– Heiðar Kári, er framúrstefnan og tilraunamennskan búin að ganga svo fram af fólki í myndlistinni að það eina sem heillar er hversdagsleikinn?
„Ja, kannski að einhverju leyti, en það að „fást við hversdagsleikann“ er auðvitað ekkert nýtt í myndlistinni, þó manni virðist þetta áberandi um þessar mundir. Þetta var til dæmis greinilegt í verkum íslenskra listamanna á tíunda áratugnum og nokkrum þeirra verka er ég að stilla fram með glænýrri myndlist. Mér finnst þarna vera samhljómur milli ólíkra tíma.“
Arnfinnur Amazeen, ÞAÐ SAMA OG SÍÐAST OG ÞARÁÐUR, 2017 „Textaverk Arnfinns er athugasemd við tilbreytingarleysi hversdagsins, sem varð til í feðraorlofi listamannsins. Verkið lýsir líka einstaklega vel endurtekningu íslenskrar pólitíkur, en ný ríkisstjórn var einmitt kynnt í Gerðarsafni fyrr í vikunni,“ segir Heiðar Kári. Myndir: Hari.
– Hvernig fæðist svona hugmynd? „Eiginlega bara af því að skoða myndlist. Myndlist kveikir alls konar hugmyndir. Maður skoðar listaverk og skynjar í því ákveðna afstöðu listamannsins og svo rekst maður á hana víðar. Mér fannst ég sjá þetta fyrirbæri, hversdaginn, skjóta upp kollinum hjá þessum ólíku listamönnum sem eiga verk á sýningunni. Sumum verkanna kynntist ég fyrir mörgum árum og þau hafa verið í huga mér. Svo punktar maður hjá sér lista með verkum sem lengist.“
Heiðar Kári Rannversson, sýningarstjóri Normið er ný framúrstefna, segist finna samhljóm í mörgum myndlistarverkum dagsins í dag og verkum sem urðu til í kringum 1990, þegar kemur að hversdagslegu viðmóti þeirra. Hér er Heiðar Kári fyrir framan útsaumsverk Loja Höskuldssonar á sýningunni.
– En nú finnst mörgum hversdagsleikinn frekar tilbreytingasnauður og jafnvel grár. Eru myndlistarmenn næmari en fólk er flest og geta fundið eitthvað meira í honum?
„Maður verður oft var við að myndlistarmenn finni ljóðrænu eða fegurð í hversdeginum, sem breytir þá því venjulega í eitthvað einstakt og jafnvel fallegt. Svo er stundum óljóst hvort listin er að fjalla um hversdaginn í alvöru eða gamni, þannig að þá kemur fram einhver meðvituð sviðsetning á hversdagslegu lífi, einhver tvöfeldni. Þannig er hversdagurinn stundum flókinn í myndlist.“
– Má segja að hversdagurinn sé í tísku?
„Já, mögulega. Stundum er talað um það sem ég reyni að þýða sem normlegt (e. normcore) sem lýsir einhvers konar afstöðu með hinu hversdagslega og því er hampað. Það að vera ekkert sérstakur, eða vera ekkert sérstakt, er þá eftirsóknarvert. En það er stundum dálítið erfitt að átta sig á því hvort þetta er hugsað í alvöru eða sviðsett.“
Sveinn Fannar Jóhannsson, Án titils/sex, 2008 „Ljósmyndaverk Sveins Fannars Jóhannssonar sýna ýmis húsgögn sem listamaðurinn hefur sagað í sundur og raðað saman upp á nýtt. Eiginleikum hlutanna er umbreytt, form og notagildi eyðilagt með mjög nákvæmum fagurfræðilegum hætti,“ segir Heiðar Kári.
– Geta góðir myndlistarmenn fundið sér yrkisefni í öllu úr hversdeginum?
„Já, hiklaust. Það er styrkur myndlistarinnar að hún getur umbreytt hugmynd okkar um raunveruleikann og gefið okkur nýja sýn á það sem okkur þykir algjörlega venjulegt og það sem við tökum ekki eftir. Þetta er eitt af því sem gerir myndlistina svo áhugaverða og spennandi.“
Listamennirnir sem eiga verk á Normið er ný framúrstefna eru: Anna Hrund Másdóttir, Arna Óttarsdóttir, Arnfinnur Amazeen, Emma Heiðarsdóttir, Finnur Arnar Arnarson, G.Erla – Guðrún Erla Geirsdóttir, Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir, Loji Höskuldsson, Sólveig Aðalsteinsdóttir, Sveinn Fannar Jóhannsson, Þorvaldur Þorsteinsson.
Anna Hrund Másdóttir, Límbandssúla, 2017. Anna notar hversdagslega hluti í skúlptúra sína. Hér staflar hún upp rúllum af mislitum límböndum en þá verða þessir fjöldaframleiddu hlutir ennþá gervilegri en ægifagrir.“
Mikið að pæla i svömpum
Einn listamannanna sem á verk á Normið er ný framúrstefna er Anna Hrund Másdóttir sem stendur í stórræðum og opnaði í gær nýja einkasýningu í D-sal Hafnarhússins sem hún kallar Fantagóðir minjagripir.
Anna Hrund Másdóttir á bæði verk á sýningunni Normið er framúrstefna í Gerðarsafni og á einkasýningu sinni, Fantagóðir minjagripir, í Hafnarhúsinu.
– Anna Hrund, finnur þú þér efnivið og innblástur alls staðar í daglega lífinu?
„Já, eiginlega má segja það. Aðallega safna ég hlutum úr mínu nærumhverfi til að nýta í listsköpunina. Ég vel yfirleitt hlutina út frá lit, það eru semsagt litirnir sem draga mið að hlutunum. Ég get fundið þetta hvar sem, það getur verið í búðum, byggingarvöruverslunum eða út í náttúrunni. Litir vekja stundum viðbrögð hjá mér og þá verð ég að nota það sem ég finn.“
– Getur þú nefnt dæmi?
„Núna er ég voða mikið að pæla í svömpum og hvernig þeim er raðað saman eins og maður sér þá út í búð. Það er rosa fallegt hvernig litirnir eru. Eins er ég líka að safna límbandsteipum, sem auðvitað eru til í ýmsum litum og bý til súlur eða turna úr þeim og í mínum huga eru svona hlutir yfirleitt bara tilbúin verk.“
– Heiti sýningarinnar þinnar í Hafnarhúsinu vekur athygli, Fantagóðir minjagripir.
„Mér finnst rökrétt að kalla þessa hluti sem ég bý til minjagripi. Þeir ferðast með mér og þetta eru persónulegar tengingar við ferðalög, raunveruleg eða ímynduð. Þetta eru því minjagripir um mínar minningar.“
– Þú ert semsagt á því að maður geti látið hversdagsleikann bara teyma sig þegar kemur að myndlistinni?
Lögin sem keppa í undankeppni Eurovision verða kynnt í sérstökum þætti í Sjónvarpinu í kvöld. Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir stjórnar þættinum en þar verða flytjendur kynntir og brot úr lögunum spiluð. Mikil leynd hefur hvílt yfir þeim sem komust í gegnum síu dómnefndar en samkvæmt heimildum Fréttatímans á Svala Björgvinsdóttir eitt laganna og flytur hún það sjálf.
Þá mun leiklistarneminn Júlí Heiðar Halldórsson sömuleiðis spreyta sig í keppninni en hann gerði garðinn frægan með laginu Blautt dansgólf fyrir nokkrum árum. Mikil athygli mun svo vera á lagi Þórunnar Ernu Clausen. Flytjandi lagsins er stjúpsonur hennar, Aron Brink, sonur Sjonna Brink sem féll frá fyrir aldur fram fyrir nokkrum árum.
27. janúar til 10. febrúar í Reykjavík, Háskólabíói 28. janúar – 3. febrúar á Akureyri
Á hátíðinni verða 11 áhugaverðar og fjölbreyttar kvikmyndir sýndar á 14 dögum. Hver um sig hefur vakið mikla athygli á kvikmyndahátíðum. Umtöluðust er líklega opnunarmyndin Elle eftir Paul Verhoevens. Leikstjórinn á að baki myndir eins og Basic Instict, RoboCop og Total Recall, en spreytir sig í þessari atrennu á afar umdeildum sálfræðitrylli.
Myndinni er ýmist hrósað upp í skýin eða slátrað af gagnrýnendum en flestar umsagnir stóru kvikmyndamiðlanna eru þó sammála um að myndin sé þess virði að sjá. Elle var sýnd á Cannes í fyrra og er framlag Frakklands til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin.
Hún segir frá afar ógnvænlegri árás sem aðalpersónan verður fyrir á heimili sínu af grímuklæddum manni. Eftir því sem sögunni vindur fram er óljóst hversu mikið fórnarlamb konan í raun er. Myndin dansar við eldfimt málefni og hefur framkallað heiftarleg viðbrögð af öllum toga. Óhætt er að segja að í myndinni sé erfitt að greina svart frá hvítu og rétt frá röngu heldur fer hún með áhorfandann á miklu óþægilegri slóðir.
Aðalleikkona myndarinnar, Isabelle Huppert, er tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir frammistöðu sína í myndinni.
Á frönsku kvikmyndahátíðinni eru flestar myndirnar með enskum texta, nema teiknimyndin Huldudrengurinn sem er með íslenskum texta. Nánar um hátíðina á smarabio.is/fff
Elle er opnunarmynd frönsku kvikmyndahátíðarinnar en hún er ýmist elskuð eða hötuð af gagnrýnendum.
Þýskir kvikmyndadagar í Bíó Paradís 10. til 19. febrúar 2017
Í sjöunda sinn standa Bíó Paradís og Goethe Institut í Danmörku fyrir Þýskum kvikmyndadögum í samstarfi við Þýska sendiráðið. Að þessu sinni verða á boðstólum sex nýjar myndir sem eru þverskurður af því besta sem þýsk kvikmyndalist hefur upp á að bjóða. Þjóðverjar framleiða flestar kvikmyndir af öllum Evrópuþjóðum en afar fáar þeirra rata í íslensk kvikmyndahús. Þessi sannkallaða kvikmyndaveisla hefst með hinni margumtöluðu Toni Erdmann í leikstjórn Maren Ade.
RUGLAÐASTA MYNDIN
TONI ERDMANN
Áður en þessi mynd verður mærð er rétt að taka fram að hún tæpir þrír klukkutímar að lengd, á þýsku og ensku og gerist í Rúmeníu. Það er kannski mikið á áhorfandann lagt en útkoman er drepfyndin og hárbeitt mynd sem sækir á mann lengi.
Gagnrýnendur halda ekki vatni yfir þessari óvenjulegu sögu sem sýnir allt aðrar persónur og viðfangsefni en venjulega eru dregin upp á hvíta tjaldið. Myndin er frábrugðin öllu sem ratað hefur í íslensk kvikmyndahús í háa herrans tíð. Hún er raunar svo geggjuð að gagnrýnendur hafa lýst henni sem „game changer“.
Sagan er dramatískt grín og fjallar um föður sem leitast við að tengjast dóttur sinni, en hún er framakona í viðskiptum. Faðirinn fer óvenjulegar leiðir til að höfða til dótturinnar og grípur til þess ráðs að elta hana uppi í Rúmeníu þar sem hún starfar. Þar laumast hann inn í hversdagslíf hennar í tíma og ótíma og brýtur allar óskrifaðar reglur í samskiptum. Hann ruglar í öllum sem á vegi hans verða og á köflum er ruglið svo súrrealískt að ómögulegt er að skilja um hvað myndin fjallar. Hinar absúrd uppákomur sem faðirinn setur af stað, fara svo að öðlast merkingu þegar þær ögra tómhyggjunni og tilfinningadoðanum sem einkenna viðskiptaheim dótturinnar.
Leikstjórinn Maren Ade er ein skærasta stjarnan í evrópskri kvikmyndagerð eftir þessa mynd og aðalleikararnir, þau Sandra Hüller og Peter Simonischek, eru ógleymanleg í hlutverkum sínum. Myndin er tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta erlenda kvikmyndin.
Ef þig langar að sjá mynd sem ruglar í hausnum á þér, veldu þessa!
Frumsýnd í Bíó Paradís 10. febrúar
EKKI MISSA AF ÞESSUM
MOONLIGHT
Ekki að ástæðulausu er þessi kvikmynd talin ein sú besta á árinu 2016. Myndin er uppvaxtarsaga Chirons, svarts samkynhneigðs stráks sem elst upp á Flórída í Bandaríkjunum. Myndin er einstaklega hjartnæm saga af grimmd og hlýju, einelti og vináttu. Hér er framúrskarandi leikur og dúndurgott handrit sem skilar áhrifamikilli mynd sem gengur upp að öllu leyti.
Moonlight ristir djúpt og á brýnt erindi við bandarískan samtíma. Hún er tilnefnd til átta Óskarsverðlauna.
Sýnd í Bíó Paradís um þessar mundir.
LION
Lion fjallar um hinn fimm ára gamla Saroo sem týnist í lest á leið í burtu frá heimili sínu. Myndin byggir á sönnum atburðum sem Saroo lýsti sjálfur í bókinni The Long Way Home sem vakti mikla athygli í Ástralíu og á Indlandi.
Saroo tekst að lifa af margar hremmingar, heimilislaus á götunni, áður en hann fær pláss á munaðarleysingjahæli, sem er þó ekki öruggasti staðurinn til að vera á. Að lokum er hann ættleiddur af áströlsku pari sem taka á móti honum með ást og umhyggju. Hann bælir niður minningar sínar úr fortíðinni og vonina um að finna móður sína og bróður á ný, af ótta við að særa nýju foreldra sína. En þegar hann hittir nokkra Indverja fyrir tilviljun vaknar þráin á ný. Fáar æskuminningar sitja eftir í huga hans en með hjálp Google Earth leggur hann af stað í leitina að nálinni í heystakkinum. Myndin er tilnefnd til sjö Óskarsverðlauna.
Sýnd í Bíó Paradís um þessar mundir.
