mörgum furðum Shakespeares: hann endurtók sig aldrei, eins og hann vildi á einhvern hátt brjóta nýtt land með hverju nýju verki.

En hvað sem öllum samanburðarbókmenntum líður er staðreynd að harmleikirnir fjórir hafa frá upphafi notið gríðarlegs áhuga og vinsælda.  Það á jafnt við um áhorfendur sem lesendur, fræðimenn og krítíkera. Á þeim vinsældum er ekkert lát, þvert á móti er engu líkara en þær fari sífellt vaxandi. Sjálfur hneigist ég til að vona að það sé vísbending um að siðmenningin eigi sér enn einhverja von.

31221-gettyimages-534241856

Á hátindi sköpunarinnar
Árið 1600 hafði Shakespeare fengist við leikritun í rúman áratug, ef til vill lengur. Við vitum ekki með vissu frá hvenær hann hóf skriftir; þeir fræðimenn sem varfærnastir eru tímasetja elstu verkin ekki fyrir 1590, en öðrum þykir ólíklegt að hann hafi ekki verið byrjaður fyrr, miðað við hin gríðarlegu afköst hans. En um það er ekkert fast í hendi. Í öllu falli gat skáldið státað af tíu sögu- eða krönikuleikjum um enska miðaldakónga, tveimur harmleikjum, og sjö eða átta gamanleikjum, kómedíum, þegar hér var komið.

Hann var að upplagi meira kómedíuskáld en harmleikja, segja sumir. Kómedíurnar hafa alltént lifað góðu sviðslífi í meira en fjórar aldir.  Þær elstu eru flestar farsakenndar; í þeim síðari nýtur ljóðræna hans sín betur, fyndnin verður snarpari, fjölbreyttari, safameiri. Það er auðvelt að trúa þeim vitnisburði samtíðarmanna að hann hafi sjálfur verið einkar orðheppinn og hnyttinn. Um ótrúlega málsnilld hans er óþarft að fjölyrða, ótæmandi orðaforða og hugkvæmni í myndun nýrra orða og samsetninga; á stundum er jafnvel ekki frítt við að hann missi stjórn á sínum glaða leik við tungumálið. En honum lærðist að hemja þessa gáfu og temja, virkja hana í þjónustu þess sem hann vildi segja, sýna og tjá í skáldskapnum.

Slappur „plottari“? 
Sú skoðun er ekki ný að „plottin“, söguflækjurnar og uppbygging þeirra, séu eitt hið veikasta í list Shakespeares. Þau séu ekki alltaf sem sennilegust og hangi stundum varla saman, eins þótt skáldið beiti ýmsum brögðum til að fela það. Úndir þetta er hægt að taka að vissu – en ekki öllu – leyti; mörg leikritanna eru feikilega vel smíðuð, til dæmis Jónsmessunæturdraumur eða Rómeó og Júlía.  En önnur eru losaralegri í byggingu og sums staðar eiga svolítið skrýtnir hlutir til að gægjast í gegn, einkum þegar rýnt er í vef þeirra við lestur, tímaramminn skoðaður og eitt og annað sem á að gerast utansviðs. Hamlet er dæmi um þetta, en einnig Óþelló þó með öðrum hætti sé.
En þá er að vísu eins að gæta: Shakespeare sótti sem sé söguefni sín langoftast til annarra. Veiddi hann þau ekki upp úr gömlum krönikum og alþýðlegum sagnfræðibókum, fann hann þau í vinsælum smásögum, reyfurum og rómantískum hjarðsveina- og ævintýraskáldskap. Var sumt af því enskt, en margt komið frá Ítölum og Frökkum sem höfðu þá verið mestu bókmenntaþjóðir Evrópu um langan aldur. Það er hreint ekki óhugsandi, jafnvel fremur líklegt, að Shakespeare hafi verið þokkalega læs á annað tungumálanna eða bæði.

