Fyrsta skáldsaga Evu Magnúsdóttur kom út á dögunum. Lausnin nefnist hún og fjallar um unga konu sem lætur líf sitt í hendur meðferðarstöðvarinnar Lausnarinnar gegn loforði um hamingju. Eva býr ekki á Íslandi, hefur raunar aldrei búið hér og er nú á flakki um Evrópu á leið til Íran og lifir á einni evru á dag.
Það er hægara sagt en gert að ná sambandi við Evu Magnúsdóttur, hún er hvorki með fartölvu né snjallsíma með sér á flakkinu en kemst í netsamband einu sinni á dag og fæst eftir nokkrar fortölur til að svara nokkrum spurningum um sjálfa sig og bókina.
Fyrsta spurningin snýst auðvitað um þig sjálfa: Hver ertu, hvað ertu gömul, hver er bakgrunnur þinn?
„Ég er 26 ára núna, 27 bráðum. Foreldrar mínir kynntust á skemmtiferðaskipi á Miðjarðarhafinu og ári síðar fæddist ég. Pabbi er norskur og mamma íslensk, ég er uppalin hér og þar í Noregi, aðallega í Osló. Foreldrar mínir skildu, ég bjó áfram með mömmu í Noregi og Hollandi en hef verið mikið á Íslandi, alltaf átt vini á Íslandi og heimsótt þá og þeir mig. Fengið jólabókaflóð sent í kössum í desember frá ömmu. Menntaskóli í Osló, háskóli í Suður Frakklandi þar sem pabbi býr, byrjaði í landbúnaðartækni og ætlaði að fara í vínrækt eins og pabbi en entist ekki, var í París síðasta ár í heimspeki, svo bókmenntafræði.“
Hvers vegna ertu Magnúsdóttir ef pabbi þinn er norskur?
„Pabbi heitir Magnus, en Forlagið vildi bæta við kommu fyrir ofan til að enginn áliti það vera innsláttarvillu eða eitthvað.
Þú talar og skrifar mjög góða íslensku, hefurðu aldrei búið á Íslandi?
„Ég hef stundum búið á Íslandi svona þriðjung úr ári en veturinn þar er allt of dimmur fyrir mig. Varðandi tungumálið þá er ég auðvitað uppalin næstum alfarið af mömmu og við tölum aldrei annað en íslensku og lesum lítið annað nema þá helst norsku og dönsku.“
Fær borgað fyrir að ímynda sér
Bókin er dálítil ádeila á allar þessar hjálparstofnanir fyrir fólk með gervivandamál, hefur þú slæma reynslu af þeim?
„Ég er ekki viss með ádeiluna, en það eru að minnsta kosti hlægilegar hliðar á öllu. Ég veit hvað þú átt við með gervivandamál en hversu fábjánaleg sem orsök málanna er geta þau verið vandamál fyrir því. Karli sem líður illa yfir rústi einhverra ídóla sinna í enska boltanum líður kannski jafn illa og öðrum sem nær honum ekki upp, þótt fótbolti sé auðvitað bara í gamni. Það mætti alveg eins snúa því við og segja að manneskja sem hefur fengið greiningu á vandamáli sé í góðum málum. Ég hef verið með kvíðaröskun frá því ég var krakki og það er ákveðinn lúxus að hafa nafn á því, vinir mínir sem hafa slubbast um í veseni frá því þeir voru unglingar og líður oft illa og aldrei sérstaklega vel eiga miklu meira bágt en ég.“
Aðalpersónan, Lísa, vinnur sem blaðamaður á Nýju lífi. Hefurðu unnið sem blaðamaður sjálf?
„Nei, ég þekki það ekki. Vinkona mín hefur unnið á héraðsblaði í Norður Noregi, sem er varla svo ólíkt því sem gerist á Nýju lífi. Svo ímynda ég mér restina, fyrir það fær maður víst borgað sem rithöfundur!“
Finnst þér fólk um fertugt í dag sem hefur það gott í lífinu vera sjálfhverft og í litlum tengslum við raunveruleg vandamál í samfélaginu?
„Ætli fólk sé ekki bara mestanpart svipað, á hvaða aldri sem það er eða hvaða kynslóð það tilheyrir? Ég er ekki enn orðin 27 ára og veit svo sem ekkert en mér sýnist við öll vera í sama pakkanum, reynum að gera vel og mistekst, reynum aftur og gerum örlítið betur og svo deyjum við. Þessi aðalpersóna mín er ekkert byggð á heimildavinnunni úr Öldinni okkar eða 20 ára útskriftarriti menntaskólanna. Hún er eins og ég nema vandræðin á henni eru minni, svo bæti ég við einhverjum barneignablús sem ég hugsa að ég fái í hausinn upp úr þrítugu. Vinkonur mínar munu allar yfirgefa mig fyrir börnin sín, það er hrikalegt.“
Fékk ekki leyfi hjá Sollu
Allar staðsetningar í bókinni eru mjög nákvæmar og engin tilraun gerð til að breyta nöfnum á börum, veitingastöðum o.s.frv., en svo koma inn sambýli í Hafnarfirði og túristadótsverksmiðja, á það sér raunverulegar fyrirmyndir?