HJARTASTEINN
Hjartasteinn er örlagarík þroskasaga sem gerist í litlu sjávarþorpi á Íslandi. Myndin fjallar um sterka vináttu tveggja drengja sem eru að taka sín fyrstu skref inn í unglingsárin og uppgötva ástina.
Myndin hefur verið ausin lofi og flogið inn á stærstu kvikmyndahátíðir heims.
Hjartasteinn er fyrsta kvikmynd Guðmundar Arnars Guðmundssonar og hefur sópað til sín verðlaunum.
Tónskáldið Ríkharður Friðriksson gleðst í hvert sinn sem Myrkir músík dagar hefjast í Hörpu, en á hátíðinni er lögð áhersla á fjölbreytta samtímatónlist. „Jú jú, það má alveg segja að ég kætist. Á hátíðinni opnast eiginlega mín deild í tónlistinni. Alveg frá því að ég var í pönkhljómsveitum í gamla dag og gafst upp á því hefur raftónlistin verið málið. Ég spilaði í hljómsveitum í nokkur ár og fékk síðan alveg upp í kok, leiddist rokkið alveg svakalega. Ég grínaðist með að ég hafi gengið í klaustur þegar ég fór að læra tónsmíðar, fór sem sagt alveg á bólakaf á hina hliðina.“
Ríkharður rifjar upp þegar hann sá hljóðgervil (synthesizer) í fyrsta sinn. „Það hefur verið árið 1980 þegar einn vinur minn keypti sér svona græju. Ég hafði auðvitað heyrt í þessum tækjum á plötum en þetta var í fyrsta sinn sem ég fékk sjálfur að fikta í tökkunum. Það var strax alveg svakalega gaman. Síðan þá hafa takkarnir fengið að vera með í minni tónlist svo langt sem það hefur náð. Ég var samt uppi á svolítið erfiðum tíma því að hliðræna tækinin (analog) var búin að ganga sína leið og ekki mikil framtíð í henni, en tölvurnar voru ekki komnar inn í þetta af neinu viti. Þetta var því dálítið snúið og ég fór í meira hljóðfæratónlistarnám en ég hefði viljað því að ég hélt í einlægni minni að ég myndi aldrei hafa efni á því tölvuafli sem ég þyrfti til að gera tónlist. Það hefur aldeilis breyst. Á þessum tíma voru kannski tvær nægilega öflugar tölvur á Íslandi í þessi verkefni og Háskóli Íslands átti aðra en Reiknistofa bankanna hina,“ segir Ríkharður.
Síðan þá hefur orðið algjör bylting í notkun tövutækni við tónlistarsköpun, á öllum sviðum. Ríkharður hlær þegar hann er spurður að því hvort allt sé mögulegt í þessum heimi í dag. „Ég veit það ekki, en ég held það sé kannski meiri þröskuldur að láta sér detta það í hug, heldur en endilega að geta framkvæmt það tæknilega. Tölvurnar geta gert voða mikið voða hratt, svo er bara spurning hvað okkur dettur í hug að gera.“
Ríkharður Friðriksson hefur lengi verið í framvarðarsveit raftónlistarmanna hér á landi. Myndir: Hari.
Raftónlistarsenan á Íslandi hefur vaxið og dafnað á síðustu árum og Ríkharður á sinn þátt í því, hefur kennt fjölmörgum tónlistarmönnum réttu handtökin. „Þetta hefur þróast að miklu leyti utan við „klassíska“ tónlistargeirann, sem er líklega bara fínt. Mér finnst samt kannski almennt að of margir í því boxi séu með tónlistarlega víðsýni, en þá vanti tæknibakrunninn. Í raftónlistinni eru hins vegar margir sem hafa einbeitt sér svo svakalega að tækninni að þeir kunna kannski ekkert of mikið í músík.“
Í kvöld kl. 20, á tónleikum í Hörpu rætist gamall draumur hjá Ríkharði. „Ég verð þarna með tónlist fyrir margvíða hátalarahvelfingu. Fólk kannast kannski við „surroundhljóm“ með fimm hátölurum. Ég verð með 29 hátalara í hring og fyrir ofan þá sem hlusta. Þannig að hljóðið fer fram og til baka í rýminu. Svona margvíða hátalarahvelfingu heyrði ég fyrst í Belfast árið 2008 og hef gengið með svona verk í maganum síðan. Framkvæmdin á þessu hefði verið gjörsamlega ómöguleg hér á Íslandi fyrir Hörpu og það er því um að gera að nota möguleikana sem opnast.“
Allar upplýsingar um Myrka músíkdaga er að finna á vefnum myrkir.is.
Á skissu virkar dálítið eins og Ingvar Björn ætli að láta Hallgrímskirkju loga á fimmtudagskvöld í næstu viku. „Ég segi það ekki, en þetta verður ansi áhrifaríkt ljósa- og hljóðverk sem við ætlum að setja þarna upp,“ segir Ingvar en hann vinnur hljóðið í verkið ásamt Magnúsi Leifssyni.
Ingvar Björn gerði útgáfu af Geysi í miðri Berlín.
„Ég gerði Geysi á popup-listahátíð í Berlín síðasta sumar. Hann skaust upp úr ánni Spree og vakti mikla athygli. Það er gaman að geta haldið áfram að gera stór og tæknilega flókin verk um íslenska náttúru. Við Hallgrímskirkju munum við varpa eldgosi á kirkjuna upp eftir henni allri. Maður fær þarna 74,5 metra háan striga sem passar auðvitað vel við myndefnið þar sem kirkjan fær form sín frá stuðlabergi, þannig að það er eiginlega ekki hægt að finna betri stað. Ísland og náttúruöflin eru auðvitað kveikjan og þetta verður eiginlega íslensk náttúra á íslenskri náttúru.“
Ingvar Björn vill færa náttúruupplifun inn í borgina. „Fyrir mér er þetta sköpun lands. Það komast auðvitað ekki allir alltaf til að upplifa eldgos, hvort sem það er í Holuhrauni eða í Eyjafjallajökli. Myndefnið er samsett úr nokkrum eldgosum og ætti því að vera ansi áhrifaríkt upp eftir allri kirkju.“
Vetrarhátíð verður sett við kirkjuna fimmtudaginn 2. febrúar kl. 19.30.
Ingvar Björn ætlar að skella eldgosi framan á Hallgrímskirkju. Skissa af nýja verkinu.
„Ég sá verkin hennar Jóhönnu á samsýningu í Þjóðminjasafninu fyrir nokkrum árum og hugsaði strax með mér; Hver er þessi kona? Ég verð að setja upp sýningu með verkunum hennar,“ segir Sigríður Kristín Birnudóttir sýningarstjóri yfirlitssýningar á verkum Jóhönnu Ólafsdóttur í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Jóhanna er ein af fáum kvenljósmyndurum sem hefur starfað allan sinn feril við ljósmyndun. Hún var aðalljósmyndari Þjóðleikhússins frá 1971 til 1987 en þá hóf hún störf sem ljósmyndari Árnastofnunar og hefur verið þar síðan.
Líkt og sýningarstjórinn bendir á þá hafa ljósmyndir Jóhönnu ekki fengið mikla athygli yfir árin. Hún hefur þó tekið þátt í nokkrum samsýningum og aldrei hætt að mynda sitt nánasta umhverfi þótt dagvinnan hafi tekið mestallan hennar tíma. Á sýningunni gefur að líta brot úr nokkrum myndaseríum sem allar eiga það sameiginlegt að fjalla um fólk. Um mannlífið í allri sinni fjölbreytni og oftar en ekki fólk í hversdagslegum aðstæðum sem virka stundum framandi og óvenjulegar í nálgun Jóhönnu, eins og í seríunni Allaballar í lautarferð eða Menn við pósthólf. Saman mynda ljósmyndirnar heild sem minnir meira á innsetningu í hálfsúrrealísku umhverfi en hversdagslegar athafnir. Sjálf segir Jóhanna áhuga sinn á óvenjulegum aðstæðum venjulegs fólks sennilega koma úr leikhúsinu, hún eigi það til að sjá fólk eins og leikara á sviði hversdagsins.
Auk þess að rölta um og skoða mannlífið á veggjum safnsins er hægt að tylla sér niður í lokuðu herbergi og horfa á ljósmyndir Jóhönnu úr leikhúsinu renna yfir skjáinn. Sýningin opnar í dag og stendur þar til í maí.
Kona í Austurstræti 1970 Á þessum tíma notaði allskonar fólk strætó og nánast allir vagnar fóru í gegnum miðbæinn svo þangað lá alltaf straumur fólks.
Uppboð í tollinum 1985 Það var mikið um að vera í skúrnum við tollhúsið í Borgartúni þar sem múgur og margmenni komu saman í leit að hverskyns óvæntum gersemum úr tollinum.
Bókaverslun Ísafoldar um 1969 Þessa mynd tók Jóhanna í gegnum gluggann á bókabúðinni, á leið sinni heim seint um sumarkvöld.
Maður við pósthólf 1986 Jóhanna hefur alltaf haft gaman af því að taka myndir af venjulegu fólki í óvenjulegum aðstæðum. Hún myndaði reglulega pósthólfaherbergið í kjallaranum í Pósthúsinu í Austurstræti þangað sem fyrst og fremst jakkafataklæddir karlar sóttu póstinn sinn hvern einasta morgun.
Strákar sparka í marhnút, stelpa bjargar vespu. Vegalausir unglingar í hvorir í sinni heimsálfunni, hvorir í sinni bíómyndinni, mögulega hvorir á sinni öldinni. Strákar á bryggju fyrir austan, stelpa á móteli í suðurríkjunum.
Myndirnar tvær eru Hjartasteinn og American Honey, tvær splunkunýjar myndir um unglingsástir og greddu í íslensku krummaskuði og bandarískum smábæjum og vegamótelum. Þær segja okkur heilmikið um þá kvöl og gleði sem fylgir því að vera ungur – en bara önnur þeirra segir okkur eitthvað að ráði um samfélagið sem hún sprettur úr.
Þór og Kristján Bestu vinirnir sumarið sem kynuslinn fer að gera vart við sig.
Hjartasteinn fjallar um sex unglinga, já eða börn, þau eru einhvers staðar á mörkum berskunnar og fyrstu unglingsárana. Þau eru ýmist gröð eða ráðvillt eða hvort tveggja, ganga sjálfala um smáþorpið á meðan foreldrarnir eru að mestu fjarlægir. Strákarnir gefa stelpunum auga en um leið hvor öðrum, kynuslinn vofir yfir án þess að neinn viti beinlínis hvað eigi að gera. Eða öllu heldur, strákarnir tveir sem eru í aðalhlutverki hafa ekki hugmynd um það. Allt frumkvæði í þessum málum er tekið af stelpunum – strákarnir gera bara það sem þeim er sagt að gera, sem er skemmtileg tilbreyting frá helstu klisjunum.
Við vitum ekki alveg hvaða öld er, hér er enginn með farsíma, þótt kallinn í sjoppunni hafi uppgötvað klám á internetinu. Tónlistin gefur tíunda áratuginn í skyn, þegar Emilíana var ung og Sykurmolarnir við það að hætta. En stundum bregður myndin sér í tímaflakk, Nasty Boy með Trabant er til dæmis groddaskapur frá næstu öld sem aðalpersónan er ekki alveg tilbúin fyrir en táknar þá framtíð sem eldri systur hans þrá. Þær eru bestíur myndarinnar – þrælskemmtilegar og kvikindislegar, en meðferðin á litla bróðurnum nálgast það alveg á köflum að vera kynferðislegt áreiti.
Jake (Shia LeBeouf) dansar á búðarborði í Kmart.
Nafnlausir smábæir
En svo það sé alveg á hreinu, þetta er fantafín bíómynd. Helsti styrkleikinn er annars vegar frábær kvikmyndataka Sturlu Brandth Grøvlen, sem hlýtur bara að vera farinn að fá margmilljónatilboð frá Hollywood (og það segi ég samt ekki út af þessari mynd eða Hrútum, jafnfallegar og þær eru, heldur út af hinni þýsku Victoriu sem er eitt mesta kvikmyndatökuafrek síðari ára), og svo einstaklega náttúrulegur leikur krakkanna sex. Strákarnir tveir eru í forgrunni en stelpurnar fá engu að síður nóg að gera – sem er því miður ekki alltaf tilfellið. Þær renna þó óþarflega mikið saman í byrjun, allar með svipaða hárgreiðslu og fatasmekk. Strákarnir tveir, Þór og Kristján, eru hins vegar gjörólíkir – annar samanrekinn dökkhærður naggur og hinn slánalegur ljóshærður krullhaus. Aðalpersónan Þór er einmitt töluvert minni en allir hinir krakkarnir. Við fáum aldrei að vita hvort hann sé yngri en þau eða bara seinþroska – en hann vinnur það upp með meiri innbyrgðri reiði en öll hin til samans.
Leikstjórinn Guðmundur Arnar Guðmundsson vakti fyrst verulega athygli fyrir stuttmyndina Hvalfjörð.
En. Já, hér kemur þetta en. Þrátt fyrir allt líður myndin fyrir hvað hún er lík alltof mörgum nýlegum íslenskum bíómyndum. París norðursins, Hrútar, Þrestir, Hross í oss og Málmhaus – allt myndir sem gerast í sveit eða þorpi, þorpum sem iðulega eru nafnlaus – við vitum mögulega tökustaðinn úr viðtölum (Hjartasteinn er tekinn á Borgarfirði eystri og samkvæmt viðtali við leikstjórann þá er innblásturinn sóttur í æskuár á Þórshöfn) en þessir staðir fá aldrei að leika sjálfa sig, þessar myndir gerast í hinu eilífa Hvergilandi, krummaskuðinu Íslandi sem við sluppum flest frá, ef ekki í eigin bernsku þá með hjálp foreldra eða afa og ömmu. Það mætti kalla þetta myndir fyrir útlendinga en þær eru ekkert síður fyrir okkar eigin nostalgíu eftir gamla Íslandi, Íslandi sem okkur annað hvort rámar í eða höfum heyrt sögur af. Eins speglar þetta örlög Íslands í Hollywood, þar sem landið leikur oftast fjarlægar plánetur en nær aldrei sjálft sig.