Af uppruna Óþellós
Hann fór eins að í Óþelló. Söguna, fabúluna, fann hann í ítölsku smásagnasafni, Hecatommithi eftir Giraldi nokkurn Cinthio, sem var fyrst gefið út árið 1565. Ensk þýðing á sögunni birtist hins vegar ekki á prenti fyrr en löngu eftir daga Shakespeares. Sagan kom út í franskri þýðingu árið 1584 og veit enginn hvort hann las hana þar eða á frummálinu. Það eitt er víst að hann þekkti hana og skoðaði vel áður en hann tók til við að semja Óþelló.

En þó að Shakespeare sæki sögugrindina til Cinthios, fer hann að vanda frjálsum höndum um efnið. Í sögu Cinthios segir af Mára nokkrum (nafnlausum) sem er foringi í her Feneyja. Á þessum tíma og lengi síðan voru Tyrkir í mikilli framsókn í suðaustur-Evrópu og við Miðjarðarhaf og mæddu átökin við þá ekki minnst á hinu gamla verslunarveldi Feneyinga. Tyrkinn var mesta ógn hinnar kristnu Evrópu sem var nú veikari fyrir en nokkru sinni áður, eftir að uppreisn Lúthers gegn rómversk-kaþólsku kirkjunni hafði klofið álfuna í andstæðar fylkingar. Márar voru frá Norður-Afríku, dökkir á hörund og múhameðstrúar, og því í meira lagi skrýtið að finna einn þeirra háttsettan í her kristins ríkis; það hefði fremur mátt búast við honum undir merki Tyrkjasoldáns. Cinthio skýrir þetta ekki og ekki Shakespeare heldur.
Márinn gengur að eiga feneyska fegurðardís, Disdemónu (Desdemónu hjá Shakespeare), þvert gegn vilja foreldra hennar og frænda. Þau unnast hugástum, en skjótt skipast veður í lofti; illmenni nokkurt, merkisberi í her Márans, maður sem hann ber fyllsta traust til, telur honum trú um að kona hans sé honum ótrú. Márinn fyllist stjórnlausri afbrýði og heift sem endar með því að hann verður henni að bana. Í sögu Cinthios er það raunar Merkisberinn (sömuleiðis nafnlaus hjá Cinthio) sem tekur að sér að framkvæma ódæðið.

31221-gettyimages-463922211

Óhugnanleg lokasena?
Saga Cinthios er ekki mikið bókmenntaverk, en hún er lipurlega skrifuð, þó að einstök atriði séu með nokkrum ólíkindum. Þar hafa hjónin búið saman langa hríð þegar ósköpin dynja yfir; Merkisberinn þarf einnig sinn tíma, vikur eða mánuði, til að sá fræjum tortryggni og afbrýði í hug Márans, spinna þá þræði sem að lokum verða þeim þremur að falli. En Shakespeare fer öðru vísi að. Hann lætur umrædda atburði fara fram á örskömmum tíma, eitthvað um tveimur sólarhringum, ekki meir, og það strax eftir brúðkaupsnótt Desdemónu og Óþellós, eins og hann nefnir Márann. Merkisberinn, sem hann gefur hið spænska nafn Jagó, þarf aðeins fáeinar klukkustundir til þess að sannfæra Óþelló um að Desdemóna hafi svikið hann í tryggðum og lagst með Kassíó, undirforingja Óþellós, sem á sér líka hliðstæðu hjá Cinthio.

Í sögu Cinthios leggja Márinn og Merkisberinn á ráðin um morðið og leyna því, en Óþelló Shakespeares gengur hreint til verks og kyrkir konu sína í hvílu þeirra – kvöldið eftir að þau hafa fyrst sængað saman. Og hún hefur vart fyrr gefið upp öndina en upp kemst um svik Jagós, Óþelló leggur sig sverði í örvæntingu og hnígur látinn yfir lík Desdemónu. Mörgum hefur fundist þessi sena öll óbærilegur hryllingur, og frést hefur af gagnrýnendum sem segjast alltaf kvíða því að þurfa að sitja undir henni og skrifa um hana. Ég skal fúslega viðurkenna að fáar senur Shakespeares hreyfa meira við mér þegar ég les þær – eins þótt ég geri það aftur og aftur – en ég held hins vegar að hún sé einfaldlega illa leikin, finnist áhorfendum hún óþægileg.