„Ég hef komið á sambýli. Ég geri ráð fyrir að Kaldi sé ennþá á sínum stað og Ölstofan, og ég þekki auðvitað lundabúðirnar með túristadraslinu sem hafa tekið yfir miðbæinn í Reykjavík, það hlýtur að vera eitthvað svettsjopp í Hafnarfirði sem framleiðir draslið, er það ekki?“
Þú væntanlega veist að það er til raunveruleg hjálparstöð, fjölskyldumiðstöð, sem heitir Lausnin. Kom aldrei til greina að breyta nafninu á fyrirtækinu í bókinni til að fólk færi ekki að tengja þarna á milli?
„Nei, ég vissi það ekki, því miður. En bókin hefur ekkert með þau að gera. Þessi samtök skilst mér að díli við meðvirkni og gangi þeim vel. Það eru margs kyns lausnir.“
Lísa er ekki mjög sympatísk persóna, manni finnst hún eiginlega eiga skilið allt sem fyrir hana kemur, var það með vilja gert?
„Ég spáði lítið í sympatíu hennar. Það er samt ákveðið svindl finnst mér, að draga upp mynd af persónu sem á í vandræðum með líf sitt og hafa hana allan tímann sympatíska. Fólk sem þjáist er yfirleitt mjög leiðinlegt við aðra og frekt og þurfandi og grimmt. Framan af sögu er Lísa léleg við alla sem hún elskar og veit það, hún vill laga það og grípur allt sem gefst, nýstárleg aðferð Lausnarinnar lofar henni öruggri, varanlegri hamingju og hver myndi neita því?“
Þjóðþekktar persónur koma fyrir í bókinni en mest áberandi af þeim er Solla í Gló, hvað segir hún um það að vera orðin persóna í skáldsögu?
„Ég fékk ekkert leyfi hjá henni svo sem. En ef ég má sitja hjá henni á Grænum Kosti hlýtur hún að mega vera í sögunni minni. Ég þekki hana ekki neitt en ég held hún hljóti að vera fín manneskja, annað en hæstvirtur, sjálfhverfur ráðherra, Sighvatur Björgvinsson.“
Mun neita öllum verðlaunum
Og aftur að sjálfri þér, þú segist „loksins“ vera komin í nám í bókmenntafræði, er það gamall draumur?
„Já algjörlega. Og neyðarúrræði. Ég var í ár í landbúnaðarskóla hjá Toulouse, þar sem pabbi minn er með vínrækt. Ég ætlaði að láta það ganga en nennti því ekki á endanum. Plöntur eru yndislegar og blíðar og mjúkar en sýrustigið á þeim er leiðinlegt. Hvað varðar bókmenntafræðina þarf ég að átta mig betur á fræðahlutanum en skáldskapur hefur verið það eina örugga og góða í lífi mínu, það eina sem ég hef elskað af einhverri staðfestu frá því ég man eftir mér.“
Stíll bókarinnar og bygging bera með sér að þú sért enginn nýgræðingur í skriftum. Hefurðu verið að skrifa lengi?
„Ég hef skrifað dagbækur frá því ég var unglingur, eina á dag. En mér datt aldrei í hug að verða rithöfundur, enda er ég enginn rithöfundur, ég mun að minnsta kosti neita öllum verðlaunum sem bjóðast. Það er ekkert starf að vera rithöfundur, maður skrifar bara eða ekki. Fyrir ári síðan varð ég bara svo leið á sjálfri mér í dagbókunum að ég svissaði yfir í þriðju persónu, svo urðu til einhverjar senur og ég hugsaði af hverju ekki að skrifa eitthvað skemmtilegt og fá fólk til að hlæja og gráta svo mér fyndist ég ekki vera alein í því, ætli það sé ekki skásta útgáfan.“
Lifir á einni evru á dag
Hvað ertu að gera núna og hvað er framundan?
„Ég er á leiðinni út úr Frakklandi með vinkonu minni, hratt og örugglega. Ég er nýhætt í sambandi með leiðinlegum Frakka í svokallaðri höfuðborg þeirra, bókmenntanámið var nýbyrjað en ég gat breytt því í fjarnám og farið burt. Stefnan er í gegnum Þýskaland, yfir Alpana og til Íran. Við förum á puttanum og fylgjum reglunni um eina evru í eyðslu á dag og bara konur mega bjóða okkur í glas, þá þarf maður að vera skemmtilegur í alvöru, ekki bara brosa og kinka kolli eins og vanviti.“
Hvernig er hægt að lifa á einni evru á dag?
„Ein evra á dag er auðvelt enn sem komið er. Við notum sófakrass til að gista, vinkona mín er i Bahaí-trúflokknum sem hýsa okkur líka ef með þarf. Ruslagámar eru fullir af mat. Með hjálp netsins má líka finna hostel þar sem túristar skilja eftir afgangsmat í ísskápum sem aðrir gestir mega svo elda, maður segir næturvörðum bara að maður sé á leið inn til sín og fer svo og eldar sér. Vatn er alls staðar og svo eru það auðvitað kastaníuhneturnar. Það er kastaníuhnetutími í Suður Evrópu núna, þær detta af trjánum, liggja út um allt, eru hollar og kosta ekki neitt.“
Ertu komin af stað með nýja skáldsögu
„Ég er að skrifa ferðasögu. Dagbækur eru ferðasögur.“
The post Ég er 26 ára – ég veit ekkert! appeared first on Fréttatíminn.