Ef það koma margar svona myndir í viðbót þá verða lundamyndir sjálfstæð kvikmyndagrein. Til að gæta allrar sanngirni er rétt að taka fram að það hafa sannarlega verið framleiddar einstöku Reykjavíkur-myndir síðustu ár, en af Fúsa undanskildum þá hafa þær fæstar verið að slá í gegn erlendis. Kannski þýðir það að þetta sé það Ísland sem útlendingar vilja sjá – eða það Ísland sem dregur að sér okkar bestu leikstjóra. Að hluta til er ástæðan örugglega peningar – íslenskar myndir hafa sjaldnast mikil fjárráð og það er ódýrara að leggja heila sveit undir bíómynd en heila borg.
En staðleysan er farin að verða þreytandi. Það mætti að minnsta kosti fara að gefa þessum stöðum nöfn, fara að leyfa þeim að vera þeir sjálfir. Neskaupstaður fær væntanlega að vera hann sjálfur í væntanlegri heimildamynd Gríms Hákonarsonar, Litla Moskva, um þá tíma þegar plássið var gósenland íslensks kommúnisma – og er ágætis dæmi um alla þá vannýttu sögu sem býr í þessum smáplássum. Staðleysunni fylgir nefnilega líka söguleysi – og þú þarft oft ekki að stoppa lengi í íslenskum smáplássum til þess að átta þig á að þau eru stútfull af sögu.
Norski tökumaðurinn Sturlu Brandth Grøvlen skaut líka Hrúta og Victoriu, meistaralega gert Berlínar-ævintýri sem tekið var í einni töku.
Þá eru sögur af tilfinningalega bækluðum karlmönnum líka orðnar dálítið þreyttar – og mögulega líka ansi ýktar líka. Þetta virkar að vísu í Hjartasteini, þar sem óöruggir unglingar eru í aðalhlutverkum, en það er dálítið eins og íslenskir leikstjórar forðist alvöru samtöl. Einstaka menn eru kannski orðheppnir – en löng samtöl eru sjaldséð. Það er eins og það megi ekki segja meira en þrjár setningar í einu úti á landi.
Þessi tilfinningalega bæklun virðist þó vera á undanhaldi ef marka má besta atriðið í Hjartasteini, þegar aðalpersónan Þór er orðinn nostalgískur fyrir aldur fram eftir sakleysi æskunnar og horfir upp á yngri strák veiða marhnút – og í staðinn fyrir að sparka í hann eins og þeir höfðu gert sumarið áður þá sleppir hann honum lausum.
Ástin í stórmarkaðnum
„We found love in a hopeless place,“ glymur í hátölurunum. Við fundum ástina á vonlausum stað. Ekki á Borgarfirði eystri samt, heldur í Oklahoma. Í Kmart stórmarkaði. Þar kemur Star fyrst auga á Jake og örlögin virðast ráðin. Hún hefði samt máski betur leitt hugann að slæmum smekk söngkonunnar Rihönnu á karlmönnum í gegnum árin – en Star virkar samt á mann eins og stelpa sem á eftir að spjara sig, þrátt fyrir misráðin ástarævintýri.
American Honey er vegamynd bresku leikstýrunnar Andreu Arnold, sem hefur fram að þessu gert bíómyndir um breska krakka í fátæktargildrum, bæði á þessari öld (Fish Tank) og á nítjándu öld (Wuthering Heights). Hún er auðsjáanlega heilluð af nýja heiminum, því þótt myndin fjalli um þá sem eru í ræsinu þá er myndavél Robbie Ryan alltaf með augun á stjörnunum – bæði aðalleikkonunni og stjörnum himinsins.
Gredda unglingsáranna og gullfallegt landslag einkennir þannig báðar myndir. En á meðan íslensku unglingarnir virðast rótföst í sínum litla smábæ þá eru þau amerísku fullkomlega rótlaus. Þetta er vegamynd um unglinga, öllu eldri en þá í Hjartasteini – þessir unglingar eru á menntaskólaaldri eða jafnvel háskólaaldri – en munu fæstir nokkurn tímann stíga fæti inní slíkar menntastofnanir og minnast ekki á slíkt nema sem hluta af lygasögunum sem þau segja til að öðlast samúð góðborgaranna. Góðborgarana sem þau reyna að selja tímaritaáskriftir.
Jafn ólíklegt og það konsept kann að hljóma nú á dögum, þegar flestar fréttir herma að tímarit berjist í bökkunum, þá er raunverulega mikið um svona hópa í Bandaríkjunum. Þeir kallast Mag Crews og það er vonlaust að uppræta þá, enda ber enginn raunverulega ábyrgð á þeim. Tímaritaútgáfurnar útvista áskriftarsölunni – og svo virðist henni, í sumum tilfellum, vera útvistað út í hið óendanlega þangað til hún er komin í hendurnar á villingum eins og við sjáum í American Honey.
Krakkarnir selja tímaritaáskriftir til bandarískra heimilda og mynda saman á vissan hátt fjölskylduna sem þau aldrei áttu.
Hvar er draumurinn?
Hér er þó rétt að vara áhugamenn um stöðu tímarita í vesturheimi við; það er ekki kafað djúpt í tímaritamarkaðinn þar ytra – af því þau eru ekki raunverulega að selja tímarit; þau eru að selja sig sjálf. Selja einhverja sorgarsögu, sanna eða logna, um að þau séu að safna fyrir betri framtíð, fyrir skólavist, hverju sem er – af því þau vita að það er engin að fara að kaupa tímaritin sjálf.
Þau eru að selja drauminn, ameríska drauminn. En hvað dreymir þau sjálf? Þegar Star spyr Jake hvað hann dreymi um gleymir hann örskotsstund að vera dólgurinn sem hann oftast er og svarar: „Enginn hefur nokkurn tímann spurt mig að því áður.“ Draumar þeirra reynast þó fátæklegir; að eignast hús. Eignir. Mögulega börn. Þau þrá einfaldlega öryggið sem þau hafa aldrei átt, öryggið sem flestir viðskiptavinir þeirra ganga að sem vísu; draumar um háskólanám eða draumavinnuna eru alltof fjarlægir til þess að dreyma þá, það eru draumar sem þau hafa ekki efni á.
Þetta er Ameríka þar sem er ekkert eftir til þess að selja – en það skiptir ekki máli, því sölumennskan er orðinn öllum svo eðlislæg að það halda allir áfram að selja þetta ekkert. Þetta er götustrákagengi Fagins uppfært fyrir 21. öldina – og Fagin orðinn að Krystal, ógnvekjandi ljósku sem er leikin af Riley Keough, barnabarni sjálfs Elvis Presley.
Arnold er ljóðskáld fátæktrar æsku – það hvernig grasið og skordýrin og himininn öðlast líf á meðan brennandi olíuborpallar verða fallegir minnir á myndir Terence Malick á síðustu öld, áður en hann týndi sér í tilgerðinni. Og Arnold galdrar fram sjaldséðan frumkraft í leikhópnum, þar sem engin er betri en Sasha Lane sem Star, stjarnan sem við getum ekki tekið augun af. Leikstýran fann þau flest á flakki sínu um Bandaríkin, þau eru mörg að leika í sinni fyrstu mynd, öll reynslulítil – nema einn.
Shia LeBeouf leikur Jake – og er stóri akkílesarhæll myndarinnar. Þetta er algengt í amerískum indí-myndum að þar sé ein stjarna til að borga reikningana – og það kemur oft ágætlega út, en þótt LeBeouf sé í sjálfu sér ekkert slæmur hérna þá stingur hann óþægilega í stúf, Hollywood-stjarna innan um tifandi smástirni. Þau eru hrekklaus og ekta, hann er útspekúleraður – en nær samt að leika skíthæl ágætlega. Það er sjarmann sem skortir, það er ekki nema fyrir magnaðan leik Lane að við trúum því að Star geti verið skotin í þessum lúða.
En mögulega er þetta hluti af boðskap myndarinnar, hann er misheppnuð Hollywood-stjarna – en kannski er það einmitt það sem gerir hann samt eftirsóknarverðan – það eina sem hann hefur fram yfir hina er frægðin og framin og allir peningarnir og þess vegna fær hann stelpuna.
Leikstýran Andrea Arnold fann aðalleikkonuna Sasha Lane í vorfríi í Flórída. Áður en hún fann Söshu Lane þá uppgötvaði Arnolds Katie Jarvis, aðalleikkonu Fish Tank, þar sem hún var að rífast við kærastann á brautarpalli.
Guð hvíslar söngvum nýrrar aldar
Þá hefði mátt gefa mörgum aukapersónunum meiri tíma, því þótt myndin sé tæpir þrír tímar a’ð lengd fer sá tími aðallega í aðalpersónurnar. Þetta er litríkur hópur, nördastelpan Pagan með óslökkvandi áhuga á Svarthöfða og brimbrettagaurinn Kris sem á erfitt með að halda typpinu í buxunum þar á meðal. Þau halda samt hópinn ekki bara af því þau þurfa þess, heldur líka vegna þess að þau eru fósturfjölskylda hvers annars. Hálf misheppnuð fjölskylda oft og á köflum ofbeldisfull og óheiðarleg, en þó margfallt skárri og samheldnari en fjölskyldurnar sem þau eru að flýja.
Leikararnir völdu sjálfir músíkina í myndina, þannig að þetta er líklega með fyrstu bíómyndunum með tónlist 21. aldar æskulýðs. Aðrar unglingamyndir aldarinnar eru venjulega með tónlist sem valin er af músíköntum sem ólust upp við Bítlana eða Nirvana, þar sem þeir reyna að giska á hvað krakkarnir séu nú að hlusta á nú til dags. Krakkarnir leyfa Springsteen samt að fljóta með, hann er eilífur á þjóðvegum Ameríku og reynir að fá þau til að dreyma, er föðurlega röddin sem kyrjar „dream, baby, dream.“ Titillagið fjallar svo um stúlku á vegarkantinum; „She grew up on a side of the road / Where the church bells ring and strong love grows.“ En þótt þau séu í miðju Biblíubeltinu yfirgaf almættið þau fyrir löngu. Eða hvað? Guð hvíslar nefnilega ennþá ef maður hlustar vel. Eftirminnilegasta tónlistaratriði myndarinnar er undir laginu „God‘s Whisper,“ undurfurðulegt lag þar sem bakraddakórinn klappar og syngur eins og í leiðslu á meðan Raury, tvítugur blökkustrákur frá Atlanta, rappar um að hann muni ekki sætta sig við málamiðlanir, hann muni ekki eyða ævinni á hnjánum – og kyrjar svo örlitla orðsendingu til Ameríku; „You think I am nothing / I am nothing / You’ve got something coming.“
Þetta er ekki flókinn kveðskapur – en samhengið og ryþminn ljær honum dýpri merkingu, þetta er blökkustrákur úr biblíubeltinu, svæðinu sem kaus Trump – hann er að tala fyrir allar týndu kynslóðirnar í Ameríku sem er að týna sjálfri sér, þessa týndu kynslóð sem Arnold fann í vegarkantinum.
Hið persónulega verður þannig pólitískt nokkuð áreynslulaust, án þess að nokkur minnist á það – en það er vídd sem virðist nær alfarið skorta í íslenskar myndir þessi misserin. Þær fjalla flestar um mennskuna í hvergilandi, sem er ágætt út af fyrir sig, mennskan þarf stundum frið frá niði tímans og pólitískrar síbylju. En þetta er orðið dálítið langt frí. Það er ekki beint við neina eina mynd að sakast, en ef bíó-Ísland er sérheimur þá varð hér aldrei neitt hrun og við lifum í aðalatriðum ennþá á Íslandi ársins 1996. Tilraunir til þess að koma samtímanum að hafa svo mestmegnis mistekist og verið jaðarsettar, Rokland er mögulega eina skáldaða hrunmyndin sem eitthvað kveður af, Boðberi var vanmetin og forvitnileg tilraun sem týndist í nýaldarbulli og saga bankaguttans Sölva var veikasti hlekkur Vonarstrætis. En mögulega þurfa íslenskir leikstjórar bara að leyfa sér að orða hlutina og fara að semja örlítið lengri samtöl. Við erum ekki öll svona tilfinningalega bækluð lengur og ættum alveg að geta farið að ræða þetta samfélag á hvíta tjaldinu.
Kalda stríðið átti sér ýmsar hliðar og ein þeirra var menningarleg og snerist um listir og frelsi til tjáningar í þeim. Eftir síðari heimsstyrjöld fóru stórveldin tvö, Sovétríkin og Bandaríkin, að beita sér af auknum þunga í menningarlífi hinna ýmsu landa, bæði með tengslamyndun, menningarsamskiptum, félögum og stofnunum og fjárframlögum. Fræðimenn hafa kallað þetta „kalda menningarstríðið“ (e. Cultural Cold War) en það náði hámarki sínu í Evrópu um miðjan sjötta áratug 20. aldar.
„Kalda menningarstríðið“ var líka háð á Íslandi og þegar horft er til stærðar landsins sætir furðu hversu mikið kapp var lagt á kvikmyndasýningar, tónleikahald, heimsóknir rithöfunda og menningarsamstarf af ýmsum toga. Í nýlegri grein skrifar Haukur Ingvarsson um íslensk menningarfélög á hægri væng stjórnmálanna sem vildu stemma stigu við áhrifum kommúnista í íslensku menningarlífi. Þáttur bandarísku leyniþjónustunnar CIA í starfsemi þeirra kemur á óvart.
Í Sovétríkjunum má halda því fram, með nokkrum einföldunum þó, að lögð hafi verið áhersla á sósíalrealíska fagurfræði í bókmenntum og listum. Viðbragð Bandaríkjanna fólst í því að greiða götu módernisma. Slík list var talin vitna um frelsi listamanna í Bandaríkjunum og á Vesturlöndum í samanburði við listir austan járntjaldsins.