Shakespeare er lúmskur og kann að plata okkur  Hann fær okkur til að trúa því að atburðirnir gerist á mun lengri tíma en nákvæm athugun leiðir í ljós. Hann kann ýmsar brellur en hér er hvorki rúm ná ástæða til að fara út í þær. Það sem mestu varðar í Óþelló eru aðalpersónurnar þrjár. Séu verk Shakespeares skoðuð í samhengi má glöggt sjá hvernig honum eykst smátt og smátt geta til að gefa mannlýsingum svipmót lifandi einstaklinga, skapa persónur sem sumar öðlast allt að því sjálfstætt líf í höndum hans. Þegar hann semur Óþelló hefur hann skapað Shylock, Falstaff og Hamlet; honum eru allir vegir færir í þessum efnum.

Var Shakespeare rasisti?
Á fyrri tíð var löngum mikið lagt upp úr því að höfundar boðuðu fólki gott siðferði, létu syndara fá sitt verðskuldaða straff, hina góðu uppskera laun dyggðarinnar. Einn snjallasti bókmenntagagnrýnandi Breta fyrr og síðar, Samuel Johnson, sem var uppi á átjándu öld og þekkti flestum betur list Shakespeares, gaf verk hans út og skrifaði um þau margt sem enn á skilið athygli, hafði skáldið þó grunað um að vera andsnúið hvers kyns siðaprédikunum. Grunað, segi ég, því að Johnson, sem var kristilega þenkjandi maður á sinnar aldar anglíkönsku vísu, var ekki par hrifinn af því að skáld skrifuðu „án siðferðilegs tilgangs“, eins og hann orðaði það. Hann vissi að Shakespeare var mesta skáld Englendinga, ef ekki allra þjóða og tíma, en honum fannst hræðileg tilhugsun að slíkur meistari hefði ekki beitt sinni óviðjafnanlegu list í þágu hins góða, rétta og sanna – eins og Johnson sá það.

Hvað var Shakespeare nú til dæmis að fara með Óþelló? Var hann ef til vill að vara hvítar yfirstéttarkonur við því að giftast blóðheitum blökkumönnum sem væru í senn einfaldari sálir og ofstopafyllri en almennt gerðist meðal hins göfuga hvíta kynstofns? Þó að Shakespeare gæði Óþelló glæsileik og göfgi verður að segjast að persónan fellur óþægilega vel – fyrir okkar upplýsta smekk alltént – að hefðbundnum staðalímyndum um fólk af „óæðri kynþáttum“.  Á 19. og 20. öld átti hlutverkið drjúgan þátt í að opna þeldökkum hæfileikamönnum leið upp á hið „hvíta“ leiksvið, en þó hafa sumir dökkir leikarar, ekki síst í seinni tíð, lýst efasemdum, jafnvel ógeði á hlutverkinu. Því verður sem sé ekki neitað að Óþelló reynist Jagó ótrúlega auðveld bráð, nokkuð sem mörgum hefur veist bágt að kyngja.

Meðferð Jagós á hinum auðtrúa Óþelló er reyndar annað sem móralskir gagnrýnendur bentu á sem hugsanlegan boðskap leiksins. Með lýsingu sinni á henni vildi skáldið brýna fyrir mönnum, sögðu þeir, að vera nú ekki of skjótir til að leggja eyru við rógburði og álygum vondra manna. Samuel Johnson, sem dáðist annars að verkinu, huggaði sig við að illska Jagós og vondar hvatir væru svo gegnsæjar að áhorfendur hlytu að hata hann og fyrirlíta frá fyrstu stund. En þegar greining Johnsons á Jagó er lesin, skín í gegn að hinn mikli krítíker fann undir niðri hversu óhugnanlega heillandi persóna Jagós er í raun og veru.