Bandarísk stjórnvöld kostuðu miklu til í „kalda menningarstríðinu“ bæði opinberlega en margt gerðist líka bak við tjöldin. Þannig fjármögnuðu þau með leynd alþjóðleg menningarsamtök sem hétu Congress for Cultural Freedom (CCF) sem stofnuð voru árið 1950. Sextán árum síðar var sýnt fram á það í grein í New York Times að bandaríska leyniþjónustan CIA stýrði höfuðstöðvum CCF í París en samtökin störfuðu í um 35 löndum þegar mest var.
Þing CCF í Þýskalandi árið 1950 var mjög fjölmennt.
Íslenska hliðin
Haukur Ingvarsson, bókmenntafræðingur og rithöfundur, vinnur nú að doktorsritgerð um bandríska rithöfundinn William Faulkner í íslensku samhengi. Faulkner kom hingað til lands á vegum bandarískra stjórnvalda árið 1955 og rannsóknir á heimsókninni hafa leitt Hauk inn í heim „kalda menningarstríðsins“. Í nýjasta hefti tímaritsins Sögu skrifar hann forvitnilega grein um tengsl Almenna bókafélagsins og íslensks félags sem hét Frjáls menning en það var ein af undirdeildum CCF.
„Hér á Íslandi bárust fréttir af stofnþingi samtakanna sem fór fram í Berlín þegar árið 1950,“ segir Haukur. „Það var stefna CCF og einnig leyniþjónustu Bandaríkjanna að ná til vinstri sinnaðra menntamanna í löndum Evrópu sem voru ýmist gengnir af trúnni á Sovétríkin eða voru ekki kommúnistar. Í fyrstu voru samtökin fyrst og fremst andkommúnísk en smám saman jókst áherslan á menningu í starfi þeirra.
Haukur Ingvarsson er búinn að sökkva sér niður í menningarlíf sjötta áratugarins hér á landi. Það var ekki laust undan áhrifum stórveldanna í austri og vestri, Sovétríkjanna og Bandaríkjanna. Í grein sinni í nýjasta hefti Sögu skoðar Haukur menningarfélög á hægri væng stjórnmálanna og tengsl þeirra við bandarísku samtökin CCF sem haldið var úti af bandarísku leyniþjónustunni CIA til að beita sér í „köldu menningarstríði“ við Sovétríkin.
Á Íslandi gekk Bandaríkjamönnum erfiðlega að finna bandamenn í menningarlífinu langt fram á sjötta áratuginn enda voru margir helstu listamenn þjóðarinnar vinstrisinnaðir og hallir undir Sóvétríkin. Í upphafi sjötta áratugarins voru einstaklingar og hópar sem stóðu að útgáfu andkommúnískra bókmennta. Ég hef haft sérstakan áhuga á frumkvöðlastarfi Eyjólfs Konráðs Jónssonar á þessu sviði. Hann stofnaði fyrst bókaútgáfuna Stuðlaberg og síðar átti hann frumkvæðið að því að hægri menn sameinuðust í breiðfylkingu og stofnuðu Almenna bókafélagið (AB). Eyjólfur var fyrsti framkvæmdastjóri AB, síðar ritstjóri Morgunblaðsins og loks alþingismaður.“
Frumkvöðlar á Íslandi
Í grein sinni rekur Haukur samskipti íslenskra einstaklinga og félaga við CCF. Samskiptin fóru að stórum hluta til í gegnum Danmörku og danskan starfsmann samtakanna á aðalskrifstofu þeirra í París, Jørgen Schleimann að nafni. Schleimann heimsótti Ísland sem blaðamaður árið 1956 til að fylgjast með alþingiskosningum hér á landi, en ferðina notaði hann líka til að kortleggja íslenskt menningarlíf. Næstu misserin kom hann á margháttuðum tengslum við ýmsa íslenska menningarfrömuði, menn á borð við Gunnar Gunnarsson og Kristján Albertsson, svo einhverjir séu nefndir.
Gunnar Gunnarsson var einn af forystumönnum við stofnun AB en í félaginu blönduðust saman þjóðernislegar áherslur og barátta gegn áhrifum vinstrimanna í menningarlífinu á þessum árum. Fram til þessa hefur hins vegar lítill gaumur verið gefinn að því hvernig hugmyndafræði AB kemur heim og saman við önnur áþekk félög sem störfuðu víðs vegar um Evrópu. Gunnar lýsti áhyggjum sínum af áhrifum vinstrimanna í menningarlífinu í ræðu og riti á þessum árum, en tengsl hins danska Schleimann og forsvarsmanna Almenna bókafélagsins urðu grundvöllur fyrir stofnun félagsins Frjáls menning vorið 1957, sem varð Íslandsdeild í CCF.
Áhrif á menningarlífið
Frjáls menning var stofnuð „til verndar og eflingar frjálsri hugsun og frjálsri menningarstarfsemi“ eins og það var orðað og félagið skuldbatt meðlimi sína til „jákvæðrar baráttu gegn hverskonar einræðishyggju, ríkisofbeldi og skoðanakúgun“.
Sextán einstaklingar mynduðu stjórn félagsins. Gunnar Gunnarsson var heiðursforseti félagsins en Tómas Guðmundsson skáld formaður. „Gunnar Gunnarsson var mjög harður í sinni and-kommúnísku afstöðu, bæði á vettvangi Almenna bókafélagsins og Frjálsrar menningar,“ segir Haukur. „Af ævisögum um Gunnar hefur mátt merkja að hann var öflugur í félagsmálum á þessum tíma en hvað Frjálsa menningu varðar voru Gunnar og Eyjólfur Konráð algjörir lykilmenn. Gunnar taldi það líka eflaust mikilvægt fyrir sig sem rithöfund að tengjast CCF, enda voru samkomur þeirra í Evrópu fundarstaðir margra af helstu hugsuðum álfunnar.“
Fljótlega eftir stofnun Frjálsrar menningar fóru erlendir gestir að heimsækja Ísland til að halda erindi. Sjaldnast höfðu Íslendingar mikið um það að segja hverjir erlendu gestirnir voru enda gestakomurnar skipulagðar af CCF. Samtökin greiddu einnig undir íslenska félagsmenn Frjálsrar menningar á ráðstefnur og fundi erlendis og lögðu félaginu til efni sem síðan var birt í íslenskum tímaritum eins og Stefni og Félagsbréfi AB.
Myndlistarmaðurinn Jackson Pollock var einn þeirra sem leyniþjónustan CIA hafði milligöngu um að kynna. Slettumálverk hans voru álitin eins konar yfirlýsing um frelsi listamannsins og hampað sem slíkum. Mynd: Getty.
Módernismi tákn frelsis
Mörgum kann að þykja það sérkennilegt að sjálf leyniþjónusta Bandaríkjanna hafi lagt sig fram við að fylgja eftir straumum í listum og menningarlífi á sínum tíma og lyfta undir með ákveðnum stefnum frekar en öðrum. Haukur segir að á síðustu árum hafi fengist gleggri mynd af þessum menningaráhuga CIA.
„Ef horft er til Íslands á þessum tíma er ljóst að vinstrimenn eru í lykilaðstöðu í íslensku menningarlífi. Þeir eru jafnframt undir fagurfræðilegum áhrifum úr austri, sem mætti kalla boð um raunsæja list. Í ljós kemur að Bandaríkjamenn skortir mótleik í þessu menningarstríði og vegna þess að stjórnvöld austanmegin hafa horn í síðu módernismans þá taka Bandaríkjamenn upp á því að hampa einstökum þáttum úr honum, til dæmis abstraktlist og atómljóðum. Þannig eru stjórnvöld vestan hafs að segja: „Sjáiði hvað við erum frjáls, okkur er bara alveg sama um hvað listamennirnir okkar eru að gera.“ Þetta verður líka að skoðast í því ljósi að Bandaríkin verða heimkynni margra framsækinna listamanna um og eftir seinni heimsstyrjöld þegar þeir flýja kúgun og ofríki í Evrópu. Bandaríkjamenn fara því að gefa sig út fyrir að vera gæslumenn og verndarenglar Evrópu og evrópskrar menningar.“
Þessi áhersla á frelsið sem fólst í módernismanum náði líka til Íslands. Haukur nefnir dæmi um grein Matthíasar Johannessen í tímaritinu Stefni árið 1954, en ungir Sjálfstæðismenn stóðu að útgáfu þess. „Þar skrifar Matthías að módernismi og abstraklist séu svarið við fagurfræði Sovétríkjanna. Í þessum skrifum má greina áhrif frá erlendum tímaritum sem CCF gaf út á þessum tíma. Í framhaldinu breytist tímaritið Stefnir, sem Matthías tekur við ritstjórn á ásamt fleirum, yfir í menningartímarit. Þetta eru greinileg áhrif frá CCF samtökunum.“
Á Landsbókasafni Íslands er meðal annars að finna fjölmörg bréf milli Gunnars Gunnarssonar rithöfundar og fleiri íslenskra menningarfrömuða og starfsmanna samtaka CCF.
Bitbeinið Ísland
Haukur segir liggja ljóst fyrir, meðal annars eftir rannsóknir sagnfræðinga í þeim efnum, að Bandaríkjamenn og Sovétmenn tefldu sína stórveldaskák á íslenskum menningarvettvangi á þessum tíma. „Þegar ég byrjaði að skoða þessa hluti óraði mig ekki fyrir að menn eins og Gunnar Gunnarsson og Eyjólfur Konráð hefðu verið að skrifast á við starfsmenn bandarísku leyniþjónustunnar. Hvað þá að leyniþjónustan hefði haft nokkurn áhuga á því sem hér fór fram á menningarsviðinu. Áhugi minn beinist fyrst og fremst að því hvernig ákveðnar hugmyndir í listum og þá fyrst og fremst bókmenntum berast hingað til lands. Almenna bókafélagið og Frjáls menning eru félög sem að vinna í alþjóðlegu samhengi þessa tíma og taka mið af stefnum og straumum í þessu kalda menningarstríði. Það þarf að huga betur að þætti íslenskra hægrimanna og samstarfsaðila þeirra í íslenskri menningarsögu. Kannski áttu þessir aðilar stóran þátt í því að festa módernismann í sessi hér á landi. Þetta er spennandi og krefst frekari rannsókna.“
St. Martin’s Press kaupir fyrstu tvær bækurnar í nýrri seríu Ragnars um lögreglukonuna Huldu, Dimmu og Drunga, en einnig tvær bækur hans um lögreglumanninn Ara Þór, Myrknætti og Rof. Áður hafði forlagið tryggt sér Náttblindu en hún var einmitt valin besta þýdda glæpasagan í Bretlandi á liðnu ári.
Aðalritstjóri St. Martin’s Press, Marcia Markland, segir: „Við erum himinlifandi með að kynna þennan stórkostlega glæpasagnahöfund fyrir bandarískum lesendum. Hann er ótrúlega hæfileikaríkur.“
Snjóblindu Ragnars hefur verið hælt víðsvegar um Bandaríkin að undanförnu. Washington Post sagði að hún væri meðal bestu spennu- og glæpasagna sem kæmu út þar í landi í janúar. New York Post sagði á dögunum að Snjóblinda væri ein af fimm bókum sem lesendur blaðsins yrðu að verða sér úti um þá vikuna. Gagnrýnandi Chicago Tribune skrifaði að þessi myrka saga væri í hæsta gæðaflokki. Stærsta dagblað Virginíu-fylkis, Richmond Times Dispatches, sagði á dögunum að Snjóblinda væri sígild glæpasaga með lifandi aðalpersónu og heillandi sögusviði sem vekti með manni innilokunarkennd. „Snjóblinda glitrar eins og sólargeisli á snjó, hrollköld og sýnir glögglega aukin norræn áhrif á glæpasöguna.“
Star Tribune í Minnesota sagði að ef menn vildu losna úr hinum kalda, snjóþunga og dimma vetri væri upplagt að lesa þessa heillandi glæpasögu sem gerðist í enn meiri kulda, snjó og myrkri. Þá sagði Dallas News að Snjóblinda væri fínasta glæpasaga þar sem öll púslin falla saman í lokin.
Framleiðendur Óskarsverðlaunamyndarinnar um Amy Winehouse hafa tryggt sér réttinn á Siglufjarðarseríu Ragnars.
Vera Illugadóttir hefur komið þessum fræðandi útvarpsþætti á kortið. Þættirnir fara í loftið á föstudagsmorgnum, en þá er einnig hægt að finna á vefsíðu Ríkisútvarpsins. Vera tínir hér upp þætti úr sögunni sem eru í brennidepli og rekur söguna aftur á bak á lifandi máta.
The Guilty Feminist
Hér er að finna samræður hinnar sprenghlægilegu Deborah Frances-White og hinna ýmsu gesta hennar er þau ræða um efni sem „allir 21. aldar femínistar eru sammála um.“ Létt og einlægt hlaðvarp fyrir nútímafólk.
My Dad Wrote a Porno
Nafnið segir sig kannski sjálft. Pabbi Jamie Morton ákvað einn daginn að skrifa erótíska ástarsögu. Í þessu létta og skemmtilega hlaðvarpi fjallar Morton um ákvörðun föður síns og les upp úr sögunni fyrir vini og hlustendur. Þægilegt að hlusta á fyrir svefninn, en bara fyrir fullorðna.
Englaryk
Við minnum aftur á hið íslenska Englaryk með þeim Hönnu og Dröfn. Dröfn er búsett í Kaliforníu og Hanna á Íslandi. Þar ræða þær stöllur helsta slúðrið í Hollywood-heiminum í bland við daglegt líf. Létt og skemmtilegt fyrir þá sem hafa áhuga á dægurlífinu.
Egill Sæbjörnsson er hress í bragði á mildum rigningarmorgni í Reykjavík. Hann er með barðastóran hatt og yfir sterkum kaffibolla í miðborginni segist hann spenntur fyrir vorinu og þátttökunni á myndlistarhátíðinni í Feneyjum. „Já, ég hef það bara gott. Þetta leggst vel í mig og ég hef bara sjaldan verið betri,“ segir hann og hlær. Það eru fimm mánuðir til stefnu fram að opnun í Feneyjum og í nógu er að snúast.
Það var í fyrrasumar sem tilkynnt var að Egill færi með list sína til Feneyja og yrði fulltrúi Íslands þar í borg. „Þetta er auðvitað búinn að vera mjög spennandi tími síðan þá. Maður sveiflast dálítið fram og tilbaka í þessu og á tímabili missti ég til dæmis alveg sambandið við tröllin. Svo kom það bara aftur.“
Ugh og Boogar eru svipsterk tröll. Hægt verður að fylgjast með undirbúningi þeirra og ævintýrum í Feneyjum á Instagram undir heitinu icelandicpavilion. Mynd: Egill Sæbjörnsson
Já, hér er rétt að spyrja nánar – hvað tröll eru þetta eiginlega sem Egill talar um? „Jú, sko, þetta eru tveir vinir mínir. Tröll sem ég kynntist fyrir mörgum árum, ætli það hafi ekki verið svona 2008. Svo fyrir stuttu þá vildu þeir líka fara að gera svona listadót og verða listamenn. Þeir urðu forvitnir um hvað það væri að gera svona sýningar og á tímabili stefndi í að þeir gerðu sýningu í i8, galleríinu mínu hérna í Reykjavík. Þeir voru byrjaðir að vinna þá sýningu og ég var að hjálpa þeim með það. Úr því varð samt ekkert en þegar þeir fréttu að ég væri að fara til Feneyja þá urðu þeir rosalega spenntir. Þetta endaði sem sagt með því að ég ákvað bara að senda þá og þeir verða þannig séð fulltrúar íslensku þjóðarinnar í Feneyjum í vor.“
En hvernig kynnist maður tröllum? „Kannski dálítið eins og rithöfundur kynnist söguhetjum sínum,“ segir Egill og kímir. „Rithöfundur getur þannig skrifað um einhverja miðaldra konu í Kópavogi og þá verður hún bara til, pússlast saman úr alls konar brotum. Þannig urðu tröllin líka til. Þau byrjuðu eignlega með verstu klisju í heimi sem eru norsku tröllin, þessi ljótu með stóru nefin, sem fóru að vekja athygli mína fyrir bráðum tíu árum. Þessi tröll fóru svo mikið í taugarnar á mér og mér fannst þetta það ljótasta sem til var, en samt fór ég að hafa áhuga á þessum heimi tröllanna og ætlaði að vinna eitthvað með þessi „túristatröll.“ Svo bara urðu þeir til: Ugh og Boogar. Núna koma þeir til mín og segja mér hvernig nýja verkið fyrir Feneyjar á að vera.“
Leikrit
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem kynjaverur skjóta upp kolli í myndlist Egils. Alls kyns furðulegir karakterar hafa til dæmis sungið hástöfum í nokkrum myndbandsverka hans í gegnum tíðina. Tónlistin á mikið í Agli og svo verður einnig nú. Verkið í Feneyjum verður innsetning en ýmislegt fleira hangir á spýtunni. „Það verður alls konar í kringum þetta. Við gefum út bók, svo geri ég plötu sem kemur út í tengslum við sýninguna og ásamt Eygló Lárusdóttur er ég líka að gera fatalínu.“
Sýningin í Feneyjum verður sett upp í gömlu íshúsi í borginni, sem er á eyju stutt frá miðborginni, þangað er um fimm mínútna sigling. Þar verður kaffihús á meðan á sýningu Egils og tröllanna tveggja stendur. „Ég er hæst ánægður með rýmið fyrir sýninguna,“ segir Egill. „Það er dálítið gróft, þarna er sjö metra lofthæð og ég hlakka til að koma sýningunni fyrir. Við undirbúninginn er ég búinn að fara þrisvar til Feneyja, það er auðvelt að skjótast þangað frá Berlín þar sem ég bý og þetta er allt að taka á sig betri mynd.“
Að vera sannur
En hvernig er það að fá þetta verkefni, að eiga að bjóða fram myndlist í Feneyjum sem fulltrúi Íslands? Agli Sæbjörnssyni finnst það ekkert sérstaklega flókið.
„Ef ég væri að senda einhvern svona listamann til útlanda til þess að koma fram fyrir mig, þá myndi ég vilja að hann væri eins og hann er. Ég myndi ekki vilja að hann breytti sér eða setti sig í einhverjar sérstakar stellingar eða tæki sér eitthvert ákveðið efni fyrir hendur. Þannig að ég kem bara til dyranna eins og ég er klæddur. Samt gerir maður sér grein fyrir því að þetta er sérstakt verkefni vegna þessarar tengingar við þjóðina. Þetta er líka góð kynning fyrir mig að vera með verk þarna í Feneyjum, þangað sem allur listheimurinn kemur.“
Síðasta framlag Íslands á tvíæringinn í Feneyjum 2015 var meira en lítið umdeilt. Mosku Christophs Büchel í borginni var lokað eftir aðeins nokkra daga og almenningi ekki hleypt inn að sjá umbreytingu listamannsins á gamalli afhelgaðri kirkju yfir í bænahús múhameðstrúarmanna. „Moskan var að mínu áliti mjög gott verk,“ segir Egill. „Og það mun áfram vera talið sterkt listaverk og pólitískur gjörningur. Þátttaka í Feneyjum getur skipt listamenn miklu máli, það sér maður til dæmis á því hvernig Ragnar Kjartansson spilaði úr tækifærinu sem hann fékk þarna úti árið 2009 með verkinu The End,“ segir Egill sem samt vill ekki hugsa of langt fram í tíman hvað þetta varðar.
Ekki allir í listaheiminum?
Frá því skömmu fyrir aldamót hefur Egill unnið í alþjóðlegum myndlistarheimi, en einn af brennipunktum þess heims er vitanlega í Berlín þaðan sem hann gerir út. Þessi heimur er lokað mengi sem teygir sig samt yfir lönd og höf, tengsl skipta miklu máli og fyrir marga, sem utan standa, virkar heimur samtímalistarinnar nokkuð óskiljanlegur.
Egill Sæbjörnsson er með hugann við Feneyjar þessa dagana. Vinna við þátttöku Íslands á hátíðinni hefur staðið síðan í fyrrasumar en verkefnið er óðum að taka á sig mynd í huga Egils og samstarfsmanna hans Ugh og Boogar. Myndir: Hari. „Ef ég væri að senda einhvern svona listamann til útlanda til þess að koma fram fyrir mig, þá myndi ég vilja að hann væri eins og hann er,“ segir Egill Sæbjörnsson. Mynd: Hari.
“Ég þekki náttúrlega ekki neitt annað,“ segir Egill þegar hann er spurður út í þennan heim. „Ég man til dæmis vel eftir því fyrir svona tíu árum þegar ég var að hjóla á opnun á einhverri sýningu í Berlín. Í kringum mig á götunni var auðvitað fullt af fólki að gera sína venjulegu hluti og allt í einu fannst mér að allt þetta fólk væri að verða of seint. Það hlyti að vera á leiðinni á sömu opnun og ég. Ég hugsaði í alvöru: „Af hverju eru ekki allir að flýta sér á opnunina?“ sem var auðvitað fáránleg hugsun í svona stórri borg. Mér fannst eins og allir væru myndlistarmenn og gat ekki skilið að það væru ekki allir í þessu. Þetta lýsti því ágætlega hvað maður er rosalega gegnsýrður af þessu umhverfi. Ég þekki eiginlega bara myndlistarmenn í Berlín og borgin er full af þannig fólki. Myndlistarheimurinn er dálítið eins og stækkuð útgáfa af einhverjum menntaskóla þar sem maður kemst í einhverja klíku, eða ekki, án þess að ég velti því of mikið fyrir mér.“
Svona sjá Ugh og Boogar samstarfsmann sinn Egil Sæbjörnsson sem þeir kynntust 2008.
Húmorinn nauðsyn
Verkið sem þeir Ugh og Boogar eru að vinna að fyrir Feneyjar mun heita Out of Controll in Venice og það er ekki laust við að Egill hafi smá áhyggjur af framvindu verksins þegar hann er spurður að því við hverju megi búast af tröllunum Ugh og Boogar.
„Þeir ætla að bjóða upp á eitthvað sem þeir kalla upp á ensku „social interactive work,“ segir Egill. „Þetta verður semsagt einhvers konar félagslegt og gagnvirkt listaverk. Það hefur valdið mér smá áhyggjum því að ég gæti trúað að í huga trölla þýði það einfaldlega bara að borða fólk. Þeir Ugh og Boogar læra hratt, eru til dæmis búnir að ná tökum á því að drekka kaffi á kaffihúsum eins og alvöru listamenn, en þetta eru samt auðvitað tröll sem bjuggu í helli á hálendinu áður en við kynntumst. Þar hafa þeir látið ýmislegt hverfa í gegnum árin, til dæmis óþekk börn og villuráfandi ferðamenn. Þeir hafa hæfileika til að breyta sér í hvað sem er, jafnvel í stórar sprungur eða stórar öldur við strendur landsins, og þannig hefur ýmislegt horfið. Nú er svo komið að þeir eru farnir að taka vinnustofuna mína yfir og eru til alls líklegir.“
Það er oft stutt í húmor í verkum Egils Sæbjörnssonar. „Húmorinn kom eiginlega inn í mína myndlist af illri nauðsyn. Þegar maður var að alast upp í þessu myndlistarumhverfi hér heima á tíunda áratugnum þá var þetta oft bara svo ógeðslega leiðinlegt. Konseptið og minímalsminn voru málið en svo voru þetta líka fordómar í manni, því að auðvitað leyndist húmorinn í verkum margra listamanna inn á milli ef vel var að gáð. Maður bara upplifði þetta svona og mér fannst enginn vera að taka alvöru áhættu, því að þetta var allt svo „vitrænt“ og í höfðinu á listamanninum. Þetta var dálítið eins og að vera í einhverjum potti sem sauð í, en lokið var kyrfilega fast á honum.
Svo þegar maður varð fyrir góðum verkum þar sem húmor var notaður skemmtilega þá upplifði maður hann eiginlega sem mjög róttækan. Mig hefur síðan langað að nota húmorinn í verkum mínum en hann er samt þannig að fólk annað hvort brosir eða finnst verkið alveg glatað. Þannig er húmor og maður tekur bara sénsinn,“ segir Egill Sæbjörnsson.
Myndlistartvíæringurinn í Feneyjum verður opnaður almenningi 13. maí næstkomandi og stendur til 26. nóvember.
Tvíæringurinn í Feneyjum:
Fyrsti myndlistartvíæringurinn í Feneyjum var haldinn árið 1895, en síðar hefur hátíðin verið víkkuð út til fleiri listgreina. Á listsýningarnar kemur í hvert sinn ríflega hálf miljón gesta en fyrirkomulagið skiptist í tvennt. Annars vegar eru þjóðir heims með svokallaða þjóðarskála sem bæði dreifast um borgina og eru líka til staðar á aðalsýningarsvæðinu. Margir þeirra voru sérstaklega byggðir fyrir sýningar viðkomandi þjóðar. Hins vegar er aðalsýningu hátíðarinnar á hverjum tíma stýrt af sýningarstjóra sem velur á sýningu sína myndlist úr ýmsum heimshornum eftir ákveðnu þema eða hugmyndafræði. Að þessu sinni mun franski sýningarstjórinn Christine Macel stýra sýningunni.
Ísland hefur tekið þátt í myndlistartvíæringnum frá árinu 1960 en þá tóku Ásmundur Sveinsson og Kjarval þátt. Frá aldamótum hafa þessir listamenn tekið þátt:
Zootopia Teiknimyndin kom út í fyrra og féll svo sannarlega í kramið hjá bæði börnum og fullorðnum. Þetta er klárlega teiknimynd sem gaman er að horfa á með afkvæminu eða litla frænda. Myndin gerist í útópíu þar sem dýrin búa í sátt og samlyndi. Þar kynnast áhorfendur kanínunni Judy Hopps sem þráir að verða lögregla. Góður boðskapur og mikill húmor.
Rick og Morty
Þetta eru kannski ekki þættir sem þú horfir á með litla frænda en virkilega góð skemmtun fyrir fullorðið fólk með dökkan húmor. Þessir óviðeigandi þættir fjalla um hinn sí-ropandi vísindamann Rick og barnabarnið hans Morty sem ferðast milli ólíkra heima og lenda í ævintýrum. Sérstökum aðdáendum er einnig bent á pubquiz þeim félögum til heiðurs á Húrra þann 15 mars.
Hvolpasveitin
Skiptar skoðanir eru um hina margrómuðu Hvolpasveit. En það geta allir verið sammála um að notalega samverustund má fá að morgni með þessum fjörugu hvolpum og ungum aðdáendum þeirra.
Howl’s Moving Castle
Falleg og hugljúf mynd úr smiðju Hayao Miyazaki um unga konu sem festist í líkama gamallar kerlingar. Þar koma fyrir fljúgandi kastalar og galdranornir í ævintýralegum heimi. Þú getur líka tekið maraþon og bætt við My neighbor Toroto, Ponyo, Spirited Away og grátið yfir Grave of the Fireflies.
The Wanted 18
Teiknimyndin er palestínskt – kanadískt samstarf og var sýnd hér á landi við góðar viðtökur á RIFF kvikmyndahátíðinni. Myndin er byggð á sönnum atburðum og því einungis teiknuð að hluta ásamt því að notaðar eru brúður og viðtöl. Myndin fjallar um Palestínumenn á áttunda áratugnum sem verða sér úti um 18 kýr og vandræði þeirra með búskapinn vegna hernámsins. Súr, fyndin og raunsæ.