31221-gettyimages-464496259

Siðblindan afhjúpuð
Í því leikhúsi staðalímyndanna, sem Shakespeare gekk inn í, var venjan sú að teikna skúrkana kröftugum dráttum. Þeir voru afskræmdir og dýrslegir; liðuðust um sviðið eins og snákar, undirförulir og grimmúðugir, svartir á brún og brá, röddin hás eða skerandi. Ríkarður III með kryppuna, kóngurinn hvers minningu vel meinandi fólk sakar Shakespeare um að svívirða í samnefndum leik sínum (sem er eitt af æskuverkum hans), er ágætur fulltrúi slíkra leiksviðsbófa. Það er nóg að horfa á fræga kvikmynd Laurence Oliviers til að sjá hvernig snjall leikari getur náð að gæða klisjuna lífi – án þess þó að fara út fyrir mörk klisjunnar.

En Jagó er eins langt frá því að vera klisja og hugsast getur. Í heimi leiksins býður hann af sér svo góðan þokka að allir laðast að honum og treysta honum. Ekki er ég svo vel að mér í sögu geðlæknisfræðinnar að ég viti hvenær menn fara að nota hugtakið psykopati eða siðblinda á þeim bæjum, en eitt veit ég: það er ekki fyrr en löngu eftir tíð Shakespeares. Allir, sem um þetta hafa ritað og ég hef rekið nef mitt í, eru á einu máli um að hann hafi þarna lýst af nánast yfirnáttúrulegu innsæi þessu fyrirbæri: manni sem finnur til engrar samúðar með öðrum mönnum, manni sem notfærir sér aðra í sínum eigingjarna tilgangi án þess að hugsa hið minnsta um velferð þeirra, án þess að fá nokkurn vott af samviskubiti eftir á.

List illskunnar – og ósigur
Því þannig er Jagó. Ólíkt Merkisbera Cinthios sem verður ástfanginn af Disdemonu og eyðileggur samband hennar og Márans af einskærri afbrýðissemi, hefur Jagó alls engar marktækar ástæður fyrir athæfi sínu. Honum er nóg að geta leikið sér að fólki eins og köttur að mús, notið yfirburða sinna gagnvart því, eytt öllu sem veitir því gleði og hamingju. Hann er djöfull í mannsmynd en engu síður en við af holdi og blóði. Skelfilegast er þó kannski hvernig hann – í innblásinni leiktúlkun – nær að tæla okkur áhorfendur (og lesendur) til að vera með sér í liði, hrífa okkur með sér, gera okkur að vitorðsmönnum sínum. Hafi Shakespeare ekki alltaf gengið nógu vel „að plotta“ leikrit sín, náði hann sér niðri í Óþelló með því að skapa plottara allra plottara, listamann illskunnar eins og einhver snjall maður orðaði það.
Ég nefndi hér í upphafi Gleðileik Dantes. Í allri sinni dýpt og öllum sínum margbreytileik fjallar Gleðileikurinn um aðeins eitt: ferð frá myrkri til ljóss. Það kann að vera erfitt að koma auga á ljósið í myrkri Óþellós. Og þó. Þegar Desdemóna deyr, biður hún manni sínum blessunar.  Hún kveður lífið með fyrirgefningu á vörum. Eitur Jagós hefur sýkt og drepið margt. En hennar fögru sál hefur hann ekki sigrað. Þegar nóttin virðist svörtust er dögunin í nánd. Það er hin mikla þversögn kristindómsins og það er líka hin mikla þversögn Óþellós.

Jón Viðar Jónsson
ritstjorn@frettatiminn.is

Viewing all 599 articles
Browse latest View live