„Foreldar okkar beggja eru með puttana í öllu sem við gerum en þau fá bara bjórmiðana okkar í staðinn fyrir allt skutlið,“ segja hinar 15 ára Guðlaug Fríða Helgadóttir Folkmann og Ragnheiður María Benediktsdóttir sem skipa hljómsveitina RuGl. Þær stöllur urðu að eigin sögn bestu vinkonur eftir að hafa kynnst í 7. bekk. „Við höfðum báðar verið að spila og semja tónlist. Þegar Fríða flutti til Íslands urðum við strax óaðskiljanlegar og áttum saman í gegnum tónlistina,“ segir Ragnheiður um upphaf vináttu þeirrar Fríðu, eins og Guðlaug Fríða er gjarnan kölluð. Hljómsveitin RuGl var þó ekki stofnuð fyrr en stelpurnar voru í 9. bekk, þegar þær kepptu í söngvakeppni Hagaskóla og síðar í Músíktilraunum. „Fríðu langaði að taka þátt og spurði hvort ég vildi gera þetta með henni. Við lentum í öðru sæti og ákváðum að taka þátt í Músíktilraunum. Við vorum langyngstar vorum ekkert að búast við neinu en við komumst áfram.“
Nafnið varð til í heimilisfræðitíma
Nafn hljómsveitarinnar, RuGl, varð til í í leiðinlegum heimilisfræðitíma í Vesturbæjarskóla. „Nafnið var þá frekar í tengslum við vináttuna þar sem við fórum að rugla saman stöfum. Ef við tókum fyrsta stafinn í mínu nafni og annan í Fríðu, G úr mínu nafni og fjórða úr Fríðu þá kom upp RuGl,“ segir Ragnheiður. „Það var samt ekki fyrr en nóttina sem að við sóttum um Músík tilraunir sem að við ákváðum að festa þetta vináttunafn við hljómsveitina okkar.“ Að sögn Fríðu snýst vinátta þeirra nú að miklu leyti um hljómsveitina. „Vináttan verður eiginlega meira vinnuverkefni af því að við erum „buisness partners.“ Nú tölum við ekki um mikið annað en hljómsveitina.“
Mynd/Hari
Semja um Skam
Ragnheiður og Fríða segjast ekkert endilega vera að skilgreina tónlistina sem þær semja. „Okkur finnst tónlistin mótast eftir tilfinningu og veðri. Hún er til dæmis mun glaðværari yfir sumarið heldur en á veturna.“ Hljómsveitin RuGl semur texta sína gjarnan á ensku en hefur gert eitt lag á dönsku, en Fríða er hálf-dönsk og Ragnheiður elskar að eigin sögn dönsku. „Við vildum ekki vera gagnrýndar fyrir að semja bara á ensku. Bubbi var til dæmis geðveikt pirraður út í okkur á Airwaves fyrir að semja alltaf bara á ensku,“ segja stelpurnar og skella upp úr. „Öll lög sem ég hlusta á eru á ensku, ég kann eiginlega ekki að semja á íslensku,“ útskýrir Fríða. Lagið sem RuGl hefur samið á dönsku fjallar um norska sjónvarpsþáttinn Skam, en stúlkurnar eru að eigin sögn miklir aðdáendur. „Versin fjalla um persónurnar í þáttunum en viðlagið er um Osló.“
Spila á Airwaves í annað sinn
Fríða og Ragnheiður útskrifast úr Hagaskóla í vor og Fríða ætlar að halda í svokallaðan „efterskole“’ í Danmörku. Ragnheiður hefur hinsvegar ekki enn ákveðið hvaða stefnu hún tekur. Hljómsveitin RuGl mun samt sem áður stíga á stokk á tónlistarhátíðinni Airwaves í haust. „Það er búið að kaupa miðann handa mér og ég kem þremur dögum fyrir hátíðina,“ segir Fríða. Hljómsveitin er í augnablikinu að vinna að svokallaðri IP-plötu sem er væntanleg á næstu mánuðum. „Við erum að klára upptökur í lok febrúar en vitum ekki hvað tekur langan tíma að mixa og svona, foreldrar okkar eru að sjá um allt aukalega og við spilum bara.
Helstu bakhjarlar eru foreldrarnir
Að sögn stúlknanna eru foreldrar þeirra í rauninni umboðsmenn, rótarar, bakraddir, ritarar og allt þar á milli. „Foreldrar okkar verða að vera í góðum samskiptum og þau hittast alltaf á Kaffi Vest og ræða málin. Stundum komum við með en þegar það eru fundir um peningamálin þá megum við ekki koma.“ Það getur verið flókið að vera 15 ára tónlistarmaður en þeim stöllum hefur til dæmis verið meinaður aðgangur að skemmtistaðnum Húrra þegar þær áttu að spila. Málið leystist þó um leið og þær útskýrðu mál sitt. „Við megum vera áfram á öðrum tónleikum eftir að við spilum ef foreldrar okkar eru þar og vinir okkar hafa stundum fengið að koma og hlusta á boðsmiðum þrátt fyrir að hafa ekki aldur til þess.“
„Ég kom fyrst til Íslands 2014,“ segir bandaríski ljósmyndarinn Cole Barash sem hefur tekið myndir í Grímsey í tveimur ferðum síðustu ár. „Ég kom hingað með það fyrir augum að taka myndir í nýtt verkefni sem ég vissi ekki hvert yrði og án þess að vita nokkuð við hverju ég ætti að búast af landinu. Eftir nokkra daga í Reykjavík, þar sem ég tók portrettmyndir af nokkrum tónlistarmönnum, listamönnum og fatahönnuðum, sá ég að ég þyrfti að fara út á land og sjá hið sanna Ísland. Nokkrir vinir mínir komu með og einn daginn þegar við vorum að skoða kort benti ég á kortið og spurði ég hvað þessi litli blettur þarna væri. Þá svaraði einhver að þetta væri Grímsey. Eftir að hafa flett eyjunni upp á netinu var ég fullviss um að þangað þyrfti ég að fara.“
Lífið í Grímsey hefur meðal annars snúist um fisk, eins og Cole Barash komst að. Nú eru blikur á lofti því að kvóti útgerðarinnar Borgarhöfða hefur verið seldur úr eyjunni og fimmtán störf fjúka því miður með. Mynd: Cole Barash.
Magnað samfélag
Cole tók ferjuna til Grímseyjar að vetri til og hann sér ekki eftir því í dag. „Ég var ekki með neina tengiliði í eyjunni, vissi ekkert við hverju ég ætti að búast. Þegar þangað var komið fékk ég inni í gistihúsi og dvaldi í eyjunni í tíu daga. Ég ráfaði um eyjuna og tók myndir, bæði af náttúrunni og þessu góða fólki sem þarna býr. Allir tóku mér afskaplega vel þegar ég bankaði upp á, útskýrði málið og bað um að fá að taka myndir af þeim. Þegar íbúarnir áttuðu sig á því að ég bar mikla virðingu fyrir eyjunni og þeim þá voru þeir alveg til í að sitja fyrir.“
Cole segist hafa látið kylfu ráða kasti þegar kom að því að velja myndefni. „Ég notaði aðeins filmuvél í þessu verkefni og gat því ekki alltaf verið að líta á skjáinn til að gá hvort myndirnar væru í lagi. Ef eitthvað greip augað þá tók ég einfaldlega mynd.“
„Þessar mægður á appelsínugulum trukki stöðvaði ég á ferð um eyjuna. Þær tóku vel í myndatökuna enda hafði ég verið þarna í nokkra daga og eyjaskeggjar höfðu auðvitað orðið varir við mann,“ segir Cole. Mynd: Cole Barash. „Þessar mægður á appelsínugulum trukki stöðvaði ég á ferð um eyjuna. Þær tóku vel í myndatökuna enda hafði ég verið þarna í nokkra daga og eyjaskeggjar höfðu auðvitað orðið varir við mann,“ segir Cole. Mynd: Cole Barash.
Útkoman kom út í ljósmyndabók sem gefin var út af bandaríska forlaginu Silas Finch árið 2015, skömmu eftir aðra ferð Cole út í Grímsey, sem hann fór þá um sumarið. Sumar og vetur voru vitanlega eins og dagur og nótt, en samt tók Cole aðallega myndir innandyra í sumarferðinni.
En hvernig leist þessum ljósmyndara, sem býr í stórborginni New York, á þetta agnarsmáa samfélag norður við heimskautsbaug? „Ég vildi bara að það væru til fleiri svona staðir í veröldinni. Ég var algjörlega heillaður af þessari einangrun og lífsbaráttunni sem maður sér þarna allt í kringum sig. Þarna fær maður djúpa tilfinningu fyrir mikilvægi góðs samfélags. Sjálfur er ég frá litlu bandarísku sjávarþorpi á Cape Cod skaganum í Massachusetts og því gat ég auðveldlega tengt við þessa ótrúlegu eyju. Þetta er eitt sterkasta og fallegasta samfélag sem ég hef kynnst í mínu lífi. Fólkið er opið og auðmjúkt og ég verð því ævinlega þakklátur.“
Sýningar Cole Barash og Christopher Taylor verða opnaðar í Þjóðminjasafni Íslands í dag.
„Eternal Sunshine of the Spotless Mind frá 2004 er hugvitsamleg og eftirminnileg stúdía um það sem gerist eftir að ástin súrnar, mynd sem fjallar um „allt hitt“. Allir geta orðið skotnir og ratað í fangið á einhverjum – en það gera færri myndir um hvað gerist svo í framhaldinu. Frábærlega leikin (Jim Carrey og Kate Winslet og allir hinir), dæmalaust handrit (Charlie Kaufman) og einstök leikstjórn (Michel Gondry). Mynd sem fær mann til að skríkja og tárast og trúa á þetta allt saman.“ Kristrún Heiða Hauksdóttir, verkefnastjóri hjá Forlaginu.
Einlæg og sönn ást kúreka
„Kvikmyndin Brokeback Mountain hafði áhrif sem ég tengdi við og þrátt fyrir að vera 2.5 tímar þá voru samúð mín og tár einlæg því ást samkynhneigðra kúreka var einlæg og sönn.“ Ellý Ármannsdóttir fjölmiðlakona.
Allt að springa úr ást
„Jack Nicholson er dýrðlegur sem rithöfundurinn Melvin Udall í As Good as it Gets, stútfullur af mannfyrirlitningu og áráttu- og þráhyggjuröskun, þar til hann fellur fyrir þjónustustúlkunni Helen Hunt, vingast við hommann Greg Kinnear og fellur svo fyrir hundinum hans líka. Venjulegt fólk með fullt af vandamálum en allt að springa úr ást í lok myndar.“ Ísleifur B. Þórhallsson, tónleikahaldari hjá Senu Live.
Sjarmerandi tímabil, áþreifanlegur neisti og saga
„Það eru svo ótalmargar myndir sem koma til greina en mitt lokaatkvæði fer til Happened One Night frá árinu 1934 með Clark Gable og Claudette Colbert. Þessi rómantíska gamanmynd hefur hreinlega allt sem þarf. Sjarmerandi tímabil, áþreifanlegur neisti og saga. Ólíkir og sterkir einstaklingar hittast og lenda í ýmsum óvæntum uppákomum og auðvitað taka örlögin völd. Myndin fékk fimm Óskarsverðlaun, sem besta mynd, besti leikstjóri, besti leikari í aðalhlutverki, besta leikkona og besta aðlögun handrits.“ Hrafnhildur Brynja Stefánsdóttir, kynningar- og markaðsstjóri í Bíó Paradís.
Öfgafullar tilfinningar í bland við hversdagslega erfiðleika
„Kannski er það hin mesta klisja að velja ástarsögu sem heitir einfaldlega ,„Ástarsaga“ en Love Story hafði gríðarleg áhrif á mig þegar ég sá hana í fyrsta sinn. Hún tekur á öfgafullum tilfinningum ástarinnar í bland við raunveruleika og erfiðleika daglegs lífs þar sem veikindi koma við sögu. Stórkostleg tónlist, frábærir leikarar og lokalína sem segir „Love means never having to say you’re sorry“. Óraunsæjar ástarsögur eru þó líka í miklu uppáhaldi, því hvað er ástin stundum annað en ímyndaðar væntingar og klisjur?“ Anna Gyða Sigurgísladóttir útvarpskona í Lestinni á Rás 1.
Svart hvítur rómans eins og þeir gerast bestir
„Síðan 1942, Casablanca, „…where every kiss may be the last!“ sagði trailerinn – það er ekki hægt að toppa svona bíófrasa! Svart hvítur rómans eins og þeir gerast bestir, þrunginn yfirþyrmandi ástríðum og ást sem á sér enga von túlkuð óaðfinnanlega af Ingrid Bergmann og svalasta leikara allra tíma Humphrey Bogart. Þetta er tímalaust meistaraverk og það er eins gott að draumaborgin reyni aldrei við endurgerð.“ Jón Gunnar Geirdal, eigandi Lemon.
Leitun að sætari ástarsögu
„Ég trúi því ekki að ég sé að fara svona með eigið orðspor og líður eins og ég eigi að nefna einhverja betri og merkilegri kvikmynd en The Notebook, en staðreyndin er bara sú að það er leitun að sætari ástarsögu. Ryan Gosling í smíðabuxum, Rachel McAdams með botnlausa spékoppa og ódæmigerður Hollywood endir. What´s not to like?“ Sigrún Ósk Kristjánsdóttir sjónvarpskona á Stöð 2.
Meistaraverk um bíóástina
„Það vill svo til að besta ástarsaga allra tíma í bíómynd er meistaraverk um bíóástina. Engin bíómynd dregur upp eins ljúfsára, ástríðufulla, eldheita, tilfinningaþrungna og einlæga mynd af ástinni og Cinema Paradiso. Og tónlist Morricones í myndinni eru hinir einu sönnu tónar ástarinnar. Svo einfalt er það.“ Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV.
„Er ekki bara eitthvað rotið í heiminum?“ spyr Þorleifur Örn Arnarson leikstjóri á línunni frá Þýskalandi þegar hann er inntur eftir því hvort það sé ekki enn „eitthvað rotið í Danaveldi.“ Uppsetning sígildra leikrita er mikil glíma, það þarf að taka afstöðu til verksins á nýjum tímum. „Að vera, eða ekki vera, þarna er efinn,“ veltir hinn raunamæddi Hamlet fyrir sér eins og frægt er. Hugleiðingin er einhvers konar táknmynd leikhússins á Vesturlöndum, eilíf spurning um tilgang, líf og dauða.
„Hamlet er auðvitað sá fyrsti sem setur fram þessa heimspekilegu tilvistarspurningu fyrir hinn vestræna mann,“ segir Þorleifur. „Hann spyr: „Má ég lifa, má ég deyja?“ Og núna allt í einu, á 21. öld, veltir maður fyrir sér hvort við séum kannski komin á endapunkt þessarar sjálfhverfu hugsunar. Er sjálfhverfan sem við sjáum út um allt kannski orðin grundvöllur þess að heimurinn er að brotna upp fyrir framan augun á okkur?“
„Hamlet er í pólitísku kerfi sem hann er ósáttur við og telur það hafa svikið sig. Hann snýr sér síðan að áhorfendum og talar beint til þeirra, framhjá verkinu og framhjá kerfinu. Hann nær áhorfendum á sitt band með því að höfða til tilfinninga þeirra. Er þetta ekki klárlega eitthvað sem við sjáum í fari Trumps? Og við erum sammála Hamlet af því að okkur finnst hann saklaus og þetta pólitíska kerfi sem hann er í vera ógeðslegt,“ segir Þorleifur Örn. Myndir: Vincenzo Laera.
Fljótlega fer spjall um ríflega fjögur hundruð ára gamalt leikrit að snúast um pólitík dagsins í dag. „Hamlet er auðvitað fastur í pólitísku ástandi. Frændi hans, valdaræninginn og morðinginn Kládíus, er auðvitað einhvers konar „prótótýpa“ fasísks leiðtoga. Hér í Þýskalandi er auðvelt að tala í leikhúsinu um stórar alþjóðlegar hugmyndir því hér átta menn sig vel á þróun og samhengi. Þjóðverjar eru að upplifa Trump og Brexit og vita vel hvaða áhrif stjórnmálamaður eins og Marine Le Pen getur haft í Frakklandi.
Fyrir mér er maður eins og Donald Trump holdgervingur fyrir okkar sjálfhverfu tíma, þegar huglæg og persónubundin sýn okkar á veröldina virðist vera að brengla og brjóta niður grundvallarhugtök eins og sannleika. Freud benti á að samfélagið væri það sem héldi aftur af dýrseðli mannsins og því ógeðfeldasta í fari hans. Og þegar maður er farinn að upplifa niðurbrot samfélagslegra gilda nánast í rauntíma, þá þýðir ekki að ætla að taka létt eða sakleysislega á þessu leikriti sem spilar svo stórt hlutverk í vestrænni menningu.“
„Hamlet á alltaf erindi,“ segir Þorleifur Örn Arnarson. Myndir: Vincenzo Laera.
Prinsinn Trump
Þorleifi þykir ljóst að þeir Trump og Hamlet beiti mjög áþekkum aðferðum. „Hamlet er í pólitísku kerfi sem hann er ósáttur við og telur það hafa svikið sig. Hann snýr sér síðan að áhorfendum og talar beint til þeirra, framhjá verkinu og framhjá kerfinu. Hann nær áhorfendum á sitt band með því að höfða til tilfinninga þeirra. Er þetta ekki klárlega eitthvað sem við sjáum í fari Trumps? Og við erum sammála Hamlet af því að okkur finnst hann saklaus og þetta pólitíska kerfi sem hann er í vera ógeðslegt.“
Þorleifur segir snúið að setja upp leikrit sem hefur fylgt honum síðan hann byrjaði að starfa í leikhúsinu. „Hamlet er verk sem ég hef hugsað meira um en nokkurt annað. Ég áttaði mig á því að ég var farinn að tala um Hamlet í öllum leikhópum sem ég hef unnið með á síðustu árum. Hamlet litaði alla hugsun og því var einfaldlega kominn tími á hann. Á einhverjum tímapunkti verður maður að takast á við hlutina til að losa þá út úr kerfinu.“
Á frumsýningardegi heldur Þorleifur varla vatni yfir verkinu. „Þetta er svo ofboðslega gott verk! Ég taldi mig þekkja það út og inn en samt tókst því að koma mér algjörlega á óvart þegar ég fór að vinna að sýningunni. Þá áttaði ég mig á því að flestar hugmyndir sem ég hef um verkið eru að verða 20 ára gamlar og ég fór að velta fyrir mér hvort ég væri ekki að burðast með fullt af öðrum hugsunum sem mætti uppfæra.“
Þorleifur Örn Arnarson leikstjóri í vinnu með leikurum við Ríkisleikhúsið í Hannover. Nýr Hamlet er frumsýndur þar í kvöld. Myndir: Vincenzo Laera.
Leikverk sem losnar upp
Í miðju vinnuferlinu í Ríkisleikhúsinu í Hannover gjörbreytti Þorleifur nálguninni á verkið. „Við byrjum verkið í eins konar neðanjarðarheimi, göngum sem ég áttaði mig síðan á að eru í raun innri heimur Hamlets. Sjálfhverfan gengur svo langt að Hamlet fer að breyta verkinu sér í hag og eyðileggur þar með verkið. Þetta endar með því að leikhúsið veit ekki lengur hvað Hamlet vill og lokar. Hamlet stendur eftir á sviðinu, hnakkrífst við sviðsmennina sem eru á fullu við að brjóta niður leikmyndina og neitar að bera ábyrgð á afleiðingum gjörða sinna.“
Framtíðin er óskrifað blað. Heimsmálin eldfim og við að kafna úr sjálfhverfu. Aukin meðvitund um mikilvægi samfélagsins hlýtur að vera eina svarið við því hvernig við höfum týnt okkur í sturlaðri sjálfhverfu. Í leikhúsinu erum við svo heppin að geta sýnt hvað gerist þegar við erum ekki lengur í samfélagi við aðra. „Að vera, eða ekki vera“ er kannski ekki lengur spurningin sem skiptir máli, en mér finnst erindi Hamlets til samtímans eiginlega bara óhuggulega mikið.“
„Hér reynum við að búa til umhverfi þar sem sviðslistafólk hefur frelsi til að skapa,“ segir Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Tjarnarbíós. „Húsið var opnað af Sjálfstæðu leikhúsunum árið 2010 og kannski má segja að þá hafi viðskiptamódelið að vissu leyti haft yfir sér blæ ársins 2007. Hugmyndin var að reyna að láta reksturinn bera sig með framlögum fyrirtækja og útleigu. Veruleikinn var hins vegar nokkuð annar, fyrirtæki drógu að sér hendur og fjármagn lá ekki á lausu. Á tímabili var útlitið ekki gott og Sjálfstæðu leikhúsin voru komin að því að skila inn lyklunum eftir að fjarað hafði undan rekstrinum.“
Það birti hins vegar til í rekstrinum árið 2014 þegar Sjálfstæðu leikhúsin skrifuðu undir þriggja ára samstarfssamning við Reykjavíkurborg um framlag til rekstursins. Samningurinn gerði það að verkum að hægt var að ráða inn lágmarks mannskap til að standa að rekstri hússins. „Þetta hús er auðvitað bara hús ef það er ekkert fólk á bak við starfsemina og með styrknum frá borginni var hægt að halda utan um starfið af meiri festu. Þetta gerði leikhúsreksturinn mögulegan og núna nýlega var þessi mikilvæga líflína borgarinnar framlengd til næstu þriggja ára. Fyrir það erum við mjög þakklát,“ segir Friðrik.
Tjarnarbíó hefur verið á ágætri siglingu í íslensku leikhúslífi að undanförnu og hafa margar sýningar þar á bæ vakið verðskuldaða athygli og jákvæð viðbrögð. „Það er okkur mikilvægt að halda áfram að standa okkur og við viljum að verkefnin sem hingað koma inn skipti máli,“ segir Friðrik sem hefur orðið var við ágætan meðbyr að undanförnu. „Það er ágætur gangur í þessu hjá okkur. Allar tölur sýna fram á þetta og ljóst að vöxturinn kom til með fasta framlaginu frá borginni árið 2014. Árið í ár er síðan það blómlegasta sem við höfum upplifað, bæði ef við horfum á tölurnar og dagskrárframboðið.“
Sjálfstæðu leikhúsin líta á Tjarnarbíó sem meginvettvang nýsköpunar í íslenskum sviðslistum og Friðrik segir skýrt að starfsemin eigi að hlúa að nýgróðri í þeim fjölbreyttu listum. „Það er alveg ljóst í okkar huga hvað við viljum gera. Við erum vettvangur fyrir sjálfstæða og metnaðarfulla atvinnuhópa í sviðslistum. Sviðslistafólki með fjölbreytta menntun fjölgar jafnt og þétt og þetta fólk verður að geta látið drauma sína rætast. Tjarnarbíó á að vera staðurinn til þess.“
„Okkar stefna eða markaðsstarf snýr ekkert að því að berjast við eða klekkja á stóru leikhúsunum tveimur, enda værum við bara Davíð á móti Golíat í öllum slíkum samanburði. Það er alveg ljóst í okkar huga hvað við viljum gera. Við erum vettvangur fyrir sjálfstæða og metnaðarfulla atvinnuhópa í sviðslistum. Sviðslistafólki með fjölbreytta menntun fjölgar jafnt og þétt og þetta fólk verður að geta látið drauma sína rætast,“ segir Friðrik Friðriksson.
Ekkert listrænt fikt
Einu sinni á ári er auglýst eftir hugmyndum að verkefnum í Tjarnarbíói og Friðrik segir rýni á hugmyndum fyrir næsta leikár standa fyrir dyrum á næstu dögum því að umsóknarfresturinn rann út um síðustu helgi.
„Það kemur þá í hlut framkvæmdastjóra og stjórnar menningarfélags Tjarnarbíós að fara yfir þessar umsóknir. Reglurnar um allt þetta eru sýnilegar á vefnum hjá okkur og við gefum einfaldlega einkunnir með verkefnum eftir ákveðnu kerfi. Þegar leikhóparnir eru síðan komnir hingað inn með verkefni sín komum við lítið að eiginlegum undirbúningi og þróun verkanna. Við fylgjumst með af hliðarlínunni og gefum fólki frjálsar hendur. Hvað listræn atriði varðar fiktum við ekkert í verkefnunum sem hingað koma. Við lítum inn í ferlið á ákveðnum tímapunktum, kannski eins og þrisvar eða fjórum sinnum, en hjálpum síðan til við markaðssetningu og kynningu á verkefnunum.“
Að eiga erindi
Tjarnarbíó er líflegt leikhús þó að uppfærslurnar séu yfirleitt ekki eins miklar um sig og verða vill í stóru leikhúsunum tveimur í Reykjavík, Þjóðleikhúsi og Borgarleikhúsi. Friðrik segir Tjarnarbíó ekki endilega sjá sig í beinni samkeppni við það sem þar fer fram, þó að vitanlega séu allir þeir sem bjóða fram dagskrá í menningarlífi landsins að keppa um sömu frístundirnar hjá gestum sínum.
„Það er auðvitað hjá okkur eins og annars staðar í menningarlífinu að kúnnahópurinn er einkum konur 35 ára og eldri,“ segir Friðrik. „Þær kaupa miðana í leikhúsin og stýra oftar en ekki „menningarneyslu“ heimilanna. Konur halda uppi menningarlífinu í landinu en hins vegar reynum við að höfða til breiðs hóps og ég tel við að við náum að gera það. Umfjöllunarefni sýninganna hér eru fjölbreytt og síðan erum við auðvitað með barnasýningar og inn á milli skjótum við inn uppistandi og hinu og þessu.“
Spurning um fjármagn
Sviðið í Tjarnarbíói er ekki stórt og það sníður vitanlega sýningunum þar á bæ ákveðinn stakk. „Fjármagn til sjálfstæðra leikhópa er takmarkað þannig að sýningar verða oft fámennari og umgjörðin að einhverju leyti minni. Þetta næst með því að fólk í þessum geira er oft að gefa verulega eftir í vinnu sinni þegar horft er til launanna. Löngunin til að skapa er hins vegar sterk. Það sem hins vegar gerist í svona ástandi, þegar verkefni eru undirfjármögnuð, er að ungt fólk getur þetta á meðan það er barnlaust og gráðugt, en svo hægt og rólega missum við hæfileika úr stéttinni því að fólk endist ekki lengi í þessu basli og baráttu, sérstaklega í þessu sjálfstæða umhverfi.“
Friðrik telur að takmarkað fjármagn, lítið svið og minni möguleikar á tæknilegum sjónhverfingum geri það að verkum að listafólkið í Tjarnarbíói þurfi að fókusera rækilega á innihald og erindi verkanna. „Leikhús er ekki bara froða og fólk verður að hafa eitthvað að segja. Sum verkanna hjá okkur í vetur hafa haft skýrt samfélagslegt erindi, hér hefur til dæmis verið fjallað um heim súludansmeyja og ástandið í heilbrigðiskerfinu svo eitthvað sé nefnt. Inn á milli er nauðsynlegt að hafa sýningar sem sprengja einhver kýli.“
Og dagskráin við Tjörnina er þétt. „Hér er oftast líf í húsinu frá morgni til kvölds. Núna er til dæmis verið að æfa tvö verk hér í salnum og svo eru sýningar í gangi þess á milli. Þessi vinnustaður er oft eins og fínasta umferðarmiðstöð, nóg af fólki sem er auðvitað frábært. Svo erum við með æfingarými og vinnustofur þannig að hér er líka skjól til að vinna að verkefnum á frumstigi og þróa þau áfram. Þegar best lætur þá er hér múgur og margmenni og mikið stuð.“
En hver er framtíðarsýnin hjá Tjarnarbíói? „Við viljum halda áfram að gera vel og velja hér inn metnaðarfulla samstarfsaðila sem vilja láta að sér kveða í sviðslistum. Til lengri tíma litið viljum við reyna að skapa húsinu og starfseminni sess í hugum landsmanna. Við viljum að sem flestir viti af okkur. Við viljum komast betur á radarinn hjá forvitnum áhorfendum landsins.“
Meistari Þórbergur á svið
Nýjasta sýningin í Tjarnarbíói, sem frumsýnd var á fimmtudag, er sýning leikhópsins Edda Productions þar sem rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson er umfjöllunarefnið. Leikgerð verksins er unnin af hópnum upp úr viðtalsbókinni, Í kompaníi við allífið og Bréfi til Sólu ásamt fleiri bókum þessa ástsæla höfundar. Í verkinu er skyggnst inn í umskiptingastofuna hjá Þórbergi og Margréti, ungur maður tekur hús á skáldinu, ferðast með honum í gegnum tíma og rúm. Þórbergur fræðir hann um allífið og tilveruna en undir niðri leynist djúpstæður harmur.
Það er Edda Björg Eyjólfsdóttir sem leikstýrir verkinu, en Friðrik Friðriksson, sem hefur tekið sér frí frá önnum framkvæmdastjóra Tjarnarbíós á æfingaferlinu, fer með hlutverk Þórbergs. Með önnur hlutverk fara Birna Rún Eiríksdóttir, María Heba Þorkelsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson.
„Ég held að það þurfi að vera meiri umræða um þetta, þá fer fólk inn á söfn með þetta hugarfar og er meðvitaðra um misskiptingu,“ segir Berglind Gréta Kristjánsdóttir, nýútskrifaður safnafræðingur, um kynjahalla á íslenskum sýningum. Berglind skoðaði kynjahalla á tveimur sýningum hér á landi í lokaverkefni sínu í meistaranámi í safnafræði og skoðaði með hvaða hætti valdakerfi feðraveldisins birtist innan safnanna. Samkvæmt upplýsingum Berglindar hafa rannsóknir leitt í ljós að söfn séu karllægar stofnanir sem draga úr sögu og menningu kvenna og gera sögu karla miðlæga.
„Ég fór á sýningarnar með það í huga að skoða hvernig kynjahalli kemur fram í þeim. Á Byggðasafni Hafnarfjarðar var þessi halli sérstaklega áberandi.“ Hún tekur sem dæmi umfjöllun á Byggðasafni Hafnarfjarðar um St. Jósefs spítalann sem rekinn var af nunnum og er, að sögn Berglindar, eini þáttur sýningarinnar sem fjallar um konur. „Forstöðumaður spítalans var nunna og þær gengu í öll störf. Samt sem áður er undirtitill umfjöllunarinnar á sýningunni „læknarnir voru störfum hlaðnir“. „Þannig verða karlarnir miðlægir í frásögninni í staðinn fyrir nunnurnar,“ segir hún.
„Þetta er sérstaklega áhugavert því það væri auðveldlega hægt að láta þessa frásögn snúast um þær.“ Að mati Berglindar er hægt að gera ýmislegt til þess að bæta úr þessu ástandi. „Ég held að þetta sé alls ekki meðvitað gert, safnstjórinn sest ekkert niður og hugsar: „Jæja, hvernig get ég búið til sýningu þar sem konur eru ósýnilegar. Þetta er eitthvert samfélagsmein og eitthvað í okkur sem gerir það að verkum að þegar settar eru upp sýningar eru karlar í sviðsljósinu og þeirra saga er miðlæg og konur eru til baka.“
Að sögn Berglindar væri hæglega hægt að leiðrétta þennan halla, til dæmis með því að nafngreina konur án þess að tengja þær við karla og gefa gripum tengdum konum meira vægi á sýningum.
Það var boðið upp á íslenska tónlist í Hamborg í Þýskalandi á dögunum, í glænýju tónlistarhúsi sem opnað var nýlega þar í borg. Í þessu tilviki skipti miklu máli að tónlistin væri einmitt íslensk, því hún var sett undir þann þjóðernishatt á tónlistarhátíðinni sem hét Into Iceland. Íslensk tónlist naut þannig góðs af sviðsljósinu sem fylgdi opnun hússins en þar á bæ þótti tengingin liggja beint við því að Þjóðverjar kunna vel að meta Ísland. Landið er vinsæll áfangastaður ungra Þjóðverja og þessari stóru evrópska menningarþjóð líkar margt það sem íslenskt er.
Þetta íslenska?
Í viðtali vegna hátíðarinnar í sjónvarpinu var finnski hljómsveitarstjórinn Esa Pekka Salonen, sem stjórnaði flutningi nokkurra íslenskra tónverka á hátíðinni, spurður út í íslenska tónlist og hvað gerði hana svo spennandi. Salonen, ein af skærustu stjörnum samtímans í sígildri tónlist, tók hins vegar fram að hann merkti engan ákveðinn stíl sem sameinaði tónlist íslenskrar tónskálda. Hann gat, með öðrum orðum, ekki fundið með sínum næmu eyrum neinn ákveðinn íslenskan tón.
Ragnar Kjartansson er „forsíðudrengur“ íslenskrar myndlistar í dag. Sérlega „íslenska þræði“ er ekki endilega auðvelt að greina í verkum hans. Allur heimurinn liggur undir.
Þess í stað nefndi Salonen það sem hann skynjaði sem frelsi íslenskra listamanna, tónlistin væri ekki kredduföst og tilheyrði ekki neinum sérstökum skóla. Hann sagðist skynja að Ísland væri klárlega á milli Evrópu og Bandaríkjanna, ekki bara í landfræðilegu tilliti heldur líka menningarlegu. Og hann sagði bjart framundan í íslenskri tónlist.
Nokkrum dögum síðar var annar heimsfrægur tónlistarmaður, af nokkuð öðru sauðahúsi, í viðtali í sama miðli. Það var breski raftónlistarmaðurinn Fat Boy Slim og eins og lög gera nánast ráð fyrir var hann spurður út í það hve vel hann þekkti til íslenskrar tónlistar. Hann sagðist alla vega þekkja hana betur en lettneska tónlist en treysti sér illa til að bera fram nafn hljómsveitarinnar Sigur Rósar. Listamaðurinn sagðist hrifinn að myndrænni og íhugulli tónlist sveitarinnar þrátt fyrir að hún sé gjörólík hans eigin töktum. Þetta taldi Fat Boy Slim nóg til að álíta sjálfan sig aðdáenda íslenskrar tónlistar.
Upprunalandið
Á vörum sem við kaupum úti í búð kíkjum við stundum á upprunalandið. „Made in China“ er þar algengur merkimiði jafnvel þó að fyrirtækin sem bjóða fram vöruna séu vestræn og hönnun og markaðssetning hennar fari fram í okkar heimshluta.
Listir lúta oft dálítið öðrum lögmálum því að við viljum trúa því að þær séu frjálsari undan markaðsvæðingu síðustu ára en gengur og gerist um aðrar vörur á markaði. Þetta er auðvitað ekki algilt en listir eiga samkvæmt gamalli trú okkar að koma frá hjartanu. Eins og á við ýmsar vörur skiptir upprunalandið því oft nokkru máli í listum. En er til eitthvað sem er fyllilega „íslensk list“ í samtímanum? Og skiptir það yfir höfuð einhverju máli hvaðan listin kemur?
Tungumál er það sem nátengdast er íslensku þjóðerni, fyrir utan kannski landið sjálft. Tónlistarmenn á Íslandi sækja út í heim og syngja á ýmsum tungumálum, íslensku, ensku og jafnvel tilbúna tungumálinu vonlensku, í tilviki Sigur Rósar.
Ekki þurfum við að fara mjög mörg ár aftur í tímann í sögu íslenskra lista til að finna mýmörg dæmi um það að listir hafi átt að styðja við sjálfstæðiskröfu þjóðarinnar og leggja sitt af mörkum til að ýta undir hana. Verk listamanna voru því skoðuð sem vitnisburður um menningarlegt sjálfstæði þjóðarinnar. Stjórnmálamenn nefndu þetta aftur og aftur í ræðu og riti. Dæmi má taka af Gylfa Þ. Gíslasyni sem var menntamálaráðherra á löngu tímabili (1956-1971) og flutti fjölmargar ræður um íslenska listamenn. Aftur og aftur setti Gylfi verk íslenskra listamanna fram sem sönnun þess að hin smæstu ríki, eins og litla Ísland, ættu sjálfsagðan rétt á frelsi og sjálfstæði.
Margbrotinn heimur
Í dag hefur eitthvað slaknað á þessari hugmynd, að listirnar vitni til um menningarlegt eða almennt sjálfstæði þjóðarinnar. Hugmyndin þykir ekki ganga vel upp í alþjóðavæddum samtíma. Samt virðumst við ekki alveg hafa komið okkur upp nýjum orðaforða um þessi mál. Það eimir enn eftir af þessu gamla sjónarmiði þegar Íslendingar ræða íslenskar listir og gerjun í þeim við útlendinga. Útlendingurinn kann að vera forvitinn um gerjun í íslensku listalífi, sem er vissulega mikil og við tökum undir, förum að hljóma eins og „agentar“ frá Íslandsstofu sem vilja selja landið út á sköpunarkraftinn til jafns á við þann kraft sem býr í iðrum jarðar.
Eins glittir enn í þetta í ræðum stjórnmálamanna á hátíðarstundum þegar flagga á íslenskum listum. Í opinberri stefnumótun, til dæmis á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu, hefur líka verið farið fram á það, leynt og ljóst, að listamenn styði við ímynd þjóðarinnar út á við. En það hlutverk getur aldrei orðið eitthvað sem listamaðurinn á að taka á sér, hans skyldur eru við sjálfan sig og áhorfendur/lesendur/hlustendur – og enga aðra.
Landslagið íslenska er oft rækilega nýtt í íslenskum bíómyndum sem vekja athygli víða. Hjartasteinn er dæmi um það. Kannski eru kvikmyndirnar oft „íslenskastar“ í eðli sínu í samanburði við aðrar listgreinar.
Svartími við útlönd
Á síðustu áratugum hafa leiðir okkar Íslendinga út í heim sem betur fer orðið fjölbreyttari en áður var. Þetta hefur áhrif á listir. Til að einfalda málið má horfa til myndlistar. Seint á nítjándu öld og í upphafi þeirrar tuttugustu var línan í veikburða myndlistarlífi landsins að mestu tekin í gegnum Danmörku. Síðar varð París „umskipunarhöfn hugmyndanna“ sem hingað streymdu til lands í listgreininni, á meðan minna var um að andblær bærist frá Bandaríkjunum. Loks tók Holland við næringarhlutverkinu, því að alltaf þarf þessi menningarþjóð sína næringu að utan, það hefur ekkert breyst og mun ekki breytast.
Þjóðerni listamannsins er dálítið eins og fæðingarblettur sem einkennir hann og hans verk. Það er listamanninum síðan í sjálfsvald sett hvað hann flíkar fæðingarblettinum mikið. Eflaust eru þeir til listamennirnir íslensku sem nýta sér þjóðernið með beinum eða óbeinum hætti, en líklega er áhuginn yfirleitt kominn frá þeim sem spyrja þá út í verkin þeirra. Ísland er í sviðsljósinu, en sviðsljósin eru yfirleitt hreyfanleg.
Á síðustu árum hafa síðan gengið yfir Ísland langmestu menningarlegu breytingar í sögu landsins, líklega meiri breytingar en það þegar erlendir herir komu til landsins í seinna stríði með tyggigúmmí og nýja tónlist í farteskinu. Netið hefur stytt svartíma Íslands við útlönd, gert íslenskar listir og hugmyndir aðgengilegar heiminum og öfugt. Hugmyndir ferðast hraðar en nokkru sinni fyrr.
Í listum skiptir menntun máli, það er ekki þannig að listin verði bara til vegna þjáningar listamannsins í þakherbergi, eins og rómantíska hugmyndin sagði fyrir um. Aðbúnaður í Listaháskóla Íslands er skammarlegur fyrir okkur öll og starf skólans mikilvægt í landi sem vill fjölga tækifærum og auka víðsýni ungs fólks. En aðgengi að lánsfé og möguleikar á menntun erlendis fyrir allar okkar starfsstéttir, líka listamenn, eru einnig mikilvæg atriði. Hugmyndirnar verða að koma víða að og fjölbreytileiki þeirra gerir það að verkum að hér á landi þrífst jafn fjölbreytt listalíf og raun ber vitni. Enginn er nefnilega eyland, ekki einu sinni eyjarskeggjar.
Byggingarlist er ein þeirra listgreina þar sem þjóðleg einkenni hafa að miklu leyti horfið í samtímanum. Framtíðarmynd af Hafnartorgi í Reykjavík er ekkert sérlega íslensk.
Að gera
„Við þurfum að gera hlutina á Íslandi,“ segir myndlistarmaðurinn Ragnar Kjartansson í nýlegu viðtali við Bloomberg sjónvarpsstöðina. Ragnar er orðinn einn þeirra listamanna sem stendur fyrir sköpunarkraftinn sem einkennir íslenskar listir. Þetta er ekki flókin hugmynd hjá honum, maður þarf að fá hugmynd og framkvæma hana. Er hægt að ímynda sér eða óska sér frjálsari listsköpun en það?
Þjóðríki eru flokkunartæki og ef það er eitthvað sem fræðimönnum og áhugamönnum um listir finnst skemmtilegt þá er það að flokka. Enn skiptir upprunaland listarinnar því einhverju máli, í alþjóðavæddum heimi þar sem hugmyndir flæða þvert á landamæri. Stundum er hægt að lesa sögu þjóðar, áhrifamátt náttúrunnar eða eitthvað álíka inn í þá hluti sem íslenskir listamenn gera.
Samt er fátt sem gerist algjörlega af sjálfu sér. Hugmyndir listamanna þurfa að nærast í opnum og áhugaverðum samskiptum, heima og heiman. Áhugi umheimsins á menningarlífi Íslendinga kemur heldur ekki til af sjálfu sér. Sá áhugi er tilkominn út af hugmyndaflugi, hæfileikum og dugnaði íslenskra listamanna. Afurðir menningarinnar búa þennan áhuga til og hann verður ekki til í tómarúmi. Það er okkar allra, stjórnvalda og almennings í landinu, að næra þær rætur sem gróðurinn sprettur af.